Mangaðar ræður fluttar á Austurvelli

Á mótmælunum á Austurvelli í gær (23.01.10) voru fluttar tvær magnaðar ræður. Ræðumennirnir sem fluttu þær voru þeir: Jóhannes Björn Lúðvíksson, höfundur bókarinnar Falið vald, og Atli Steinn Guðmundsson, ungur fjölskyldufaðir sem hefur ákveðið að flytja úr landi ásamt fjölskyldu sinni vegna ástandsins og aðgerðarleysis stjórnvalda.

Hér má lesa stórkostlega ræðu Jóhannesar Björns Lúðvíkssonar þar sem hann segir m.a:

Elítan sem hefur hreiðrað um sig í skjaldborginni og sett fólkið út á gaddinn kemst upp með myrkraverk sín í skjóli leynimakks og pukurs sem lengi hefur viljað loða við íslenska stjórnsýslu. Þótt tugþúsundir Íslendinga hafi verið gerðir eignalausir þá heldur leynimakkið áfram. Hvar eru nákvæmir listar yfir alla pólitíkusa sem fengu kúlulán og aðra óeðlilega fyrirgreiðslu frá glæpagenginu sem setti landið á hausinn? Hvers vegna fær fólkið sem verður að borga fyrir glæpinn ekki nákvæmar upplýsingar um hvað bankarnir eru að afskrifa?

Ræða Atla Steins er ekki síður stórkostleg en ég hef ekki fundið hana í jafnaðgengilegu formi hér á Netinu og ræðuna hans Jóhannesar. Ég birti hana því alla en vek sérstaka athygli á þessum orðum hans: 

Ég fylltist öryggistilfinningu þegar Jóhanna steig fram í kosningabaráttunni og lofaði þjóðinni skjaldborg um þær fasteignir sem nú eru á leið undir hamarinn í þúsundatali eftir 1. mars næstkomandi.

Reyndin varð önnur. Skjaldborg Jóhönnu Sigurðardóttur reyndist stærsti gúmmí- tékki íslenskra kosningaloforða og er nú á góðri leið með að verða brandari ársins 2009. Hin týnda borg Samfylkingarinnar, sveipuð dulúð, myrkri og himinháum vöxtum. Í stað þess að hyggja að atvinnulausu fjölskyldufólki á leið í gjaldþrot var stefnan sett til Brussel. Evrópusambandið sem öllu á að bjarga – í fyrsta lagi árið 2012 þegar hér verður löngu sviðin jörð.

Hvet ykkur svo endilega til að lesa ræðuna alla:

Góðir Íslendingar

Náttum fóru seggir
negldar vóru brynjur,
skildir bliku þeirra
við inn skarða mána.

Þetta stutta en firnasterka vísukorn er komið úr Völundarkviðu og lýsir orrustu sem er okkur fjarlæg og óþekkt. Kveðskapurinn á þó vel við hér í okkar samfélagi ársins 2010 þar sem sannarlega hafa seggir farið hér um að næturþeli og búið þjóðinni kaldar kveðjur með ósýnilegu og torskildu hagkerfi sem nú er á góðri leið með að binda íslenska skattgreiðendur á þann klafa sem lengi mun uppi verða.

Mér var boðið að koma hingað í dag og ræða um þá ákvörðun okkar sambýliskonu minnar að flytjast búferlum til Noregs með rísandi sól. Mér rann auðvitað blóðið til skyldunnar og þáði það góða boð enda tel ég mér það ljúft að greina frá forsendum og aðdraganda þeirrar ákvörðunar okkar.

Raunar vorum við orðin nokkuð viss í okkar sök þegar undir lok síðasta sumars um að við stefndum á brottflutning og sennilega værum við farin ætti ég ekki þennan vetur eftir af háskólanámi. Brottför er því ráðgerð í maí.

Okkar val stóð á milli Hollands og Noregs, þeirra tveggja landa þar sem minnst atvinnuleysi er innan Evrópska efnahagssvæðisins, flóknari útreikningar bjuggu nú ekki að baki. Eftir að vinir okkar og kunningjar tóku að flykkjast til Noregs og við fórum að heyra viðbrögð þeirra við norsku samfélagi varð það fljótt ofan á að hverfa þangað enda tungumálið nær okkur og hægara um vik að fá vinnu en í Hollandi þar sem atvinnuleysi hefur aukist nokkuð.

Þá skemmdi það ekki fyrir að vinafólk okkar hefur átt láni að fagna hjá frændum okkar Norðmönnum og ber saman um það að þarna sé komið samfélag sem styðji við bakið á þegnunum og aðstoði þegar á móti blæs.

Reynsla mín hérna heima er sú að þegar á móti blæs, blási stjórnvöld enn meira, og í sömu átt. Ég ætla að gera þá játningu hér og nú, frammi fyrir guði og mönnum, að greina frá því að ég kaus Samfylkinguna í kosningunum vorið 2009. Þau mistök geri ég bara einu sinni á ævinni. Ég trúði Jóhönnu Sigurðardóttur. Félagsmálaráðherrann gamli sem barðist með kjafti og klóm fyrir litla manninn um það leyti sem ég var að fermast.

Ég fylltist öryggistilfinningu þegar Jóhanna steig fram í kosningabaráttunni og lofaði þjóðinni skjaldborg um þær fasteignir sem nú eru á leið undir hamarinn í þúsundatali eftir 1. mars næstkomandi.

Reyndin varð önnur. Skjaldborg Jóhönnu Sigurðardóttur reyndist stærsti gúmmítékki íslenskra kosningaloforða og er nú á góðri leið með að verða brandari ársins 2009. Hin týnda borg Samfylkingarinnar, sveipuð dulúð, myrkri og himinháum vöxtum.
Í stað þess að hyggja að atvinnulausu fjölskyldufólki á leið í gjaldþrot var stefnan sett til Brussel. Evrópusambandið sem öllu á að bjarga – í fyrsta lagi árið 2012 þegar hér verður löngu sviðin jörð.

Hvað er þá orðið okkar starf í sex hundruð sumur, höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg? Mér er það til efs.

Skattar og aftur skattar er hið eina meðal sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna þekkir. Mér reiknaðist til, eftir stutta rannsóknarvinnu, að hæsti leyfilegi virðisaukaskattur innan ESB sé 25 prósent. Hér æða menn í aðildarviðræður og byrja svo á því að taka upp 25,5 prósent virðisaukaskatt. Það er gott veganesti til Brussel.

Góðir Íslendingar.

Viljum við 25,5 prósent virðisaukaskatt?

Viljum við verðtryggð okurlán?

Viljum við nýtt heimsmet í nauðungarsölum?

En … viljum við réttlæti?

Því miður – það er bara ekki á matseðlinum.

Kæru samlandar. Ég verð sennilega hvorki forsætisráðherra né forseti úr þessu. Því er þetta sennilega eina skiptið sem ég fæ að ávarpa svo stóran hóp hér á Austurvelli og mér þykir sannarlega vænt um það tækifæri.

Mér þykir vænt um að fá að segja ykkur frá því að ég ætla að flytja burt af landi mínu áður en hæstvirtur fjármálaráðherra skattleggur sjálft andrúmsloftið.

Mér þykir vænt um að segja ykkur að ég kæri mig ekki um að deila 103.000 ferkílómetrum með mönnum sem fengu að eignast heilan banka fyrir ágóða af dularfullri bruggverksmiðju í Rússlandi. Sannara reyndist þó að kaupféð var fengið að láni frá öðrum banka, er nú horfið í kreppunnar skaut og aldrei það kemur til baka.

Okkur sem hér stöndum er hins vegar ætlað að greiða til baka ofurskuld þessara sömu manna við breska og hollenska sparifjáreigendur sem hafa ekkert til saka unnið annað en að láta glepjast af hinni tæru snilld Landsbankans. Það er ekki öfundsvert hlutskipti að fæðast hér á landi í dag, með tíu milljón króna yfirdráttarheimild – í botni.

Ég skvetti ekki rauðri málningu á hús manna um nætur, ég hef ekki í hótunum við útrásarvíkinga eða hraðlygin stjórnvöld. En ég fer. Þannig kýs ég að sýna mitt álit á þeirri vitleysu sem hér blasir við hvert sem litið er. Eftir endalaust röfl þings og stjórnar um ekki neitt, þar á meðal hvenær þingmenn fái næst matarhlé, er ekkert í sjónmáli. Ekki neitt!

Ég hef engan áhuga á að horfa hér upp á menn á borð við Sigurjón Árnason steypa þjóðinni í mörg hundruð milljarða skuld og fara svo að kenna fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Ekki fannst mér skemmtilegra að lesa um það í fjölmiðlum nú í byrjun janúar að maðurinn lægi á sólarströnd á Kanaríeyjum meðan Íslendingar reyndu af veikum mætti að landa einhvers konar greiðsluáætlun gagnvart Bretum og Hollendingum. Svo ég vitni nú í gamalt og gott dægurlag: Er ekki kominn tími til að sjá og sigra….Sigurjón Árnason?

Enn minni áhuga hef ég á að horfa upp á Björgólf Guðmundsson akandi um götur borgarinnar á 12 milljóna króna jeppa, marggjaldþrota, og Björgólf Thor valsandi um sína mörg hundruð milljóna villu í London.

Hvenær ætla þessir herramenn að bæta þjóðinni þann skaða sem þeir hafa valdið?

Hvenær ætla þeir að segja eitt einasta orð við þjóðina?

Hvenær ætla þeir að opna þá feitu bankareikninga sem þeir eiga á Tortola og fleiri skattaskjólum og bæta þessari og næstu kynslóðum tjónið sem þeir ollu þegar þá vantaði pening til að gefa viðskiptavinum sínum gull að éta einhvers staðar í helvíti?

Hvenær!?!

Ég segi bara eins og Guðmundur jaki heitinn sagði einhvern tímann í ræðu: „Hvílíkur helvítis kjarkur!“

Íslenskir verktakar krefjast hér stórframkvæmda áður en þeir verða hungurmorða. Og nú er lag. Geymum álverin, hátæknisjúkrahúsið og netþjónabúið. Það sem Íslendinga vantar er eitt stórt, rammgert fangelsi í úkraínskum barokkstíl, staðsett á miðhálendinu. Það myndi ég kalla tæra snilld.

Hér stendur hnípin þjóð í vanda og óttast reiði breskra og hollenskra yfirvalda. Var það ekki þessi sama þjóð sem skaut úr fallbyssum á breska togara vorið 1973 og gaf dauðann og djöfulinn í reiði breskra ráðamanna. Ég sé ekki að Gordon Brown sé meiri bógur en Edward Heath og Harold Wilson þótt hann hafi einhver hryðjuverkalög á kantinum. Auðvitað á hver einasti Breti og Hollendingur að fá sitt sparifé til baka, annað tek ég ekki í mál. En greiðslubyrðin má ekki vera þannig að þjóðin sé sigld í kaf. Og þeir sem ábyrgðina bera eiga að leggja allt sitt fé á borðið, hvar sem það er falið.

Eitt er Icesave og annað er sú skuldabyrði sem komin er til af verðbólgu og gengishruni. Þar ættu lánastofnanir vissulega að axla ábyrgð en skjaldborg Jóhönnu og félaga hennar er hins vegar umhverfis þær stofnanir. Mín lán hækkuðu um tæpar 40 milljónir á 16 mánuðum. Í sex mánuði samfleytt hækkaði myntkörfulán frá Frjálsa fjárfestingarbankanum að meðaltali um 77.000 krónur á dag.

Það kemur ekki til greina að ég borgi þessa hækkun. Ekki til að tala um! Þegar lögfræðingur bankans sendi mér bréf til að tilkynna mér um nauðungarsölu kom þar fram að innheimtukostnaður væri 923.107 krónur, fyrir utan virðisaukaskatt. Það er dýrt að skrifa eitt bréf á þessum síðustu og verstu.

Við Íslendingar eigum heimsmet í fleiru en myntkörfulánum, sköttum og bridge. Við eigum nefnilega líka hæsta fílabeinsturn á Vesturlöndum. Þar er komið félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þar situr fyrrverandi bankaráðsmaður úr Kaupþingi og glottir við tönn eins og Skarphéðinn í Njálu.

Þessi maður heitir Árni Páll Árnason og sat nýlega fyrir svörum í þættinum Í Bítið á Bylgjunni. Lítið kom það á óvart að nákvæmlega helmingur þeirra hlustenda sem hringdu inn spurði Árna Pál hvenær hann ætlaði að fara að gera eitthvað í málum þjóðarinnar. Árni sagðist vera búinn að gera alveg fullt og benti á hin miklu greiðslujöfnunarúrræði sín. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að í fyrsta lagi eru úrræði Árna svo flókin að þau skilur ekki nokkur maður og í öðru lagi virðist það úrræði sem lengst gengur, eftir að hagfræðingar þýddu það á mannamál, lækka greiðslubyrði húsnæðislána um 17 prósent. Þetta er nú aldeilis munur, sérstaklega þegar báðar fyrirvinnur heimilisins eru án atvinnu eins og sums staðar er. Hvílíkt björgunarvesti.

Í kvöldfréttum sjónvarpsins á þriðjudag lýsti Árni Páll því svo yfir að engum væri greiði gerður með frekari frestun á nauðungarsölum. Hagur skuldarans væri einfaldlega að klára sín mál gagnvart lánardrottnum. Þar höfum við það. Hæstvirtur ráðherra virðist telja að Ísland skorti fleiri tóm hús í eigu banka og lánastofnana. Gott og vel. Samkvæmt kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær á Landsbankinn einn nú 428 fasteignir sem hann hefur hirt upp í skuldir. Best að fjölga aðeins í því safni.

Árni virðist líka álíta að hér sé bara allt í lukkunnar velstandi og þjóðin sigli hraðan byr út úr ógöngum sínum. Lái honum hver sem vill. Mér fyndist lífið ábyggilega bara fínt ef ég sæti inni á skrifstofu á ráðherralaunum með eðalvagn og einkabílstjóra fyrir utan. Skítt með það þótt atvinnuleysisskrá fitni um 40 manns á dag og fólk streymi frá landinu í leit að þjóðfélagi þar sem það getur lifað með reisn.

Stjórnmálamenn sem hafa aldrei verið starfsmenn á plani verða aldrei réttsýnir stjórnmálamenn. Enginn ætti að fá að gegna embætti félagsmálaráðherra nema að undangenginni námsvist í félagslegri íbúð í Þórufelli með 50 þúsund krónur á mánuði til að lifa af og frítt í strætó og sund. Mér skilst að flugfreyjustarf hjá Loftleiðum gefi líka af sér ágæta félagsmálaráðherra – en það skilar afleitum forsætisráðherra.

Góðir Íslendingar. Síðastliðinn sunnudag, 17. janúar, voru 160 ár liðin síðan skólapiltar úr Lærða skólanum lentu upp á kant við rektor sinn, Sveinbjörn Egilsson. Þeir gengu fylktu liði um götur Reykjavíkur, sem þá var vart nema bær, og hrópuðu „Rektor Sveinbjörn Egilsson, pereat!“ sem á latínu útleggst hann farist eða tortímist.

Núna, 160 árum síðar, ætla ég að snúa pereati þeirra skólapilta upp á ríkisstjórn Íslands. Ekki þá einstaklinga sem hana skipa, en stjórnina sem pólitískt fyrirbæri. Góðir fundarmenn, við skulum hrópa þrisvar sinnum ríkisstjórn Íslands, pereat.

Góðir Íslendingar.

Látum aldrei aftur bjóða okkur upp á þá afarkosti sem okkur eru nú settir!

Látum aldrei aftur einkafyrirtæki í eigu glæpamanna grafa okkur lifandi í skuldum!

Og látum aldrei aftur stjórnmálamenn landsins segja framan í stútfullt Háskólabíó „Þið eruð ekki þjóðin“! Því svo sannarlega erum við sterk þjóð sem gengið hefur fylktu liði gegnum þykkt og þunnt. Þjóð með þjóðum!

Ég segi hingað og ekki lengra og kveð þetta land. Ykkur, samlanda mína, þjáningarbræður og -systur, hvet ég og kveð með þessum orðum:

Íslendingar, stöndum upp!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Gott að við erum farin að sjá í gegnum "þokuna". ~ ~ (((O))) ~ ~

http://www.youtube.com/watch?v=Q3zJm98UXzQ&feature=player_embedded

Vilborg Eggertsdóttir, 24.1.2010 kl. 13:41

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér kærlega fyrir ábendinguna á myndbandið. Virkilega fallegt myndband! Stel þessu úr athugasemdunum við það til að lýsa tilfinningum mínum eftir áhorfið: „It is very soothing and strengthens my hope yet more“

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.1.2010 kl. 14:07

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þær eru alltaf jafn hugvekjandi færslurnar hjá þér Rakel. 

Ræðurnar eru magnaðar, ég var það heppin að lesa bókina hans Jóhannesar Björns, Falið vald, þegar hún kom fyrst út og ætið fylgst með vefnum hans www.vald.org.  Sú sýn sem Falið vald gefur á heiminn hefur mótað mína afstöðu alla tíð.  Meira að segja svo að krakkarnir mínir töluðu um að ég væri fullur af samsæriskenningum þar til hrunið varð.  Þá fékk ég spurninguna Pabbi hvernig vissirðu þetta. 

Ræðan hans Atla er einlæg og segir meira en þúsund orð.  Margt af mínu kunningjafólki og samstarfsmönnum í gegnum tíðina yfirgaf Ísland s.l. haust og flutti til Noregs þannig að hugrenningar Atla koma ekki á óvart.  Eitt er ég þó hissa á, en kannski er það vegna aldurs Atla, að hann hafi ekki gert sér rein fyrir hvers mátti vænta af ríkisstjórn Jóhönnu.  Sannleikurinn er sá að Jóhanna var afleitur félagsmálaráðherra á árum áður um það vitnar húsbréfakerfið þar voru almenningur settur á markað með sitt húsnæði markað sem hinn venjulegi maður hefur engar forsendur til meta.  Til upprifjunar þá fóru afföllin á húsbréfunum hæðst í 26% á árunum 1990 - 1996. 

Svo vil ég þakka Vilborgu fyrir að benda á þetta fína myndband, þarna eru sannleikskornin í hverri setningu.

Magnús Sigurðsson, 24.1.2010 kl. 22:04

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Kvitt, þú klikkar ekki frekar en fyrri daginn.  Ræðurnar voru frábærar, hjá báðum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.1.2010 kl. 01:13

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er líka virkilega hugvekjandi að fá svona kveðjur frá þér Magnús Það gleður mig líka fyrir þína hönd að börnin þín hafi áttað sig á því að pabbi þeirra var ekki fullur af samsæriskenningum heldur raunsæi og því sem er jafnvel enn betra, gagnrýnni hugsun

Samfylkingin fékk góða kosningu við síðustu kosningar, ekki síst í ljósi þess að hún tilheyrði stjórninni sem var hrópuð niður í janúar á síðasta ári. Það var ljóst þá að margir treystu Jóhönnu. Sumir gera það m.a.s. enn þrátt fyrir allt. Mér finnst Atli Steinn heiðarlegur að viðurkenna blint traust sitt og vona að það verði til þess að fleiri hafi hugrekki til að opna augun og horfa framan í nakinn sannleikann um það hvernig farið er með traust þess.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2010 kl. 02:06

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég á þetta hrós ekki skilið frá þér Jóna Kolla en takk samt Ef þú verður á mótmælunum n.k. laugardag þá vona ég að þú finnir mig undir fíflafánanum og heilsir upp á mig!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2010 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband