Sokkin siðvitund!

Í gærkvöldi var haldin hátíð. Hátíðin var haldin í húsi sem afar skiptar skoðanir eru um. Sumir vilja kalla það montkofa, aðrir minnisvarða heimskunnar og einhverjir tómthúsið niður við hafið en því var gefið heitið Harpa. Einhverjum finnst húsið fallegt en aðrir sjá þar enga fegurð. Hvað sem slíku líður þá mun þetta hús alltaf minna á fyrirhyggjuleysi græðginnar sem réði hér ríkjum og leiddi efnahagshrunið yfir þjóðina.

Mér sýnist að í byggingarstíl hússins megi líka sjá ákveðna vísun í einhvers konar hrun. Hin táknræna framsetning á óeiningunni og aðskilnaðinum, sem kemur fram í arkitektúr hússins, getur heldur ekki farið fram hjá neinum.
Hrynjandi Harpa...Hvað sem líður allri óeiningu varðandi það hvort þetta hús á rétt á sér eða hvort það er ljótt eða fallegt þá er það undarleg forgansröðun að skera niður samfélagslega þjónustu eins og menntun og heilbrigðistþjónustu til að fullklára rándýrt glerhús niður við sjó og hleypa rekstri þess af stað með enn meiri niðurskurði í velferðarkerfinu.

Aðskilnaðurinn sem þetta hús er og verður ávallt táknmynd fyrir kom vel fram við formlega opnun þess í gærkvöldi. Þangað var nefnilega boðið þeim sem völdu að blekkja þjóðina um fjárhagsstöðu Íslands m.a. til að byggja sér slíka elítuhöll. Þangað var líka boðið þeim sem völdu að rétt væri að ljúka þessu glerhýsi sjálfsupphafningarinnar þrátt fyrir að það þýddi niðurskurð á samfélagslegri þjónustu, eins og tónlistarmenntun, og forsendum þess að hafa efni á tónlistarnámi. 

Firringin sem kemur svo vel fram þegar litið er yfir byggingarsögu þessa húss er langt frá því að vera á undanhaldi. Hún kom ekki bara fram á gestalista gærkvöldsins heldur líka á myndum og í umfjöllun fjölmiðla um formlega opnun þess. Sumir tala m.a. um „fræga og fína fólkið“. Ég velti því fyrir mér hvort það er háðið eða veruleikafirringin sem ræður orðavalinu. Hér eru tvö vel valin dæmi sem ættu að skýra ástæður slíkra vangaveltna.

Óforbetranlegir en dæmdir þjófar Ég reikna a.m.k. með að það séu fleiri en ég sem geta tekið undir það að hvað sem allri frægð líður þá geta siðvilltir þjófar ekki talist til fíns fólks hverju sem þeir vilja trúa um sjálfa sig! Frægð þeirra stafar heldur tæplega af neinu sem nokkur heiðvirður einstaklingur myndi vilja hrósa sjálfum sér af!

Þó ég sé sjálf á meðal þeirra sem leist svo stórvel á Ingibjörgu Sólrúnu, þegar hún kom fyrst fram í pólitík, þá hvarf öll mín aðdáun á henni þegar hún hvæsti framan í gesti á borgarafundi í Háskólabíói að þeir væru ekki þjóðin!

Brotakonur og glæpasystur

Sumir nærast vissulega á því að tilheyra þessum hópi og enn aðrir á því að hann hafi verið búinn til. Besti vitnisburðurinn er e.t.v. sá að umfjöllun fjölmiðla um þennan hóp hefur ekkert breyst og m.a.s. Séð og heyrt, sem gerir út á hann, hefur lifað hrunið af í óbreyttri mynd!

Það er undarlegt í rúmlega þrjúhundruð þúsunda samfélagi að þessum og fleirum skuli finnast það sjálfsagt að almennir borgarar haldi uppi þrjúþúsund manna elítu þrátt fyrir allan fórnarkostnaðinn!

Það er ekki nóg með að almenningur beri skaðann af fyrirhyggjuleysi þeirra og/eða siðleysi heldur finnst sumum nærvera þeirra ómissandi við hámenningarlega viðburði eins og þann sem var boðið upp á í tónlistarhúsinu sem mörgum hefur þótt svo brýnt að þjóðin eignist. Óneitanlega veltir maður því fyrir sér hvort þessi þjóð sem þarfnaðist tónlitstarhúss sé eingöngu elítan sem telur sig og sína til þjóðarinnar en lítur á hina sem vinnudýrin sem eigi að halda þeim uppi.

Græðgisfirrt elítaSambandsleysi gestanna sem þáðu boðið á þessa svokölluðu „formlegu opnunarhátíð“ opinberaðist vel og rækilega í gærkvöldi. Það kom fram í því að gerendur hrunsins þáðu boðið.  Hinir þáðu það þrátt fyrir þessa og það að meðal þeirra var guðfaðir efnahagshrunsins!

Þeir létu það ekkert trufla sig að efnahagshrunið leiddi ekki aðeins til atvinnu- og tekjumissis fjölda Íslendinga heldur gjaldþrots og landflótta alltof stórs hluta þjóðarinnar. Það dapurlegasta er svo það að einhverjir hafa tekið sitt eigið líf vegna hörmunganna sem þeir stóðu frammi fyrir vegna hrunsins.

Við getum svo velt því fyrir okkur hver borgar kostnaðinn sem hlýst af slíkum viðburði þegar upp er staðið. Það skyldi þó ekki vera sami almenningur og stór hluti boðsgestanna hefur valdið framantöldum hörmungum. Við skulum svo minnast þess að þeim sem var boðið bera margir hverjir ekki bara ábyrgð á hruninu heldur ber stór hluti þeirra ábyrgð á þeirri kyrrstöðu sem við sitjum í enn í dag.

Það finnst kannski einhverjum að þetta sé full grimmt til orða tekið en við skulum muna að það var ekki síst aðgerða- og afskiptaleysi sem leiddi efnahagshrunið yfir þjóðina haustið 2008. Ég get ekki séð annað en öll samkundan sem mætti í Hörpuna í gærkvöldi hafi gert sig seka um alvarlegt meðvitundarleysi og dómgreindarskort! en eins og öllum ætti að vera ljóst það sem grundvallar aðgerðar- og afskiptaleysið.

Þær eru ærnar ástæðurnar fyrir því að mótmælendur mættu fyrir framan fordyri oflátungshallarinnar  í gærkvöldi. Eitt af því sem sá samfélagslega meðvitaði hópur sem þar mætti minnti á er það hvað hin svokallaða skjaldborg hefur leitt yfir þjóðina.

Hin raunverulega skjaldborg Miðað við fréttaflutning og bloggskrif um þessi mótmæli sýnist mér að fleiri geti tekið undir. Það er nefnilega athyglisvert að þrátt fyrir að þeir sem mættu teldu ekki nema 20-30 manns var mótmælanna getið í nær öllum fjölmiðlum sem fjölluðu um opnunarhátíðina á annað borð. Það sem mér finnst enn undarlegra er að ég hef ekki enn rekist á eina einustu neikvæða umfjöllun um mótmælin í sjálfu sér. Veit ekki hvort það vísi á gott eða vont...


mbl.is Harpa tekin formlega í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Tek undir með þér Rakel að mörgu leiti, en það var búið að tala um byggingu tónlistahúss svo lengi að það var rétt að leggja af stað og framkvæma verkið. 

Því að þó að við mörg komum aldrei til með að koma í þetta hús þá er það líkt og með smiðjur okkar járnsmiða að þangað kemur það fólk sem sækir Hörpuna aldrei. 

Ég trúi því ágætlega að salir séu þar góðir enda hannaðir af háskólamenntuðum mönnum eins og þinglið okkar við Austurvöll er flest, fyrir utan flugfreyjuna. 

Það var auðvita ekki ástæða til að hafa hjúpinn utan um dýrðarsalina úr torfi þó lengsta reynslu höfum við af því efni til skjóls.  En að þessi glerhjúpur komi til með að reynast borgunar mönnum hagkvæmur það er mér mjög til efs.

 

          

Hrólfur Þ Hraundal, 14.5.2011 kl. 09:05

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Góð færsla Rakel og mjög sönn. Kannski að þú sért heldur pen í orðalaginu..sjálfsagt orðin meir með aldrinum....

kveðja að austan

Gunnar Skúli Ármannsson, 14.5.2011 kl. 09:34

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gunnar Skúli, þú veist ekki hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir því að halda mér á mottunni hvað orðalagið varðar Útkoman er kannski til vitnis um það að þrátt fyrir allt þá er ég nú bara í aðalatriðum frekar pen bæði til orðs og æðis

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.5.2011 kl. 13:23

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.5.2011 kl. 00:35

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ertu eitthvað efnins um að ég sé pen bæði til orðs og æðis

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.5.2011 kl. 02:12

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Til að undirstrika firringuna sem er að finna í þeim sjálfútvalda elítuhópi, sem þótti við hæfi að „skreyta“ opnun þessa glerhýsis með, langar mig til að bæta við tveimur sögum frá gærkvöldinu.

Kona sem var meðal boðsgesta vatt sér að annarri sem var á meðal mótmælenda og spurði hana hvort hún væri atvinnulaus. Sú sem var spurð er fyrrum bankastarfsmaður sem missti vinnuna við hrun og hefur ekki tekist að útvega sér fasta vinnu síðan. Hún svaraði spurningunni því játandi. Konan sem tilheyrir hinum sérkennilega samansetta íslenska elítuaðli rekur þvottahús og græðir á því að borga starfsmönnum sínum hræðilega léleg laun. Af „örlæti“ sínu bauð hún mótmælandanum að vinna hjá sér í þvottahúsinu hennar...

Í lokin kom út karlmaður sem fann hjá sér þörf til að ræða við þetta „lið“. Honum fannst við hæfi að hefja samræðurnar á því að spyrja þann sem næstur útganginum stóð hvort þeir sem væru að mótmæla væru ekki allt bara öryrkjar... 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.5.2011 kl. 02:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband