Mikilvægur innblástur!

Ég skammast mín fyrir að viðurkenna það að hér á Akureyri lognaðist kraftur mótmælendanna sem héldu utan um laugardagsmótmælin út af. Ég tuðaði eitthvað. Var auðvitað hundleiðinleg og hefði átt að sýna þann manndóm að taka það bara að mér að halda utan um þessi mótmæli í stað þess að vera að setja út á. Ég ætla ekkert að afsaka það að ég gerði það ekki en eins og þeir, sem hafa fylgst með þessu bloggi, vita þá hef ég tekið þátt í að skipuleggja og halda utan um borgarfundina hérna fyrir norðan. Það getur víst enginn verið allur í öllu alls staðar... ekki einu sinni égWink
Carlos FerrerEn nóg af því sem ekki er og að því sem lifir enn. Ég er að tala um mótmælin í Reykjavík. Ég var þar um síðustu helgi og verð þar um næstu helgi. Það var gott að vera á Austurvelli síðast og það verður það örugglega næst líka. Ég hefði viljað vera þar líka í dag en ég fékk smáuppbót. Ég rakst á krækju í ræðuna hans Carlosar Ferrers inni á síðunni hennar Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur og þvílík ræða!

Ég ætla að leyfa mér að vitna í þann hluta þessarar ræðu sem mér finnst hvað magnaðastur en ræðuna alla má finna hér. Carlos segir m.a. þetta:

Samfélag okkar er klofið í herðar niður. Annars vegar eru hér þau sem skulda og [hins vegar] þau sem skulda meira. Við sem skuldum njótum ekki vafans. Við erum leiguþý, bundin í klafa og átthagafjötra eins og leiguliðar og vinnufólk hér á öldum áður.

Þau sem skulda meira fá að njóta alls vafans. Skuldaðu milljón og þú ert í vanda. Skuldaðu milljarð og bankinn er í vanda. Skuldaðu þúsundir milljarða og þá hverfur vandinn eins og dögg fyrir sólu. [leturbreyting mín]

[...] Fyrir tæpum mánuði kom auglýsingamaður í skólann minn. Hann sagði okkur að auglýsingar eru jafnmikilvægar nú í kreppu og áður í velgengni. Hann sagði að auglýsingakaupendur hugsuðu betur um það hvernig þeir auglýsa og auglýsingar eru vandaðri en áður og beinast betur að markhópum. Hann sagði að nú væri gósentíð vegna þess að nú beindist öll orka og umtalsverð þekking auglýsenda að því að hvítþvo þá stjórnmálamenn og -konur sem hafa reynst okkur í besta falli gagnslítil í velgengni og kreppu, þannig að þau næðu kosningu aftur.

Hann sagði okkur fyrir sex vikum síðan, að hugmyndasmiðir núverandi ástands myndu ná fyrri styrk í næstu kosningum. Hann sagði að til þess að hjálpa þjóðinni að gleyma ábyrgð þeirra og gjörðum eða aðgerðaleysi, þá hefðu auglýsendur mörg tól í verkfærakistunni. Sjónvarp, útvarp, dagblöð, glansblöð, tölvupósta, bloggara, facebook og fullt af fólki sem þeir borga til að skrifa og tengja og fegra og rífa í og draga oní svaðið. Þeir gera ekkert ólöglegt. En árangurinn er sá að á hverjum þeim stað sem þú og ég drepum niður fæti er búið að galdra það að hvítt verður svart og svart að minnsta kosti fölgrátt núna í kreppunni.

Verkfærin eru öflug og við trúum þeim af því að við þekkjum þau sem halda á þeim. Þetta eru feður okkar og mæður, systur og bræður, frændur og frænkur, vinir og kunningjar. Ekki fara þau að segja okkur ósatt? Samt virka spuni, moðreykur og fagurgali. Við heyrum og tökum mark á fagurgalanum, moðreyknum og spunanum af því að við treystum bloggvinum okkar og facebookkunningjum, vinum og vinkonum, frænkum, frændum, systrum, bræðrum, mæðrum og feðrum okkar.

Ég ÆTLA ekki að fyrirgefa.

Hörð orð frá prestvígðum manni, ekki satt? Ekki eitthvað sem kirkjan boðar. Ekki eitthvað sem tilheyrir bænum okkar. Ég ætla ekki að fyrirgefa. Fer ekki vel í munni sem bæn eða sálmvers. Ég ætla samt ekki að fyrirgefa.

[...] Við höfum fengið að hlusta á stjórnendur lands okkar, banka og fyrirtækja taka sér þessi orð í munn nánast orðrétt: „Ég varaði við en ekki var hlustað. Allir lenda í þessu, þetta er alþjóðleg kreppa! Allir tóku þátt í góðærinu! Nú þurfa allir að taka þátt í hallærinu!”

Orð sem þessi eiga að afsaka og breiða yfir einfalda staðreynd: Berirðu ábyrgð (og þiggirðu laun í samræmi við hana) þá ber þér að hafa frumkvæði. Frumkvæði er að segja svona eða svona. Standa svo og falla með orðum þínum.

[...] Ég ætla ekki að fyrirgefa fyrr en ég heyri menn og konur biðjast afsökunar og sýna að þeim er alvara með orðum sínum.

Það er ekki hægt að fyrirgefa bílstjóra sem ekur á 120 km hraða á öfugum vegarhelmingi eftir Reykjanesbrautinni - fyrr en bílstjórinn hefur snúið bifreiðinni við og ekur eins og maður en ekki glanni.

Það er ekki hægt að fyrirgefa einstaklingi sem beitir fjölskyldu sína ofbeldi fyrr en hann leggur af ofbeldið, tekur á málum sínum og biðst afsökunar.

Það er ekki hægt að fyrirgefa fyrr en komin er iðrun, viðsnúningur, ný byrjun.

Annað væri meðvirkni og við höfum verið meðvirk, þjóðin, þannig að okkur finnst auðveldara að kyssa á vöndinn en að taka á þeim sem brjóta gegn almannaheill og setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

[...] Þjóðin, þú og ég höfum kallað eftir frumkvæði, ábyrgð og reiknisskilum. Ég ætla ekki að fyrirgefa fyrr en frumkvæði, ábyrgð og reiknisskil hafa náð að gegnsýra samfélag okkar.

Ég flyt Carlosi þakkir fyrir þessar flottu ræðu og hvet alla sem ekki voru á Austurvelli í dag og heyrðu hana þess vegna ekki til að fara hér og lesa hana alla í heild. Einkum niðurlag hennar. Orð Carlosar er kröftugur innblástur en ekki síður áminning um það hvað við sem sitjum heima og gerum ekki neitt erum að samþykkja með þögn okkar og aðgerðarleysi.
mbl.is Á þriðja hundrað á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir þetta kæra Rakel. Við verðum að halda áfram að berjast. Bestu kveðjur og gangi þér vel,

Hlynur Hallsson, 7.3.2009 kl. 23:53

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Ekki missa móðinn, ágæta Rakel.

Þetta er kannski lognið á undan storminum.

Kær kveðja til Akureyrar.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 7.3.2009 kl. 23:58

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Baráttan er bara hálfnuð.  Baráttan verður að halda áfram. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.3.2009 kl. 01:00

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Vá, frábær ræða.  Takk fyrir þetta.  Baráttan er ekki búin, en ég held að margir séu að skoða túnin (framboðin) og vilja athuga hvaða áburð á að nota eftir kosningar....og ef hann reynist ekki vænlegur munu bændur (við) sturta þeim besta áburði (mykju) sem til er við alþingis innganginn

Sigrún Jónsdóttir, 8.3.2009 kl. 01:17

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlit og kveðjur öll! Gott að heyra að það er baráttuhugur í fleirum en mér Ég verð að viðurkenna að ég er óróleg yfir því hvað margir eru orðnir værukærir og rólegir. Ég hef nenfilega áhyggjur af því að ef við stöndum ekki þétt saman fram að kosningum og höldum kröfunum uppi um skýrar og afdráttarlausar breytingar þá muni allt sigla aftur í sama farið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 02:03

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sko, málið er bara að núna er einmitt tíminn til að safna krafti, og huga að sínum eigin ranni, sem margir þurfa vafalaust að gera vegna kreppunnar. Núverandi bráðabirgðastjórn hefur svo stuttan tíma til stefnu að það hefur ekkert upp á sig að steypa henni eða vera með stæla, þá hefðum við alveg eins getað búið við stjórnleysi frá í janúar og fram á vorið þegar kosningar verða haldnar. Mótmæli á þessum vikum sem eftir eru hafa því takmarkað gildi, auk þess sem búið er að ná fram mörgum aðal stefnumálum mótmælahreyfingarinnar. Margir úr þeim hópi hafa líka snúið sér að stjórnmálum, annað hvort innan vébanda hinna nýju framboða eða gengið í fjórflokkinn til að taka þátt í nauðsynlegri endurnýjun þar. Þetta er allt saman rökrétt framhald á atburðarásinni, og fámennir mótmælafundir merkja ekki endilega að byltingin sé að deyja út, þvert á móti er hún í fullum gangi og er einfaldlega komin á næsta stig: hugarfarsbylting. Þetta má t.d. sjá á því hvað venjulegt fólk í þjóðfélaginu er orðið meðvitað um allskonar hluti sem það hélt sig geta komist af með að hunsa fram að þessu. Áður var fólk svo upptekið af sjálfu sér að það "mátti ekki vera að því" að spá í ruglinu sem viðgekkst annarsstaðar í þjóðfélaginu og fór bara í ræktina í staðinn eða horfa á boltann, núna er sama fólk búið að átta sig á því (the hard way) að það hvernig samfélag við byggjum og hvernig því er stjórnað er eitthvað sem skiptir máli fyrir alla. Annari eins breytingu á gildismati til hins betra hef ég ekki orðið vitni að síðan ég man eftir mér, en spurningin "is this really as good as it gets?" hefur ávallt verið mér ofarlega í huga, en kannski er þetta ekki algerlega vonlaust eftir allt saman... það mun tíminn leiða í ljós.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.3.2009 kl. 13:35

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir gott innlegg! Það er líklega mikið til í því sem þú segir þó ég hafi ekki hugsað þetta á þann hátt sem þú gerir. Mig langar þó til að ítreka það að ég túlka mótmælin núna ekki sem mótmæli gegn núverandi ríkisstjórn heldur sem aðhald. Ég vil fyrst og fremst að auðmennirnir sem settu okkur á hausinn séu sóttir til saka skilyrðislaust.

Ég skil ekki hummið og japlið og jamlið og fuðrið um að eitthvað sé ekki gerlegt í þeim efnum. Ég skil að glæpurinn er stór, umfangsmikill og margir flæktir í hann en það að eitthvað sé umfangsmikið og flókið er engin afsökun fyrir því að láta kyrrt liggja.

Krafa mín var, er og verður sú að glæpurinn sem setti þjóðina á hausinn verði rannsakaður og þeir sem frömdu hann sóttir til saka. Á meðan ekkert er að gert þá vil ég fá tækifæri til að sýna virkt aðhald og minna á kröfuna á réttlæti. Ég neita að samþykkja að ég, landar mínir og afkomendur okkar borgi upp það sem fámennt glæpamannabandalag steypti okkur ofan í blindað af græðgi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.3.2009 kl. 14:26

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Aðhald: þú hausnaglahittir!

Hummið, japlið og fuðrið er hugsanlega vegna þess að allir eru hræddir við að taka pólitíska ábyrgð á því hvort það yfirhöfuð tekst að fá ræningjana dæmda. Minnugir þess hvernig fór í Baugsmálinu um árið...

P.S. Setjið x við L

Guðmundur Ásgeirsson, 10.3.2009 kl. 01:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband