Líkamleg veikindi firra engan ábyrgð gjörða sinna...

Geir H. HaardeÉg man eftir Geir H. Haarde í kosningarbaráttunni. M.a.s. ég varð að viðurkenna það að hann hafði einhvern persónulegan sjarma sem hafði reyndar farið fullkomlega framhjá mér fram að því. Það hefur hins vegar lítið farið fyrir honum á undanförnu ári. Kannski ekki nema von í ljósi þess sem við vitum núna. Við vitum það orðið öll að forsætisráðherrann er veikur og það alvarlega veikur.

Það eru alltof margir sem þekkja til einhverra sem hafa greinst með krabbamein. Þeir vita það þá líka að aðdragandi þess að meinið greinist er gjarnan langur og strangur. En stundum líður tillölulega skammur tími frá því að sjúklingur kennir þreytu og fleiri einkenna, sem eru samfara svo alvarlegum sjúkdómi, þar til greining hefur fengist. Ég vona að svo hafi verið í tilfelli Geirs.

Ég finn virkilega til með Geir H. Haarde og óska honum, fjölskyldu hans og vinum þess að hann nái skjótum og öruggum bata. Veikindi Geirs og samúð mín með honum þeirra vegna breyta hins vegar ekki því að mér hugnast ekki verk hans sem stjórnmálamanns að undanförnu. Ég er heldur ekki sátt við þá pólitísku refskák að veikindi hans séu sett fram sem forsendur breytinga sem kröfur hafa verið um frá því í haust.

Ég hef verið á þeirri skoðun frá bankahruninu að þeir sem fara með æðstu embættin hvað varðar fjármálaeftirlitið í landinu ættu að segja af sér. Gerðu þeir það ekki ætti að vísa þeim tafarlaust frá. Hefði Geir H. Haarde gengið fram af einurð til þeirra verka hefði ég getað sætt mig við áframhaldandi setu hans í forsætisráðherrastóli.

Traustið til allra fulltrúa ríkisstjórnarinnar hefur farið þverrandi dag frá degi. Engin sætir ábyrgð og engar upplýsingar um veigamiklil atriði varðandi hrun bankanna hafa komið frá núverandi ráðherrum. Miðað við máttlitlar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagsvanda þjóðarinnar og miðað við hvar er skorið niður og hverju viðhaldið hefur skilyrðislaus krafa mín um afsögn ríkisstjórnarinnar orðið háværari með hverjum deginum. 

Ingibjörg Sólrún GísladóttirÞó ég finni sannarlega til með veikindum forystumanna beggja stjórnmálaflokkanna í núverandi ríkisstjórn þá breytir það því ekki að ég geri kröfu um að þau sýni skynsemi og ábyrgð þegar kemur að embættisstörfum þeirra. Mér finnst það grafalvarlegt mál að þeim og öðrum innan ríksisstjórnarinnar skuli finnast það í lagi að bjóða íslensku þjóðinni upp á það að tveir mjög alvarlega veikir einstaklingar leiði stjórnarsamstarfið á þeim grafalvarlegu tímum sem við lifum á.

Hvorki Geir H. Haarde eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa sýnt skynsemi eða ábyrgð og dregið sig í hlé vegna veikinda sinna. Með því hafa þau ekki aðeins ógnað sinni eigin heilsu og líðan fjölskyldna sinna heldur velferð heillar þjóðar. Þau hafa talið sig best til þess fallin að bjarga þjóðinni þrátt fyrir skerta starfsgetu sem eru óhjákvæmilegar afleiðingar veikinda þeirra.

Það að þau hafi ekki áttað sig á því sjálf að þeim beri að draga sig í hlé við þessar aðstæður sýnir það svart á hvítu að við verðum að lagfæra ýmislegt í stjórnsýslunni. Eitt af þeim brýnu verkefnum sem eru fyrirliggjandi í því efni er að það verður að vera einhver sem grípur inn í þegar ráðherrar og/eða aðrir háttsettir opinberir embættismenn telja sig svo ómissandi að þeir misbjóða eigin heilsu og ógna um leið fjölskyldu sinni og sálarheill.

Við erum mannleg og þess vegna finnum við auðvitað til með persónulegum högum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Geirs H. Haarde sem mér þykir a.m.k. sjálfsagt að gefa frið til að ná sér af veikindum sínum. Við megum þó ekki blindast svo af samúðinni að hún breiði yfir öll þeirra mistök á stjórnmálaferli þeirra. Kröfur okkar hafa þess vegna ekkert breyst í sambandi við uppstokkun og hreinsanir á sviði stjórnmála, fjármála- og viðskiptalífs við þessi tíðindi.

Í lokin langar mig að vísa í nokkra bloggara sem koma að kjarna þessa máls hver með sínum hætti. Fyrst er: Marinó G. Njálsson sem bendir á hann í eftirfarandi orðum: „Veikindi Ingibjargar og Geirs gera ekkert annað en að styðja við þá kröfu að ríkisstjórnin fari frá.  Ég skil ekki eftir hverju er verið að bíða.“ Auk þess vísar hann í orð læknis sem hefur ekki sinnt Ingibjörgu en þekkir til viðlíka veikinda og þau sem hún glímir við. Sá hefur að sjálfsögðu áhyggjur og bendir á mjög rökréttar ástæður fyrir því.

Villi Ásgeirsson finnst mér líka sjá hlutina í hárréttu ljósi þar sem hann segir: „Þó verð ég að lýsa furðu minni á að hann [Geir] noti veikindi sín sem ástæðu fyrir kosningum. Það var orðið ljóst að ríkisstjórnin naut ekki stuðnings fólksins. Geir hefði átt að boða til kosninga fyrir löngu, taka til í Seðlabankanum og hjá FME og gera allt sem mögulegt var til að fá útrásarvíkingana til að skýra sín mál og hjálpa í uppbyggingingarstarfinu. Hefði hann gert þetta, væri fólki sennilega ljúft að leyfa honum að sitja fram að kosningum.“

Loks er tilvitnun af bloggi Egils Helgasonar. Þar gerir Páll Baldvin Baldvinsson eftirfarandi athugasemd við þessa færslu Egils frá því í dag (23. jan. '09):

Það ber vott um alvarlegan dómgreindarskort ef valdamenn í æðstu stöðum samfélagsins, fárveikir á sterkum lyfjum vegna krankleika, skuli komast upp með það að sitja áfram í þannig ástandi. Sá dómgreindarskortur er ekki bara þeirra sjálfra heldur líka allra sem í kringum þau eru. Það er ekki ásættanlegt þrátt fyrir fórnfýsi að pólitíks umræða næstu mánaða verði merkt því að tveir forystumenn í ríkistjórn og flokki séu fárveikir og vinna þeirra og allra kringum þau séu merkt þeim veikleika.

Bæði Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde eiga að stíga til hliðar meðan þau ná fullri heilsu. það er þeim fyrir bestu. Við þurfum fullfrískt fólk í leiðtogastörf á þessum tímum. Og sú ábyrgð hvílir á öðrum forystumönnum flokkanna tveggja og henni geta þeir ekki vikist undan.

Hugheilar óskir um að þau nái sér bæði fljótt og vel eru efst í hvers manns huga en til þess þurfa þau veikindafrí eins og annað fólk í landinu þegar það veikist alvarlega. (26. athugasemdin)

Geir og Ingibjörg Sólrún

Þeim sem vilja breytingar bendi ég á vefinn Nýtt lýðveldi en þar fer nú fram undirskriftarsöfnum. Að henni stendur: „hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins.“
Það eru 2271 búnir að skrifa undir þar í þessum skrifuðu orðum.

Svona til vonar og vara þá bendi ég líka á undirskriftarlistann inni á kjosa.is Mér sýnist nefnilega á umræðunni að það hafi ekki allir áttað sig á því að það eru tveir flokkar við stjórn og þeir þurfa báðir að samþykkja það að efnt verði til kosninga til að af slíku verði. Það eru 9257 nú þegar búnir að óska eftir því að boðað verði til alþingiskosninga með netundirskrift sinni á þessum vef.

mbl.is Ingibjörg Sólrún komin heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Geir hefur gefið það út að hann ætli að draga sig í hlé. Það er meira en sagt verður um suma. það er ólíðandi að ekki sé hægt að taka ákvarðanir vegna þess að einhver er veikur. Þjóðin á bara að bíða eftir því að einhverjum þóknast að útskrifast  vegna þess að viðkomandi treystir ekki samflokksmönnum sínum. Það er fátt verra en halda að maður sé ómissandi, sérstaklega þegar maður er meira en vel missandi.

Víðir Benediktsson, 23.1.2009 kl. 22:35

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

tek undir með þér Rakel

Hólmdís Hjartardóttir, 23.1.2009 kl. 22:39

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er líka eitt sem ég skil ekki, til viðbótar því sem Rakel vitnar í mig: 

Hvernig dettur blessuðu fólkinu í hug, að því farnist vel að stjórna landinu sjúk af sínum krankleikum, þegar því tókst að sigla öllu í strand áður en krankleikarnir gerðu vart við sig.

Marinó G. Njálsson, 23.1.2009 kl. 23:11

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir pistilinn Rakel. Málflutningur sumra í kastljósi kvöldsins var nokkuð furðulegur. Auðvitað eigum við kröfu á því að tiltölulega heilbrigt fólk stjórni landinu og í því felst engin illgirni.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.1.2009 kl. 23:23

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Er það ekki þannig með krabbamein að það tekur ákveðinn tíma að þróast? Svo tekur það sjúklinginn ákveðinn tíma að uppgötva að hann sé veikur og því næst tekur það líka lækna tíma að sjúkdómsgreina og finna meinið.

Veikindi Ingibjargar Sólrúnar uppgötvuðust í október, ekki satt? Ég veit ekki hvort hún hafði leitað til læknis fyrir þann tíma en honum ekki tekist að greina hvað var að henni. Hitt er ekki útilokað að hún hafi fundið til einkenna áður en hún leið út af. Einkenna sem hún hefur ekki gert neitt með.

Geir, hefur, rétt eins og Ingibjörg Sólrún, látið töluvert á sjá frá síðustu kosningabaráttu. Þó er ekki útilokað að meinvarpið sé búið að vera að búa um sig í þó nokkurn tíma, eða hvað? Þekki ekki krappamein í vélinda en veit þó að krabbameinið sem slíkt getur verið mörg ár að búa um sig áður en sjúklingurinn, og jafnvel vinir og vandamenn, horfist í augu við óeðlilega mikla breytingu á starfsorku og sálarþreki.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.1.2009 kl. 23:24

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jakobína: Ég segi bara úff! yfir því hvað krafan um réttlæti, sangirni, ábyrgð og heilindi nær illa athygli og eyrum margra. Það er a.m.k. sú ályktun sem ég dreg af því hvað það gegnur erfiðlega að halda henni á floti. Ástæða er eflaust þrotlaus viðleitni til að drekkja slíkum kröfum í moldroki alls kyns smærri og stærri atriða. Það er ótrúlegt hvað áróðursvélar þeirra sem vilja allt á sig leggja til að styðja málstað einstaklingshyggjunnar, í stað framangreindra atriða, eru öflugar

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.1.2009 kl. 23:46

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Afi þjáðist af krabba í brisi. Hann var orðinn veikur fyrir jól 2005. Það uppgötvaðist seint um vorið hvað var að honum.

Villi Asgeirsson, 23.1.2009 kl. 23:47

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Æi já, ég man eftir fallegu minningarorðunum sem skrifaðir eftir hann. Þau voru yndilsega gefandi fyrir miklu fleiri en þá sem þekktu afa þinn heitinn. Það er alltaf sárt að missa þá sem maður elskar.

Í skrifum mínum hér að ofan vildi ég benda á að í raun ber manni líka skylda til að taka ábyrgð á eigin heilsu vegna ástvinanna. Ég er ekki að tala um afa þinn heldur stjórnmálamennina.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.1.2009 kl. 02:22

9 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir þennan vel skrifaða pistil Rakel.  Ég er þér hjartanlega sammála.

Sigrún Jónsdóttir, 24.1.2009 kl. 03:13

10 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Sammála þér Rakel, tengdamóðir mín fékk krabbamein í vélinda, það var mikil barátta, en mjög stutt. Fólk sem er svona mikið veikt stjórnar ekki neinu, hvað þá heilu landi, vona nú samt að Geir og Ingibjörg nái sér. En þessi umræða sem er búin að vera hér á blogginu í gær og nótt er farin út í algjöra vitleysu. Það er eins og það megi ekki anda á Geir eða Ingibjörgu eftir þessar fréttir. Ég vil ekki kosningar í vor, það á að bíða með það í 1. ár (vor 2010). Senda þingið heim.  Koma á þjóðstjórn. Endurskoða stjórnarskrána. Sofna nýtt lýðræði. Kjósa eftir nýjum lögum. Nota þetta ár til að hreinsa til í stjórnkerfinu og komast að því hvað gerðist í bankakerfinu við hrunið. Koma svo þessum bankaglæpamönnum undir réttvisinna. Og svona að lokum þá ætti fyrsta verk Þjóðstjórnar að vera að bjarga heimilunum í landinu undan gjaldþroti, sópa út úr Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu.   Og hana nú..........

Sigurveig Eysteins, 24.1.2009 kl. 04:47

11 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk, Rakel.

Ég væri sammála Sigurveigu, en það er bara enginn möguleiki á að einhver með vald til þess, komi á þjóðstjórn. Það virðist vera þannig að um leið og þú hefur vald, viltu alls ekki gefa það frá þér, sama hversu mikið þjóðin þarf á því að halda.

Villi Asgeirsson, 24.1.2009 kl. 08:40

12 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég veit ekki hvort það er að hella olíu á eld að draga orðið, sem hefur verið mér efst í huga frá því á hádegi í gær, hingað fram. Þetta er orðið aumingjagæska. Ég veit ekki hvort þetta er heimatilbúið orð en ég er búin að nota það lengi um þá tilhneigingu að verja ávallt þá sem eru sárir og sjúkir þó þeir séu í minni hluta og þó sá réttur sem krafist er þeim til handa sé farin að fótumtroða réttindi fjöldans.

Ég gæti skrifað um þetta langt mál en ætla að láta nægja að undirstrika að þó ég finni til með veikindum Geirs og Ingibjargar Sólrúnar núna og ávallt þá mun ég aldrei samþykkja þann órétt sem þau hafa lagt á herðar þjóðarinnar. Miklu síður núna þegar ég veit að þau voru illa fyrir kölluð þegar þau voru að ganga frá endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi og öðrum embættisstörfum sem þau hafa komið að, að undanförnu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.1.2009 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband