Hagsmunasamtök fjármálaheimsins

Þeir eru ófáir sem hafa áttað sig á því að í reynd eru það fjármagnseigendur sem hafa enn einu sinni komið ár sinni þannig fyrir borð að þeir stjórna því sem þeir vilja ráða. Frá heimsstyrjöldinni síðari hafa þeir byggt upp og/eða yfirtekið ýmis konar samtök sem á yfirborðinu var ætlaður annar tilgangur. Þetta á m.a. við um Evrópusambandið sem öllum má vera ljóst að eru hagsmunasamtök fjármagnsins þó öðru sé gjarnan haldið á lofti.

Erpur Eyvindsson, sem hefur listamannsnafnið Blaz Roca, orðar þetta ágætlega þar sem hann segir ESB vera klúbb „gömlu nýlenduherranna“ sem eru búnir að loka sig af innan tollamúra:

Hann bætir því svo við að þar af leiðandi geti þeir sem eru alþjóðasinnaðir aldrei verið fylgjandi Evrópusambandinu. Erna Bjarnadóttir bendir á að sambandið taki fyrst og fremst mið af hagsmunum stóru iðnríkjanna í Mið-Evrópu í reglugerðarverki sínu. Hún segir það líka fráleitt að halda að skipting auðlindanna væri betur komið í höndunum á embættismönnum í Brussel:

Halldóra Hjaltadóttir er formaður Ísafoldar sem er ungliðahreyfing þeirra sem segja NEI við ESB. Hún segir margar ástæður vera fyrir því að hún er á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Í fyrsta lagi tekur hún nokkuð í sama streng og Erna þar sem hún nefnir að Íslendingar myndu tapa stjórn yfir auðlindum landsins. Hún bendir líka á að með inngöngu muni lög Evrópusambandins „trompa“ öll íslensk lög þar með talið sjálfa Stjórnarskrána. Hún dregur það svo fram að ef mið er tekið af núverandi hagvexti þá myndu Íslendingar þurfa „að greiða með sér allt upp í 14 milljarða á ári umfram það sem Ísland fengi frá Evrópusambandinu“.

Gunnlaugur Jónsson er e.t.v. þekktastur í netheimum fyrir grein sína Banani segir meira en 40 orð. Í upphafi viðtalsins tekur hann fram að þær séu margar ástæðurnar fyrir því að hann er á móti mögulegri inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Sú sem hann gerir grein fyrir hér er sú að það hefur sýnt sig að það er almennt óskynsamlegt að safna of miklu valdi á einn stað. Hætturnar sem liggi í slíku fyrirkomulagi, segir hann að komi m.a. fram í bókinni Leiðin til ánauðar eftir Friedrich von Hayek. Þetta verk kom út árið 1944 en þar bendir höfundur þess á að sagan sýni að þróun af sama tagi og eigi sér nú stað innan Evrópusambandsins sé gjarnan undanfari mjög alvarlegra atburða.

Hann telur það því farsælla að valdið sé í höndum þeirra sem eru nær fólkinu þannig að þeir þurfi frekar að taka afleiðingum gjörða sinna beint eða óbeint.

Að lokum má benda á að það er útlit fyrir að mjög margir séu sammála því að íslenskir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafi farið afar illa með umboðið sem við kjósendur höfum veitt þeim til að fara með málefni samfélagsins. Marga grunar að ein meginástæðan sé sú að þeir hafi hallast til þeirrar niðurstöðu að það þjóni framtíð þeirra í stjórnmálum betur að ganga erinda fjármagnseigenda af, oft og tíðum, yfirgengilegu trygglyndi.

Það er auðvitað alls ekki rétt nema kjósendur haldi áfram að kjósa eftir kosningaloforðum í stað efnda og að þeir kjósi áfram eftir pólitískum flokkslínum í stað þess að krefjast þess að allir flokkar stokki upp verklagið við skipun handhafa æðstu embætta í stjórnsýslu landsins. Þegar saga Utanríkisráðuneytisins er skoðuð er t.d. ljóst að leiðin til evrópusambandsstýringar landsins er miklu lengri en frá haustinu 2008.

Þó Alþýðuflokkur/Samfylking hafi átt áberandi lengstan tíma í ráðuneytinu þá hafa aðrir flokkar skipað því ráðherra úr sínum röðum en allt kemur fyrir ekki. Skýringin, sem býr að baki þessu, er væntanlega sú að við utanríkisráðherrum taki eitthvað annað vald sem skólar ístöðulausa flokkspólitíkusa til þeirrar utanríkismálastefnu sem hentar hagsmunum þess best. 

Þegar sagan er skoðuð er nefnilega engu líkara en allir stjórnmálaflokkar hafi sammælst um að halda möguleikanum til inngöngu opnum. Spurning hvort það sé ekki einmitt af undanlátssemi við fjármagnseigendur? Almennum kjósendum var haldið nokkuð utan við þessa ætlan lengi framan af (sjá samt hér) en eftir að hún mátti verða öllum ljós hefur þeim hins vegar aldrei verið ætlað alvöru tækifæri til að segja af eða á um það hvort þeim hugnist það að ganga í Evrópusambandið.

Niðurstöður síðustu tveggja alþingiskosninga ættu þó að gefa nokkuð góðar vísbendingar um það að meiri hluti kjósenda telur hag sínum og framtíðarinnar best borgið utan þess. Því miður sviku Vinstri grænir stærstan hluta kjósenda sinna svo alvarlega í þessu efni vorið 2009 að mörg teikn eru á lofti um að flokkurinn muni þurrkast út. Margir þeirra sem kusu núverandi stjórnarflokka eru líka orðnir afar óþreyjufullir eftir því að kosningaloforð þeirra, varðandi aðildarumsókn síðustu ríkisstjórnar, verði efnt með afturköllun.

Ísland er enn meðal umsóknarríkja um innlimun í Evrópusambandið

Það er ekki útlit fyrir að bréfið sem núverandi utanríkisráðherra hefur sent út til að lýsa afstöðu núverandi stjórnvalda til aðildarumsóknarinnar hafi neina þýðingu. Ísland er a.m.k. enn á meðal umsóknarríkja samkvæmt göngum Evrópusambandsins (sjá hér). Það er því hvenær sem er hægt að taka umsóknina upp að nýju, strika út fyrirvarana sem voru settir á síðasta kjörtímabili varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann og innsigla innlimunina!


mbl.is Hið furðulega tungutak fjármálaheimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband