Tunnurnar snúa aftur

Allir þeir sem tóku þátt í fyrstu tunnumótmælunum er það væntanlega ógleymanleg lífsreynsla. Sumir töluðu jafnvel um að í dunandi tunnutaktinum hefðu þeir upplifað hjarslátt þjóðarinnar. Aðrir töluðu um ærandi hávaða og reyndu jafnvel að tala mótmælin niður með því að tengja þau við stjórnarandstöðu- eða utanþingsflokka.

Í ljósi alls þess mannfjölda, sem mætti niður á Austurvöll að kvöldi þess 4. október 2010, ætti hins vegar að vera ljóst að tunnumótmælin áttu að öllum líkindum fulltrúa úr öllum áttum. Það kemur líka vel fram í þessari upptöku Kastljóss, þar sem fólk er tekið tali á meðan mótmælunum stóð, að það var eitthvað annað en flokkapólitík sem rak þátttakendur niður á Austurvöll þetta kvöld:

Opinberlega hefur aldrei verið gefin út nein sannfærandi tala yfir það hversu margir tóku þátt í fyrstu boðuðu tunnumótmælunum. Það hefur heldur ekki verið viðurkennt opinberlega að mótmælin hafi haft einhver áhrif. Það er hins vegar staðreynd að stjórnvöld neituðu að taka við því að mótmælin 4. október snerumst um vanhæfni eða „brotin trúnað“.

Á því rúma ári sem var liðið frá því að ríkisstjórnin, sem lofaði uppgjöri við hrunið og að reisa skjaldborg um heimilin, hafði komið í ljós að það stóð ekki til að standa við neitt þessara loforða. Á sumarþinginu 2009 var aðildarumsóknin um ESB og fyrsti Icesave-samningurinn þvinguð í gegnum þingið. Hvers konar tilburðum kjósenda til að koma á framfæri efasemdum var svarað af yfirlæti og hroka. Þar skipti engu hver eða hvaða rök stóð efasemdunum að baki. 

En það er langt frá því að það sé bara við núverandi ríkisstjórn að sakast. Það kom berlega í ljós þegar kom að loforðum sem höfðu verið sett í samhengi við útkomu Rannsóknar-skýrslunnar og atkvæðagreiðsluna sem kennd hefur verið við Landsdóm. Þegar 4. október 2010 rann upp var mjög mörgum orðið það ljóst að fjórflokkurinn stendur í raun saman að því að verja fjármálastéttina og þá stjórnmálastétt sem þrífst á fjórflokkakerfinu.

4. október 2010

Viðbrögð stjórnvalda við fjölmennustu mótmælum Íslandssögunnar voru ekki í neinum takti við það að það væru hagsmunir almennings sem brynni gömlu stjórnmálastéttinni heitast fyrir brjósti. Þann 8. október birtist: „Skýrsla forsætisráðherra um skuldavanda heimila og fyrirtækja og aðgerðir ríkisstjórnar“ á heimasíðu Forsætisráðuneytisins. Af henni var ljóst að viðbrögðin við tilefni mótmælanna yrðu þau að stjórnmálamennirnir kölluðu fulltrúa lánastofnana og lífeyrissjóða til samninga um „greiðslu- og skuldavanda heimilanna“.

Útkoman út úr þessu samráði varð strax umdeild fyrir margra hluta sakir en það er þó staðreynd að út úr tunnumótmælunum 4. október 2010 komu þó „sértæk vaxtaniður-greiðsla“ sem hefur hlíft stórum hluta landsmanna við gjaldþroti tvö síðustu ár. Samkvæmt „samkomulaginu“ sem ríkisstjórnin náði við fulltrúa lánastofnana og lífeyrissjóði segir:

Nýtt tímabundið úrræði verður mótað til að greiða niður vaxtakostnað vegna íbúðahúsnæðis. Niðurgreiðslan er almenn, óháð tekjum, en fellur niður þegar hrein eign skuldara er umfram tiltekin há mörk. Reikna má með að greiðslubyrði heimila muni lækka vegna þessa um allt að 200-300 þúsund kr. á ári. Kostnaðurinn við þetta nýja úrræði verður allt að 6 milljarðar króna á ári og verður hún í gildi árin 2011 og 2012. Ríkisstjórnin mun í samstarfi við aðila samkomulagsins leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni þessi útgjöld. (sjá hér)

Kannski hefur þessi bráðabirgðaplástur ekki aðeins bjargað mörgum heimilum frá gjaldþroti heldur líka stillt óánægjuraddirnar sem vita það í hjarta sínu að við sitjum uppi með „vanhæft Alþingi, ormétið stjórnkerfi og sérhagsmunamiðað velferðarkerfi“. Að þessu sinni verður ekki farið nánar út í þá taktík sem hefur verið notuð til að verja framantalið við gagngerri og löngu tímabærri uppstokkun. Hins vegar skal þessu lokið hér með því að benda á að Tunnurnar hafa snúið aftur.

N.k. miðvikudagskvöld heldur Jóhanna Sigurðardóttir væntanlega sína síðustu stefnuræðu sem forsætisráðherra. Af því tilefni hefur verið settur upp viðburður á Facebook. Þar segir m.a:

Miðað við línurnar sem [Jóhanna Sigurðardóttir) lagði í nýlegum greinum sínum „Línurnar skýrast“ og „Meirihluti telur Ísland á réttri leið“ verður forsætisráðherra kominn í teinóttu kosningabuxurnar og heldur á lofti ótrúlegri afrekaskrá en kennir keppinautunum um að hún sé ekki glæsilegri en raun ber vitni.

Burtséð frá þeirri sundurlyndispólitík sem fram fer innan veggja þinghússins þetta kvöld verðum við að sjá til þess að hvorki forsætisráðherra né aðrir lukkuriddarar þingheima komist upp með það að hæla sér af störfum sínum í þágu okkar almennings með því að vísa til þagnarinnar úti á Austurvelli.

 

Stefnuræðan hefst kl. 19:50 miðvikudagskvöldið 12. september en Tunnurnar mæta fyrir framan alþingishúsið kl. 19:30 og hefja upp raust sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyr Heyr!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.9.2012 kl. 19:43

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr!!!

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.9.2012 kl. 01:16

3 identicon

Hvað höfðingjarnir hafast að.

Hér þarf ekki að brjóta blað,

bara stela óhindrað,

"Hvað höfðingjarnir hafast að,

hinir meina sér leyfist það."

Mammon leikur margann grátt,

maurapúkar ósjálfrátt,

Höfðingjarnir hlæja hátt,

hinir svelta og mæla fátt.

Elska margir aurarag,

eftir þá er sviðið flag.

Höfðingjarnir halda í slag,

hinum gefa í rassinn drag.

Margir hérna fóru flatt,

flestir urðu í tafli patt,

Höfðingjarnir hirða glatt,

hinir greiða allt í skatt.

Heyrði ég áðan furðu frétt,

sem flesta sker í eyrun nett.

Höfðingjar elska Hæstarétt,

af hinum er óðar roðið flett.

Völdin sumir dýrka og dá,

draga aur í punginn smá.

Höfðingjarnir fletta og flá,

hinir litla framtíð sjá.

Hér skulu bæði menn og mýs,

maula það sem úti frýs.

Höfðingjum er hógsemd vís,

hinum býðst að naga flís.

Ýmsum varð hér ekki um sel

almúginn hefur það skítt ég tel.

Höfðingjar drekka hanastél,

hinir lepja dauða úr skel.

Lífið hér er rakin raun,

rífast menn um hverja baun.

Höfðingjar eru með hæstu laun,

hinir mega blása í kaun.

Lífið margann leikur grátt,

lifa þó í friði og sátt.

Höfðingjarnir hafa mátt,

hinir þræla fram á nátt.

Lýðir fara margs á mis,

mun þar njóta sannmælis.

Höfðinginn fer til Helvítis,

hinn fer beint til Guðsríkis

Kristján Runólfsson

Helga Björk Magnúsd. Grétudóttir (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband