Líður að kosningum...

Það fer auðvitað ekki fram hjá neinum hve stutt er í kosningar. Samt er greinilegt að það eru alls ekki allir búnir að gera upp við sig hvað þeir ætla að kjósa. Sumir tala jafnvel um að skila auðu! Ég vona að þeir sem hyggjast skila auðum kjörseðli átti sig á því að þannig gera þeir í raun ekkert annað en leggja blessun sína yfir núverandi ástand! Það er algerlega bráðnauðsynlegt að allir kjósendur taki ábyrgð, taki afstöðu og kjósi!

Skoðanaviti
Nú er komið frábært hjálpartæki inn á mbl.is sem ætti að nýtast öllum sem eiga í erfiðleikum með að taka afstöðu. Það eru tuttugu spurningar þar sem maður á að taka afstöðu til hinna ýmsu málefna með að merkja við möguleika eins og „alveg sammála“ eða „alveg ósammála“. Að prófinu loknu færðu svo niðurstöðu um það hvernig skoðanir þínar samrýmast flokkunum sem eru í framboði. Krækjan í þetta próf er hér.

Þeir sem fylgjast með þessu bloggi eru kannski búnir að sjá viðtal við Herbert Sveinbjörnsson sem birtist inni á norðlenska vefmiðlinum akureyri.net í gær og ég vísaði í, í færslunni hér að neðan. Nú er hægt að nálgast þessa upptöku inni á You Tube. Ég get ekki staðist mátið og birt viðtalið við hann hér. Það skal tekið fram að viðtalið er tekið upp sl. sunnudag.

Mundu svo að taka afstöðu fyrir n.k. laugardag! Ég get ekki sagt þér hvað þú átt að kjósa en ég mæli með því að þú gefir Druslunni á Bak við Stýrið frí í þessum kosningum!


mbl.is Háir styrkir frá Baugi og FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Það var reyndar góð hugmynd aftan á Fréttablaðinu í dag hvernig ætti að nota auð atkvæði

Hólmdís Hjartardóttir, 22.4.2009 kl. 01:58

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Flott viðtal við hann Herbert

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.4.2009 kl. 01:58

3 identicon

Heil og sæl; Rakel - líka, sem þið hin, hver síðu hennar geyma, og brúka !

Rakel !

Það er; óásættanlegt, það viðhorf sumra liðsmanna Borgarahreyfingarinnar, að ljá máls, á ''viðræðum'', hvað þá meiru, gagnvart nýlendu velda bandalagi Fjórða ríkisins (arftaka þess Þriðja, Adolfs Hitler - ESB), suður á Brussel völlum. 

Fyrir utan það; að þá er ESB; eitt hinna þjálli verkfæra, bandarísku heimsvalda sinnanna, Rakel mín.

Punktur !

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 02:17

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar Helgi: Ég er á móti ESB-aðild eins og þú. Ég er hins vegar fylgjandi lýðræðinu. Þess vegna get ég tekið undir það að það sé rétt að leggja samning um ESB undir atkvæðagreiðslu.

Meginástæðan fyrir því að ég ákvað að leggja Borgarahreyfingunni lið er sú að ég vil að megináherslan verði lögð í það að koma á móts við heimilin í landinu en ekki fjármálastofnanirnar sem settu okkur á hausinn. Ég vil að það fari af stað rannsókn á bankahruninu STRAX, ég vil stjórnlagaþing og síðast en ekki síst að það verði tryggt að náttúruauðlindirnar verði þjóðarinnar og ekki framseljanlegar!

En ég fer ekki í neinar grafgötur með það að mér hugnast ESB-báknið og aðild að því engan veginn!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2009 kl. 02:24

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jóna Kolbrún: Herbert hefur frábærar hugmyndir sem honum hefur ekki alltaf tekist að koma á framfæri í fjölmiðlum en hann er svo sannarlega að vaxa. Þetta er heilmikil sjóun ábyggilega fyrir hann og finnst mér hann hafa vaxið með hverju viðtalinu sem ég heyri og/eða sé við hann. Hlakka til að fylgjast með honum inni á þingi en þangað ætlum við að koma honum ekki satt

Hómdís: Það hefur því miður gefist lítill tími til að fylgjast almennilega með á undanförnum dögum þannig að ég missti af þessu um auðu atkvæðin aftan á Fréttablaðinu í dag Ef ég rekst á það verð ég að muna að kíkja aftan á það og vona að það sé eitthver vit í hugmyndinni

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2009 kl. 02:31

6 identicon

Heil og sæl; á ný, gott fólk !

Rakel ! Ég hugði þig; betur lesna, en svo, að þér þætti sjálfsagt, að ganga til svokallaðra viðræðna - við einhverja mestu drullusokka, þessa heims, fyrr og síðar !

Fyrirgefðu; spjallvinkona góð. Lýðræðislegt; HVAÐ ? 

Betra er; að falla dauður - með sæmd, fremur en, að knékrjúpa, fyrir þýzka hrægamminum, og þrælaríkjum hans, gott fólk !!!

Hvers virði er; jarðlífið - þá lifendur ganga hoknir, undir svipu höggum kúgaranna ?

Með; hinum beztu kveðjum, sem fyrr /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 02:34

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar Helgi: Ég er ágætlega lesin og eins og ég sagði þá hugnast mér hvorki ESB-báknið eða nein samvinna við það. Hins vegar þá set ég mig ekki upp á móti því að það verði kannað hvað fæst út úr samingaviðræðum við þá ef það er það sem meiri hlutinn vill.

Að mínu mati er það tímasóun af því að ég trúi því ekki að það sé neitt sem komi út úr því sem okkur vel nema síður sé. Ég treysti ekki þessu bákni né forsvarsmönnum þess. Ég sé ekki að við eigum neitt einasta erindi með markmiðum þess. Það sem gengur yfir Íra núna tel ég vera gott dæmi um það hvað yrði um okkur inni í samfélagi við ESB.

Í raun hef ég alltaf sagt að það að ganga inn í ESB leiði okkur bara inn í næstu hringekkju sem er í aðalatriðum sú sama og gubbaði efnahag landsins niður til helv... síðastliðið haust.

Vona að þú skiljir mig betur núna og áttir þig á því að við erum nánast á sömu skoðun í þessu sambandi þó við orðum hana ekki eins

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2009 kl. 02:45

8 identicon

Heil; á ný, gott fólk !

Rakel ! Nei; skil þig - engan veginn. Þú virðist; sem mörg samlanda okkar, einblína á þetta óþverra bandalag, sem einhverja; hugsanlega LAUSN.

Hví; skoðar þú ekki :

Norðurhjara bandalag okkar (án miðstýringar) Kanada - Grænland - Við - Færeyjar - Noregur og Rússland, á almennilegum grunni ?

Grænland - Ísland - Færeyjar og Noregur ?

NAFTA / Kanada og Mexíkó (án Bandaríkjanna) ?

Bandalag Mið- og Suður- Ameríku ríkja ?

ASEAN - Suðaustur- Asíu ríkja samvinnu ?   

Auk; fjölda annarra möguleika. Nei; frekar skal - elta rassgatið, á helvítis krötunum, og þeirra fylgjurum - úr ýmsum flokkum !

Lélegt; virkilega lélegt - ber ekki vitni, mikils metnaðar, eða,.......... hvernig, fórum við að, allar aldir, fram undir Gamla sáttmála (1262/1264) ? 

Með beztu kveðjum; sem oftar og fyrri /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 03:01

9 identicon

Vil; ítreka, þakkir mínar, fyrir skynsamlegt viðtalið, við Herbert - hér að ofan, þrátt fyrir ágreining okkar, að öðru leyti, Rakel mín.

ÓHH

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 03:11

10 identicon

Ég verð að leyfa mér að vera ósammála þér um það að skila auðu. Það að skila auðum kjörseðli er ein lýræðilegasta leið til mótmæla sem til er. Á móti er þetta auðvitað ekki áhrifaríkasta leiðin en sá sem skilar auðu er að fórna atkvæði sínu til að koma skoðunum sínum á framfæri og því vegur það mjög þungt sem táknræn aðgerð.

Axel (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 04:21

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ágreiningur okkar er ekki verulegur Óksar minn Ég er að reyna að segja þér að ég lít alls ekki á ESB sem hugsanlega lausn. Ég get hins vegar alveg umborið það þó að einhverjir aðrir vilji láta sig dreyma um slíkt. Ég trúi nefnilega ekki öðru en fólk opni augu sín og átti sig á því að það er alls ekki rétt þegar samningurinn liggur fyrir.

Ég vil einmitt tryggja þjóðaratkvæðagreiðslu um stór mál svo það sé tryggt að þjóðin geti greitt atkvæði um slíkan samning þegar og ef af verður. Ég er voðalega hrædd um það Óskar minn að þessar aðildarviðræður verði hvort sem okkur líkar það betur eða verr

Ég vona að okkur beri gæfa til að vera búin að stjórnarskrárbinda þjóðaratkvæðagreiðslu um svo stór mál þegar af því verður. Þá förum við bæði á kjörstað og krossum við NEIÐ

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2009 kl. 04:21

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar Hlegi: Vildi bæta því við síðustu efnisgreinina í svari mínu hér á undan að þannig munum við standa vörð um sjálfstæði okkar og þjóðarinnar!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2009 kl. 04:26

13 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Heil og sæl öll sömul, og þá aðallega minn uppáhaldsspjallvinur Óskar Helgi.

Hef hingað til talið að við berum öll sama metnað fyrir hönd okkar Ísalands í norðrinu mikla.  Þrátt fyrir góðan hug,gæsku og visku vora, gátum við ekki höndlað græðgi örfárra víkingasprota, hverjir keyrðu okkur í kaf, um langa, stranga ókomna framtíð.  Sprotar af sama meiði, muldu enda undir sig, óveiddan fisk í tvær ófæddar kynslóðir að minnsta kosti.

Og hvað er þá til ráða Óskar minn. 

Upp í hugann kemur ljóslifandi lýsing Guðna sveitunga þíns um afa sinn, þegar hann lýsir örbirgðinni á Eyrarbakka, og hvernig fólkið tuggði í sig lífið á þurrkuðum þorskhausum, sem aðallinn henti við dyrastafinn þeirra.

Hugmyndin að baki NAFTA er að gera Bandaríki Norður Ameríku stærri og voldugri en nokkru sinni fyrr.  Það eru bullandi auðlindirnar í norðri (Kanada) og líklega undirgefið vinnuafl í suðri ( Mexíco) sem glórulausir auðvaldssinnar í miðju (Bandaríkin) ásælast.   Þó við Íslendingar séum stór, fjölmenn  og öflug þá er ekki borðleggjandi að við gætum hrint þeim hinum síðastnefndu út af borðinu.

Punkturinn Óskar minn, er einfaldlega sá; það er sama rassgatið undir öllu þessu liði, hvort sem það er skáeygt, svarthært, ljóshært eða brúneygt.

Ég vona heitt og innilega Óskar minn að þú sveipir mér ekki út í hafsauga, og nennir ekki að spjalla lengur, þó ég hafi aðra sýn á framtíðina en þú.

Eða hversu leiðinlegur væri veröldin vísa, ef allir væru eins.

Tek undir orðræðu Rakelar um lýðræðið, það er eiginlega plankinn sem við öll verðum að standa á.  Þess vegna eigum við að;

Skilgreina samningsmarkmið, fara í viðræður, ná samningum, fella eða samþykkja samninginn. 

Plan B er auðvitað að hreyfanlegir (ungir og sæmilega ernir) Íslendingar, flýji foldina  fögru, og alþjóðlegi Rauði Krossinn sér um aldna og óhreyfanlega.  Á meðan "lánadrottnar" víkingasprotanna þurrka upp og eigna sér auðlendur okkar um ókomna framtíð.

Með beztu kveðjum í Árnesþing / Akureyrar sem aldrei fyrr.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 22.4.2009 kl. 05:59

14 identicon

Komið þið sæl; enn á ný !

Rakel og Jenný Stefanía, kæru spjallvinkonur !

Auðvitað; er NAFTA möguleikinn, alls ekki gallalaus - fjarri því. Samt; koma allir aðrir valkostir til greina, aðrir en Evrópusambandið, svo klárt sé, og kvitt - um aldur og æfi.

Þar um; ei meir að tala, ein og Jón Indíafari hefði orðað það, á sinni tíð, stöllur góðar. !!!

Með beztu kveðjum; sem ætíð /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 11:49

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar Helgi: Þú ert snillingur Vísa í Jón Indíafara, það hefði mér aldrei dottið í hug og velti því fyrir mér hvort ég megi ekki örugglega taka þeirri vísun þinni þannig að húmorinn svíkur a.m.k. aldrei þegar þú ert annars vegar!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.4.2009 kl. 19:56

16 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég treysti hjarta þínu Ánægjulegt að sjá þig komna á kreik

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.4.2009 kl. 03:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband