Ég get ekki sagt annað en nei og aftur NEI!

Það er fleirum en mér sem þykir Icesave-málið verða þeim mun yfirgengilegra sem fleira kemur upp á yfirborðið varðandi þessa einkaskuld Björólfanna. Einkaskuld sem mörgum sem fara með völd í samfélaginu er svo yfirgengilega í mun að velta yfir á almenning. Svo yfirgengilega að þeir eru þögulir sem gröfin þegar kemur að stóru spurningunum sem varða þetta mál en belja eins og jötunvaxnar áróðursvélar þegar kemur að því að innprenta þjóðinni að henni beri að standa við skuldbindingar sínar...

Áróðursvélin er svo vel smurð að margir hafa gefist upp á að reyna að setja sig inn í það um hvað málið snýst. Þetta er e.t.v. ekki skrítið þegar það er haft í huga að í hvert skipti sem einhver bendir á lagaleg og jafnvel siðferðisleg vafaatriði varðandi það að íslensku þjóðinni beri að axla þessa skuld rísa upp grimmir varðhundar klíkubræðralagsins sem þrífast á þeirri eiginhagsmunablindu grundvallarreglu að einkaskuldum fjármagnseigendaaðalsins skuli velt yfir á almenning.

Í aðdraganda hrunsins lögðust áróðursvélarnar á eitt um að innprenta þjóðinni það að dýrka svokallaða „útrásarvíkinga“ eins og íslenskt karlalið í hand- eða fótbolta. Furðumargir voru ginkeyptir fyrir þessari markaðsetningu á gírugu og þrautþjálfuðu karlaliði, sem eins og nú hefur komið í ljós, kepptu innbyrðis í því að komast sem lengst í að mala undir sjálfa sig. Þeir svifust einskis í að ná sem lengst heldur léku á stjórnkerfið og lagarammanna enda voru þeir með siðblinda ráðgjafa og þjálfara á sínum snærum sem styrktu þá í að ná því markmiði að fremja og komast upp með hinn fullkomna glæp!

Nú er það undir okkur, þér og mér, komið hvort þeim tekst það eða ekki! Ef við krefjumst réttlætis þá hljótum við að fara fram á það að gerendur hrunsins sæti ábyrðg. Margir reiknuðu eflaust með því að úrslit kosninganna sl. vor yrðu meðal annars liður í því að opna dyr að réttlátu uppgjöri. Langflestir hljóta að hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum þegar það kom í ljós hver túlkun núverandi ríkisstjórnar er á réttlætinu sem samfélagið kallaði eftir.

Hagsmunahópur Myndin hér að ofan er fengin að láni hjá Sigurlaugu Ragnarsdóttur en ég þekki uppruna hennar ekki frekar en hvet ykkur til að skoða það vandlega hverjir það eru sem brosa hér saman út að eyrum svo útkoman kallar á hugrenningatengsl við velheppnaða samstillingu og bræðralag.

Auðvitað má velta því fyrir sér frá ýmsum hliðum hvað ræður því að núverandi ríkisstjórn forgangsraði verkefnum í nákvæmlega sömu röð og sú sem vék í janúar á síðasta ári. Líklegasta skýringin er þó sú að glæpamennirnir sem höfðu hreiðrað svo vel um sig í samfélaginu, að þeir „áttu landið“ og fjármögnuðu stjórnmálamennina, hafi slíkt hreðjatak á stjórnmálamönnunum að þeir sjái ekki út fyrir sjálfheldu spillingarpottsins sem þeir eru dottnir ofan í.

Það er a.m.k. ljóst að það geta ekki verið neinir heilbrigðir hagsmunir sem liggja að baki því að fulltrúar núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar hafa verið fullkom- lega sammála um að eini möguleiki þjóðarinnar til endurreisnar sé að greiða götu fjármagnseigenda og innlendra og erlendra fjármálastofnana. Grunnurinn að því að Icesave-skuldirnar, sem örlátur styrktaraðili velflestra þingmanna sat uppi með vegna fífldjarfra fjármálaumsvifa, skuli velt yfir á almennnig var lagður í tíð stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Úrklippan hér að neðan, sem er tekin úr Fréttablaðinu, er athyglisverð fyrir margra hluta sakir en hér er henni ætlað að undirstrika það að grunnurinn að Icesave-samningavandanum var ekki síður skapaður í síðustu ríkisstjórn. (Smelltu á myndina þar til þú getur lesið textann)IcesaveGrunnurinn að því að einkavinur alltof margra sem tilheyra íslenskri valda- stétt eignaðist banka var lagður í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknar- flokks. Og nú hafa Samfylking og Vinstri grænir tekið upp hanskann fyrir þennan  harðsvíraða eiginhagsmunafursta og berjast á hæl og hnakka fyrir því að hann geti áfram haft töglin og haldirnar í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Tilgangurinn er mér hulin ráðgáta. En ég hef þó vissulega velt því fyrir mér hvort hann geti hangið saman við það að „þau verði að gera það“ sjálfra sín vegna. Á móti muni þau njóta áframhaldandi fjárhagslegs stuðnings hans við að viðhalda eigin völdum.

Til áréttingar er aðferðin, sem allir framantaldir reiddu sig á, sú að losa menn af sama sauðahúsi og Björgólfur Thor, við gífurlegar skuldir sínar en láta mig og þig borga þær í staðinn! Ég segi NEI! Hingað og ekki lengra! Ég neita að taka á mig afleiðingarnar af flíruskap nöðrunnar sem íslenska valdastéttin hefur alið sér við brjóst. Ég neita að rýja mig og landið inn að skinni fyrir slíka afætu. Ég neita að beygja mig undir alræmda valdastétt nýlenduþjóða því það mun éta land mitt inn að beini eins og aðrar nýlendur sínar hingað til.
Ísland étið inn að beini
Síðast en ekki síst segi ég nei við því að fjármagnselítan komist upp með það í krafti stjórnvalda að velta sínum einkaskuldum enda- laust yfir á almenning. Það er kominn tími til að þeir taki út fyrir mistökin af vanhugsuðum gróðaaðgerðum sínum sjálfir! Það er kominn tími til að ég og allur almenningur fái frið fyrir slíkum siðvilltum eiginhagsmunaseggjum!

Við erum heldur ekki ein því eins og þeir vita, sem hafa fylgst með umræðunni um þessi mál í erlendum fjölmiðlum, þá treysta margir í alþjóðasamfélaginu á það að við sýnum einmitt það fordæmi að brjótast undan oki þess afætusamfélags sem auðmenn heimsins hafa byggt upp í í kringum sig og sína.


mbl.is Standi saman um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þarna er ég samála þér Rakel það verður barist og ég skal berjast fyrir réttlæti búin að fá mig full saddan af yfirgangi stjórnvalda og afskiptaleysi þeirra af útrásarmönunum eins og þú segir þá hafa þeir greinilega sterk tök á stjórnvöldum og vaða enn uppi lítt á reittir ekki búið að endurheimta svo mikið sem krónu af því sem þeir stálu hvað þar veldur er mér hulin ráðgáta?

Sigurður Haraldsson, 26.1.2010 kl. 00:32

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2010 kl. 00:49

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þarf ekki að finna einhvern góðan tónlistarmann sem getur samið lag, sem við sem erum á móti því að samþykkja IceSlave gætum dreift?  Eða lítið auglýsingarstef? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2010 kl. 01:49

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ertu með textann Segjum nei/ og aftur nei/ segjum nei/ ...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.1.2010 kl. 02:01

5 identicon

Þetta er ein besta samantekt sem ég hef lesið um þetta óreiðumál. Líka á máli sem allir skilja.   

Kjarninn er að mínu mati og eins og þú segir:

"Og nú hafa Samfylking og Vinstri grænir tekið upp hanskann fyrir þennan harðsvíraða eiginhagsmunafursta og berjast á hæl og hnakka fyrir því því að hann geti áfram haft töglin og haldirnar í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Tilgangurinn er mér hulin ráðgáta en ég hef þó vissulega velt því fyrir mér hvort hann geti hangið saman við það að „þau verði að gera það“ sjálfra sín vegna og á móti muni þau njóta áframhaldandi fjárhagslegs stuðnings hans við að viðhalda eigin völdum".

Það sem er grafalvarlegt í þessu er að fjórflokkurinn - Flokkurinn - er samstiltur um að neita þjóðinni í landinu um grundvalarrétt hennar; nefninlega þann rétt að þetta vanskila- og innheimtumál einkahlutafélags feðganna fari í eðlilegan farveg - undir dómsstól sem afgreiðir þetta á faglegan og hlutlausan hátt.   Á þennan rétt hafa lögfróðustu menn landsins ítrekað bent í ræðu og riti.

Ástæða þessa er einfaldlega sú að þessir einstaklingar - gerendurnir - neita að axla ábyrgð á eigin gjörðum - óreiðugjörningunum. Flokkurinn stendur því þétt saman um að varpa klyfjunum yfir á almenning þessa lands og það á ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana.   

Að sjálfsögðu eru félagar Flokksins vanhæfir að fjalla um þetta, eins og margítrekað hefur komið fram. 

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 22:07

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innleggið þitt Hákon! Takk líka fyrir hrósið. Ég get sagt eins og þú, að þetta er eitt besta hrós sem ég hef fengið Ástæðan er auðvitað sú að það undirstrikar einmitt það sem ég var að sækjast eftir að ná.

Mér finnst þú líka gera gott betur. Þú undirstrikar það að allir flokkarnir fjórir standa saman í að verja einkavinina og sjálfa sig í leiðinni. Þú gafst mér líka hugmynd og kjark að nýrri færslu sem ég kemst því miður ekki í að vinna fyrr en í næstu viku. Það verður um sameiginlegt tungumál þessa hóps. Þ. e. fjórflokksins og glæpamannanna.... afsakið, ég ætlaði að segja einkavinanna í íslenskum fjármálaheimi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.1.2010 kl. 01:49

7 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þetta verðu þungur róður í átt til réttlætis þvílík spilling og valdhroki finnst var á nokkru byggðu bóli öðru en okkar litla Íslandi.

Sigurður Haraldsson, 28.1.2010 kl. 02:51

8 identicon

Sæl Rakel, ég hef fjallað um þetta nokkrum sinnum í umræðunni. Þrátt fyrir þetta marga ágæta fólk á alþingi er það vanhæft til að afgreiða þetta og ekki með umboð í afgreiðslu málsins.  Þetta er svo einfalt, en er gert svo flókið, vegna þráhyggju Flokksins að þjóna hinum útvöldu.

Hér kemur umrædd tilvitnun í lögfróðu mennina sem ég minntist á af vef eyjan.is, 

http://eyjan.is/blog/2010/01/25/sigurdur-lindal-og-jon-steinar-aldrei-satt-nema-icesave-fari-fyrir-dom/

... Stjórnmálaflokkarnir eiga að sameinast um þá stefnu að Icesave málið verði lagt fyrir hlutlausan dómstól. Fyrr næst ekki nein sátt um málið hér á landi. Þetta segja þeir Sigurður Líndal lögrfræðiprófessor og Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari í grein í Morgunblaðinu í dag. “Við blasir að aldrei mun nást sátt um lyktir vegna Icesave-reikninganna nema að undangengnum dómi hlutlauss dómstóls sem hefur lögsögu í málinu,” skrifa þeir. Þeir segja að íslenska þjóðin sé ósátt við að á hana verði lagðar hinar þungu fjárhagsbyrðar án þess að hún hafi fengið að njóta réttar til úrlausnar um skylduna til þess fyrir hlutlausum dómstóli, sem lögsögu hefur í málinu.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 07:59

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég get tekið undir þetta með þér. Það er í raun stórundarlegt mál að dómstólaleiðin hafi ekki verið farin strax í upphafi þessa máls. Fyrst hún var ekki farin í tíð fyrri ríkisstjórnar ætti að fara hana nú. Þó forsendurnar væru ekki aðrar en þær að ná sátt um málið!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.1.2010 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband