Andlegar pyntingarbúðir

Sjálf er ég vön að vinna undir miklu álagi innan um fleiri sem eru líka undir sama álaginu. Ég ætla ekki að fara út í það neitt nánar að lýsa aðstæðum mínum eða ástæðum umrædds álags. Hins vegar tek ég þetta fram til að undirstrika það af þessum ástæðum þekki ég mjög vel hvaða áhrif mikið álag hefur á bæði mig og aðra.

Álag dregur auðvitað fyrst og fremst úr andlegu atgervi manna og þess vegna furða ég mig meir og meir á því starfsumhverfi og vinnutíma sem þingmönnum okkar er boðið upp á þessi misserin. Ég viðurkenni það að ég hef ekki fylgst jafnnánið með þingstörfum í gegnum tíðina og ég hef gert frá því ríkisstjórn Ingibjargar Sólrúnar og Geirs H. Haarde sá sig tilneydda til að segja af sér. Ég tel mig þó hafa fylgst nógu vel með til að geta fullyrt það að aldrei hefur vinnuálagið verið jafnviðvarandi og langdregið og frá því ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu tók við.
Úrvinda
Nú er ég ekki að kenna þeim einum um það hvernig starfsumhverfi þingmanna hefur þróast. Langt því frá en það er óvéfengjanlega í þeirra valdi að grípa í taumana. Það er nefnilega morgunljóst að það er ekki hagur þjóðarinnar að þingheimur sé þreyttur til andlegrar deifðar og meðvitundarleysis gagnvart öllu öðru en þeim þrætueplum sem ríkisstjórnin hefur sett í forgang.

Það væri kannski öllu nær að kalla Icesave-málið þreytuepli því óhófið í vinnuálaginu, sem lagt er á þingmenn í skjóli þess, er þvílíkt að engu er líkara en það sé einmitt tilgangurinn að þreyta þingheim til hlýðni! Nú eða meðvitundar- leysis því á meðan allur krafturinn er soginn úr þingmönnum í endaleysunni sem allur málatilbúnaðurinn í kringum þetta efni er þá gerast válegir hlutir úti í samfélaginu sem væri miklu nær að þjóðarþingið beindi kröftum sínum að.

Í skugga þreytueplisins, sem Icesave-málið lítur út fyrir að vera, þá blæðir heimilum landsins. Fólk gefst hreinlega upp og flytur úr landi, skilur eftir sig íbúðirnar sínar og stundum bílana líka. Matarbúr Fjölskylduhjálparinnar tæmast, fyrirtæki fara á hausinn, erlendir kröfuhafar eignast bankanna, viljayfirlýsingar varðandi það að lífeyrissjóðirnir fjármagni stórframkvæmdir í áframhaldandi virkjana- og stóriðjuuppbygingu eru undirritaðar svo fátt eitt sé talið sem ógnar íslensku samfélagi og þegnum þess þessa dagana.

Gleymd þjóðÞegar ég horfi upp á þingmenn sem reyna að berjast fyrir því að Icesave-málið fái þá meðferð sem þjónar hagsmunum Íslendinga, meðferð sem tekur mið að því að við búum í sjálfstæðu lýðræðisríki rétt eins og Bretar og Hollendingar, þá finn ég til. Ég finn til vegna þess að ég þekki einkenni álagsins sem þeir eru þrúgaðir af. Álagið sem stafar af kringumstæðunum sem þeim hafa verið búnar.
 
Þeir eru að allan liðlangan daginn og gjarnan um helgar líka. Það er alveg sama hvað þeir reyna að höfða til skynsamlegs réttlætis. Allt slíkt er slegið út af borðinu með þvergirðingslegri og glórulausri einstefnu sem er á skjön við allt sem heitir heilbrigð skynsemi. Í hvert sinn sem einhver vonarpera er kveikt er hún slökkt jafnóðum aftur. Þeir sérfræðingar sem eru kallaðir til eru í fæstum tilfellum aðrir en þeir sem tilheyra réttum söfnuði.
 
Margir stjórnarandstöðuþingmenn og reyndar einhverjir sem tilheyra stjórninni líka eyða ómældum tíma og kröftum í það að blaða í gegnum skýrslur og nefndarálit og m.a.s. kynna sér álit utanaðkomandi aðila til að freista þess að ná inn einhverri glóru í umræðuna en allt kemur fyrir ekki. Þeir sitja m.a.s. undir svívirðingum og aðdróttunum af ýmsu tagi bæði frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar og áhaggendum hennar utan þings. Hver myndi ekki finna fyrir álagi við þessar aðstæður!
 
Ef við lítum bara á vinnuna hlýtur aðeins það sem við, sem fylgjumst með í gegnum fjölmiðla, getum áttað okkur á að þýða það að þingmenn nærast ekki nema á hlaupum, fá takmarkaðan hvíldartíma sem bitnar á svefntímanum, hafa engan tíma fyrir félagslíf eða afþreyingu, verða að fórna allri uppbyggilegri hreyfingu, verða að neita sér um endurnærandi samræður við vini og ættingja.
 
Þeir einangrast, missa tilfinninguna fyrir tímanum, ná ekki að halda utan um atburðarrás líðandi dags - hvað þeir eru búnir að gera, hvað þeir ætluðu að gera næst, við hvern þeir töluðu í morgun, í hvern þeir ætluðu að hringja þegar næði gæfist, hvar þeir lögðu frá sér skjölin sem þeir ætluðu að taka með sér o.s.frv. Of mikið álago.s.frv.
 
Við sjáum álagið sem þeir eru undir ef við fylgjumst með umræðunum inni á þinginu. Þingmenn mismæla sig, gleyma því sem þeir ætla að segja, tala án þess að vera í sambandi við það sem þeir eru að segja, eru viðskotaillir, sviplausir, þreyttir... brjóstumkennanlegir og hrjáðir.
 
Þegar ég fylgist með þeim vinna undir þessu álagi dettur mér í hug að þeir séu fangar í andlegum pyntingabúðum. Mig langar til að fara og frelsa þá! Reka alla út af þinginu. Henda einhverjum þaðan endanlega út. Velja síðan fólk sem er umhugað um að bjarga landinu en ekki ímynduðum orðstí þess út á við... held reyndar að þetta með orðstírinn sé klisja. Orðstír landsins er löngu farinn til helv... Núverandi ríkisstjórn á m.a. sinn þátt í því!
 
Ég sá það á Fésinu í kvöld að einhver stakk upp á Garðáhaldabyltingu! Mér líst vel á hugmyndina. Ég vona a.m.k. að þjóðin sé byrjuð að vakna til þess að þetta gengur engan veginn lengur! Sumum hugnast e.t.v. aðrar aðferðir betur en stunguspaðinn og gafallin. Þeir gætu t.d. skrifað bréf eins og þessi hér.

mbl.is Þingfundur þar til mælendaskrá er tæmd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þó ég viðurkenni að ég glotti út í annað að sjá Guðlaug og Sigmund svona vel syfjaða verður nú samt að segjast að það er verið að beita stjórnarandstöðu miklu harðræði. Eins og þú segir hefur sést vel að fólk er orðið vel þreytt og þarf á hvíld að halda.

Ég vorkenni nú því líka að hugsa að það er ekki einu sinni að fara heim eftir þennan fund heldur væntanlega ef þeir gefa ekki eftir undan ja... pyntingum forseta Alþingis eru þingmenn að fara út í annan vinnudag. Hvernig er ætlast til að þingmenn verði vel á sig komnir til að vinna almennilega vinnu sína á morgun get ég ekki skilið og er þetta einmitt mál sem ég vill að verði unnið eins vel að og mögulegt er, og persónulega myndi ég vilja sjá fleiri stjórnarliða einmitt tala til að tryggja það.

Gunnar (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 02:55

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tek undir hvert orð þitt Gunnar! en fagna því þó sérstaklega að þú hefur skilið skrif mín alveg fullkomlega. Það eru nefnilega vinnubrögðin sem ég er að gagnrýna en ekki það hver veldur og á hverjum þau bitna. Þessi vinnubrögð eru ekki alveg ný af nálinni en þó hefur keyrt um þverbak á þessu ári. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.12.2009 kl. 03:22

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þetta er það sem að okkur er rétt við verðum að mótmæla annað gengur ekki því miður.

Sigurður Haraldsson, 3.12.2009 kl. 11:05

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst myndin hans Halldórs alveg æðisleg, þessi mynd lýsir ástandinu í þjóðfélaginu nákvæmlega. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.12.2009 kl. 01:32

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sammála því! Ég kalla hana sjálf: Litla þjóðin með auðlindirnar

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.12.2009 kl. 01:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband