Brýnt að gefast ekki upp núna!

Mig langar til að birta hérna athugasemd af blogginu hennar Heiðu B. Heiðarsdóttur. Athugasemdin er frá manni sem kallar sig Begga. Hann setti athugasemdina inn rúmlega 13:00 í dag og segist þá vera nýkominn frá heldur fámennum mótmælum við Seðlabankann.

Ástæðan fyrir því að ég set þetta hérna inn er auðvitað fyrst og fremst sú að ég finn mig knúna til að ítreka áskorunina sem felst í þessu bréfi:

Var að koma frá Seðlabankanum. Alveg sorglegt hvað það eru fáir þarna núna. Þetta gengur ekki svona. Fólk verður að nenna að mótmæla þessu rugli. Út þið sem getið. Út og sýnið dug. 

 Og hvernig stendur á því að það er bara Bubbi sem mætir af þeim hundruðum hljómsveita sem til eru í landinu? Er hann sá eini sem þorir að láta í sér heyra? Og hvar er Ísland? Hvar er úthverfafólkið? Hvar eru þeir sem hafa sveigjanlegan vinnutíma?  Og hvar er unga atvinnulausa fólkið? Hvar eru listaspírurnar, leikararnir, húsmæðurnar og húsbændurnir? Hvar eru þeir sem vinna hálfan daginn? Hvar eru þeir sem geta stolist úr vinnunni í svo sem klukkutíma? Hvar eru blokkflautuleikarar þessa lands, pákuslagarar og trompetleikarar? Hvar eru hinir kúguðu og blekktu? Hvar eruð þið?

 Þetta gengur ekki. Við þurfum fleiri til liðs við okkur. Fleiri sem þora að láta í sér heyra með pottum og pönnum, trommum og flautum.

 En þeir sem mæta - hvílíkar hetjur. Hvílíkar hetjur sem þarna standa vaktina í bítandi frosti. Hvílíkar hetjur sem þarna mæta og eru ekki feimin við að standa fá í hóp og berja saman pottlokum eða hamra í ljósastaura. Og gefast ekki upp.

En nú þurfum við fleiri, við megum ekki gefast upp.

Beggi (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 13:13

Ég tek undir með Begga! því við megum ekki gefast upp núna! Ég þarf sennilega ekki að minna á allar ástæðurnar fyrir því hvers vegna Davíð Oddson þarf nauðsynlega að víkja úr Seðlabankanum. Ef einhver þarfnast hins vegar rökstuðnings fyrir því eða upprifjunar vísa ég í þessa færslu Láru Hönnu Einarsdóttur frá því í gær.

Það má vera að þessi mynd af heimasíðu Seðlabankans veki líka einhvern til byltingarinnar. Þetta er myndin sem Andrés Magnússon hefur vísað til í ræðum sínum að undanförnu. Kannast einhver við að hafa séð þessa mynd áður en Andrés fékk loks tækifæri til að kynna hana fyrir okkur? Er einhver sem kannast við að Davíð Oddsson eða einhver hinna seðlabankastjóranna hafi kveðið sér hljóðs á undanförnum fjórum árum og varað við þeirri alvarlegu þróun sem hefur orðið á stöðu ríkisfjármálanna á þessu tímabili? Eða kannast einhver við að fjármálaráðherrar frá 2004 hafi látið að einhverju slíku liggja? En einhver af stjórnendum Fjármálaeftirlitsins?

Ekki minnist ég neinna slíkra viðvaranna sem má heita stórfurðulegt í ljósi þessarar myndar. Það er í hæsta máta grafalvarlegt mál að allir þessir aðilar hafi setið aðgerðarlausir yfir hagtölum sem þessum án þess að í þeim heyrðist múkk annað en mæra þá sem fóru þannig með fjárhag þjóðarbúsins!Hagtölur sl. áratugÞað blandast sennilega engum hugur um það sem skoðar þessa mynd yfir erlenda skulda- og eignastöðu þjóðarbúsins að vissulega gerðist eitthvað alvarlegt upp úr þar síðustu áramótum en staðan hafði líka farið stigversnandi frá árinu 2004! Það ætti engum að dyljast í hverju efnahagsundur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem hann kynnir hér var fólgið! Hann fann upp enn öflugri peningaryksugur en þær sem voru notaðar fyrir 2007!

Ég bendi á að myndina hér að ofan er að finna á heimasíðu Seðlabankans. Bendi líka á skýrslu sem Andrés Magnússon hefur verið iðinn við að vekja athygli á. Ég hengdi þessa skýrslu við færsluna hér en hún ber heitið „Erlend staða þjóðarbúsins og þáttatekjur“. Skýrslan er unnin af tveimur hagfræðingum Seðlabankans og kom út árið 2007.

Mig langar til að vekja sérstaklega athygli ykkar á fjórum myndum í skýrslunni en það eru myndir 1, 6, 8 og myndirnar í viðaukanum sem er aftast. Allar sýna svart á hvítu mjög alvarlegar niðurstöður. Þær sýna það að það hefur stefnt mjög örugglega í hrun bankanna sl. fjögur ár! Þar kemur líka fram að Ísland var þegar árið 2004 með verstu efnahagsstöðuna miðað við þau lönd sem það er borið saman við! (139 lönd). 

Í huga mínum situr hyldjúpur harmur vegna þess sem hefur komið fyrir land mitt og þjóð. Ég lít svo á að við höfum verið svikinn! Fannst það strax í haust liggja í augum uppi að bankar sem sýndu glansandi hagnað við hvert ársfjórðungsuppgjör geta ekki orðið gjaldþrota á einni nóttu án þess að neinn hefði haft eitthvað mikið og margt með það að gera! Það hníga líka æ fleiri rök að því að þannig sé einmitt í pottinn búið!

En slíkt á ekki að gerast því yfir bönkunum eru mannmargar og rándýrar eftirlitsstofanir!!! Þar eru einstaklingar sem mér skilst að þurfi ekki að kvarta undan kjörum sínum í vinnu til að sinna því að miðla og afstýra því að slíkt og þvílíkt og það sem nú hefur átt sér stað verði að veruleika. Er það kannski ekki á hreinu hver á að sjá um þann hluta eftirlitsins með bönkunum!?! Eru það ekki örugglega stjórnendur Seðlabankans!?!  

Hver á að vaka yfir bönkunum en gerði það ekki!?! Hver gerði ekkert nema illt verra þegar staða og/eða hrun bankanna varð almenningi opinbert?!? Og ég veit ekki hvort það er jafnvel alvarlegasti embættisglæpurinn: Hver lét nægja að birta töflur og skýrslur um alvarleika málsins á heimasíðu Seðlabankans!?!

Ég leyfi mér nú bara að segja eins og mér finnst að ofantalið, þó sérstaklega það síðasta, finnst mér afar alvarleg vanræksla í starfi og það ásamt öllu hinu sem tínt hefur verið til sem rök síðustu daganna er fullkomin ástæða til að víkja honum úr starfi! Sýnist nú reyndar að það sé full ástæða til að krefja hann svara um það hvað honum gekk eiginlega til en hitt er brýnna!

Þess vegna tek ég undir með Begga hér að ofan og segi: Kæru mótmælendur! Sameinumst í að standa vörð um þjóðarhag og endurheimta virðingu okkar út á við sem þjóð. Söfnumst saman fyrir utan Seðlabankann á morgun og hinn daginn og alla virka daga þar til Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason fylgja í fótspor Ingimundar Friðrikssonar og sinna uppsögn yfirmanns síns; forsætisráðherra landsins. Styðjum Jóhönnu Sigurðardóttur, æðsta embættismann landsins! Virkjum lýðræðið og sýnum stuðning okkar við það í verki! 

Við verðum að leggjast öll á eitt við að víkja þeim þrándum úr götu sem standa í vegi fyrir réttlætinu og því að uppbyggingin geti hafist. Drögum hendur fram úr ermum, tökum hljómgafa úr eldhúsinu, verum mörg og höfum hátt. Við gefumst ekki upp fyrr en þverhausarnir í Seðlabankanum haga sér eins og fullorðnir og þroskaðir menn, taka mark á uppsagnarbréfunum sínum og víkja!

                                           * * *

Viðbót: Ég er kannski svona einsýn að geta ekki skilið að enn skuli fyrirfinnast einstaklingar sem vilja verja Davíð og jafnvel hvítþvo hann af allri ábyrgð. Ég held reyndar að þeir séu ekki margir sem ganga svo langt en þó er það greinilega einn a.m.k. Langar þess vegna til að vekja sérstaka athygli á bloggfærslu Láru Hönnu Einarsdóttur um Davíð Oddson. Færsla hennar er upprifjun á orðum hans sjálfs í kjölfar bankahrunsins síðastliðið haust.

Vek sérstaka athygli á enda færslunnar en þar er ótrúlega mögnuð samantekt um flokkinn hans Davíðs!


mbl.is Seðlabankastjórar telja að sér vegið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Fólk mætir ekki vegna þess að Davíð er á leið út úr Seðlabankanum. Það er verið að breyta bankanum og hvað máli skipta nokkrir dagar eða vikur? Þeir sem hafa haft Davíð á heilanum árum saman geta hinsvegar ekki þagnað.

Að krefjast þess að Davíð fari NÚNA STRAX er svona álíka eins og þess væri krafist að fullnustu dauðadæmds manns væri flýtt; að hann yrði tekinn STRAX af lífi.

Það þarf að sína öllu fólki vissa virðingu. Alveg sama hvað það heitir eða fyrir hvað það stendur. Vel má vera að Davíð hafi haft rangt fyrir sér á mörgum sviðum, vel má vera að hann hafi gert mistök en hann er ekki glæpamaður en þó er látið eins og hann sé einhver óværa sem verði að losna við STRAX.  

Davíð hefur verið niðurlægður og smánaður, ég held að venjulegt fólk hafi ekki geð í sér að sparka í meira í þann liggjandi mann. Það veit að hans tími er liðinn og það veit líka að hann þarf ekkert að þóknast óvildarmönnum sínum og það veit líka að maður sem á enga útgönguleið berst þar til tími hans er ALVEG liðinn.

Þess vegna mætir fólk ekki, það hefur sómatilfinningu. 

Benedikt Halldórsson, 11.2.2009 kl. 01:45

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl verið þið. Þú spyrð eftir því Rakel hver hafi varað við að í óefni stefndi síðastliðin 4 ár . Svarið er að Davíð Oddsson gerði það upp úr miðju ári 2007 opinberlega eftir að hafa gert það bréflega og á lokuðum fundum meðal ráðamanna. Í tilefni þessara viðvarana var neðangreint viðtal haft við Guðmund Ólafsson hagfræðing. Sömuleiðis varaði Geir Hilmar Haarde forsætisráðherra við þessu opinberlega í lok nóvember eða upphafi desember 2007.

Hvorki heilög  Jóhanna né Skalla-Grímur núverandi fjármálaráðherra æmtu né skræmtu  vegna þessara viðvarana. Þau voru þá í hlutverki allra annarra en litlu gulu hænunnar og vildu bvara tína upp molana sem geislaBAUGSfeðgarnir og Björgólfarnir létu hrynja af nægtarborðum loftbóluauðæfa sinna sem þeir höfðu rakað til sín á okkar kostnað. Ef á að leita sökudólga þá er þess skemmst að minnast að Samfylkingarhöfðinginn J'on Baldvin Hannibalsson barðist fyrir því að innleiða reglurnar sem íslensku bankarnir störfuðu eftir innan Íslands og annarra landa í Evrópu.

Bjargbrúnarkenning seðlabankastjóra slegin af

None

Laugardagur 17. nóvember 2007 kl 14:13

Höfundur: (johannh@dv.is)

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir ekki sjá betur en að bandaríski hagfræðingurinn Arthur B Laffer hafi í fyrirlestri hér á landi fyrir helgina slegið af kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis. "Þetta er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Það var í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartaði yfir því um daginn að almenningur keypti leikföng," segir Guðmundur. Nánar er rætt við Guðmund um þetta í nýju viðtali hér á vefsíðu dv.is.

 Sjá viðtalið allt á þessari slóð :

http://www.dv.is/brennidepill/2007/11/17/osynilegi-foturinn/

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 11.2.2009 kl. 02:27

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þögn þýðir að okkur er sama en mótmæli merkja að við viljum að Davíð fari. Hann hefur haft langan tíma til að yfirgefa bankann með sæmd. Í stað þess hefur hann sýnt þjóð sinni vansæmd með því að sitja sem fastast. Tillitsleysið kryddar hann svo með hroka og yfirlæti. Hann veit rétt eins og við hin að hann er þrándur í götu. Hann stendur í vegi fyrir því að við getum endurheimt sæmd okkar í augum alþjóðasamfélagsins.

Þjóðin hefur sýnt Davíð ótrúlega þolinmæði í gegnum árin sem hann hefur nýtt sér til að príla upp valdastigann. Sumir hafa m.a.s. dáð hann. Einhverjir meira en aðrir. Hins vegar þori ég að fullyrða að engum íslenskum embættismanni hefur verið sýnt annað eins umburðarlyndi og eftirlæti og honum. Samt á hann ekkert til nema hroka og yfirgang handa henni. Hann sýnir þjóð sinni m.a.s. þá lítilsvirðingu að hann hundsar vilja hennar og uppsagnarbréf valdamesta embættismanns hennar!

Ég skil ekki að nokkur með sómatilfinningu geti réttlætt gjörðir hans. Ég sé ekki að maður sem hefur niðurlægt þjóð sína og smánað, eins og hann, eigi heldur skilið að hún sýni honum sóma á móti og þegi. Friðsamleg mótmæli þar sem farið er fram á að hann og kollegi hans sinni réttmætri uppsögn úr starfi hefur hvorki þann tilgang að að niðurlægja hann né smána. Slíkar aðgerðir eru bara handbærasta aðferðin til að koma þeirri ósk okkar á framfæri að hann komi fram eins og þroskaður einstaklingur og sýni sjálfum sér og öðrum þann sóma að víkja.

Ég hef aldrei verið Davíðsaðdáandi en ég get fundið til með honum núna. Ég finn einkum til með honum fyrir það að hann hefur leyft brestum sínum að yfirskyggja skynsemina. Fullorðinn maður með annan eins feril og hann á að baki ætti að hafa lært heilan helling um mannleg samskipti. Hann ætti að skilja að ef hann hefði komið fram með öðru en hroka og slægð í kjölfar bankahrunsins þá hefði allur almenningur verið tilbúinn til að taka allt öðru vísi á hans málum.

Ef hann hefði axlað ábyrgð og vikið sæti eins og kollegar hans sem gegna sömu stöðu meðal siðmenntaðra þjóða þá værum við e.t.v. að hlusta á hann í Silfri Egils núna. Við erum ekki grimm þjóð. Við erum líka yfirleitt fljót að fyrirgefa. En framkoma Davíðs er ekki til þess fallin að kalla það besta fram í þjóð sinni. Það er heldur ekkert í framkomu hans sem bendir til þess að hann vilji/kunni/geti kallað fram neitt gott enda er umburðarlyndi okkar á þrotum! Hann hefur fengið miklu lengri frest en hann hefur unnið sér fyrir með framkomu sinni og orðum.

Það er þess vegna komið miklu, miklu meira en nóg!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.2.2009 kl. 02:29

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

En Rakel, hann er að fara úr bankanum, það er búið að ákveða það. Það verður ráðinn einn bankastjóri sem tekur við, tja, eftir vikur eða mánuði. Það skapar ekki traust að bankinn sé án yfirstjórnar. Og Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og verður það áfram þótt annar bankastjóri taki við.

Hvað ef forsætisráðherra skipaði nýja bankastjóranum sem nýtur fulls traust að lækka vextina og hvað ef hann neitaði? Myndi það ekki skapa vantraust? Kannski sendir ráðherra bænarbréf og biður hann um að lækka vextina og ef nýi Seðlabankastjórinn gerir ekki eins og honum er sagt, hvað þá? Ætti að biðja hann fallaga að segja af sér?

Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og forsætisráðherra er ekki beinn yfirmaður bankastjórans. Forsætisráðherra bað Davíð að hætta en hann ætlar ekki að verða við þeirri bón. Hann fer þegar boðaðar breytingar ganga í gegn sem er kannski besta lausnin. Ég er hræddur um að ef Davíð yrði við tilmælunum væri komið fordæmi fyrir afskiptum framkvæmdavalds. Næsti Seðlabankstjóri ætti erfitt með að taka ákvörðun nema í fullu samráði við stjórnvöld. Forsætisráðherra er ekki YFIRMAÐUR Seðlabankastjóra eins og margir bloggarar tala um og eru hneykslaðir á að Davíð hlýði ekki. 

Davíð fer. Er það ekki nóg? 

Benedikt Halldórsson, 11.2.2009 kl. 03:03

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er það eina sem ég finn um Davíð í greininni sem þú vísaðir mér á: Laffer blés af bjargbrúnarkenningu Davíðs Oddsonar seðlabankastjóra heyrðist mér. Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartar yfir því að almenningur kaupi leikföng.

Þetta er úr grein frá 17. nóvember 2007. Sama ár og Hannes Hólmsteinn Gissurarson er í þessu viðtali hér í Ísland í dag Þar segir Hannes Hólmsteinn m.a. um það sem hann kallar „íslenska efnahagsundrið“: „Hugsaðu þér hvað það væri gaman ef við höldum bara áfram og gæfum í!!“ Það er greinilegt á hagtölunum að það er nákvæmlega það sem hefur verið gert! 

Vilt þú meina að Hannes Hólmsteinn geti þannig vaðið yfir vilja Davíðs!? Ég meina vinna þeir ekki undir sama þaki og Hannes m.a.s. undirmaður Davíðs? Mér hefur alltaf skilist að þeir séu nærri eins og síamstvíburar í skoðunum og svo nánir vinir að þeir megi vart af hvor öðrum sjá. Hvað þá gera viljandi á hluta hins eins og Hannes Hólmsteinn hefur augljóslega gert ef skilningur Guðmundar Ólafssonar á því hvað Davíð er að meinga með orðinu  bjargbrúnskenning.

En er það ekki bara málið að nýyrða- og öfugmælasénið Davíð meinti að það ætti að keyra efnahag landsins fram af bjargbrúninni eins og Hannes Hólmsteinn er að tala um! Ég meina það er það sem þeir gerðu Ég virði hins vegar Guðmundi Ólafssyni og öðrum það til vorkunnar að hafa misskilið hvað í bjargbrúnskenningunni fólst því hver myndi í raun trúa því að Seðlabankastóri þjóðarinnar hafi uppi áform í slíkan gjörning! 

En ef það er ég sem er að misskilja eitthvað hvar eru þá allar viðvarirnar? Hvar eru líka allar fréttirnar og skrifin um þessar alvarlegu horfur? Hvert fóru allar aðgerðirnar sem var gripið til? Hvers vegna erum við þar sem við erum núna ef Davíð Oddsson varaði við þessu öllu saman og greip til viðeigandi aðgerða? Birtist kannski bara þetta í DV? Og ekki einu sinni haft eftir honum sjálfum?

Og hvað er þá Hannes Hólmsteinn að gera? Var þetta bara einkaframtak hans sjálfs sem hann er að kynna í viðtalinu sem ég krækti í? Ég meina af hverju komst hann upp með að þenja svona út efnahagsundrið ef það braut í bága við það sem yfirmaður hans varaði við? Og ég meina ef hann fór ekki eftir því sem yfirmaður hans sagði honum að gera af hverju vinnur hann enn í Seðlabankanum?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.2.2009 kl. 03:04

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Benedikt: Mér finnst þú vera kominn út fyrir efnið þegar þú ert kominn með umræðuna út í ef-framtíðina. Ég ætla að halda mig við efnið og ræða um vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég get fallist á að það að það er betra að Davíð fari eftir einhverjar vikur, helst ekki mánuði, en að hann ætli að hundsa „bón“ ríkisvaldsins fullkomlega og fara hvergi fyrr en ráðningartími hans rennur út.

Mér þykir fordæmið sem Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason sýna með því að lítilsvirða framkvæmdarvaldið hættulegra en þetta sem þú bendir á: „Ég er hræddur um að ef Davíð yrði við tilmælunum væri komið fordæmi fyrir afskiptum framkvæmdavalds“

Mér finnst það ekki síður hættulegt hvernig þeir setja einkahagsmuni sína fram yfir hagsmuni þjóðarinnar. Mér finnst það í hæsta máta barnalegt. Ég geri þá kröfu að einstaklingar sem gegna svo mikilvægum verkefnum, eins og starfi seðlabankastjóra, komi fram með þroskuðum og ábyrgum hætti.

Mér finnst það ekki bera vott um þroska og ábyrgð að gefa skít í vilja framkvæmdarvaldsins, álit þjóðarinnar og alþjóðasamfélagsins og sitja sem fastast. Miðað við þá stöðu sem efnahagur landsins og framtíð þjóðarinnar er í, í dag gera þeir sjálfum sér og öllum öðrum greiða með því að horfast í augu við staðreyndir og víkja.

Ég skal sætta mig við nokkra daga; viku til tvær, en þá ættu þeir að gefa út tilkynningu um það svo þjóðin sem þarf að þola fyrir mistök þeirra og/eða andvaraleysi geti andað rólegar. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.2.2009 kl. 03:26

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Ligg heima í hálsbólgu og á þvi ekki tök á því að mótmæla. Eintómar afsakanir.....

Gunnar Skúli Ármannsson, 11.2.2009 kl. 11:17

8 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Rakel, ég fellst á að mistök hafi verið gerð, að Kastljósviðtalið hafi verið óheppilegt, vægast sagt en ég veit líka að Davíð á marga öfluga óvini, jafnvel á launum við að sverta hann. Og flestar ávirðingarnar snúast um það sem hann gerði ÁÐUR en hann varð Seðlabankastjóri! Ég las grein Ingimundar Friðrikssonar sem er hagfræðingur og einn þriggja Seðlabankastjóra en hann var flæmdur úr starfi. Hann segir frá aðdraganda bankahrunsins: Þar rekur hann atburðarásina, frá sínum sjónarhóli við Skúlagötuna:  Skýrslan er HÉR, ef einhver nennir að lesa hana, en hún sýnir á köflum aðra mynd en t.d. DV og margur ofsabloggarinn hefur dregið upp. Góð skemmtun!

Benedikt Halldórsson, 11.2.2009 kl. 12:38

9 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Úps, það vantaði link í skýrslu Ingimundar en er HÉR.

Benedikt Halldórsson, 11.2.2009 kl. 12:44

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þórdís, þú ert yndisleg Takk fyrir innlitið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.2.2009 kl. 23:38

11 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Rakel. Það kemur fram í viðtalinu við Guðmund Ólafsson að Davíð var að vara við þessari geigvænlegu skuldasöfnun fyrirtækja og heimila í landinu og að landið væri á bjargbrúninni hvað það varðar og væri að falla fram af. Guðmundur hagfræðingur blés á það að Davíð hefði rétt fyurir sér og gerði grín að honum samanber þetta með að kaupa leikföng út á´erlenda krít. Sjáðu úr DV : "kenningu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um að þjóðin væri á bjargbrúninni vega skuldasöfnunar fyrirtækja og einstaklinga erlendis."

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 12.2.2009 kl. 09:01

12 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þessar viðvaranir birtust í vel flestum fjölmiðlum sem og útvarpi og sjónvarpi.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 12.2.2009 kl. 09:03

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er að benda þér á að ef Davíð var alvara með viðvörunum sínum var hann í kjöraðstæðum til að grípa í taumana. Hann hefur hingað til ekki látið það fara fram hjá neinum ef honum er alvara með eitthvað!

Ég er líka að benda þér á að kannski er það ekki tilviljun að kenningin heiti bjargbrúnskenningin. Efnahagurinn steyptist svo sannarlega fram af bjargbrún sl. haust undir dyggri forysti Seðlabankans. Sbr. viðtalið við Hannes Hólmstein sem ég vísa til ípistlinum hér að ofan.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.2.2009 kl. 01:01

14 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl Rakel.

Vandamálið, eins og fram hefur komið oft í fjölmiðlum, að Seðlabankinn hefur ekki neinar klær til að stöðva bankakerfið nema helst stýrivextina. Þumalskrúfurnar liggja hjá Fjármálaeftirlitinu. Þær þumalskrúfur virðast þar að auki hálf bitlausar eins og dr. Jón Steinsson hagfræðingur hjá Columbiaháskólanum hefur bent á. Hann nefnir sem dæmi að þegar upp komst um Madoff þá var vart liðinn 1 sólarhringur frá því upp komst um glæpi hans, þá var hann kominn í járn þar sem þeir náðu honum í Alaska að mig minnir, og búið að frysta allt sem honum við kom.

Dr. Jón leggur til að við  kynnum okkur breskar og bandarískar reglur í þessum efnum og tileinkum okkur bland af því besta sem þar er að finna.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 13.2.2009 kl. 09:31

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gott að við erum a.m.k. sammála um það aðalatriði að eftirlitið þarf að virka og að hér hafi verið framinn refsiverð efnahagsbrot! Læt hitt liggja milli hluta.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.2.2009 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband