Baráttunni hvergi nærri lokið!

Ég veit ekki hvað ég tala fyrir hönd margra mótmælenda þegar ég fullyrði að mótmælin snerust ekki um það eingöngu að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Sú niðurstaða að búið er að slíta stjórnarsamstarfi hans og Samfylkingarinnar er því langt frá því ásættanleg niðurstaða að mínu mati.

Ef fráfarandi stjórn hefði tekið öðru vísi á málum í haust og a.m.k. viðurkennt mistök sín, vikið stjórn Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins frá og sagt fjármála- og viðskiptaráðherra upp þá hefði ég verið tilbúin til að gefa henni séns. Ráðherrar hennar gerðu það ekki og þess vegna varð það aðkallandi byrjun að koma stjórninni frá en það var aðeins byrjun! Það var nauðsynlegt til að hægt væri að fara að vinna að þeim mikilvægu breytingum sem þarf að koma á í sambandi við allt það sem lýtur að því hvernig stjórnsýslan hefur komið sér og sínum sérhagsmunamálum fyrir.

Það að engin var kallaður til ábyrgðar, þögnin, aðgerðar- og úrræðaleysið var það sem ýtti mér út í mótmælin til að byrja með. Mér hafði lengi blöskrað ýmislegt við stjórn landsins, skipanir í embætti og öll græðgisvæðingin sem er svo fullkomlega blinduð af tölum að hagur fólksins sem stendur að baki þeim gleymist. Það keyrði um þverbak þegar meðferð mála í tengslum við hrun bankanna lá fyrir sl. haust!
Kjaftæðið er enn til staðar!Ég get ekki sætt mig við að mótmælin og kröfurnar sem hafa komið fram í þeim lognist bara út af vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur dregið sig út úr stjórnarsamstarfinu. Hvað með hugmyndafræðina sem var mótmælt? Hefur hún breyst? Hvað með siðspillinguna? Hefur hún horfið? Hvað um ábyrgðarleysi? Er búið að uppræta það? Hvað um krosstengsl og yfirhylmingu? Liggur eitthvað fyrir hvað það varðar?

Svona mætti lengi telja en svörin við öllum þeim spurningum, sem mér detta í hug varðandi það sem ég taldi svo marga vera að mótmæla með mér, eru á einn veg: Það hefur í raun ekkert breyst! Það er allt við það sama! Við höfum engar tryggingar fyrir því að neitt muni breytast. Og má ég minna á að Davíð Oddson er enn í Seðlabankanum!

Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim árangri sem hafa náðst í gegnum mótmælin en verð að benda á að ef það var eina markmiðið að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum þá sitjum við líka uppi með enn meiri skuldir. Allir fyrrverandi ráðherrar sem tilheyra þeim flokki eru nefnilega komnir á BIÐLAUN! Hvaða sanngirni er í því að þeir sem reyndust óhæfir í starfi þiggi biðlaun?? Ef mér væri vísað úr starfi fyrir alvarlegt brot í mínu starfi fengi ég í mesta lagi þriggja mánaða laun en ráðherrar fá tólf mánaða biðlaun!

Og voru það bara ráðherrar Sjálfstæðisflokks sem gerðu sig seka um vanhæfni í starfi? Ekki samkvæmt mínum mælikvarða! Ráðherrar Samfylkingarinnar féllu nefnilega líka í þá gryfju að standast ekki hæfnisprófið sem fyrir þá var lagt!

En nú eru þeir að skipta ráðuneytunum á milli sín og þingmanna Vinstri grænna. Það má vel vera að margir treysti flokksmönnum Vinstri grænna betur en mörgum öðrum sem nú sitja inni á þingi. Ég get að einhverju leyti skilið það sjónarmið en ég skil hins vegar ekki að einhverjir séu tilbúnir til að treysta þingmönnum Samfylkingarinnar miðað við það sem á undan er gegnið!

Má ég minna á það að þessir sömu þingmenn og ráðherrar hundsuðu kröfur mótmælenda í allt haust og völtuðu yfir hag almennings í stað þess að sækja þá sem bera stærsta ábyrgð á íslenska efnahagshruninu til saka! Má ég minna á það að þeir vörðu ríkisstjórnina falli í nærri fjóra mánuði!
Ráðherrar Samfylkingarinnar í ÞingvallastjórninniMá ég líka minna á það að einn þeirra sagði að þeir sem höfðu uppi gagnrýni væru ekki þjóðin! Annar flissaði nærri því út í eitt. Þriðji mætti ekki á einn einasta borgarafund sem honum var boðið á. Fjórði vissi lengst af ekki í hvorn fótinn hann ætti að stíga og tveir urðu eiginlega ósýnilegir! 

Af framansögðu ætti öllum að vera ljóst að mér þykir það mjög áríðandi að við sem erum ekki sátt látum í okkur heyra áfram! Það ætti líka að vera ljóst hvers vegna ég álít að baráttunni sé hvergi nærri lokið!

Ég fanga því þess vegna að það standi til að koma saman á Austurvelli á morgun. Átta mig reyndar ekki á yfirskriftinni „sigurhátíð“ en það er e.t.v. annað mál. Ég veit ekki hvort það stendur til að koma saman víðar á landinu en því miður er allt útlit fyrir að ekkert verði af hefðbundinni laugardagssamkomu hér á Akureyri. 

Viðbót: Þeir í Mývatnssveit ætla a.m.k. að koma saman á morgun. Sjá hér.


mbl.is Boða sigurhátíð á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Æi mikið var gott að fá einn svona áminningarpistil. Síðustu 2 daga hefur mér liðið eins og þetta væri allt búið bara og við fengjum sömu drulluna yfir okkur aftur í vor. Að heyra í öllum þessum þingmönnum, ráðherrum og stjórnmálamönnum berjandi sér á brjóst, kennandi öllum um nema þeim sjálfum, sjá formanni sjálfstæðisflokksins klappað lof í lófa á einhverri halelúja samkomu þeirra í dag var ömurlegt! Eins og GHH væri að koma heim úr frækilegri herför! Viðbjóður nánast. Það er ekki í lagi með þetta fólk í þessum flokki.

Framsókn allt í einu farin að setja öllum einhver skilyrði - gerir mig alveg brjálaðan vitandi þátt þeirra í svikum við þjóðina. Rífandi kjaft eins og þeir hefðu aldrei komið nálægt stjórn landsins og spillingarvæðingu. Ekki er Samfylkingin betri með fólk við stjórn sem fyrirlítur þjóðina og saltaði stefnumál og hugsjónir flokksins. Oj bara.

Eina vonin er að VG sé og verði óspillt þessa 2-3 mánuði fram að kosningum og að nýtt afl komi fram. Ég treysti ekki Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingu og Framsókn. 

Afsakaðu þetta Rakel. Ég bara varð að fá að blása smá og þessi pistill vakti smá von. Sorrý!

Arinbjörn Kúld, 30.1.2009 kl. 20:42

2 identicon

Sæl Rakel.  Það gleður mig að sjá að þú ert enn "rebel", það er ég líka ennþá.  Það er mjög nauðsynlegt að halda mótmælum áfram og enn er svo margt ógert í samfélaginu. 

Mótmælin verða að beinast gegn flokksræðinu, spillingunni sem þrífst í skjóli þess, ógegnsæinu, leyndarhjúpnum (t.d. það hneyksli að enn skuli sumir flokkar neita að opna bókhald sitt), mótmælin verða að beinast gegn rotnu stjórnkerfi og óskilvirkri stjórnskipan.  Kröfur verða að standa til þess að efnt verði til stjórnlagaþings, eins og raunar ætlunin er, þar sem vonandi verður greint frekar á milli valdsviðanna.  Það verður bara að halda áfram að mótmæla og minna ráðamenn að þessi mál.  Halda áfram og hætta ekki fyrr en raunverulegar og varanlegar breytingar verða á hinu sjúka samfélagi okkar.  Bið þig svo vel að lifa.

Þorsteinn Krüger (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 21:26

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég er langt í frá orðin sátt og södd.  Finnst við vera í einhverskonar brúðuleikhúsi þar sem Framsókn heldur í taumana og stjórnar.....kannski það sem við síst vildum, miðað við þeirra fyrri afrek.

Sigrún Jónsdóttir, 30.1.2009 kl. 21:37

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Æi, það er nú gott ég er ekki eini „rebel-inn“ hérna norðan heiða og þó víðar væri leitað Orð ykkar færa mér svolitla hugarró vegna þess að þau sannfæra mig um að ég er ekki ein. Því má ég til að segja: Þið eruð sú þjóð sem ég vil tilheyra!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.1.2009 kl. 22:06

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Rakel,

ég er þér mjög sammála að mörgu leiti.  Á morgun fer ég á Austurvöll að fagna og mótmæla. Vissulega er þetta sigurhátíð. Við stöðvuðum Ríkisstjórnina. Hún hafði sjálfsagt ætlað sér að halda áfram. Við breyttum stjórn FME. Jóhanna hefur rætt um hreinsun í Seðlabankanum.

Ótti þinn um að Samfylkingin og VG ætli að hrauna yfir okkur í trausti þess að það líðist er á rökum reistur. Aftur á móti er um mikið vanmat að ræða. Ég tel engar líkur á því að við munum sætta okkur við eitthvað hálfkák. Við erum búin að finna til valdsins og það gefur okkur sjálftraust og styrk. Ekki örvænta, Ísland verður í árslok eins og óspjölluð mey.

Gunnar Skúli Ármannsson, 30.1.2009 kl. 23:06

6 identicon

Það er enn nóg fyrir okkur mótmælendur að gera. Við ættum t.d. núna að beina spjótum okkar beint að þjófunum! Krefjumst þess að þeir skili peningunum sem þeir eru sakaðir um að hafa komið í skattaskjól!

helga (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 00:58

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þetta er langt frá því að vera búið. Við sitjum uppi með alþingi sem starfar ekki fyrir þjóðina og sjálfstæðisflokkurinn er þjóðinni enn stórhættulegur.

Margt á eftir að koma í ljós og þjóðin á eftir að verða mjög reið.

Höldum okkar striki með samstöðunni losum við okkur við hyskið.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 31.1.2009 kl. 01:04

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Helga hittir naglann á höfuðið! Þjófar fengu að þrífast hér óáreittir í u.þ.b. áratug fyrir nefinu á okkur. Innlendar eftirlitsstofnanir sváfu á verðinum. Annaðhvort vegna þess að embættismennirnir eru svona illa gefnir eða þeir þáðu mútur fyrir að halda kjafti! Mér finnst ekki skipta alveg öllu máli hvort er rétt því hvorutveggja er mjög alvarlegur glæpur um vanhæfni!

Ég hef mikið langlundargeð en því eru takmörk sett! Við ættum að fara að taka saman lista yfir efnahagsbrotamennina sem auðguðust með því að hrifsa til sín þjóðarauðnum í gegnum bankanna. Við ættum að taka saman nöfn, myndir og helstu upplýsingar og senda til Interpol. Þetta ættu að vera eftirlýstir menn!. 

Bregðist dómstólarnir þá verðum við að finna alþjóðalögreglu og alþjóðadómstóla til að taka á því að fámenn viðskiptastrákaklíka tók sig saman og rændi alla þjóðina!!! Það er engum blöðum um það að fletta að þessir siðblindu guttar eru sekir og þeir vissu það allan tímann sjálfir!

Miðað við að íslensk stjórnvöld og dómsvöld hafi ekki haft vitsmuni til að stöðva þá enn þá treysti ég þeim ekki til að sjá neitt frekar um það núna! Hvað þá að hafa upp á þeim, reikningum þeirra og eignum, hvað þá að innheimta þá fjármuni sem eru sparifé fyrirtækja og einstaklinga sl. áratug!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.1.2009 kl. 12:12

9 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Heyr heyr, þetta er sko ekki búið, burt með flokkakerfið, burt með þingræðið!

Haraldur Davíðsson, 31.1.2009 kl. 12:49

10 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Er þá eftir einhverju að bíða með listann Rakel?

Arinbjörn Kúld, 31.1.2009 kl. 12:51

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Arinbjörn: Ertu með hann tilbúinn? og treystir þú mér fyrir honum? Var Cilla ekki að segja okkur frá landráðshópi sem er að verða til. Ég vona að þeir séu að gæla við hugmyndir af svipuðu tagi og ég setti fram hér að ofan. Ert þú ekki í honum?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.1.2009 kl. 13:08

12 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Jubb, ég er í hópnum. Listinn er ekki kominn af stað. ég var að meina hvort við ættum ekki að fara koma honum upp? Tökum smá frumkvæði. Ég hringi í þig fljótlega.

Arinbjörn Kúld, 31.1.2009 kl. 16:18

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er ekki í landráðshópnum og reikna með að geti lítið lagt til í slíkan hóp. Ætla að einbeita mér að þeim verkefnum sem ég ræð við. Landráðin ættu að vera í höndum mannréttinda- og eignaréttalögfræðinga. Ég vona að þið í landráðshópnum séuð í góðu sambandi við einhverja slíka.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.1.2009 kl. 18:41

14 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Okí dókí

Arinbjörn Kúld, 1.2.2009 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband