Borgarafundur: Staða innflytjenda á Íslandi í skugga kreppu

Borgarafundanefndin á Akureyri er enn að. En einn fundurinn á hennar vegum var haldinn sl. fimmtudag eða 19. mars. Fundurinn að þessu sinni var helgaður innflytjendum og þá sérstaklega því hver staða þeirra er í íslensku samfélagi nú á krepputímum.

Fundarstjóri þessa fundar var Björn Þorláksson. Framsögumenn voru þrír: Héðinn Björnsson, Íslendingur, Sigurður Kistinsson, dósent við Háskólann á Akureyri og Radek B. Dudziak, starfsmaður Alþjóðastofu. Sóley Björk Stefánsdóttir tók ræður þeirra upp og er búin að setja upptökur tveggja inn á Facebook. Það eru krækjur í þær undir nöfnun frummælenda.Borgarafundur á Akureyri 19.03.09Héðinn Björnsson, sem mér skilst að sé tónlistamaður en vildi einfaldlega láta titla sig Íslending á þessum fundi, reið á vaðið. Hann byrjaði ræðu sína á að benda á að öll þjóðin er í rauninni innflytjendur. Hann sagði að í raun ættu allir sem byggðu þetta land það sameiginlegt að vera stéttlaus þjóð í þeirri merkingu að við eigum öll sömu tækifæri.

Hann benti á að í ýmsum löndum þá væri staðreyndin sú að innflytjendahópar væru í vinnu sem væri minna metin eða væru á bótum. Að hans mati er vert að skoða hvernig þessu er háttað hér. Héðinn lagði ríka áherslu á að í raun væru það alls ekki innflytjendurnir sem væru vandamál hér á Íslandi heldur það hvernig við tökum á móti þeim. Hann sagði það brýnt að íslensk stjórnvöld mótuðu sér stefnu í innflytjendamálum án þess að hún blandaðist af rassisma.

Hann benti á að það ætti ekkert skylt við rassisma að gera kröfu til þess sem flyttist hingað til lands að hann legði fram sakavottorð og heilbrigðisvottorð ásamt svari við þeirri spurningu hvert markmið viðkomandi væri með að flutningnum hingað.

Næstur tók til máls Sigurður Kristinsson, dósent í heimspeki við Háskólann á Akureyri. Hann nálgaðist viðfangsefnið út frá heimspekilegu sjónarhorni eins og vænta mátti. Þar gerði hann mannlega hegðun, viðhorf og siðferðis- og réttlætiskennd mannsins að umræðuefni. Hann vísaði í sína eigin reynslu af því að búa í Bandaríkjunum þar sem hann sagði að skrifræðisþröskuldarnir væru svo sannarlega fyrir hendi í kefinu en hann fann þó sterkan stuðning meðal innfæddra. 

Hann minnti á að Íslendingar í útlöndum héldu gjarnan hópinn. Þar halda þeir í hefðir úr sínu heimalandi og mynda jafnvel félög til að halda utan um slíkar hefðir. Hann undirstrikaði að Íslendingar haga sér ekkert öðru vísi þar sem þeir eru innflytjendur hvað þetta varðar en aðrir slíkir hér á landi.

Hann taldi það brýnt að mæla viðhorf Íslendinga til innflytjenda. Í því sambandi benti hann á þau viðhorf sem yrði gjarnan vart við í fjölmiðlum en þó fyrst og fremst á ýmsum bloggsíðum þar sem rassismi grasserar. Hann taldi þó að Íslendingar væru almennt jákvæðir í garð innflytjenda en í ljósi sögunnar gætu mörg viðhorf, sem hafa ríkt hingað til í samfélaginu, svo sannarlega breyst í skugga núverandi kreppuástands. 

Hann ítrekaði að nú væri nauðsynlegt að við stæðum saman og berðumst fyrir því að samfélagið þróaðis á grundvelli manngildis, réttlætis og samhjálpar. Hann minnti á að aðskilnaðarstefna væri ógn við siðferðið ekki síður en auðmenn sem settu eigin hagsmuni ofar þjóðarhagsmunum. (Ég hvet alla til að lesa niðurlagið í ræðu Sigurðar sem var mjög flott. Ræðuna er að finna í krækju neðst í þessari færslu)

Síðasti framsögumaðurinn heitir Radek B. Dudziak. Hann flutti hingað til lands frá Póllandi og vinnur nú hjá Alþjóðastofu. Hann benti á að meiri hluti þeirra sem koma hingað til lands ganga inn í störf sem Íslendingar hafa ekki kært sig um fram að þessu. Margir innflytjendur sætta sig líka við lægri laun og lengri vinnudag. Þeir uppskera jafnvel niðurlægingu og það að það er litið niður á þá á grundvelli þessarar staðreyndar.

Hann sagði að margir sem hefðu verið komnir hingað væru farnir en það væru líka margir hér enn. Sumir eru hér vegna þess að þeir eru fastir. Þeir hafa keypt húsnæði og bíla sem þeir geta ekki selt og komast þar af leiðandi hvergi. Hann benti líka á að einhverjir myndu hafa það verr ef þeir sneru til baka. Hann tók líka fram að sumir Pólverjar muni eftir verri tímum en þeim sem ríkja hér nú. Þeim finnst ástandið hér því ekkert tiltakanlega slæmt.

Auk framsögumanna sátu eftirtaldir í pallborði: Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Brims, Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar og Paul Nikolov, varaþingmaður Vinstri grænna.
Borgarafundur á Akureyri 19.03.09Nú var komið að þeim. Paul Nikolov byrjaði. Hann benti á að áhrif núverandi ástands horfði eins við bæði Íslendingum og innflytjendum. Hann undirstrikaði líka hversu mikilvægt það væri fyrir innflytjendur að læra tungumálið og að það þurfi að gera þeim það aðgengilegra. T.d. með því að bjóða upp á að læra það í vinnutímanum.

Þá fékk Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar, orðið. Hún sagði það mjög lærdómsríkt að hafa búið í útlöndum og það væri eiginlega grundvallar- forsenda þess að geta tekið á móti útlendingum hér af virðingu. Hún benti líka á að það væri mikilvægt fyrir einangraða eyjarbúa að fá tækifæri til að kynnast öðrum þjóðum.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdarstjóri Brims, var síðastur pallborðsgesta til að leggja orð í belg áður en opnað var fyrir spurningar úr salnum. Hann sagði að 20% starfsfólks Brims væri af erlendu bergi brotið. Hann benti á að það væri mikilvægt að erlent vinnuafl hafi sömu laun og það innlenda. Annað byði þeirri hættu heim að fyrirtæki segðu fyrst upp því starfsfólki sem væri á hærri launum. Slíkt myndi af augljósum ástæðum ýta undir rassisma.

Hann brást við fyrirspurn utan úr sal um það hvort umsækjendum hefði fljölgað frá liðnu hausti með jákvæðu svari. Auk þess sagði hann að þeir fengju umsóknir frá hæfara vinnuafli en áður. Hins vegar kannaðist hann ekki við raddir um það að erlent vinnuafl ætti að víkja fyrir innlendum umsækjendum.

Soffía fékk fyrirspurn í sambandi við atvinnuleysistölur. Hún kannaðist ekki við að hlutfall atvinnulausra meðal innfytjenda væri hærra en meðal Íslendinga. Samkvæmt hennar tölum eru innflytjendur 8,2% meðal atvinnulausra.

Samkvæmt nýjustu tölum sem eru fengnar frá Smugunni er atvinnuleysi nú komið upp í 17.535!

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 13,5% en minnst á Vestfjörðum 1,8%. Atvinnuleysi eykst um 31% á höfuðborgarsvæðinu en um 20% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst um 28%  meðal karla og 25% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 9,4% meðal karla og 6,6% meðal kvenna. (skv. frétt af Smugunni frá í gær)

Soffía sagði atvinnuleysi hér á Eyjafjarðarsvæðinu vera 8,8% eða það næsthæsta á landinu.
Borgarafundur á Akureyri 19.03.09Kona meðal áheyrenda sagðist vera að gera rannsókn á stöðu og líðan útlendingar í samfélaginu á yfirstandandi krepputímum. Það kom ekki fram á vegum hvers eða hverra þessi rannsókn fer fram en hún sagði að flestir viðmælendur hennar væru vanari verri kjörum en þeim sem ríkja hér nú. Hún sagði það áberandi í því sem kæmi fram hjá þeim að þeir telji sig vera hæfari til að aðlagast þeim krepputímum sem nú eru fram undan en innfæddir.

Radek brást við þessu með því að benda á að gamlir Pólverjar gætu haldið námskeið fyrir innfædda og leiðbeint þeim um það hverngig á að lifa af á þrengingartímum eins og þeim sem við stöndum frammi fyrir nú. Hann sagði að grundvallarregla þeirra væri sú að taka aldrei lán. Hann brást líka við athugasemd í sambandi við framboð á námskeiðum og íslenskufærni innflytjenda. Hann vildi meina að það væri nóg af námskeiðum í boði en sannleikurinn væri sá að innflytjendur væru ekki nógu duglegir að nýta sér þau.

Mér lék forvitni á að heyra hver afstaða innflytjenda væri til þess sem hefur átt sér stað í samfélaginu. Ég benti þar á að hér á Akureyri hefði þessi hópur lítið eða ekkert sést í mótmælum og á borgarafundum. Ég tók það fram að ég vissi að margir innfæddir væru hræddir við að taka afstöðu af ýmsum ástæðum og beindi þeirri spurningu til þeirra sem voru í pallborðinu hvort þeir könnuðust við það að innflyjendur óttuðust það að hafa skoðun og þá af hvaða ástæðu. Þessari spurningu var greinilega snúið svolítið við af flestum sem tjáðu sig um hana þar sem svarið sneri nær eingöngu að þátttöku í mótmælunum.

Radek tók það fram að hann hefði a.m.k. einu sinni tekið þátt í mótmælagöngu hér á Akureyri en hann sagði að flestir sem hann þekkti forðuðust þau af tveimur ólíkum ástæðum. Annars vegar vegna þess að þeir þora ekki en hins vegar af því að þeir líta ekki á vandann í samfélaginu sem sitt vandamál.

Paul sagði að það væri mjög inngróið í flesta innflytjendur að þeir ættu að haga sér vel. Þeir vilja ekki gera neinum neitt því það gæti komið þeim sjálfum í vanda. Hann benti á að það væru ekki aðeins innflytjendur sem hefðu ekki tekið þátt í mótmælunum í vetur á þeim forsendum að vandamálið í samfélaginu væri ekki þeirra. Fjöldi innfæddra hefði setið heima af sömu ástæðum. 

Sigurður taldi ástæðuna fyrir því að innflytjendur tækju síður afstöðu til málefna, eins og þeirra sem mótmælin snerust um, vera þá að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir eru ekki búnir að samsama sig samfélaginu.

Sú meðal áheyrenda, sem er að vinna að könnuninni á stöðu og líðan útlendinga á krepputímunum sem nú ríkja í íslensku samfélagi, benti á að mótmælahefðir væru misjafnar á milli landa. Sums staðar eru mótmæli m.a.s. afar blóðug. Fólk er barið af lögreglu, handtekið og sett á sakaskrá fyrir þátttöku sína í mótmælum. Hún vildi meina að meginástæðan, fyrir því að innflytjendur hafi sniðgengið mótmælin, væri sú að þeir hafa óljósa hugmynd um hverju er verið að mótmæla og hafa áhyggjur af því hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir þá og afkomendur þeirra að taka þátt.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Ég er búin að setja tvær ræður inn á facebook. Hlýt að koma þeirri þriðju inn fljótlega ;)

http://www.facebook.com/group.php?gid=46365242957

Sóley Björk Stefánsdóttir, 27.3.2009 kl. 08:55

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir að láta mig vita Sóley Kræki á þær síðar í dag.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.3.2009 kl. 09:54

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þetta hefur verið góður og upplýsandi fundur...takk fyrir frásögn

Sigrún Jónsdóttir, 27.3.2009 kl. 11:25

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Já, Sigrún! Þetta var góður fundur þó ekki væri hann fjölmennur. Takk fyrir innlitið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.3.2009 kl. 16:13

5 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

og Radek er kominn inn á facebook líka :)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 27.3.2009 kl. 18:28

6 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þakka þér þessa frábæru samantekt.

Hilmar Gunnlaugsson, 27.3.2009 kl. 18:47

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hilmar: Takk

Sóley: Ég er alltaf að hallast meira og meira að því að þú sést með mig undir einhvers konar eftirliti þó ég tilheyri ekki úrtakinu þínu

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.3.2009 kl. 20:21

8 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

hehe, láttekkisvona ;)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 28.3.2009 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband