Hann hefur lög að mæla!

Hann heitir Guðbergur Egill Eyjólfsson og skifaði þessa fantagóðu grein sem birtist á Smugunni í gær (11. janúar). Grein sem allir ættu að lesa!

Grípum tækifærið!

gudbergur-egill-eyjolfsson.jpgKínversk bölbæn segir: „Megir þú lifa áhugaverða tíma“. Við lifum svo sannarlega áhugaverða tíma og það er að miklu leyti undir okkur komið hvernig spilast úr aðstæðum. Til góðs eða ills. Hitamálið þessa dagana er hin umdeilda ákvörðun forseta Íslands að neita undirskrift laga um Icesave samningana.

Hér hafa skapast óvanalegar aðstæður að því leyti að búið er að færa ákvarðanatöku sem varðar yfirgang og óréttmæti hins alþjóðlega kapítalíska hagkerfis frá stjórnvöldum og yfir til fólksins sjálfs. Þetta er það sem valdaelítan hræðist hvað mest. Að fólkið sjálft fái að taka ákvarðanir. Enda einkenndust fyrstu viðbrögð erlendis frá af miklu offorsi bæði vegna hneykslan valdhafanna en einnig og aðallega til þess að reyna að hræða líftóruna úr íslenskum almenningi og þar með hafa áhrif á ákvarðanatöku þeirra.

Hvort sem okkur líkar þessi staða betur eða verr er mikilvægt að spila sem best úr aðstæðunum.   Ríkisstjórnin ætti að leitast við að kynna málstað Íslands á opinberum vettvangi og sýna um leið fram á hve kerfið sjálft er gallað og óréttlátt. Ríkisstjórnin ætti umfram allt að forðast að  hella sér út í harðvítuga kosningarbaráttu gegn þeim hluta þjóðarinnar sem hafna vill samningnum og kljúfa þar með samstöðu þjóðarinnar út á við. Sama hver niðurstaðan verður ætti ríkisstjórnin að sitja áfram og vinna úr þeim aðstæðum sem úrslit atkvæðagreiðslunnar hefur í för með sér.

Það að við bjóðum alheimskapítalismanum byrginn getur ef til vill verið okkar verðmætasta gjöf til þróunarmála sem hugsast getur. Að sýna að lýðræðið, fólkið sjálft, geti stöðvað óréttlætið og vonandi gefið fátækum þjóðum sem hnepptar hafa verið í skuldafen Vesturlanda einhverja von. Okkar viðspyrna í þessu máli skiptir engu máli peningalega fyrir þær þjóðir sem við deilum nú við. Það er kerfið sjálft sem liggur undir og þetta er óréttlátt kerfi. Nú er heimurinn að fylgjast með málinu og við sem aðhöllumst vinstri stefnu njótum þá þeirra forréttinda að geta sýnt fram á ósanngirni kerfisins og ef til vill stuðlað að breytingum í sanngirnisátt.

Nú er lýðræðið í ferli og vonandi segir fólkið nei við lélegum og ósanngjörnum samningi. Vonandi segir fólk nei við lélegu og ósanngjörnu kerfi. Við vitum að þetta getur verið efnahagsleg áhætta en barátta við ill öfl er aldrei án áhættu. Þegar ég tala um ill öfl á ég ekki endilega við Breta og Hollendinga heldur kerfið sjálft. Ég spyr mig: „Erum við vinstri menn eða ekki? Berjumst við fyrir réttlæti eða ekki?“

Það er ef til vill rétt að það er best til skamms tíma fyrir fyrirtækið Ísland að taka þessum samningi þegjandi og hlóðalaust. En er það réttlátt? Við verðum að spyrja okkur fyrir hvað við erum að berjast. Erum við eingöngu að berjast fyrir krónum og aurum fyrir Ísland eða erum við að berjast fyrir réttlæti. Og þá réttlæti fyrir alla sem beygðir eru undir ok og óréttlæti  kapítalismans. Hér er ef til vill einstakt tækifæri fyrir vinstri menn að bjóða kapítalismanum byrginn svo eftir verður tekið. Við höfum verið efst í fæðukeðjunni um áratugaskeið í skjóli Bandaríkjanna og ættum með baráttunni að rétta þeim, sem neðstir eru í keðjunni, og halda kerfinu uppi, hjálparhönd. Það gerum við með viðspyrnu við kapítalismann.

Það sem verið er að óskapast yfir ákvörðun forsetans sem er  þó eitt af baráttumálum VG í framkvæmd. Það er á stefnuskrá flokksins að undirskriftir 15-20 % atkvæðisbærra manna geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig að hneykslun á ákvörðun forsetans af hálfu vinstri manna er hneykslun á baráttumáli eigin flokks. Ef þetta baráttumál flokksins hefði verið komið til framkvæmda hefði það sama gerst en þá bara án milligöngu forsetans.

Ef við sannarlega getum haft áhrif á alþjóðakapítalismann þá eigum við að grípa tækifærið. Sökin á skuldum okkar er lélegar reglur bæði hér og erlendis, græðgi og firring einstaklinga. Stærsta sökin er þó hið alþjóðlega kapítalíska fjármálakerfi og sú staðreynd að peningar eru í forgrunni alþjóðasamskipta en ekki hagsæld fólksins. Því til sönnunar er að í veröldinni eru nægar auðlindir öllum til handa ef þeim væri dreift af sanngirni og þær nýttar á þeim stöðum sem þeirra er þörf. Sú er ekki raunin og Vesturlönd njóta þess í stað gæða þriðja heimsins með bros á vör. Þar með taldir Íslendingar.

Erlendir fréttamiðlar hafa æ meir snúist á sveif með Íslendingum eftir því sem frá líður synjun forsetans. Við verðum að fá almenningsálit umheimsins enn frekar í lið með okkur. Það er hægt ef forystumenn okkar leggja í baráttuna.

Ríkisstjórnir undangenginna ára voru samþykkar þessu kerfi og sú ríkisstjórn sem nú situr og kennir sig við vinstri stefnu ber skylda til þess að berjast gegn kapítalismanum. Almenningur verður að því virðist að borga þessa Icesave-skuld á einn eða annan hátt en við skulum reyna að lágmarka skaðann og umfram allt að hafa þetta síðustu skuld þjóðarinnar í þessa veru. Við verðum að breyta kerfi okkar á þann hátt að annað hvort banni ríkið starfsemi einkabanka á Íslandi eða ábyrgist eingöngu ríkisbanka. Ríkisbanka sem eins og aðrir bankar hugsar aðeins um hag eigenda sinna sem yrðu í þessu tilfelli, góðu heilli, þjóðin sjálf.

Guðbergur Egill Eyjólfsson

Formaður svæðisfélags VG á Akureyri og nágrenni

 


mbl.is Mjög gott skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Frábær grein í alla staði en það er einmitt kerfishrunið og þar með valdið yfir fátækari þjóðum sem þessi ofurvaldsríki hræðast við að missa. Þessi IceSave upphæð er bara "klink" fyrir þá er það er kerfið sjálft sem þeir eru að verja.

Halla Rut , 12.1.2010 kl. 01:55

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.1.2010 kl. 01:59

3 Smámynd:

Góð grein. Takk fyrir að benda á hana.

, 12.1.2010 kl. 15:41

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þið megið gjarnan taka þátt í því með mér að vekja athygli á henni

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.1.2010 kl. 17:27

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Búin að lesa hana þetta er erfitt spillingin er með ólíkindum innan stjórnarflokkana einnig í stjórnarandstöðunni það eina sem við getum gert er að stokka upp á nýtt stjórnkerfið okkar er í molum. Í fréttum sem okkur berast er það komið í ljós að um pólitík er að ræða þegar að icesave kemur bæði í Bretlandi og Hollandi það er sorglegt en staðreynd að við erum komin í pólitískt stríð við bæði Breta og Hollendinga, það sem ég segi er að við skulum verjast ekki gerir stjórnin það fyrir okkur.

Sigurður Haraldsson, 14.1.2010 kl. 02:04

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Maðurinn sem Ísland þarf á að halda - fundinn. Alþjóðlegur sérfræðingur í skuldaskilum ríkja, tjáir sig um vanda Íslands, og er harðorður!

Ég er að tala um frábæra grein, Prófessors Sweder van Wijnbergen, við háskólann við Amsterdam, í NRC Handelsblad. Sá maður er einmitt, sérfræðingur í skuldaskilum ríkja. "Sweder van Wijnbergen - worked for 13 years at the World Bank, and was lead economist for Mexico and Central America during the negotiations on Mexican debt."

Svo þessi maður, veit allt sem vita þarf, um afleiðingar skuldakreppu! Hann þekkir þessi mál út og inn, fyrst hann var starfandi hjá Heimsbankanum, einmitt á þeim árum, er mörg lönd í 3. heiminum, gengu í gegnum fræga skuldakreppu

Sjá greinIceland needs international debt management

Þetta er að mínum dómi, merkilegasti einstaklingurinn sem tjáð sig hefur opinberlega um málið, og fullyrðing hans "A debt of three or four times GDP cannot be repaid, and therefore will not be repaid" - skal skoðast sem hreinn sannleikur máls, fyrst það kemur frá honum.

Prófill Sweder van Wijnbergen

Fáum þennann mann til landsins!!!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.1.2010 kl. 12:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband