Eitthvað jákvætt

Sturla JónssonÉg veit ekki hvort ég geti treyst fjölmiðli sem kallar þá sem tóku þátt í mótmælum dagsins „lýð“. Þeir sem standa friðsamir fyrir framan Alþingishúsið og hlusta á ræður eiga það nefnilega svo sannarlega ekki skilið að vera kallaðir „lýður“!

Ég reikna með að mörgum þeirra sem hafa tekið þátt í mótmælaaðgerðum í Reykjavík og víðar líði ekkert ósvipað og mér. Ég hef mætt í mótmælagöngu hérna á Akureyri og á borgarafund vegna þess að sjálfsvirðing mín segir mér að ég eigi engra annarra kosta völ.

Ég get bara ekki setið aðgerðarlaus hjá þegar að stjórnvöld hafa farið svona með mig og þjóð mína. Mér finnst það í raun skylda mín sem þegns í lýðræðisríki að nýta rétt minn og tækifæri til að sýna stjórnvöldum hug minn. Þess vegna hef ég tekið þátt í þeim aðgerðum að undanförnu sem er ætlað að minna þau á fyrir hvern þeir eiga að vera að vinna. Ég hef ekki upplifað það að vera sammála hverjum einasta ræðumanni á þeim fundum sem ég hef farið á, langt því frá. Ég hef líka staðið mig að því að hugsa að þessi eða hinn hefði nú alveg mátt sitja heima...

Hefði ég hins vegar setið heima sjálf er ekki hægt að draga aðra ályktun af því en þá að ég ég sé að segja að ég sé sátt við núverandi ástand. Þess vegna hef ég drifið mig og ég reikna með að það sama eigi við um þá sem hafa tekið þátt í þessum aðgerðum hingað til. Það ættu auðvitað allir, sem eru ósáttir við núverandi ástand, að gera líka. Ef við erum ósátt við það sem við höfum í dag ættum við að þora að sleppa af því hendinni og treysta morgundeginum fyrir því að færa okkur eitthvað betra í staðinn.

Að lokum langar mig að taka það fram að ég fanga því að Sturla Jónsson hafi snúið aftur. Hann reyndi að vekja athygli á því ófremdarástandi sem stjórnvöld voru búnin að skapa þjóðinni sl. vor. Það voru margir sem nenntu ekki að hlusta á hann þá en væntanlega eru flestir búnir að átta sig á að hann var ekki bara að vekja athygli á því að hann er vörubílstjóri...

Ég ætla að taka það fram að ég „rændi“ myndinni af Sturlu sem fylgir þessari færslu af síðunni hans Halldórs Sigurðssonar.

Viðbætur: Ég hvet alla til að fara inn á síðuna hans Jóhanns Þrastar Pálmasonar og skoða myndirnar hans frá mótmælaaðgerðunum í dag. Það þarf ekki að skoða margar til að sannfærast um að það er alger fölsun að halda því fram að hér hafi bara verið um þúsund manns að ræða. Hvað þá að tala um mannfjöldann sem „lýð“. Læt eina af myndunum, sem Jóhann Þröstur tók í dag, og rökstyður það fylgja hér í lokin.

Eins og sést á henni er þetta bara hálfur Austurvöllur en álíka margir eru á hinum helmingi vallarins. Lára Hanna setti myndina sem ég læt fylgja færslunni minni og þá sem Jóhann Þröstur tók yfir hinn helming Austurvallar fylga sinni færslu um rangar upplýsingar frá lögreglu yfir tölu mótmælenda. Hún setur myndirnar hvora á eftir annarri og sýnir þessi samsetning sýnir svo ekki verður um villst að fjöldinn telur gott betur en eittþúsund.

Arnar Helgi Aðalsteinsson hefur líka sett inn nokkrar vel valdar myndir úr safni Jóhanns Þrastar inn á bloggið sitt. Allar þessar myndir gefa góða hugmynd um mannfjöldann sem safnaðist saman til að mótmæla í dag. Þar sést líka vel að ýmsar stórskrýtnar fullyrðingar um það hvaða fólk og/eða hvernig fólk tekur þátt í þessum aðgerðum eiga alls ekki við rök að styðjast. 


mbl.is Um þúsund mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þetta eru trúlega með stærri mótmælum sögunnar á Íslandi. En ég veit ekki hvort við búum við lýðræði. Þess sjást ekki mikil merki. Hér ríkir fasismi þar sem almennum borgurum er gert að fara að lögum en stofnanir standa hins vegar vörð um valdahafanna sem hunsa landslög.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.11.2008 kl. 21:40

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er satt að lýðræðið hefur verið svo fótumtroðið að undanförnu að það er miklu nær að líkja þeim stjórnarháttum við fasisma en lýðræði. Ég vona þó að samtakamáttur þjóðarinnar veki nátttröllin til meðvitundar um það að Ísland er lýðræðisríki og hvaða merkingu hugtakið hefur.

Ég tek hins vegar heilshugar undir það sem þú segir um það að landslög gilda bara um almenning. Gæti tínt til þó nokkur dæmi sem rökstyðja mál okkar en læt nægja að vísa til þess sem hefur komið fram í fjölmiðlum á undanförnum dögum í því sambandi og þess að það er þjóðin sem dæmist til að borga fjármálasukkið en þeir sem bera ábyrgð á því sleppa.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.11.2008 kl. 22:40

3 Smámynd: Johann Trast Palmason

það þarf að setja fjölmiðlun úrslita kosti og byrja enhverskonar herferð gegn þeim.

Annað hvort vinna þeir fyrir folkið i landinu eða fasistalegan flokk sjálfstæðismanna.

það er ekkert í lagi þegar flokkurinn kallar fjölmiðla á sinn fund og segir hvað skuli byrt og hvernig.

þó þeir byrti hlutina er aðferðarfræðin eins og þu talar um fólk er talað niður, gert lítið ur hlutunum.

við eigum betra skilið ef lýðræðisríki skal heita.

þetta er ekketrt í lagi.

Johann Trast Palmason, 2.11.2008 kl. 07:52

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég vildi óska að þú hefðir rangt fyrir þér en óttast að svo sé alls ekki. Við þurfum t.d. bara að skoða hverjir sitja í forstjóra- og ritstjórastólunum á þessum fjölmiðlum í dag og hvernig þeir tengjast/-ust Sjálfstæðisflokknum til að fyllast grunsemdurm.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.11.2008 kl. 12:57

5 identicon

Hvers vegna upplifir þú það neikvætt að orðið "lýður" sé notað? Við búum í lýðveldi, og hér ríkir lýðræði. Í báðum tilvikum er vísað í að valdið komi frá fólkinu í landinu - þ.e.a.s. lýðnum (skv. orðabók: fólk eða þjóð). Er ekki neikvætt orð í mínum huga, a.m.k. ekki eins og það er notað í þessari frétt.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 15:08

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er alveg rétt hjá þér að orðið „lýður“ stendur fyrir fólk, þjóð eða almenning í ýmsum samsetningum eins og orðinu lýðræði. Hins vegar hefur orðið afbygging á þeirri merkingu orðins þegar það stendur eitt og sér.

Þannig hefur það fengið á sig niðrandi merkingu í gegnum árin og er gjarnan notað um óvirðulegri mannsöfnuð en t.d. orðin almenningur og þjóð. Til að undirstrika hversu afkáralega mér finnst þetta hljóma í frétt mbl.is nefni ég nokkur dæmi sem mér finnst álíka ótæk.

Segjum að á mbl.is segði að þingmaður hafi kveðið sér hljóðs til að ávarpa lýðinn (þ.e. þingmenn) á Alþingi eða ef það væri talað um að biskupinn hafi ávarpað lýðinn sem sat nýliðna prestastefnu (þ.e. prestana sem sátu hana) og ef talað væri um að forseti lýðveldisins hefði höfðað til samkenndar lýðsins (þ.e. íslensks almennings) í áramótaávarpi sínu. Nú svo ef að það væri talað um að kennari hafi kennt lýðnum (nemendum).

Ég veit ekki um þig en mér finnst öll þessi dæmi ótæk af því að mér finnst eins og gert sé lítið úr samkomunni og þá einkum áheyrendum. Þú þarft ekkert að vera sammála mér en ég hef a.m.k. skýrt hvað mér finnst að þessari orðanotkun sem ég setti út á í frétt mbl.is



Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.11.2008 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband