Fyrst þarf að leggja grunn að því að skapa hér traust

Vandamálin sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir núna eru margvísleg en ef grannt er skoðað grundvallast þau sennilega flest á spurningum sem varða traust. Þ.e. hverjum er treystandi? og hvaða afleiðingar hefur það að treysta? Þessar spurningar varða ekki aðeins einstaklingana sem byggja íslenskt samfélag heldur ekki síður opinberar stofnanir. Stofnanir sem standa frammi fyrir því stóra verkefni að byggja upp glatað traust!
TraustÍ hruninu, haustið 2008, opinberaðist það allri þjóðinni að þeir sem fóru með peningavaldið í landinu höfðu misnotað aðstöðu sína og lagt skyldur sínar til hliðar. M.ö.o. þeir höfðu brugðist þeim sem byggðu afkomu sína á því að það mætti treysta eigendum banka og annarra fjármálastofnana í landinu til að fara með sparifé þeirra ekki síður en lánaskuldbindingar.

Þær stofnanir sem áttu að hafa eftirlit með bönkunum brugðust líka! Þeir sem stýrðu þessum stofnunum brugðust gjörsamlega trúnaðinum við íslenskan almenning. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að afleiðingarnar urðu algert hrun...

Spurning um traustTölurnar i töflunni hér að ofan eru prósentutölur. Þær eru fengnar úr könnun Capacent sem var gerð á tímabilinu 23. apríl - 4. maí 2008 og 10. - 24. júní 2009. Spurningin var hversu mikið eða lítið traust berð þú almennt til... (Sjá gæru nr. 4 í glærupakkanum sem er að finna hér. Ég bendi líka á þessa slóð Edelman's Trust Barometer til að fá einhvern samanburð við önnur lönd varðandi einhverjar af niðurstöðunum hér að ofan)
 
Það sem vekur sérstaka athygli við þessar niðurstöður er hið algera gengishrun sem hefur orðið á trausti til fjölmiðla, stjórnvalda og viðskiptalífs! Þegar forsendurnar eru skoðaðar ætti þetta þó ekki að koma neinum á óvart. En þó þessar tölur komi e.t.v. fáum að óvörum þá sýna þær þróun sem er ástæða til að Er fjölmiðlum treystandi?taka til mjög alvarlegrar athugunar!
 
Niðurstöðurnar sýna ekki bara þverrandi traust á stofnanir samfélagsins. Þær bera fyrst og fremst vitni um þann alvarlega trúnaðarbrest sem hefur orðið í íslensku samfélagi. Hrunið leiddi það nefni- lega í ljós að það var ekki aðeins viðskiptalífið og stjórnvöld sem brást heldur fjölmiðlarnir líka. Í reynd stóðu margir frammi fyrir því að hafa verið hafðir að fíflum með vel skipulögðum blekkingarleik allra þriggja!
 
Í tæplega eitt og hálft ár höfum við öll, á einn eða annan hátt, verið að takast á við staðreyndirnar sem hrunið leiddi í ljós ekki síður en afleiðingar þess. Á stórmerkilegum fyrirlestri sem ég var viðstödd á dögunum sá ég þessa glímu þjóðarinnar í nýju ljósi.
 
Fyrirlesturinn fjallaði þó aðeins óbeint um afleiðingar efnahagshrunsins. Yfirskrift hans var Samskipti á krossgötum. Fyrirlesarinn var Ægir Már Þórisson sem er mannauðsstjóri hjá Capacent og framkvæmdastjóri ráðjafjasviðs þess líka. (Glærur hans frá þessum fyrirlestri má nálgast hér).
Vitsmunir og tilfinningar takast á
Ægir byrjaði á að benda á það að við erum ekki bara vitsmunaverur heldur tilfinningaverur líka! Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum eins og þeim sem steðja að okkur núna þá má þetta ekki gleymast! Mörg okkar hafa eflaust reynt að glíma við allar þær spurningar sem helltust yfir þjóðina haustið 2008 með afar misjöfnum árangri.
 
Enn þá fleiri hafa þurft að takast á við tilfinngar vonbrigða og svika sem uppgötvuðust þegar við hrunið en það hefur því miður ekki orðið neitt lát á upplýsingum sem ýta undir tilfinngar um  ósann- girni og grafa enn frekar undan trausti til margra mikilvægustu stofnana samfélagsins.
 
Tilfinningarnar sem Ægir Már Þórisson sagði að afleiðingar efnahagshrunsins kölluðu fram í fólki eru þessar:
  • ótti og óöryggi 
  • reiði og pirringur.
  • doði og depurð.
  • ósanngirni, svik og vantraust (sjá glæru nr. 3 hér)
Þetta hefur ekki aðeins afleiðingar inni á vinnustöðum, sem var það sem fyrirlestur Ægis snerist um, heldur ekki síður úti í samfélaginu og síðast en ekki síst á samvinnu og samskipti almennings gagnvart þeim opinberu stofnunum sem glötuðu trausti þjóðarinnar við hrunið fyrir rúmu ári síðan.

Þegar traustið er hrunið tekur langan tíma að byggja það upp aftur. Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir umfangsmiklu endurreisnarverkefni og til að takast á við það þarf samvinnu. Grundvallarforsenda hennar er traust! Traust er nefnilega lykillinn að samvinnu og heilbrigðum samskiptum.
Formúlan að lýðræðiEr verkefnið sem þjóðin stendur frammi fyrir framkvæmanlegt? Ríkir ekki alltof mikil tortryggni og ágreiningur á milli andstæðra sjónarmiða til að það sé hægt að leysa það? Hafa stofnanir samfélagsins ekki brugðist okkur almenningi svo gjörsamlega að það er tómt mál að tala um samvinnu við þær? Ég ætla að halda áfram að yfirfæra það sem kom fram í fyrirlestri Ægis Más Þórissonar yfir á þær aðstæður sem blasa við í íslensku samfélagi um þessar mundir. Hún leiðir reyndar líka að mikilvægum punkti varðandi það að svara spurningunum hér á undan.
 
Ægir sagði að uppbyggilegur ágreiningur snerist um það að gera skil á milli málefnis og tilfinninga. Hann sagði jafnframt að óttinn við persónuleg átök mætti ekki koma í veg fyrir það að rýnt sé niður í málin þar sem slíkt væri nauðsynlegt. Það gæti hins vegar reynst hollt að setja mörk um það hvernig ætti að eiga við þann ágreining sem þyrfti að leysa.
 
Í þessu sambandi benti hann á að til að ná samstöðu eða komast að sameiginlegri niðurstöðu skiptu viðhorfin höfuðmáli. Til að skýra betur það sem hann átti við brá hann upp eftirfarandi mynd:
Mismunandi viðhorf í samskiptum(Sjá glæru hans nr. 7 hér)
 
Mér fanst sérstaklega athyglisvert það sem kom fram í máli Ægis varðandi hliðrunina. Samskipti sem einkennast að hliðrun lýsa sér þannig að aðilar forðast að takast á við það sem ágreiningurinn snýst um. Þetta viðhorf til samskipta einkennast að því að finna sér aðrar leiðir til að „díla“ við málin og því að láta aðra um að taka á málunum. 
 
Þegar upp er staðið er samvinna árangursríkasta samskiptaaðferðin en hún er líka tímafrekust. Grundvöllur allrar samvinnu er auðvitað traust en hugarfarið skiptir líka miklu máli. Til að ná sem bestum árangri getur verið gagnlegt að aðilar byrji á því að setja niður fyrir sér sameiginleg markmið. Þeir þurfa líka að koma sér niður á  það: Hvað skiptir raunverulega máli og hvaða hagsmunir mega víkja í þeim tilgangi að ná fram þeim sem skipta meira máli?
Traust skiptir máli!
 
Þegar ég horfi á íslenskt samfélag er ég ekki viss að þeir séu nægilega margir sem hafa áttað sig á því hvar á að byrja áður en hafist er handa. Það liggur auðvitað í augum uppi að þær stofnanir sem hafa glatað trausti almennings ættu fyrir löngu að vera búnar að setja það niður fyrir sér hvað eru nauðsynlegar aðgerðir til að ávinna sér það aftur.
 
Þeir einstaklingar sem sækjast eftir völdum geta ekki búist við að ná árangri nema með samvinnu við almenning. Þeir þurfa þess vegna að byrja að átta sig á því að sameiginlegt markmið hlýtur að vera það að byggja hér upp traust svo samvinnan við lausn þeirra brýnu verkefna sem liggja fyrir geti hafist! 

mbl.is Verður að ná niður hallarekstri ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er í tilvistarkreppu, ég ætlaði að skipta um banka og tryggingarfélag um áramótin.  En ég fæ mig ekki til þess, ég held að sama svínaríið sé í öllum bönkunum og tryggingarfélögunum.  Ég treysti fáum og finnst mér allir vera að svíkja mig, ég fékk hringingu frá tryggingarfélagi í vikunni og gat ég ekki svarað hvort ég vildi láta athuga hvort ég gæti sparað með einhverri tryggingarráðgjöf.  Ég vil að við þjóðin tökum okkur saman og mætum ekki til vinnu í einn dag, svona allsherjarverkfall í einn dag til þess að sýna stjórnvöldum að við getum gert það sem til þarf.  Breytinga er þörf, strax. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.2.2010 kl. 03:02

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Skil þig svo vel. Ég hef oft fengið upphringingar frá hinum og þessum tryggingaráðgjöfum. Ég furða mig alltaf jafnmikið á því hver borgi þessum rágjöfum laun. Þess vegna hef ég afþakkað svona ráðgjöf og sótt um afslætti á eigin vegum. Ég hef ekki getað séð það að ég hafi tapað neitt á því en ég velti því fyrir mér hvort iðgjöldin séu ekki orðin hærri nú eftir að þessi tryggingaráðgjöf kom til. Það hljóta nefnilega að vera tryggingafélögin sem borga þeim fyrir að smala

Það er eins með bankana. Þeir eru reyndar hættir að bjóða manni á milli en nú væri ég hins vegar til í að skipta en eins og þú segir hvert ætti maður að fara? Þeir eru allir spilltir! Ég vildi að ég gæti unnið fyrir launum án þess að einhver bankastofnun þyrfti að höndla með launin mín sem milliliður milli atvinnurekanda og launþega.

Svo þetta með verkfallsdaginn! Af hverju ekki!? Svona eins og kvennafrídaginn um árið!! Stórkostleg hugmynd sem ég væri til í að taka þátt í að útfæra og undirbúa

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.2.2010 kl. 16:38

3 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Tek undir með þér Rakel um að mikilvægast er að byggja aftur upp traust en þegar nánast enginn stígur fram og biðst afsökunar á mistökum eða gengst við þeim er varla vona á endurnýjun trausts.

Það er nánast engar breytingar að sjá, enn er pukrast fyrir aftan lokuð tjöld og enn eru flokkarnir að moka til sýn fjármuni úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og skipa sína flokksmenn í stjórnunar og áhrifastöður.

Að byggja upp traust er ferli sem krefst heiðarleika og gagnsæis en slíku er varla fyrir að fara enn sem komið er.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 9.2.2010 kl. 23:40

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nákvæmlega! Ég er í raun að benda á að þeir sem stjórna verði að haga sér þannig að við getum treyst þeim. Eins og nú er ástatt er langur vegur frá því að það sé hægt! Það er tómt mál að tala um endurreisn og björgunarstörf ef björgunarmennirnir eru rúnir öllu trausti

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.2.2010 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband