Að skrifa sig frá úrtöluröddunum

Það er dapurlegt að sjá hvað marga skortir trú á framtíðina. Jafnvel þeir sem höfðu enga trú á því sem var að gerast í fortíðinni neita að trúa að nokkuð betra geti tekið við. Þessi vantrú veldur mér ákveðnu hugarangri. Þessar eilífu úrtöluraddir sem tala allt niður í svartasta myrkur eru líka ákaflega pirrandi þegar til lengdar lætur.

Vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem þessar raddir hafa á mig ákvað ég að gera svolítið óvenjulegt í kvöld. Ég byrjaði á því að velja fortíðinni, nútíðinni og framtíðinni það tarotspil sem mér finnst hæfa hverri best. Spil sem lýsti því sem mér finnst standa upp úr í sambandi við það sem ég sé í hverri fyrir sig.
Fortíð - nútíð - framtíðSvo ákvað ég að draga fram tvær bækur sem ég hef nýverið lesið. Þetta eru: The Secret eða Leyndarmálið og Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason. Undirtitillinn á bókinni hans vakti sérstaka athygli mína þegar ég dró hana fram aftur. Hann er Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Þegar ég rak augun í þennan undirtitil, sem hafði ekki vakið neina athygli hjá mér áður, spurði ég mig eðlilega hvort Andri Snær væri kannski að vísa til þessara radda með þessum titli!

Ég dró þessa bók fram vegna þess að mig langaði til að finna orð sem myndu orka til að auka á bjartsýnina sem við þurfum öll mikið á að halda. Ekki síst ef við þurfum að berjast við stóran hóp sem þorir ekki að sleppa takinu af því sem það þekkir.

Ég byrjaði aftan frá í bókinni hans Andra og rakst strax á þetta: Frelsi manna til að fá hugmyndir og hugsa nýja hluti er forsenda framfara og breytinga á öllum sviðum og þess vegna ríkir málfrelsi og skoðanafrelsi.“ (2006:258) Mér finnst þetta liggja í augum uppi og þess vegna trúi ég því að hinn mikli hugmyndahafsjór sem er að verða til núna í sambandi við það að umbylta kerfinu og stjórnsýslunni verði þjóðinni og framtíð okkar til góðs.
DraumalandiðÚrtöluraddirnar sem hljóma úr öllum áttum orka eins og sálfræðihernaður sem gerir út á óöryggi fólks (sbr. Andri Snær Magnason 2006:207) í því markmiði að viðhalda gömlum og úreltum gildum og aðferðafræði. Ég átta mig hins vegar ekki á því hvort þetta er meðvituð viðleitni til að sporna gegn nauðsynlegum og æskilegum breytingum.

Hin bókin sem ég dró fram er Leyndarmálið sem kom út árið 2007. Bókin fjallar um hugsanir og mátt þeirra. Þar er t.d. þessi speki höfð eftir Prentice Mulford: „Ef þú sérð aðeins erfiðleika í framtíðinni ertu að biðja um ógæfu og það verður örugglega veruleiki þinn“ og þessi eftir Martin Luther King: „Fyrsta þrepið er að trúa. Þú þarft ekki að sjá allan stigann. Taktu eitt þrep til að byrja með.“

Leyndarmálið
Ég veit að fleiri trúa með mér og vona að trú fleiri og fleiri eigi eftir að kvikna. Við verðum nefnilega að trúa á bjartari framtíð ef sá árangur sem við höfum þegar náð á ekki allur að renna út í sandinn. Ég stóð ekki í rúmlega þriggja mánaða mótmælum til að fá allt það sama yfir mig aftur í svolítið breyttum umbúðum!

Ég vil ekki þurfa að upplifa sömu þöggunina og óánægjuna og ég hef upplifað undanfarin ár. Ég vil nýja hugmyndafræði sem byggir á allt örðum gildum en siðspilltri öfgagræðgi. Ég vil sjá samfélag sem byggir á göfugustu þáttum mennskunnar; réttlæti, samhjálp og sanngirni. Ég vil að það verði tryggt að það sem hefur verið að gerast á bak við tjöldin á undanförnum árum geti aldrei gerst aftur!

Það verður að tryggja það að lög nái yfir þjófnað hvort sem hann er í gegnum vogunarsjóði eða vogaðan innbrotsþjóf. Það verður að tryggja það að auður og völd hefji einstaklinga ekki yfir það að fara eftir þeim lögum sem öllum almenningi ber að fara eftir. Síðast en ekki síst þá eigum við aldrei að þurfa að eyða ómældum tíma og orku í að fara fram á þá sjálfsögðu kröfu að vanhæfir stjórnendur og stjórnmálamenn segi af sér. Ég vil að möguleikunum á slíkum einræðistilburðum verði útrýmt!

Ég ætla sem sagt ekki að láta úrtöluraddirnar stela þeirri fallegu trú, sem ég el í brjósti varðandi framtíðina, frá mér. Það er reyndar lítil hætta á því að þeim takist það því þá hefðu þær líka komið í veg fyrir það að ég mætti á mótmælafundi síðastliðar viku, skipulegði borgarafundi og það að ég opinberaði skoðanir mínar á þennan hátt sem ég geri nú.

Þess vegna mun bölmæðisseggjunum ekki takast að drepa draum minn! Ég minni Alda hreinsunarinnarmig á það hverju við höfum áorkað nú þegar. Það er auðvitað mikið starf eftir óunnið en ég veit að við hættum ekki fyrr en okkur tekst að fullklára verkið sem hófst í formi lítillar öldu um miðjan október á síðasta ári. Þessi alda hefur stækkað jafnt og þétt og á eftir að verða enn stærri. Svo stór að hún mun hreinsa út svo um munar! Hún mun ryðja hindrunum úr vegi svo hægt verði að byggja upp nýja og betri framtíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Draumalandið finnst mér vera skyldulesning hvers manns enda hver blaðsíða uppvakningarlöðrungur.  Andri sýndi ma. möguleikana við að herinn færi ekki eymdina. Og hvað gerðist?

Við þurfum að halda áfram þó þessi stjórn sé frá. Næsta þarf aðhald og svo þarf nýtt fólk með hausa eins og Andri Snær, hreina og óspillta hugsun. Ekki með flokksskírteini í rassvasanum.Hér er grein um um þetta: Andra Snæ Magnason sem forsætisráðherra!

Ævar Rafn Kjartansson, 28.1.2009 kl. 12:51

2 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ljúft..ég ætla að leggja mig í smá tíma og vakna svo aftur troðfull af orku og nýjum spennandi hugmyndum. Þær geta laumast að manni í draumi sem verður svo einn góðan veðurdag að veruleika. Okkar veruleika Takk fyrir yndislega pistla og dug.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.1.2009 kl. 17:05

3 Smámynd: Heidi Strand

http://data.tumblr.com/5Cws5Daaigbfhi2vT1RhnDcWo1_500.jpg

Heidi Strand, 28.1.2009 kl. 22:44

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Flott. Hef engu við þetta að bæta. Blæs manni baráttuanda í brjóst.

Arinbjörn Kúld, 28.1.2009 kl. 23:43

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlit og kveðjur og Heidi takk fyrir ALLAR gleðipillurnar Sýnist á öllu að þeir séu þó nokkrir sem geta tekið undir það með mér að þeir stóðu ekki rúmlega þriggja mánaða mótmælum bara til að Sjálfstæðisflokkurinn hyrfi frá völdum. Það þarf að koma fleira til þannig að sátt, friður og traust ríki milli alls almennings og íslenskra valdhafa.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.1.2009 kl. 00:53

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir þennan pistil Rakel. Ég trúi á mátt samstöðunnar. Ég trúi líka á getu okkar til þess að skapa betri framtíð ef við trúum á þær breytingar sem við viljum ná fram.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 29.1.2009 kl. 01:12

7 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Góður pistil hjá þér, ég ætla rétt að vona að þessi mótmæli hafi haft eitthvað að segja, ég lagði mikið á mig rétt eins og þú  (og allir hinir) síðustu 3. laugardaga fór ég á mótmæli niður á Austurvöll þrátt fyrir flensu, og auðvita fékk ég það margfalt í bakið, lenti inni á spítala með lungnabólgu, er núna komin heim með grænan hor, hræðilega andremmu og held bæði fyrir mér og nágrönnum vöku með hósta. Svo ég ætla bara rétt að vona að það komi eitthvað gott út úr þessu.

Ég held að við fólkið í landinu séum búin að breytast mikið síðustu mánuði og að við eigum eftir að halda vöku okkar betur í framtíðinni.

Það verður alltaf til fólk sem sér dauðan í öllum hornum og við því er sennilega lítið hægt að gera.

Sigurveig Eysteins, 29.1.2009 kl. 05:48

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Já, Jakobína við verðum að viðhalda trú okkar. Án hennar verður barátta sl. mánaða einhvern vegin tilgangslaus.

Ég hef las The Secret eins og þú Tinna. Finnst hún fín áminning en ég er samt hrifnari af Draumalandi Andra Snæs. Eins og Ævar segir hérna á undan þá er hún endalaus „uppvakningarlöðrungar“.

Sigurveig: Leitt að heyra hvernig vaka þín hefur farið með heilsuna þína. Ég vona að þú sést búin að ná þér! Mér finnst líka að þú eigir það skilið eftir allt þetta erfiði að mótmælin skili einhverju meira en Sjálfstæðisflokkurinn hverfi frá völdum. Ég vona það líka okkar allra vegna!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.1.2009 kl. 16:29

9 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 29.1.2009 kl. 20:35

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tinna: Já, ég held ég skilji þig alveg en treysti mér ekki til að tjá mig um kjúklingasúpuna

til beggja

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.1.2009 kl. 21:07

11 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Takk fyrir greinina Rakel   Ótrúleg orka í þér    Meðan ég var að lesa greinina og ætlaði svo að hripa niður athugasemd, bárust mér óvænt gleðitíðindi, sem komu mér mjög á óvart.  Takk enn og aftur og lifðu heil

Máni Ragnar Svansson, 30.1.2009 kl. 13:15

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú gerir mig svo sannarlega forvitna! En það er annars merkilegt hvernig það sem ég skrifa í hálfgerðri geðvonsku fær miklu meiri viðbrögð en annað sem ég skrifa hér Kannski er það hreinlega vegna þess að þegar ég er í þeim ham segi ég fyrst eitthvað sem aðrir geta samsamað sig með

Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.1.2009 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband