Vonin er óneitanlega áhyggjum blandin

Niðurstaða þessara kosninga hefði vakið mér meiri gleði ef nú væri vorið 2006. Það vor greiddi ég Vinstri grænum atkvæði mitt þar sem ég bjóst við að Samfylkingin yrði ótvíræður sigurvegari þeirra kosninga og vildi nýta mitt atkvæði til að stuðla að því að þeir myndu vinna með Vinstri grænum. Við vitum hvernig það fór.
Fölsk vonarglæta
Þá vonaði ég líka að stór hluti þjóðarinnar hefði opnað augun fyrir því hvað klisjur Sjálfstæðisflokksins standa fyrir í raun og veru. Mér varð ekki að ósk minni og það er ljóst að það eru enn ótrúlega stórt hlutfall sem áttar sig ekki á því að hann er í raun hagsmunasamtök þeirra sem hugsa fyrst og síðast um að hámarka sinn eigin höfuðstól sama hvernig það bitnar á öðrum. Mottó hópsins er: Á meðan það er löglegt þá er mér skítsama um siðferðiskjaftæðið!

Niðurstaða kosninganna nú er útkoman sem ég hefði sætt mig við vorið 2006. Niðurstaðan sem ég hefði sætt mig við núna væri sú að Borgarahreyfingin og Vinstri grænir hefðu myndað meiri hluta á þingi. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að það er ótrúlegur árangur að svo ungt framboð, eins og Borgarahreyfingin, hafi náð fjórum mönnum inn á þing. Þessir fjórir eiga þó örugglega eftir að verða okkar mikilvægustu þingmenn á næsta kjörtímabili! Ég óska þeim öllum til hamingju með að vera komnir inn á þing!

Málið er bara að núna er ekki rétti tíminn til að leiðrétta kosningaúrslitin frá 2006. Við þurfum nauðsynlega að horfast í augu við atvinnuleysistölur og tölur yfir gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Við höfum ekki tíma til að hlusta á að það sé verið að rannsaka efnahagshrunið en það taki minnst tvö ár að komast til einhvers botns í málinu. Við höfum ekki tíma til að hlusta á yfirlýsingar um að ESB-aðild og upptaka evru muni bjarga þjóðarbúinu en það taki tíma að komast að samingaborðinu og setja saman samninginn! Við höfum síst af öllu tíma til að hlusta á einhverja hálfvolga álversumræðu þar sem það er ljóst að það stendur ekki til að byggja fleiri álver í bráð.

Við þurfum að setjast niður núna og leiðrétta lánin sem eru að sliga heimili og fyrirtæki. Við þurfum núna að tryggja að fleiri atvinnufyrirtæki fari ekki á hausinn. Við þurfum núna að gera gangskör í því að opna rannsóknina á bankahruninu. Við þurfum núna að tryggja það að náttúruauðlindirnar verði í eigu þjóðarinnar. Það er svo kannski rétt að taka það fram, til að forðast allan misskilning, að mér hugnast hvorki ESB-aðild eða uppbygging álvera. Er í raun á móti báðu!Áhyggjurnar myrkva minn hugÞegar stór hluti þjóðarinnar fagnar því að nú hafi Samfylkingin unnið stórsigur ásamt Vinstri grænum þá dreg ég mig út úr fagnaðarlátunum og hugsa um aðdragandann.  Við vitum svo sannarlega ekki hvar við stæðum núna hefði Samfylkingin tekið upp stjórnarsamstarf við Vinstri græna vorið 2006. Við vitum hins vegar að ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar sátu stilltir og hljóðir við hlið Sjálfstæðisflokksins á meðan efnahagur þjóðarinnar stefndi hratt og örugglega fram af bjargbrúninni.

Við vitum líka að þeir aðhöfðust ekkert, sem var í takt við það, sem Samfylkingin segist standa fyrir í kjölfar efnahagshrunsins. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þjóðin treystir henni best til að reisa þjóðarbúið við upp úr rústunum. Ég skil það betur að þjóðin skuli treysta Vinstri grænum til þess en þó ekki fyllilega. Ég hefði skilið það ef Vinstri grænir hefðu boðað tafarlausa rannsókn á aðdraganda bankahrunsins og eftirköstum, tafarlausar aðgerðir til bjargar heimilunum og uppsögn AGS-samningsins.
Pappírsbátur
Ég er ekki svartsýn heldur raunsæ þegar ég segi að úrslit kosninganna valda mér meiri áhyggjum en gleði. Auðvitað vona ég að ég hafi rangt fyrir mér. Auðvitað vona ég að sú stjórn, sem er nokkuð ljóst að verði til út úr þessum kosningaúrslitum, verði landi og þjóð til þeirrar gæfu sem hún þarf á að halda. Ég hef hins vegar áhyggjur.

Ég hef áhyggjur vegna þess sem þjóðin fær ekki að vita. Ég hef áhyggjur af því að kjósendur verði fyrir áfalli eina ferðina enn og finnist að þeir hafi verið blekktir þegar þessar upplýsingar skila sér loksins. Ég hef áhyggjur af því að þessum upplýsingum hafi verið meðvitað haldið leyndum fram yfir kosningar...

Ég held að atkvæðin hefðu fallið töluvert öðruvísi hefðu þær legið fyrir! En sjáum hvað setur...


mbl.is Nýtt Alþingi Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Núna verður maður bara að vona það besta, það eru ekki auðveldir tímar framundan.  Það vissu náttúrulega allir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.4.2009 kl. 15:42

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er ekki alveg vonlaus en það er fleira en það sem er fyrirliggjandi nú þegar sem veldur mér áhyggjum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2009 kl. 17:34

3 Smámynd: Lilja Skaftadóttir

Ég segi líka : Til hamingju í NA. Ekki auðvelt, en hvert atkvæði telur. Nú hefst vinnan fyrir alvöru !

Lilja Skaftadóttir, 26.4.2009 kl. 19:11

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Vona að þú verðir hér áfram og takir þátt í þeirri vinnu með okkur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2009 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband