Máttur og dýrð kunningjasamfélagsins!

Færslan hér að neðan fjallar reyndar ekki um það sem lýtur að núverandi umræðu þingsins um það hvort það eigi að kalla saman landsdóm, hvaða ráðherrar mæti fyrir hann og/eða það hvort þingmenn eigi að fá aðgang að göngnum þingmannanefndarinnar sem fjallaði um niðurstöður Rannsóknarskýrsl-unnar. Hún fjallar þó um afar skylt málefni sem er einkavæðing bankanna. Þessi færsla er tekin af rannsóknarskýrslublogginu

Máttur og dýrð kunningjasamfélagsins

Í umfjölluninni um einkavæðingu bankanna er ástæða til að vekja sérstaka athygli á samskiptum Samsonar-hópsins, og þá einkum Björgólfsfeðga, við ráðherranefndina sem var skipuð í kringum einkavæðingu bankanna og framkvæmdanefndina um sama málefni. Hér er ætlunin að gera grein fyrir þeim samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir og koma fram í Rannsóknarskýrslunni.

Áleit Kjartan Gunnarsson þá álitlega eigendur?

Það hefur komið fram áður að Björgólfur Guðmundsson segir að upphafið á því að hópurinn, sem kenndi sig síðar við Samson, komst á snoðir um áhuga ríkisins á því að selja hluti sína í bönkunum megi rekja til kokteilboðs í London. (Sjá hér í kaflanum „Blinduð trúarsannfæring“)

Upphafið að því að við komum inn í þetta er nú eiginlega þannig að úti í Englandi á sínum tíma, þegar við vorum nýbúnir að afgreiða Rússland eða þann hluta sem við vorum þar í, þá hittum við nú mann sem er frá HSBC, það er svona í kokteilboði og hann hefur orð á því að þeir séu alltaf með mandate frá ríkisstjórninni um að þeir megi, eigi að selja bankann. Þetta verður bara svona einhver léttleiki yfir þessu samtali, það var nú Magnús og Björgólfur, ég var ekki þarna úti, og það er eiginlega svona, það kveikir í mönnum. (1. bd. Rannsóknarskýrslunnar bls. 242 (leturbreytingar eru höfundar))

 

 

Áður en lengra er haldið er e.t.v. rétt að minna á það hverjir tilheyrðu Samson-hópnum en þeir eru talið frá vinstri: Björgólfur Guðmundsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Thor Björgólfsson. Og þá aftur að frásögn Björgólfs varðandi það hvernig þessi hópur frétti af því að til stæði að selja íslensku bankana.

Síðan er litlu, seinna, þá er boð eða kokteilboð hjá Heritable-bankanum sem Landsbankinn var þá, og þá eru þeir Halldór Jón og Kjartan Gunnarson þar, sem er þá stjórnarformaður úti, og þeir, svo tekst eitthvert samtal þeirra á milli og það, þeir fara að segja þeim að það eigi að fara að selja eitthvað í bankanum. [...] Og ég man það að þessi HSBC-maður sem þeir fengu umboð held ég 2001 að hann sagði að þeir hefðu leitað til 20, 17 eða 20 aðila, kynnt þeim málið, hvort þeir hefðu áhuga fyrir að taka þátt í þessu bankaútboði. (1. bd. bls. 242 (leturbreytingar eru höfundar)

Pappírsvinna Sennilega er Björgólfur að segja að Kjartan Gunnarsson hafi sagt þeim að HSBC-manninum hafi verið falin sala Landsbankans en hún hafi ekki gengið neitt þrátt fyrir að 17-20 aðilum hafi verið kynnt útboðið.

Reyndar má skilja þetta svo að Björgólfur sé að segja að í reynd hafi hann verið að gera mönnum greiða með því að kaupa óseljanlegan banka sem enginn hafði áhuga á. Hér skal þó ekkert fullyrt um það hvor Halldór Jón (sennilega átt við Halldór J. Kristjánsson) og Kjartan Gunnarsson hafi átt frumkvæðið að því að setja dæmið þannig upp að bankinn væri óseljanlegur. 

En aftur að frásögn Björgólfs Guðmundssonar á aðdraganda þess að hann bauð í Landsbankann í félagi við son sinn og Magnús Þorsteinsson.

Nú, svo komum við heim og förum að velta þessu fyrir okkur og þá töluðum við við þessa nefnd sem Ólafur Davíðsson er formaður fyrir, einhverjum hringingum og einhver sagði, einhvern veginn þróast það þannig að við komumst í samband við hann og [...] við ritum þeim bréf [...] (1. bd. bls. 242)

Ólafur Davíðsson var fulltrúi forsætisráðherra í Framkvæmdanefnd um einkavæðingu og leiddi hana. Það er vert að vekja athygli á því að hann tók við því embætti eftir að Hreinn Loftsson hafði sagt sig frá nefndinni í byrjun febrúar 2002 (Sjá hér) Það er ljóst að það hefur mikið gengið á í þeirri nefnd en síðar það sama ár sagði Steingrímur Ari Arason sig líka frá þessari sömu nefnd af ástæðum sem voru m.a. raktar hér. (Sjá líka hér)

„Vinarþel“ forkólfa Sjálfstæðisflokksins nýtt til hins ýtrasta

Framkvæmdanefndinni barst bréf Samson hópsins 27. júní 2002. Bréfið innihélt tilboð þeirra í 33,3% af hlutafé Landsbankans auk hugmyndar um kauprétt að 10% heildarhlutafjár til viðbótar. Þetta þýddi 90% af eignarhlut ríkisins. Hins vegar er ljóst að hópurinn var í stöðugu sambandi við Ólaf Davíðsson, formann nefndarinnar og Davíð Oddsson áður en þeir settu saman tilboðsbréfið

Í framhaldinu voru báðir bankarnir, þ.e Landsbankinn og Búnaðarbankinn auglýstir, en Samson- Björgólfur Thor Björgólfsson hópnum lá á. Lögmaður hópsins margítrekaði áhuga hópsins með skriflegum eftirrekstri sem Björófur Thor Bjórgólfssyni fylgdi eftir. Hann skrifaði ítrekunarbréf til Framkvæmdanefndarinnar 29. júlí þar sem hann setur fram spurn- ingar um það hvort það standi ekki örugglega til að selja þeim Landsbankann.

Tilefnið segir hann vera orð Valgerðar Sverrisdóttur í sjónvarpsviðtali sem gefi ástæðu til að ætla að „óvissa og stefnuleysi“ sé ríkjandi varðandi sölu bankanna. Bréfinu lýkur hann með eftirfarandi orðum:

Svar við ofangreindum spurningum óskast hið fyrst svo unnt verði að taka ákvörðun um næstu skref. Á meðan þeim er ósvarað telur undirritaður ógerlegt að meta hvort hann og samstarfaðilar hans hafi áhuga á að fjárfesta í kjölfestuhlut í Landsbanka Íslands hf. eða Búnaðarbanka Íslands hf. (1. bd. bls. 268)

Frá og með þessu bréfi er eins og Samson-hópurinn verði ráðandi aðilinn í samningaferlinu. Björgólfur Guðmundsson Framkvæmdanefndin gerir einhverjar athugasemdir við tilboðið einkum hvað varðar verð og annað sem þeir telja eðlislegar breytingar á tilboði þeirra. Þessu svarar Samson-hópurinn með því að „engar eðlislegar breytingar“ hafi orðið á grunnforsendum tilboðsins. Þó er ljóst að með bréfi frá 2. september verða þær breytingar á tilboðinu að hópurinn eykur við þann kauprétt sem félagið óskaði eftir úr 10% upp í 12,5% og í bréfi frá 6. september setja þeir fram verðið 3 - 3,9 krónur á hlut en þó með skilyrðum (sjá 1. bd. bls. 269).

Bolast í krafti „velviljans“?

9. september valdi Ráðherranefndin Samson-hópinn til einkaviðræðna. Framkvæmdanefndin kom þessu áleiðis til hópsins í bréfi en setti um leið fram fyrirvara varðandi verðið. Hópurinn svaraði fyrir sig strax daginn eftir þar sem segir að:

„Með því að velja félagið til frekari viðræðna teldu forráðamenn þess að FnE yrði að gera það á þeim forsendum sem þegar [væru] ljósar. Einkum væri þar átt við verðbil Samsonar, greiðslu í erlendum myntum og kaupréttarákvæði. Þær forsendur voru síðan ítrekaðar og í kjölfarið settar fram ákveðnar forsendur gagnvart FnE um framhald viðræðna. (1. bd. bls 269)

Hluti af þeim forsendum fólust í spurningum sem þeir vildu fá svarað. Spurningarnar voru settar fram bæði í bréfinu sjálfu og í sérstöku fylgiskjali. Grunnforsendurnar sem Samson-hópurinn hélt fram að hefðu verið ljósar frá upphafi hvað sem fram kemur í ofangreindum bréfum voru eftirtaldar:

  • Verðbilið er 3 - 3,9
  • Um er að ræða 33,3% eignarhlut með kauprétti á 12,5 til viðbótar
  • Greiðsla verður í erlendum myntum miðað við þær gengisforsendur sem tilgreindar voru þann 27. júní sl. 

    Þessar forsendur liggja til grundvallar á vali framkvæmdanefndar um einkavæðingu á kjölfestufjárfesti og því hlýtur nefndin að byggja val sitt á fyrrgreindum forsendum. Forráðamenn Samson vilja taka það skýrt fram að ef virða á forsendur félagsins að vettugi er litið svo á sem framkvæmdanefnd um einkavæðingu hafi hafnað viðræðum við félagið.
    (1. bd. 269 (leturbreytingar eru höfundar)

Þrátt fyrir þann augljósa yfirgang sem orðalag bréfanna gefa til kynna gekk nefndin til einkaviðræðna við hópinn en þar var helst tekist á um stærð eingarhlutarins og ósk Samsonar um kauprétt á 12,5% hlut til viðbótar 33,3% hlutnum. Heimildirnar sem höfundar Rannsóknarskýrslunnar byggja á geta líka pólitískrar „andstöðu Framsóknarflokksins á þessum tíma við að selja Samson stærri hlut en 33,3%.“ (1.bd. bls 269) Og enn og aftur skrifar Björgólfur Thor Björgólfsson bréf til að hafa áhrif á gang mála og nú til Valgerðar Sverrisdóttur.

Í því lýsti Björgólfur m.a. þeirri afstöðu að „til að geta talist kjölfestufjárfestir í Landsbankanum [væri] 33,3% eignahlutur ekki nægjanlegur í ljósi þeirra miklu fjármuna sem Samson [hefði] lýst áhuga á að koma með inn í íslenska hagkerfið.“ Efnislega er því lýst í framhaldinu að það fæli í sér „mikla áhættu“ fyrir félagið að lenda í aðstæðum þar sem hætta væri á hagsmunabaráttu og ágreiningi um stefnu bankans við aðra hluthafa, færi svo að ekki yrði komið til móts við óskir Samsonar um stærð hlutarins. Loks segir að það hefði „veruleg áhrif“ á áhuga Samsonar fyrir kaupum á hlut í Landsbankanum að þær aðstæður sköpuðust ekki. (1. bd. bls. 270 (leturbreytingar eru mínar)

Tveimur dögum síðar ganga forsvarsmenn Samson-hópsins enn lengra í því að „hóta“ því að draga sig út úr öllu saman ef þeir fá ekki að haga kaupunum eftir sínu höfði. Þeir skrifa formanni einkavæðingarnefndar, Ólafi Davíðssyni bréf, þar sem segir að ef sá hlutur sem Samson yrði boðið verði minni en 45,8% þá „væri það mat þeirra að „ekki [væri] verjandi út frá áhættu að færa svo mikla fjármuni erlendis frá til fjárfestingar hérlendis.““ (1. bd. bls. 270)

Bréfinu lauk með því að ríkinu var gefinn sólarhringsfrestur til að taka tilboðinu: „Ofangreint tilboð gildir til k. 17:00 fimmtudaginn 17. október 2002. Að öðrum kosti lítur Samson svo á að ríkið hafi slitið viðræðum við félagið.“ (1. bd. bls. 270) Rammasamningur um kaup Samsonar á hlutabréfum ríkisins í Landsbankanum var undirritaður 18. október 2002. Þar var gengið út frá kröfu hópsins um eignarhlut upp á samtals 45,8%.

Forréttindin af því að vera „rétt tengdur“

Nánir vinir

Áður en lengra er haldið er ástæða til að staldra við þá staðreynd að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu daginn eftir að sú ákvörðun hafði verið tekin að ganga til samninga við Samson-hópinn um Landsbanka.  Í gagnrýni sinni á vinnubrögð nefndarinnar lét hann m.a. hafa það eftir sér að reglur um mat á tilboðum hefðu í veigamiklum atriðum verið ákveðnar eftir að tilboð lágu fyrir.

Við lestur kaflans um „Lok einkavæðingar Landsbankans og Búnaðarbankans“ er ljóst að það er síst ofmælt (Sjá 1. bd. bls. 233-284). Af því sem þar er rakið er ljóst að stöðugt var slakað á upphaflegum markmiðum með sölunni og kröfum sem umsækjendum var ætlað að uppfylla.  (sbr. það sem segir á bls. 261 í 1.bd) Í meginatriðum vörðuðu kröfurnar sem voru settar eftirfarandi atriði:

  • Fjárhagsstöðu
  • Þekkingu og reynslu
  • Hagsmunaárekstra
  • Stærð hlutar
  • Samskipti við stjórnvöld og eftirlit
  • Fyrirframgefnar upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins
  • Hrein sakaskrá hvað varðar fjármálaglæpi (Sjá hér)

Út frá því sem kemur fram í Skýrslunni, og miklu víðar reyndar, er eftirtalið ljóst varðandi Samson-hópinn:

  • Fjárhagsstaða hans var mjög ofmetin af einhverjum ástæðum. 
  • Litið var framhjá augljósu þekkingar- og reynsluleysi hópsins á sviði bankareksturs.
  • Kaupendum voru ekki sett nein skilyrði sem héldu varðandi hagsmunaárekstra á fjármálamarkaði og engin viðurlög eða önnur viðbrögð voru merkjanleg þrátt fyrir það að þau urðu umtalsverð. 
  • Miðað við upphafleg markmið þá var ætlunin að eignaraðild að bönkunum yrði dreifðari og fjölbreyttari þannig að bankarnir yrðu samkeppnishæfari. Þetta varð aldrei reyndin með Landsbankann (reyndar hvorki Búnaðarbankann eða Íslandsbanka heldur) en hvorki stjórnvöld né eftirlit sýndu nein merkjanleg viðbrögð við þeirri staðreynd.
  • Eignaraðild Samson-hópsins  yfir stórum hluta Landsbankans hafði þær afleiðingar að þeir „léku“ sér með innviði bankans eins og þeim sýndist. Væntanlega komust þeir upp með það vegna vináttusambanda við þá sem gegndu flokksforystu í Sjálfstæðisflokknum.
  • Eins og áður hefur verið ítrekað lá mat Fjármálaeftirlitsins á hæfi kaupendanna ekki fyrir fyrr en rúmum þremur mánuðum eftir að ríkið gekk frá samkomulagi við Samson hópinn um kaup á Landsbankanum (Sjá hér)
  • Eins og alþjóð veit hafði Björgólfur eldri fengið á sig dóm fyrir fjármálamisferli sem eru, þegar grannt er skoðað, eins og generalprufa á því sem hann komst upp með í Landsbankanum. Auk þess eru allar líkur sem benda til að allur hópurinn sem stóð að kaupum á Landsbankanum hafi verið/sé tengdur mafíustarfsemi úti í Rússlandi. (Sjá líka hér)

Eins og þetta sé ekki nóg þá vekur það líka athygli að Samson-hópurinn bauð lægsta verðið í hvern hlut í bankanum. Í þessu samhengi er rétt að hafa það í huga sem Steingrímur Ari sagði um það að Samson-hópurinn hafi verið tekinn fram yfir aðra áhugasama kaupendur sem buðu upp á „hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða.“ (1. bd. Skýrslunnar bls. 266)

Það vekur líka athygli að fullyrðingar Samson-hópsins um reynslu og sambönd varðandi alþjóðleg viðskipti eru látin vega upp á móti reynsluleysi í rekstri og stjórn íslenskra fjármálastofnana. Það sem þeir telja sjálfum sér til tekna í þessu sambandi eru reyndar atriði sem ættu að vekja tortryggni eða a.m.k. að kalla á nánari eftirgrennslan. Atriðin sem eru talin þeim til tekna eru: „Sambönd við alþjóðlega bankastarfsemi gegnum fyrri viðskipti“ og líka það að sú alþjóðlega sýn sem hópurinn býr að sé líkleg til að styðja alþjóðlegar áætlanir Landsbankans. (Sjá 1. bd. bls. 247)

„Virk tengsl“ komu þeim alla leið!

Ef við höldum svo áfram með meginmarkmið þessara skrifa, sem var að skoða samskipti Samson-hópsins við stjórnvöld á tilboðstímabilinu þá er fleira sem byggir undir þá skoðun að öllum innan stjórnsýslunnar sem áttu samskipti við þennan hóp mátti vera það morgunljóst að það að hann kæmist yfir banka yrði hvorki bankanum sjálfum eða viðskiptavinum hans til gæfu. Þæfingurinn, yfirgangurinn og bolabrögðin sem hópurinn og lögmaður hans beittu hafa ábyggilega verið töluvert umfangsmeiri en þau sem bréfin sem vitnað er til í þessari færslu gefa til kynna. Þessu háttalagi var heldur ekki lokið.
Undirritun kaupsamnings Samsonar við ríkið um kaup á hlut þess í Landsbankanum

Ráðherranefndin lét þó eins og ekkert væri og fulltrúar hennar undirrituðu kaupsamninginn á milli ríkisins og Samson við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu á gamlársdag árið 2002. Við endanlega samningsgerð kom upp enn einn þæfingurinn. Samson-hópurinn hafði komið sínu í gegn varðandi eignarhlutinn en þá byrjaði rexið og pexið að snúast um kaupverð og greiðslufyrirkomulag. Í stuttu máli snerist hann um þriðju greiðsluna sem var fyrir viðbótarhlutinn sem Samson fékk í geng að yrði upp á 12,5%.

Í stuttu máli tókst þeim að koma inn ákvæðum sem áttu að verða til lækkunar þessum hluta. Niðurstaðan varð sú að fyrir þetta ákvæði tókst þeim að lækka umsamið kaupverð á bankanum um 700 milljónir króna! Það er svo ekki hægt að skilja við þessa umfjöllun um samskipti Samsonar-hópsins við stjórnvöld án þess að víkja eitthvað að öðrum efndum þeirra á kaupsamningnum.

Það er reyndar svo margt athugavert hvað varðar efndirnar að í stað þess að fara yfir það allt saman verður einkum staldrað við þann þátt sem snýr að fjármögnun hópsins á kaupverðinu í gegnum Búnaðarbankann. Þeim sem vilja kynna sér aðra þætti efndanna er bent á kaflann „Fjármögnun Samsonar samkvæmt kaupsamningi um Landsbankann“ sem er á bls. 271-281 í 1. bindinu.

Minkarnir fá að leika lausum hala

Hópnum sem kom þannig fram við stjórnvöld að þau væru að tefja það að hann kæmi sínum digru sjóðum í nýtt verkefni fengu nefnilega lán fyrir langstærstum hluta kaupverðsins hjá Búnaðarbankanum. Fyrri hlutann fengu þeir í apríl 2003 en þann seinni í janúar 2004. Lánið varð alls upp á 90.072.205 bandaríkjadala. Þess má geta hér í framhjáhlaupi að þegar Kaupþing gjaldfelldi skuldir Samsonar  eignarhaldsfélag ehf. við bankann í nóvember 2008 hljóðuðu þær upp á 4.957.305.150,- íslenskra króna.

Þessi upphæð er langt umfram kaupverð Landsbankans en þrátt fyrir ósk Rannsóknarnefndar Alþingis um skýringar á því hvernig þessum fjármunum var ráðstafað hafa þær ekki fengist (sbr. 1. bd. bls. 280-281) Það er líka ástæða til að vekja sérstaka athygli á því að í þeim gögnum sem Björgólfur Guðmundsson sendi nefndinni af þessu tilefni þá segir hann lokagreiðslu fyrir Landsbankanna vera „nærri einni milljón dollara hærri en hún var í raun“ (1. bd. bls 279)

En aftur að lánafyrirgreiðslu Búnaðarbankans. Í apríl 2003 störfuðu Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir, sem var hans hægri hönd hjá Búnaðarbankanum. „Skömmu eftir að lánið til Samson var afgreitt réðu Björgólfsfeðgar Sigurjón í stöðu bankastjóra Landsbankans. Honum fylgdu úr Búnaðarbankanum m.a. Elín Sigfúsdóttir, sem áfram var hægri hönd Sigurjóns.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Stjórn Landsbankans 2007Stjórn Landsbankans í upphafi árs 2008. Talið frá vinstri: Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri, Þór Kristjánsson, Kjartan Gunnarsson, varaformaður stjórnar, Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður, Þorgeir Baldursson, Svafa Grönfelt og Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri. (Sjá hér)

En það voru ekki bara Sigurjón Þ. Árnason og Elín Sigfúsdóttir sem Björgólfur Guðmundsson launaði lánagreiðann með ráðningu. Ársæll Hafsteinsson, sem var starfsmaður Búnaðarbankans á þessum tíma, var líka ráðinn og settur í hóp framkvæmdarstjóra Landsbankans nokkrum dögum eftir lánveitinguna. „Í framhaldinu upphófst einhver glannalegasti kafli í rekstrarsögu nokkurs banka. Þeim kafla lauk með stærsta „pýramídasvindli“ sögunnar sem skildi íslensku þjóðina eftir fjötraða og í sárum.“ (Sjá hér)

En það eru fleiri þáverandi starfsmenn Búnaðarbankans sem mætti ætla að hafi notið þess að hafa „hlaupið undir bagga“ með þessum „dyntótta bónbjargarhópi“ ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar við fjármögnun Landsbankans. Árni Tómasson, þáverandi bankastjóri Búnaðarbanka Íslands, er nú formaður skilanefndar Glitnis. Fyrrnefndur Ásæll Hafsteinsson er hins vegar skilanefndarmaður í Landsbankanum og Elín Sigfúsdóttir, sem var hægri hönd Sigurjóns Þ. Árnasonar, var ráðinn bankastjóri nýja Landsbankans eftir að sá gamli fór í þrot. (sbr. hér)

... og komu sér fyrir í digrari hænsnahúsum

Hér að framan hefur aðeins rakið brot af því sem kemur fram um samningsferlið, söluna og efndir kaupsamnings Samsonar eignarhaldsfélags ehf. gagnvart ríkinu. Í meginatriðum byggir það sem kemur fram hér að framan á þeim upplýsingum sem Rannsóknarnefnd Alþingis tókst af afla varðandi þessi atriði en í texta Skýrslunnar margtaka höfundarnir það fram að gögn vanti og ástæða sé til að rannsaka allt sem snýr að einkavæðingu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á íslensku bönkunum miklu frekar.

Það ætti að vera ljóst af því sem er vitað varðandi þá ákvörðun að selja Samson-hópnum Landsbankans að þar réði eitthvað annað en trygg framtíð bankans og hagsmunir viðskiptavina hans. Þríeykið sem myndaði hópinn hafði komið sér upp traustum tengslum við flokksforystu Sjálfstæðisflokksins sem þeir njóta sennilega enn.

Það virðist vera óhætt að fullyrða það að þau tengsl hafi öðru fremur tryggt þeim eignarhlutinn í Landsbankanum. Um leið og hann var tryggður hófu þeir að treysta þessi „vináttubönd“ og byggja upp önnur með alls kyns fyrirgreiðslum til „vel valinna“ á öllum sviðum samfélagsins. Það er reyndar stórfurðulegt hversu vel þeim varð ágengt.

Með forsetanum
Með forsetahjónunum

 
Það verður þó að segjast að miðað við það að þingmenn og aðrir ráðamenn þjóðarinnar hindra það að einstaklingarnir, sem mynduðu Samson-hópinn, verði sóttir til saka og rannsakaðir enn frekar þá er greinilegt að þeir hafa ekki valið sér velgjörðarmenn af neinu handahófi!


mbl.is Umræðu frestað til mánudags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband