Nýfrjálshyggjan áfram við stýrið

Í tilefni þess að þetta er dagurinn sem Már Guðmundsson tekur formlega við embætti seðlabankastjóra ætla ég að leyfa mér að birta svokallaða glósu síðunnar: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra. Glósan er sú þriðja og síðasta í framhaldsskrifum umsjónarhóps síðunnar þar sem hver glósa er tileinkuð einum þeirra þriggja sem hæfisnefnd fjármála- og efnahagsráðherra mat hæfastan.

Glósuþættirnir standa undir þessum heitum:Talsmaður fjármagnsins, Talsmaður einkavæðingarinnar og Talsmaður fjármálaaflanna. Sú síðasttalda fjallar um fjármálafortíð Más Guðmundssonar og var birt á stuðningssíðu Lilju þ. 11. ágúst sl.

Talsmaður fjármálaaflanna

Þetta er þriðja og síðasta glósan sem byggir á glósunni: Þess vegna viljum við Lilju (http://on.fb.me/1kSuiTb) en hún inniheldur ágrip af forsögu þremenninganna sem hæfisnefnd fjármála- og efnahagsráðherra mat hæfasta til að gegna seðlabankastjórastöðunni. Skipunin fer fram 20. ágúst n.k. en það verður væntanlega tilkynnt í vikunni hver hefur orðið fyrir valinu.

Ef marka má umfjöllun fjölmiðla og annarra sem hafa gert sig gildandi í umræðunni um stjórnsýslulegar athafnir þá er ekki gert ráð fyrir því að Bjarni Benediktsson fari út fyrir þann hóp sem að mati hæfisnefndarinnar þykja „mjög vel hæfir“ til að reka efnahagsstefnu landsins úr Seðlabankanum. Þeir eru reyndar alls ekki margir sem hafa tjáð sig ýtarlega um þessi efni; hvorki um umsækjendurna né út frá hvaða forsendum svo mikil þögn hefur ríkt um umsóknarferlið eins og raunin hefur orðið.

Hér hefur verið reynt að bæta nokkuð úr því sem upp á vantar í varðandi umfjöllun um þær efnahagsáherslur sem þeir: Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason hafa staðið fyrir hingað til. Áður hefur verið fjallað um þá Friðrik Má, í glósu sem fékk heitið: Talsmaður fjármagnsins (http://on.fb.me/1pK79kB), og Ragnar en glósan þar sem fjallað er um forsögu hans nefnist: Talsmaður einkavæðingarinnar (http://on.fb.me/1ylnuOt). Loks er það Már Guðmundsson.

Már Guðmundsson

Tögl og haldir

Már Guðmundsson á sér langa forsögu þegar kemur að opinberum afskiptum af stjórn efnahagsmála hér á landi (http://bit.ly/1mBgiIg). Hann hóf feril sinn sem hagfræðingur hjá Seðlabankanum árið 1980 eða fyrir tæpum 35 árum. Þá var hann efnahagsráðgjafi ríkisstjórna sem Steingrímur Hermannsson fór fyrir á árunum 1988 til 1991. Í framhaldinu var hann forstöðumaður hagfræðisviðs Seðlabankans í þrjú ár og í beinu framhaldi aðalhagfræðingur bankans næstu tíu árin.

Á sama tíma og hann starfaði sem aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands gegndi hann ráðgjafastarfi á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ríkjum Suður-Ameríku. Þetta var á árunum 1998-1999. Árið 2004 tók Már við starfi aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel (BIS) þar sem hann vann þegar hann var skipaður seðlabankastjóri hér fyrir fimm árum (http://bit.ly/1mBsJnu). Hann gegndi þó áfram ábyrgðarstörfum fyrir BIS fram til ársloka 2011 (http://bit.ly/1vwdENA).

Miðað við þennan feril kemur það e.t.v. ekki á óvart að Már Guðmundsson er höfundur þeirrar peningagengisstefnu sem hefur verið rekin hér á landi frá því í mars 2001 eða frá þeim tíma sem Geir H. Haarde sat í fyrsta sinn í stól fjármálaráðherra Sú stefna sem þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tók upp undir forsæti Davíðs Oddssonar hefur gjarnan verið nefnd flotgengisstefna enda gengur hún út á svokallað fljótandi gengi en flotbúnaðurinn eru stýrivextir.

Höfundur núverandi peningastefnu

Á þeim tíma sem Már setti fram hugmyndir sínar um „sveigjanlegra gengi“ var hann aðalhagfræðingur Seðlabankans en jafnframt ráðgjafi í málefnum Suður-Ameríku hjá AGS. Hugmyndir sínar kynnti Már á ráðstefnu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um „efnahagsstefnu smárra opinna hagkerfa á tímum alþjóðavæðingar“. Þetta var sumarið 1999.

Í kynningu hans kom fram að hugmyndir hans gengju út á það að gera gengið mun sveigjanlegra og þar af leiðandi áttu að vera „minni líkur á þessum skyndilegu breytingum sem annað hvort frjálsar fjármagnshreyfingar eða veikleikar í okkar fjármálakerfi gætu kallað fram.“ (http://bit.ly/1vj3dNp).

Allar heimildir benda til að ákvörðunin um það að taka upp þá stefnu í peningamálum, sem Már Guðmundsson kynnti á framangreindri ráðstefnu, hafi borið frekar brátt að. Það er svo að skilja að ástæðan hafi einkum verið sú að gera fjárfestum það mögulegt að taka þátt í því sem hefur verið kallað: „frjálsir fjármagnsflutningar“ (http://bit.ly/1rgziio) án þess að landið gengi inn í sameiginlegt myntsamstarf sem var að verða til í Evrópu á þessum tíma (http://bit.ly/XVeQLE).

Það er vissluega gagnlegt að rifja upp markmiðin sem sett voru fram í sameiginlegri yfirlýsingu Seðlabankans og þáverandi ríkisstjórnar um þetta nýja fyrirkomulega við stjórn peningamála í landinu:

Með því að gera verðstöðugleika formlega að meginmarkmiði stjórnar peningamála er formfestur sá skilningur að meginverkefni Seðlabankans sé að stuðla að stöðugu verðlagi. Verðbólga er til langs tíma peningalegt fyrirbæri og því er rökrétt að endanlegt markmið peningastefnunnar sé stöðugt verðlag.

Með því að taka upp formlegt verðbólgumarkmið sem kjölfestu peningastefnunnar er stefnt að því að formfesta verðstöðugleika sem meginmarkmið peningastefnunnar. Markmið breytinganna er einnig að tryggja opnari og skilvirkari stjórn peningamála sem stuðla á að efnahagslegum langtímastöðugleika og aukinni hagsæld til frambúðar. (http://bit.ly/1ugDV0K)

Sjö árum síðar gekk í garð dýpsta efnahagskreppa „sem þjóðin hefur upplifað frá lokum seinna stríðs“ (http://bit.ly/1q4v5fW) í kjölfar bankahrunsins hér á landi. Fæstum blandast hugur um ábyrgð „verðstöðugleikahumyndar“ Más Guðmundssonar á því hvernig fór. Samt var hann valinn hæfastur af síðustu ríkisstjórn til að taka við stjórn Seðlabankans sem hann hefur byggt síðan á fallinni hugmyndafræði um stöðugleika, sem staðreyndir hafa sýnt fram á að ekki er hægt að skapa með þeim aðferðum, sem hann lagði til efnahagsstjórnunar landsins (http://bit.ly/1uERTXA) þegar hann var bæði aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands og ráðgjafi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í máefnum Trinidad og Tobago á sama tíma.

Sérhagsmunirnir

Þar sem Már Guðmundsson hefur farið með æðstu stjórn efnahagsmála í landinu undangengin fimm ár er hæpið að það þurfi að draga það fram í mörgum orðum hvar hjarta hans slær. Það er a.m.k. hæpið að vefengja það að áherslur hans hafa miðað að því að þjóna hagsmunum erlendra kröfuhafa og öðrum sérhagsmunum gróðahyggju og fjármálaumsvifa. Þau síðastliðnu fimm ár sem hann hefur farið með seðlabankastjórastöðuna hefur hins vegar farið lítið fyrir því að hann hafi sýnt skilning á kjörum hins stóra hóps húsnæðiskaupenda sem hefur þurft að bera forsendubrestinn, sem varð að völdum bankahrunsins, af fullum þunga án áberandi hluttekningar af hans hálfu.

Af sömu ástæðu ætti það líka að vera óþarft að rekja dæmin nákvæmlega sem eru til marks um það, að Már Guðmundsson aðhyllist þá nýfrjálshyggjulegu hugmyndafræði, að það sé boðlegt að ganga á velferðarkerfið og lífskjör almennings í þeim tilgangi að þjóna sérhagsmunum fjármálaaflanna. Hér verða þó tilgreind tvö.

Björgunaráætlun Más Guðmundssonar

Í þriðja og síðasta þætti Icesave sýndi Már Guðmundsson að honum finnst eðlilegt að bankar komi skuldum sínum yfir á skattgreiðendur.

„Verði niðurstaðan já munu haftaafnám og lántökur ríkissjóðs ganga fram eins og áformað er. Ef Icesave-samningunum verður hafnað eru hins vegar vísbendingar um að stóru bandarísku matsfyrirtækin tvö ákveði að setja lánshæfismat ríkissjóðs niður í spákaupmennskuflokk. Þá verður þyngra fyrir fæti varðandi erlenda lántöku ríkissjóðs og framgangur áætlunar um afnám gjaldeyrishafta myndi af þeim sökum ganga hægar. (http://bit.ly/1pfo0g2)

Árið 2012 fór Már síðan í mál við Seðlabanka vegna eigin launamála (http://bit.ly/1kNbt3I). Tveimur árum síðar varð það uppvíst að hann lét bankann greiða málskostnaðinn. Kostnaðurinn nam alls 7,4 milljónum króna. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið frá því fyrr á þessu ári, þ.e. 11. mars, kemur fram að:

Már tapaði málinu í héraðsdómi. Hann sagði í samtali við RÚV um helgina að hann hefði aldrei áfrýjað málinu til Hæstaréttar nema ef ekki hefði legið fyrir að bankinn myndi greiða kostnaðinn við málareksturinn. Már tapaði málinu sömuleiðis í Hæstarétti. (http://bit.ly/1pZXu6S)

Svar við gjaldþroti nýfrjálshyggjunnar

Í ljósi þess sem hefur verið dregið fram hér og í undanförunum tveimur, þar sem fjallað var um forsögu Friðriks Más Baldurssonar og Ragnars Árnasonar, má vera ljóst að allir þrír aðhyllast sömu hugmyndafræði hvað stjórn efnahagsmála varðar. Þó einhver örlítill blæbrigðamunur kunni að vera á framsetningu þeirra og eða áhersluatriðum þá ætti að vera ljóst eftir þessa yfirferð að allir þrír setja hagsmuni fjármagns og eigenda þess ofar almannahagsmunum.

Eini umsækjandinn um seðlabankastjórastöðuna sem hefur sett fram heilstæðar lausnir á þeim efnahagsvanda, sem íslenskt samfélag á við að etja, er Lilja Mósesdóttir. Ábendingar hennar og varnaðarorð í sambandi við kreppudýpkandi efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skuldaíþyngjandi afleiðingum Icesave, ógnvænlegan vöxt snjóhengjunnar og eðli og markmið hrægammasjóða hafa orðið að viðurkenndum staðreyndum. Þess vegna sætir það vissulega furðu að hún sé ekki meðal þeirra sem var a.m.k. metin jafnhæf framantöldum þremenningum.

Það er mat þeirra sem setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum vogunarsjóða og annarra kröfuhafa að það þjóni þeim, landinu og framtíðarkynslóðum best að skipa Lilju Mósesdóttur í stól seðlabankastjóra þar sem hún hefur ekki aðeins lagt fram „skapandi lausnir“ á snjóhengjuvandanum“ heldur kann hún að tjá sig þannig um efnahagsmál að það má bæði skilja það sem hún segir og treysta því að hún dregur ekkert undan.

Þá skal það undirstrikað að niðurstaðan er sú að það skiptir engu máli hvort nýfrjálshyggjusinnuð hugmyndafræðin, sem þeir Friðrik Már Baldursson, Már Guðmundsson og Ragnar Árnason standa fyrir, rekur upphaf sitt til hægri eða vinstri. Þegar mið er tekið af reynslunni af áherslum þeirra í efnahagsmálum er hins vegar farsælast og eðlilegast að hafna slíkum áherslum alfarið og snúa sér að lausnum þeirra vandamála sem þær hafa skapað.

Skiptigengisleiðin eða flotgengisstefnan

Í þeim efnum er það samfélagslega farsælast að fara þá leið sem Lilja Mósesdóttir hefur talað fyrir frá því fyrri hluta ársins 2011 sem gengur út á það að heildarhagsmunir eru settir í forgang með því að erlendum kröfuhöfum verður boðið að ganga að samningum um að fá kröfur sínar greiddar út að frádregnum þeim okurvöxtum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tryggði þeim með samþykki íslenskra stjórnvalda. Afgangurinn fer í uppbyggingu þeirra samfélagsþátta sem hafa staðið sveltir fyrir þær áherslur að láta fjármagn ganga fyrir fólki.
___________

Þess má að lokum geta að aðstandendur síðunnar: Lilju Mósesdóttur sem næsta seðlabankastjóra hafa tekið ákvörðun um að halda henni áfram undir óbreyttu nafni. Tilefnið er innihaldið í yfirlýsingu Más Guðmundssonar (sjá hér).  Jafnframt er fleirum boðið að læka síðuna og taka undir: „Við sem lækum viljum skora á stjórnvöld að fá Lilju til forystu við efnahagsstjórn landsins.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ESB ætlar að hækka ábyrgð ríkisins á innistæðueignum í bönkum svo öruggt sé að skattborgarnir þurfi að borga ef bankarnir (einkaaðilar) verða gjaldþrota.

ræður þá "nýfrjálshyggjan" öllu í ESB eða er þetta samtrygging

Frjálshyggja = Það er ekkert ókeypis - bara spurning um hverjir borga.

Grímur (IP-tala skráð) 20.8.2014 kl. 19:11

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það þarf nauðsynlega að rannsaka lögmæti snjóhengjunnar.

Lausnin á "vandamálinu" er sú að það er alls ekkert vandamál.

Bara verkefni, og það kallast riftun.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.8.2014 kl. 19:40

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er mjög góð spurning! sem er vert að velta fyrir sér.

Ég er reyndar á því að um samtryggingu sé að ræða en ég ætla ekki að svara fyrir aðra. Mér finnst hins vegar eðlilegt að allir velti þessu vandlega fyrir sér og taki það inn í dæmið hverjir það eru sem hafa orðið mest áberandi í stuðningnum við Evrópusambandsaðild. Það er líka forvitnilegt að skoða bæði rök og aðferðir þeirra sem halda því fram að aðild sé lausnin.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.8.2014 kl. 14:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband