Ósannfærandi leiðangursstjóri óstarfhæfs björgunarliðs

Hrokinn í þessum manni er svo yfirgengilegur að mig setur ýmist hljóða þegar hann lýkur upp á sér trantinum eða það hellist yfir mig slík sjóðbullandi reiði að hún dregur úr mér allan mátt. Hvernig er hægt að vera svo veruleikafirrtur að telja það trúverðugt að hann, Geir H. Haarde, sé upptekinn af því að leiða ríkisstjórnina í björgunarleiðangri, þjóðinni til bjargar, þegar ekkert hefur þokast í þá átt síðastliðna tvo mánuði. Í raun er það eina sem hefur gerst á þessum tíma það sem svartsýnustu menn óttuðust...

Þjóðin er að drukkna í skítnum á meðan græðgisafæturnar hirða það upp úr haugnum sem þeim líst best á. Það er nákvæmlega ekkert sem þjóðin hefur fengið frá skipstjóra sjóræningjaskipsins og áhöfninni hans nema fáránleika og fölsk loforð pakkað inn í lítilsvirðandi dramb og yfirlætisfullan hroka.

Þvílíkur hroki og yfirlæti er ekki í þessum orðum Geirs í tilefni vantrausttillögunnar sem var borin upp á þinginu í dag: [Hann] „sagði, að mörgum kunni að virðast sem stjórnmál séu hálfgerður málfundur. [leturbreytingar mínar] En nú séu ekki þannig tímar. Þeir þingmenn, sem kosnir voru á síðasta ári hafi gefið þjóðinni þá skuldbindingu, að sinna þeim störfum, sem þurfi að vinna og það muni ríkisstjórnin gera.“

Hvað hefur hann gert annað sjálfur síðastliðnar vikur en vera á „málfundum“ út um allan bæ með bræðrum sínum í glæpnum sem settu landið á hausinn og þjóðina alla á vonarvöl? Einu svör hans og Ingibjargar Sólrúnar við gagnrýni eru endurtekningar og aftur endurtekningar. Útþvældar tuggur. Sennilega æfðar fyrir framan spegil. Geir dregur enn einu sinni upp tugguna um þær mikilvægu björgunaraðgerðir sem hann er svo upptekinn af að hann má ekki vera af því að standa í einhverju kjaftæði um vantraustsyfirlýsingar stjórnarandstöðunnar ...Mig skortir orð til að lýsa vandlætingu minni og öðrum tilfinningum sömu ættarCrying

Þeir hjá visir.is eru þegar búnir að ákveða það fyrir okkur að vantrauststillagan verði felld. Trúi því ekki fyrr en á reynir. En minni enn og aftur á kjosa.is ef allt annað bregst þá verðum við að fylla þennan lista. Þeim fjölgar reyndar stöðugt sem skrifa undir og eru núna komnir upp í 5271. Má til að skjóta hérna inn einum gullmola af athugasemdalistanum þar:

Þegar heilt bankakerfi hrynur eins og það gerði á Íslandi er ekki hægt að treysta þeim ráðamönnum sem voru blindaðir af útrásargræðgi og eru nú fullir af HROKA, haldandi í stólana sína eins og þeir eigi þá. Ef þeir vilja stólana, gefum þeim stólana og kaupum nýja. Auðvelt mál.

Ég hef aldrei séð svona litla virðingu frá ráðherrum gagnvart sínum þegnum í vestrænu ríki. Eftir að Ísland er orðið gjaldþrota þá hefur ENGINN, ég endurtek, ENGINN af fólkinu sem stóð vaktina haft nógu mikla virðingu gagnvart mér og þér til að segja af sér. Ef við látum eftir þessu blinda fólki mun Ísland verða brotið lýðveldi þar sem "einræðis herrarnir" munu fela sig fyrir aftan "sérsveit" lögreglunar. Hafa þeir allir gleymt því "who is the boss"?

Enda þetta á birtingarmynd lýðræðisins á Íslandi í dag. Ég rændi þessari mynd af blogginu hennar Jakobínu Ingunni Ólafsdóttur.

Banamein lýðræðisins


mbl.is Önnum kafin við björgunarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tjah... var hún ekki innlimuð í Sjálfstæðisflokkinn

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2008 kl. 21:51

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Hæ. Var að koma af borgarafundi og las svo þennan mergjaða pistil þinn. Þér er greinilega heitt í hamsi. Nú ætla ég að horfa á borgarafundinn til þess að sjá hann með augum þeirra sem sáu hann í sjónvarpi. Þetta var frábær fundur og mikill fjöldi sem mætti. Því miður þurftu fleiri hundruð manns frá að hverfa.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.11.2008 kl. 23:53

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir Jakobína mín Já, það er rétt hjá þér ég finn fyrir vaxandi reiði. Ég vissi reyndar ekki að ég væri svona póltísk... en kannski er þetta ekkert það að vera pólitískur sem er að kvelja mig heldur heilög réttlætiskennd.

Ég er búin að vera að skoða fréttir af borgarafundinum og það sem þeir sem eru komnir heim af honum hafa verið að skrifa. Það ætti ekki að koma mér á óvart að stjórnarparið í ríkisstjórninni kom fram af hrokafullu yfirlæti en það særir mig samt.

Hins vegar finnst mér afar jákvætt að þau skyldu mæta og ég vona svo sannarlega að það sem þau heyrðu í kvöld láti þau ekki í friði næstu daga og eins lengi og þarf til að þau átti sig. Þau njóta ekki trausts og verða þess vegna að víkja!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.11.2008 kl. 00:16

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ríkisstjórnin er ekki búin að fatta að gamla taktíkin dugir ekki lengur. Hún heldur að hún geti bara hrisst þetta af sér og vaðið áfram upp á gamla mátann. En nú eru nýjir tímar. Þeirra viðbrögð markast af einfeldni og því að þau eru ekki í tengslum við almenning.

Þau njóta ekki traust og nú er vantraustið langvinnt. Það er komið til að vera og kannski fatta þau það einn góðan veðurdag.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 02:41

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nákvæmlega! en biðin er erfið og reynir svo sannalega á þolinmæðina

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.11.2008 kl. 02:44

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég segi eins og þú...ég taldi mig alls ekki vera pólitíska og hef svarið af mér allar flokksbiningar og tengingar í gegnum tíðina og kýs helst ekki þar sem ég hef haft mjög mikla vantrú á að þetta kerfi virki á réttlátan og heiðarlegan hátt. Gegnumspillt og rotið pakk að mínu mati. En nú er mér nóg boðið og réttlætiskennd minni misboðið þannig að mér halda ekki tíu trylltir hestar. Þessi pistill þinn er frábær og ég skil svo vel hvernig þér líður. Og það þýðir ekkert að gefast upp núna..ef einhverntímann hefur verið mikilævgt að sýna úthald og haggast ekki um tommu þá er það núna og alveg fram á þann dag að þessi spillingar og græðgisöfl sem umvefja sig hroka og afneitun viki. Fyrr ætla ég ekki að hvíla mig eða halda jól. Jú jú..auðvitað held ég mín fallegu og góðu jól með minni fjölskyldu en samt...hvika hvergi. Ekki um tommu.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 25.11.2008 kl. 12:16

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir það Katrín mín Það verður yndislegt að hitta þig eftir rúma viku á Austurvelli. Ég er búin að hlusta á lagið Samferða sem þú kræktir inn á bloggið þitt nokkrum sinumm og horfa á myndirnar um leið. Ég get ekki að því gert að ég tárast í hvert skipti. Mig langar til að upplifa þessa stemmingu sem mér finnst ég skynja þarna a.m.k. einu sinni jafnvel þó ég fari að hágráta þegar ég upplifi hana. Ég veit að ég verð ekki ósnortinn af því að standa í hópi með þjáningarsystkinum mínum sem berjast með skynsemina, persónuleikastyrkinn og kærleikann að vopni á móti valdhroka og spillingu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.11.2008 kl. 18:09

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þú verður bara að hafa samband þegar þú kemur til borgarinnar Rakel mín. Hlakka til að hitta þig !!! Stemmingin er engu lík á Austurvelli...samkenndin, samstaðan, kraumandi og bullandi reiðin undir niðri vegna hrokafullrar framkomu stjórnvalda. Og alls konar fólk af öllum stéttum og stigum. Íslendingar sem eru búnir að fá NÓG.!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.11.2008 kl. 09:17

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er ein svo sannarlega ein af þeim sem er búin að fá miklu meira en nóg! Ég verð örugglega í sambandi við þig. Við verðum svo e.t.v. samferða á mótmælin þarnæsta laugardag.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.11.2008 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband