Vitlaus aðferð!

Mér þykir það afar vanhugsað að telja það að stórframkvæmdir séu það sem komi efnahag landsins upp úr núverandi vanda. Ég hef reyndar bent á það áðurvið bætum ekki skaðann með sömu meðulum og ollu honum. Þeir sem reyna að halda öðru fram eru blindaðir af skammtímasjónarmiðum. 

Reyndar þeim sömu og áttu þátt í því að stefna efnahag landsins í þann voða sem hann er staddur í núna. Með stórframkvæmdum væri hægt að keyra hagtölurnar upp um tíma eða á meðan á framkvæmdunum stæði en hvað svo:
Skammtímalausnir Það kemur reyndar ekkert fram í þessari frétt um það hvaðan fjármagnið til að keyra þessar framkvæmdir á að koma en það vita það sennilega flestir að það var samið um það í samningnum með „fallega“ nafninu að lífeyrissjóðirnir myndu kosta þær. Mér hefur alla tíð fundist það stórvarhugavert að lífeyrissjóðssparnaður landsmanna verði notaðar í svo óarðbærar skammtímalausnir. 

Þess vegna átti ég þátt í því að koma af stað undirskriftarsöfnun á kjosa.is þar sem þessum hugmyndum er mótmælt. Textinn yfirlýsingarinnar þar er svohljóðandi:

Við undirritaðir sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum skorum á ríkisstjórn Íslands að hverfa þegar frá þeirri hugmynd stöðugleikasáttmálans að nota skylduframlag okkar til fjármögnunar fyrirhugaðar uppbyggingar vegum og stóriðju. Slíkar framkvæmdir hafa ekki sýnt sig í að skila miklum raunverulegum verðmætum til þjóðarbúsins. Þess vegna er umtalsverð hætta á því að lífeyrissjóðeign okkar skerðist enn frekar en orðið er.

Við viljum einnig benda á það ójafnrétti sem verkefnalisti aðgerðaráætlunar stöðugleikasáttmálans endurspeglar þegar mið er tekið af landfræðilegri staðsetningu verkefnanna, hvaða atvinnufyrirtæki hafa tækifæri til að koma þar að og hvaða hópur atvinnubærra einstaklinga hafa möguleika á að vinna að þeim. Það er líka full ástæða til að minna á að það er alls ekki öruggt að það verði innlend fyrirtæki og/eða Íslendingar sem verði tryggð afkoma með þessum stórframkvæmdum þar sem það er skylt að bjóða svo umfangsmiklar framkvæmdir út á evrópska efnahagssvæðinu.

Auk þessa drögum við undirrituð það mjög í efa að sama hugsun og kom efnahag landsins í þann vanda sem hann er í núna dugi honum til uppbyggingar. Við viljum því mótmæla því að sparnaðurinn sem við höfum lagt frá til eftirlaunaáranna verði lánaður til svo vafasamrar atvinnuuppbyggingar eins og verkefnalisti aðgerðaráætlunar stöðugleikasáttmálans gerir ráð fyrir.

Ef þú ert þessu sammála þá skora ég á þig að skrifa undir þessa yfirlýsingu hér. Mig langar líka til að biðja þig að vekja athygli á þessari undirskriftarsöfnun.

Það er e.t.v. ástæða til að taka það fram að við sem erum ábyrgðarmenn þessarar yfirlýsingar erum ekki að þvertaka fyrir það að lífeyrissjóðirnir geti með einhverjum hætti komið að uppbyggingu atvinnuveganna. Við höfum þó fulla ástæðu til að efast um að sama stórframkvæmdastefnan og kom okkur í núverandi efnahagskreppu dugi til að leysa hana

Þess vegna viljum við mótmæla því að sú glannalega áhætta verði tekin með lífeyrissjóðina okkar og stefnt er að með tilliti til stöðugleikasáttmálanum. Lausnin felst ekki í skammtímasjónarmiðum sem eru bundinn við malbik og steypu. Hún flest í raunverulegri verðmætasköpun eins og matvælaframleiðslu og öðrum iðnaði sem einbeitir sér að framleiðslu á vörum sem nýtast okkur í daglegu lífi.

Við erum lítið land og fámenn þjóð við höfum þess vegna ekki efni á því að „greiða götu stórframkvæmda“ án þess að fórna einhverju mikilvægara í staðinn. Við ættum að hafa áttað okkur á því!


mbl.is Verður að greiða götu stórframkvæmda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Ég var að því kominn að skrifa undir þennan lista þegar ég rak augun í þessi orð þín; "við sem erum ábyrgðarmenn þessarar yfirlýsingar erum ekki að mótmæla því að lífeyrissjóðirnir komi að endurreisn atvinnulífsins...".

Lífeyrissjóðirnir eiga ekki að vera að taka neina áhættu í atvinnurekstri hvort sem er til "góðra" eða "slæmra" verkefna. Þeirra hlutverk er að ávaxta peninga okkar sjóðsfélaga á tryggan hátt og ekkert annað. Hvort sú ávöxtun er erlend eða innlend skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að peningarnir séu öruggir og með góðri ávöxtun.

 Í sáttmálanum sem þú vísar til má finna eftirfarandi:

Í grein 4. Framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu sáttmálanum stendur m.a. þetta (og hef ég strikað undir og feitletrað það sem mér þykir athyglisverðast): "Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir sbr. minnisblað vegna verklegra framkvæmda dags. 16.06.2009 o.fl. með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009."

Í grein 9. Málefni lífeyrissjóða stendur hins vegar: "Að óbreyttu hvílir sú lagaskylda á sjóðunum að endurskoða fjármögnun þeirra og/eða skerða réttindi sjóðsfélaga. Aðilar eru sammála um að gera ráðstafanir til að unnt sé að fresta slíkum ákvörðunum að sinni á meðan unnið er að heildarendurskoðun."

Þetta verður varla skilið öðru vísi en að menn séu meðvitaðir um lagaskyldu sjóðanna en séu allir af vilja gerðir að trufla það og tefja að þeir sinni henni. Og hvenær lagaskylda er lagaskylda og hvenær hún "hvílir að óbreyttu" þætti mér fróðlegt að vita og hver munurinn er á lagaskyldu og "lagaskyldu að óbreyttu". Þetta þykir mér vægast sagt heldur skuggaleg áform.

Þetta hafði Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða að segja í ávarpi á aðalfundi Landssamtakana nú í vor:

"Stjórnvöld óskuðu eftir aðkomu lífeyrissjóðanna við upphaf bankakreppunnar og fóru fram fundir forystusveitar lífeyrissjóðanna með nokkrum ráðherrum í Ráðherrabústaðnum föstudaginn 3. október og laugardaginn 4. október sl. Erindi stjórnvalda var að óska eftir því að sjóðirnir flyttu heim um 50% af erlendum eignum sínum að verðmæti á þáverandi gengi um 250 milljarðar króna. Boðað var til mjög fjölmenns fundar á vegum LL fyrr á laugardeginum áður en haldið var á fund ríkisstjórnar nýjan leik. Sjóðirnir tóku vel í þessa málaleitan stjórnvalda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í ályktun. Ekki reyndi þó á þennan velvilja lífeyrissjóðanna þegar í ljós kom að morgni mánudagsins 6. október sl. að vandi fjármálafyrirtækjanna var mun meiri en reiknað hafði verið með."

Arnar og kó voru semsagt tilbúnir í -og virðist þykja leitt að hafa ekki fengið að framkvæma þennan "velvilja"- að taka heim 250 milljarða og henda þeim í bankasukkið rétt áður en allt hrundi og gengi krónunar féll með 50% sem hefði þýtt að 125 milljarðar af þessum peningum hefðu horfið á einu bretti. Og þessir sömu menn sitja enn við stjórnvölinn í lífeyrissjóðunum og virðast ekki sjá neitt athugavert við þetta heldur á að grípa það tækifæri sem gefst núna til að henda lífeyrissjóðnum okkar í atvinnubótavinnu í hagkerfi sem er hrunið og með ónýtan gjaldmiðil, sem eingöngu er hlegið að erlendis og fæst ekki einu sinni skipt.

Jón Bragi Sigurðsson, 10.2.2010 kl. 18:30

2 identicon

Sæl Rakel,

Það voru ekki stóriðjufyrirtækin sem komu Íslendingum í þann vanda sem steðjar að okkur núna.

Það voru þjófagengi sem sölsuðu undir sig bestu fyrirtæki Íslendinga og átu þau upp að innan.

Við þurfum bara að horfast í augu við þann vanda sem steðjar að okkur Íslendingum.

Við erum fá, við höfum ekki úr mörgu að velja.

Ef Íslendingar hafa ekki atvinnu, þá flytjast þeir frá Íslandi.

Við Íslendingar höfum ekki verið stórtækari en aðrar þjóðir í að nota okkur þær auðlindir sem við eigum.

Erlendis má sjá vindmillur út um allt, stórar rafstöðvar, kjarnorkuver o.fl.

Raforkumöstrin okkar eru falleg í samanburði !!!

Við getum ekki leyft okkur að nýta okkur ekki þau tækifæri sem bíða okkar á sviði stóriðju.

Það eru aðilar, sem vilja byggja álver á Íslandi núna, og við eigum að grípa þau tækifæri.

Þetta er ekki skammtímasjónarmið !

Horfðu á Álverið í Straumsvík.

Það var tekið í notkun 1970, og hefur verið lyftistöng Hafnarfjarðarbæjar síðan þá !

Þarna hafa verið störf sem aðallega eru mönnuð af Íslendingum og afvegaleidd störf eru fjölmörg.

Við þurfum á fleiri störfum að halda og þau er ekki hægt að skapa með því að fjölga störfum í opinbera geiranum.

Störf í opinbera geiranum, skapa engin verðmæti og geta aldrei orðið nægilega mörg og náð til þeirra staða sem þurfa helst á atvinnutækifærum að halda.

Að mínu mati þurfa margir umhverfisverndarsinnar að setja byrjunarpunktinn á nýjan stað !

Við getum hugsað vel um landið okkar og haft stóriðju !

Sól (IP-tala skráð) 10.2.2010 kl. 18:42

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jón Bragi, þú ert eitthvað að misskilja mig og má vera að ég kveði ekki nógu skýrt að orði. Þegar ég segi „við sem erum ábyrgðarmenn þessarar yfirlýsingar erum ekki að mótmæla því að lífeyrissjóðirnir komi að endurreisn atvinnulífsins“ þá er ég að vísa til þess að við erum á móti því að lífeyrissjóðirnir kosti stórframkvæmdir af því tagi sem stöðguleikasáttmálinn telur upp.

Ég ætla að skoða þetta orðalag svolítið betur og reyna að lagfæra það svo það misskiljist síður en meiningin var sú að reyna að koma því á framfæri að við setjum okkur ekki upp á móti því að lífeyrissjóðirnir láni fé til nauðsynlegrar uppbyggingar.

Ég tek hins vegar undir með þér að mér finnst slík lánastarfsemi vera mjög varhugaverð. Þeir sem þykjast hafa vit á því hvernig peningar ávaxta sig hafa bent á það að það að lána þessa peninga sé til að ávaxta þá. Ég hef reyndar spurt mig hvernig lífeyrissjóðirnir ávöxtuðu sig hér áður fyrr. Má vera að þeir hafi lánað atvinnuvegunum peninga þó ég hafi ekki verið mér meðvituð um það.

Hins vegar hafa vega-, virkjana- og stóriðjuframkvæmdir sannað sig í því að vera afar lélegar til ávöxtunar. Grænmetisver, þ.e. stórt gróðurhús eins og það sem sumir hafa bent á að væri miklu nær að reisa á Húsavík en álver, er hins vegar þjóðfélagslega hagkvæmt og myndi m.a. skila peningum. 

Mér þykir þess vegna allt annað ef það væri skoðað að lífeyrissjóðirnir myndu styrkja atvinnuuppbyggingu af slíku tagi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.2.2010 kl. 19:22

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Harpa, ég þarf sennilega ekkert að segja þér það að ég er svo fullkomalega ósammála þér! Það yrði býsna langt mál ef ég ætlaði að rekja það hér lið fyrir lið í hvaða atriðum það er. Frá mínum bæjardyrum séð tekur það alltof langan tíma til að það borgi sig.

Ég er hrædd um að útkoman yrði líka eins og tvær lífverur af sinni reikistjörnunni hvor reyndu að skipast á skoðunum. Það er mjög hæpið að þær næðu því einu sinni að skilja tungumál hvor annarrar þó þær væru allar að vilja gerðar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.2.2010 kl. 19:49

5 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Takk fyrir svarið. Mitt viðhorf er alveg á hreinu. Lífeyrissjóðirnir eiga ekki að lána einum eða neinum nema að það sé um leið trygg og örugg fjárfesting. Þetta eru engir sjóðir sem eiga að lána til svo kallaðra "góðra verka"eða "taka þátt í uppbyggingu". Það er einfaldlega ekki hlutverk þeirra.

Jón Bragi Sigurðsson, 10.2.2010 kl. 19:58

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég vona að þú finnir þig í að skrifa undir texta yfirlýsingarinnar inni á kjosa.is þó þar sé eingöngu verið að mótmæla því að lífeyrissjóðirnir taki þátt í að kosta þær stórframkvæmdir sem stöðugleikasáttmálinn gerir ráð fyrir. Það er a.m.k. byrjun og/eða viðleitni til að hafa áhrif á það hvernig lífeyrissparnaðinum verður ávaxtaður og/eða ráðstafað.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.2.2010 kl. 20:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband