Blind hagsmunagæsla

Ég skil ekki lengur upp eða niður í málflutningi þeirra sem standa vörð um úreltan hugsunarhátt. Mér finnst það a.m.k. úreltur hugsunarháttur að setja réttindi og hag fjármálastofnana ávallt í fyrsta sæti eins og Gylfi Magnússon gerði í ræðu sinni á Alþingi í gær (sjá hér). Hann segir m.a.s. að hann ætli ekki að snúa út úr en gerir það samt!

Marinó G. Njálsson svarar máflutningi viðskiptaráðherra á þinginu í gær hér. Svar Marinós er skýrt og afdráttarlaust og engu við það að bæta. Það sem mig langar hins vegar að gera að umtalsefni hér er sú blinda hagsmunagæsla sem litar bæði málflutning og aðgerðir þeirra sem hafa tækifæri til að láta til sín taka í samfélaginu.
Vonlausar björgunaraðgerðirÞeir sem hafa barist frá haustinu 2008 með réttlætið að leiðarljósi hafa reyndar ítrekað bent á að öll viðbrögð íslenskra stjórnvalda, hvort sem við erum að tala um fyrrverandi eða núverandi ríkisstjórn, miða að því að verja hagsmuni fjármálastofnananna og um leið gerenda hrunsins. Viðbrögð ráðamanna við hruninu miða að því að bjarga gerendum hrunsins á kostnað almennings. Orð Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, í innleggi hans um gengistryggðu lánin á Alþingi í gær eru ágætis dæmi um það hvaða aðferðum er beitt í þeim tilgangi.

Í hvert skipti sem einhver, hvort sem um er að ræða málsmetandi sérfræðing eða einhvern minna þekktan spekúlant, bera þjóðinni einhverja bjartsýnisögn úr brunni réttlætisins þá tala sitjandi stjórnmálamenn eða talsmenn þeirra álit þessara einstaklinga á bólakaf. Ef grannt er skoðað er málflutningur þeirra, sem virðast hafa það að markmiði að kæfa rödd réttlætisins, ákaflega loðinn og oftar en ekki margvísandi.

Þeir tala eins og sá sem valdið hefur. Þeir klæða málflutning sinn í dularbúning kurteisi og málefnalegrar umræðu en í reynd býr vígtenntur hræðsluáróður undir í öllu því sem þeir segja. Þeir dylgja og vefengja um ágæti þess og þeirra sem ógna stöðu þeirra sjálfra og skjólstæðinga þeirra. Ef einhver þarf að fara í grafgötur með það hverjir þessir skjólstæðingar þeirra eru þá er rétt að undirstrika að það er berlega ekki allur almenningur í landinu heldur örfáir útvaldir sem fylltu flokk útrásarliðsins svokallaða.

Þessir útvöldu hafa svo sannarlega verið að opinberast okkur á undanförnum dögum, vikum og mánuðum. Þetta eru einstaklingar sem þrátt fyrir vafasama fjármálafortíð hafa verið að koma sér fyrir í íslensku efnahagslífi að nýju með nákvæmlega sömu aðferðunum og kom landinu á hausinn fyrir rétt um einu og hálfu ári síðan. Þessir einstaklingar fá alls kyns fyrirgreiðslu hjá bæði stjórnsýslunni og bönkunum til að eignast jafnvel sömu fyrirtækin og þeir keyrðu gersamlega á bólakaf með þeim afleiðingum að efnahags- og atvinnulíf landsins er því sem næst lamað.
Það er ekki sama hver er...Á sama tíma eiga þeir, sem treystu bönkunum og öðrum fjármálastofnunum til að styðja kaup sín á húsnæði og/eða ökutækjum með lánum á sinni persónulegu kennitölu, að standa við skuldbindingar sínar upp í rjáfur þrátt fyrir augljósan forsendubrest. Það er auðvitað óskiljanlegt að nokkur geti varið annan eins viðsnúning á því sem getur talist jafnrétti gagnvart lögum um eðlilega viðskiptahætti.

Ráðamenn þjóðarinnar virðast ekki víla það fyrir sér að verja það að almenningur sé blóðmjólkaður; að hann þurfi að þola atvinnuleysi, eignamissi og flýi jafnvel land á meðan gerendur hrunsins fá afskrifaðar himinháar skuldir í bönkunum, halda ógreiddum eignum og snúa sér aftur að því að stýra innlendum fyrirtækjum og fjármálaumsvifum. Maður spyr sig eðlilega hvað veldur þessari siðblindu?!

Svarið sem virðist liggja beinast við er það að sameiginlegir hagsmunir bindi stjórnmálamennina og svonefnda útrásarvíkinga saman. Þeir eru líka margir sem hafa reynt að draga þennan ósýnilega hagsmunasamning fram í dagsljósið með misjöfnum árangri. Þó held ég að vel flestir séu farnir að átta sig á því að slík tengsl eru fyrir hendi.

Þetta kemur auðvitað ekki síst fram í oft og tíðum óskiljanlegum orðum og gjörðum stjórnsýslunnar varðandi þau mál sem miða að því að taka á hinum raunverulega vanda sem við blasir. Ráðamenn þjóðarinnar hafa m.a.s. beinlínis tryggt að grunaðir ábyrgðarmenn hérlends kreppuástands komist yfir gróðavænlega vonarpeninga íslensks efnahags- og atvinnulífs.
Þolinmæðin á þrotumÖll sú siðblinda ósvífni sem þessi hagsmunaklíka opinberar okkur, hversdagslegum skuldaþrælum, í sleitulausum brimsköflum ójafnaðar og óréttlætis! Þessi hrokafulla fyrirlitning fjármagns- og valdaaðalsins veldur almenningi ekki aðeins fjárhagslegu tjóni heldur andlegu líka. Fyrstu viðbrögðin eru depurð og doði en undir kraumar sú sterka kennd að engum sé treystandi. Að ef ekkert verði að gert þá verði hver að bjarga sér sjálfur líkt og átti sér stað í frönsku byltingunni. 

Franskur almenningur reis upp og gerði byltingu gegn þeim sem höfðu komið ár sinni þannig fyrir borð að þeir þurftu ekki að hafa fyrir neinu sjálfir en lifðu á verkalýðnum. Verkalýðurinn naut ekki nema brotabrots af því sem hann lagði til samfélagsins með vinnuframlagi sínu því bróðurparturinn fór í að halda uppi sístækkandi valda- og eignastétt. 

Ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort sú siðblinda græðgismafía sem stýrði útrásinni og strengjabrúður þeirra innan stjórnsýslunnar beri virkilega ekkert skynbragð á þær alvarlegu afleiðingar sem yfirgangur þeirra hefur á íslenskan almenning. Það má vera að við búum yfir þolinmæði snigilsins. Það má vera að við búum yfir þolgæði sjávarhamranna úti við nyrstu höf en langlundargeð okkar er ekki endalaust! 

Ráðmenn þjóðarinnar verða að snúa baki við þjónkun sína við peningavaldið og snúa sér þess í stað að því að vinna fyrir atkvæðin sem komu þeim inn á þing. Það er eina meðalið sem mun koma í veg fyrir það sem nú er í uppsiglingu. Þ.e. landflótta þeirra sem gefast upp og sprengigos þeirra sem vilja ekki gefast upp á því að búa hér á landi fyrr en í fulla hnefana!


mbl.is Gætu lent í verri stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr.  Spillingaröflin eru ennþá við stjórnvölinn, peningaöflin eiga stjórnmálamennina.  Það er greinilegt í dag.  Fjármunum okkar lýðsins er dælt í óráðshýt einkavæddu bankanna, meira og meira algjörlega án ábyrgðar.  Réttlætiskennd minni er svo misboðið að ég er tilbúin til byltingar, þar þarf að hreinsa til í allri stjórnsýslunni og á Alþingi okkar Íslendinga líka. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.2.2010 kl. 02:19

2 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir þessa hugvekju Rakel.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 19.2.2010 kl. 02:44

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Rakel svona innkoma er frábær lýsing þín á ástandinu og hryllingnum sem er í þjóðfélaginu er kröftug takk fyrir.

Sigurður Haraldsson, 19.2.2010 kl. 14:21

4 identicon

Hafðu þökk Rakel! Það hefur enginn maður af því liði sem bauð sig til þess að hreinsa uppl hrunarústir siðleysingjana og byggja síðan upp siðrænna og betra þjóðfélag valdið mér eins miklum vonbrigðum og sársauka ans Gylfi Magnússon, með honum hefði átt að koma inn ný hugsun og andblær. Íslenskur almenningur hefur látið frændur sína og "vini " stjórnmálamennina undir flokksaga niðurlægja sig um langan tíma með lygum og svikabulli án þess að andmæla því á nokkurn hátt, þessa daga eru þessir menn sem hafa allt sitt á þurru frá þjóðfélaginu há laun,eftirlaun og lífeyrissjóði, allt verðtryggt á kostnað almennings, það að aðalstarfi að rugla almenning og sundra. Ég á ekki eftir að sjá Ísenskan almenning sem er sundraður, án forystu, líklegan til að rétta í nokkru sinn hlut. Hann mun reika áfram ráðvilltur um holtin í þoku ans rollan.

Sverrir Kristjánsson (IP-tala skráð) 19.2.2010 kl. 14:51

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlitið öll þrjú og hvetjandi athugasemdir! Ég er orðin svo yfirþyrmd af öllum viðbjóðnum sem viðgengst á sviði stjórnsýslunnar og fjármálanna að ég kem ekki upp orði svo dögum skiptir án þess að tapa mér í eintómri gremju. Gremjan er ekki góður pistlahöfundur þannig að þess vegna líða dagar og vikur án þess að ég komi einhverju frá mér sem ég get gert kröfu um að mark sé takandi á.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.2.2010 kl. 14:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband