Hefðarreglur ráða för III

Í inngangi að síðustu færslu voru settar fram vangaveltur sem snúa að áhyggjum af því að lýðræðið virki ekki eins og því var ætlað að gera. Sú þrískipting valds sem hugmyndin um lýðræði er reist á er tæplega lengur fyrir hendi eins og kemur til dæmis fram í því hverjir eru til ráðgjafar innan fastanefndanna. Í þessu samhengi var eftirfarandi staðhæfing sett fram:

Í reynd er því útlit fyrir að þátttaka kjósenda í “lýðræðinu“ sé það að velja fulltrúa til að samþykkja eða hafna skoðunum eða túlkun þeirra sérfræðinga sem hefur orðið viðtekið að séu nefndunum til ráðgjafar og leiðbeiningar. (sjá hér)

Viðteknir sérfræðingar fastanefndanna eru ráðgjafar innan úr ráðuneytunum og eru þar af leiðandi bæði með framkvæmda- og löggjafavaldið í hendi sér. Auk þessa eru gjarnan kallaðir til sérfræðingar ýmissa “hagsmunaðila“. Sumir oft, aðrir sjaldnar. Það gefur væntanlega augaleið að viðkomandi sérfræðingarnir hafa almennt meiri menntun, meiri reynslu og víðtækari innsýn í málaflokka fastanefnda þingsins en mikill meiri hluti þeirra þingmanna sem eiga sæti í nefndunum.

Albert Einstein

Í þessu samhengi er rétt að hafa það í huga að það er engin trygging fyrir því að þó þingmaður búi yfir sérfræðiþekkingu á vissu sviði að hann fái sæti eða stöðu innan viðkomandi nefndar eða að sjónarmið hans fái eitthvert vægi. Ástæðan er m.a. sú að ef álit sérfræðinga ráðuneytanna og opinberra samtaka eins og Viðskiptaráðs, SA, SFF, LÍÚ o.fl. o.fl. stangast á við skoðun einstakra nefndarmanna þá eru yfirgnæfandi líkur á að skoðun sérfræðinganna verði ofan á.

Ástæða þessa kann líka að vera flokkspólitísk. Þingmenn sem hafa ekki þekkingarlegar forsendur til að meta mál, sem eru tekin fyrir innan nefndanna, taka jafnvel frekar mark á eða tillit til sjónarmiða “óháðra“ utanaðkomandi aðila en að að þeir taki afstöðu með sjónarmiðum sem koma frá öðrum þingmönnum sem tilheyra ekki þeirra stjórnmálaflokki. Þetta er reyndar ein af þeim viðteknu hugmyndum um starfsaðferðir fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem stendur lýðræðinu fyrir þrifum.

Kjósendur hafa gengist inn á það að kjósa frekar stjórnmálaflokka en einstaklinga inn á þing. Þó er líklegt að í einhverjum tilfellum kjósi þeir flokk fyrir það að þeir treysta einhverjum fulltrúa hans betur en öðrum til að vinna að einhverjum þeirra málaflokka sem eru á könnu Alþingis.

Eins og áður segir þá hafa kjósendur hins vegar enga tryggingu fyrir því að þeir sem þeir kjósa geti beitt sér í þeim málaflokkum sem þeir hafa gefið fyrirheit um að þeir hafi góða þekkingu á og/eða brenni fyrir. Það eru ekki bara úrslit kosninganna sem hafa þar mikið að segja. Flokksforysta viðkomandi stjórnmálaflokks getur ekkert síður verið hindrun fyrir því að menntun, reynsla, þekking og/eða málefnaáhugi fái að njóta sín.

Það liggur væntanlega í augum uppi að vinna þingmanna gerir ekki aðeins kröfu um staðgóða þekkingu á hinum ýmsu málefnasviðum heldur ekki síður að hann geti staðið á sínu frammi fyrir “hagsmunamiðuðum“ sérfræðingum innan fastanefndanna. Í þessu ljósi er auðvitað sérkennilegt að horfa upp á það hvaða leið hefur orðið að viðtekinni venju við val á framboðslista og ekki síður að það skuli vera þeir sem raðast efst á lista eftir þessari leið sem þykja sjálfsagðir kandídatar til ráðherraembætta. 

Marcus Tullius Cicero
Miðað við aðferðafræðina sem hefur fests í sessi við val á framboðslista stjórnmálaflokkanna, kosningu í stjórnir flokkanna og síðan alræðisvald flokksforystunnar er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að það sé almennt álit, bæði innan þings og utan, að stjórnmálamenn fæðist hreinlega alvitrir. Auðvitað er það ekki tilfellið og þess vegna er það með ólíkindum að ekki skuli vera gerðar meiri kröfur til þeirra sem er ætlað að taka afdrifaríkar ákvarðanir um viðgang og framtíð mikilvægustu þátta samfélagsins.

Það er sannarlega sérstakt að horfast í augu við það að á sama tíma og sívaxandi kröfur eru gerðar um sértæka hæfni og/eða færni á hinum aðskiljanlegustu sviðum samfélagins þá getur hver sem er orðið þingmaður og síðan ráðherra. Þ.e. ef hann hefur tileinkað sér aðferðafræðina við að komast í gegnum prófkjörið, ná hylli formannsins í sínum stjórnmálaflokki og komast að í fjölmiðlum.

Hér er líka tilefni til að vekja sérstaka athygli á því að engar kröfur eru gerðar um sí- eða endurmenntun þeirra sem eru kosnir inn á þing eða eru skipaðir ráðherrar. Það er væntanlega einsdæmi þegar um svo margslungnar stjórnenda- og/eða ábyrgðarstöður er að ræða. Það má þó vera að þetta sé viðtekið metnaðarleysi innan stjórnsýslunnar. Hins vegar er ekki útlit fyrir annað en almennt séu gerðar töluvert meiri kröfur til menntunar- og reynsluferils starfsfólks stjórnsýslunnar en þingmanna og ráðherra.

Það er sanngjarnt að taka það fram að það er kannski ekki eingöngu við stjórnmálaflokkana, hvað þá einstaka þingmenn, að sakast. Kjósendur bera þó nokkra ábyrgð líka því þeir hafa ekkert síður gengist inn á þær hefðir sem stjórnmálin hafa ratað í (sjá t.d. hér). Hér má ekki heldur gleymast að minnast á þátt fjölmiðla sem í stað uppbyggilegrar gagnrýni sitja fastir í hjólförum vanabundinnar umfjöllunar eða í versta falli flokkspólitískra árásaraðgerða sem gera ekkert nema skerpa flokkslínurnar.

Í aðdraganda kosninga eru efstu menn gjarnan kallaðir í viðtöl þar sem þeir eru spurðir um afstöðu til tiltekinna mála án þess að nokkurs sé spurt um bakgrunnsþekkingu á viðkomandi málefnum. Formenn stjórnmálaflokkanna fá þó yfirleitt mestu athyglina en þar er heldur einskis spurt um bakgrunnsþekkingu hvorki varðandi einstök mál né reynslu af mannaforráðum eða öðru sem víkur að stjórnun.

Þá eru formenn þeirra stjórnmálaflokka sem þykja líklegastir til að koma best út úr viðkomandi kosningum spurðir um það með hvaða stjórnmálaflokki/-um þeir gætu hugsað sér að vinna eftir kosningarnar. Hins vegar vantar spurningar sem taka mið af faglegum þáttum eins og þeim sem varða skipun æðstu manna ráðuneytanna og aðferðafræðina sem þeir munu fara eftir.

Che Cuevara

Það hefur vissulega komið fyrir að val formannanna á ráðherrum hefur verið gagnrýnt eftir á. Formennirnir hafa líka verið spurðir út í val á einstökum ráðherrum sem hafa tekið við ráðuneytum þegar eitthvað er liðið á kjörtímabilin en þar fá þeir líka að tala einir:

[1. okt. 2009 í tilefni þess að Álfheiður Ingadóttir tók við af Ögmundi Jónassyni:] Steingrímur [J. Sigfússon] segir fullan einhug hafa verið innan þingflokksins um að Álfheiður tæki við ráðherrastólnum. Kynjasjónarmið höfðu áhrif þar á. „Álfheiður er auðvitað reynd og hefur sinnt heilbrigðismálum. Hún er vel að sér í þeim málaflokki. (sjá hér)

[4. desember 2014 í tilefni þess að Ólöf Nordal tók við af Hönnu Birnu Kristjánsdóttir:] Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist vera mjög ánægður með Ólöfu Nordal sem næsta innanríkisráðherra og segir ríkisstjórnina hafa fengið afskaplega hæfa konu til að koma í ráðuneytið. [...]

„Fyrst og fremst vildi ég fá einstakling sem nyti óskorað traust okkar sjálfstæðismanna. Ég lít á hana sem eina af okkur. Hún hefur reynslu úr ráðuneytinu og er lögfræðimenntuð. Hún býr í Reykjavík en reykvíkingar höfðu aðeins einn ráðherra í þessum tveimur stóru kjördæmum,“ (sjá hér)

Það blasir sennilega við öllum hversu keimlík þessi svör eru. Í þeim má líka sjá að þau vísa í ákveðnar hefðir, einhvern ramma og aðferðafræði sem er greinilega viðtekin af formönnum stjórnmálaflokkanna. Reyndar gott betur en það því það er ekki annað að sjá en báðum þyki fullsvarað með því að vísa til þess að flokkurinn hafi verið sáttur, kynjasjónarmiða hafi verið gætt og að þær hafi einhverja undirstöðuþekkingu.

„Álheiður hefur sinnt heilbrigðismálum og er vel að sér í málaflokknum“, segir Steingrímur. „Ólöf hefur reynslu úr ráðuneytinu og er lögfræðimenntuð“ segir Bjarni. Fréttamennirnir sem tóku við þessum skýringum spyrja einskis. Annaðhvort eru þeir þögulir fyrir það að þeir eru því vanastir eða þeir eru blindaðir af því sem hefur orðið viðtekið fyrir það að formenn stjórnmálaflokkanna láta sem þetta sé vinnuregla sem lýðræðið hafi látið þeim í hendur. M.ö.o.að það sé þeirra að deila og drottna hvort sem um nefndar- eða ráðherrasæti er að ræða.

Álfheiður Ingadóttir og Ólöf Nordal

Hér að ofan er það tekið úr ferilskrám þeirra Álfheiðar Ingadóttur og Ólafar Nordal sem er líklegast að formenn þeirra vísi til þegar þeir fjalla um hæfi þeirra til að gegna þeim ráðherraembættum sem þeir úthlutuðu þeim. Hér verður látið staðar numið í þessum vangaveltum að sinni en þriðja kafli færslunnar Ráðherrasamanburður: Þingreynsla endurbirtur með viðbætum.

Þessi hluti fjallar um sérnefndir Alþingis og önnur trúnaðarstörf á vegum þess. Kaflinn er óbreyttur nema reynslu Ólafar Nordal hefur verið bætt við. Textinn hefur líka verið aukinn á einhverjum stöðum þar sem óhjákvæmilegt var að gera frekari grein fyrir þátttöku hennar í neðantöldum nefndum.

Sérnefndir og önnur trúnaðarstörf

Eins og áður hefur komið fram eru þær  nefndir sem eru taldar hér kallaðar „aðrar nefndir“ samkvæmt þessu yfirliti alþingisvefsins. Hér eru líka taldar svokallaðar sérnefndir en það er breytilegt á milli kjörtímabila og þinga hverjar þær eru. Á síðasta þingi voru þær óvenju margar. Þar af leiðandi hafa einhverjir þeirra sem eru ráðherrar nú orðið sér úti um reynslu af nefndarstörfum þaðan.

Á undanförnum árum hefur verið skipað nokkuð reglulega í sérnefnd um stjórnarskrármál. Árið 2005 var hins vegar stofnuð sérstök stjórnarskrárnefnd undir forystu Jóns Kristjánssonar. Sú nefnd starfaði í tvö og hálft ár og lauk störfum með útgáfu skýrslu (sjá hér). Þeir sem voru ráðherrar á síðasta kjörtímabili eiga margir nefndarferil úr þessum nefndum.

Kjörbréfanefnd hefur hins vegar verið skipuð í upphafi hvers þings. Samkvæmt yfirliti alþingisvefsins (sjá hér) hefur hún talist til „annarra þingnefnda“. Frá og með breytingum síðustu ríkisstjórnar á stjórnskipunarlögum, sem tóku gildi um mitt ár 2011 (sjá hér), heyra málefni hennar svo og sérnefnda um stjórnarskrármál/stjórnarskrárnefnda undir sérstaka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem er orðin ein af fastanefndum þingsins. Hlutverk hennar er að fjalla:

um stjórnarskrármál, málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess, kosningamál, málefni Stjórnarráðsins í heild og önnur mál sem varða æðstu stjórn ríkisins. Enn fremur fjallar nefndin um ársskýrslu og tilkynningar umboðsmanns Alþingis, svo og um skýrslur Ríkisendurskoðunar. [...]

Nefndin skal einnig hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Komi beiðni um slíka athugun frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna skal hún fara fram. Um athugun sína getur nefndin gefið þinginu skýrslu.

Nefndin skal jafnframt leggja mat á og gera tillögu til Alþingis um hvenær rétt er að skipa rannsóknarnefnd, sbr. lög um rannsóknarnefndir. Nefndin tekur skýrslur slíkrar nefndar til umfjöllunar og gefur þinginu álit sitt um þær og gerir tillögur um frekari aðgerðir þingsins. (sjá hér)

Fimm þeirra, sem eiga þær ferilskrár sem hafa verið til skoðunar hér, höfðu setið í kjörbréfanefnd áður en þeir urðu ráðherrar. Sex ef Álfheiður, sem sat tímabundið yfir Heilbrigðisráðuneytinu, er talin með en væntanlega hefur hún verið komin með hálfs árs reynslu þaðan þegar hún tók við Heilbrigðisráðuneytinu haustið 2009.

Kjörbréfanefnd

Reyndar á þetta líka við um þrjár þeirra fastanefnda sem Álfheiður hafði átt sæti í áður en að skipun hennar kom og svo reynslu hennar sem nefndarformanns. Þessi reynsla hefur þegar verið talin (sjá t.d. hér) en það þykir tilhlýðilegt að benda á að ekki kemur fram hvort Álfheiði voru úthlutuð þessi nefndarhlutverk í fyrra eða seinna ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér er miðað við að það hafi verið í því fyrra eða þegar Jóhanna tók við völdum sem forsætisráðherra 1. febrúar 2009.

Þingvallanefnd er sennilega ein elsta sérnefnd þingsins en hún varð til við það að Þingvellir voru gerðir að þjóðgarði árið 1928 (sjá athyglisverða grein um nefndina hér). Nefndin er skipuð sjö alþingismönnum og heyrir undir Forsætisráðuneytið (sjá hér). Meira verður sagt af þessari nefnd í ýtarlegri færslu um nefndir Alþingis.

Forsætisnefnd er væntanlega enn eldri en hana skipa forseti Alþingis og varaforsetar. Veru í þessari nefnd er ekki getið sérstaklega í ferilskrám fyrrverandi og núverandi alþingismanna en þar er hins vegar talið ef þeir hafa verið forsetar eða varaforsetar Alþingis. Þessi höfðu gegnt embætti varaforseta og hafa þar af leiðandi átt sæti í forsætisnefnd áður en kom til skipunar þeirra í ráðherraembætti:

Forsætisnefnd

Hér þykir ástæða til þess að vekja athygli á því að Guðbjartur Hannesson, sem hafði setið í tvö ár inni á þingi þegar síðasta ríkisstjórn tók við, var forseti Alþingis árið 2009. Sama ár var hann settur formaður einnar fastanefndar þingsins en ári síðar var hann skipaður til ráðherraembættis. Guðbjartur er sá í þeim hópi, sem hér hefur verið borinn saman, sem á að baki lengsta stjórnmálaferilinn af sveitarstjórnarstiginu eða 26 ár (sjá hér).

Það er reyndar áberandi að af þeim fjórum sem eiga sögu innan úr forsætisnefndinni á þingferlinum eru þrír samfylkingarráðherrar. Það vekur væntanlega athygli líka að Össur hefur orðið annar varaforseti á fyrsta ári sínu á þingi en það ár sat Alþýðuflokkur með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn undir fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér).

Jóhanna var 2. varaforseti Neðri deildar ári eftir að hún kom inn á þing en það ár sat flokkur hennar, Alþýðuflokkurinn í ríkisstjórn með Alþýðubandalaginu og Framsóknarflokki undir forsæti Ólafs Jóhannessonar (sjá hér). Stjórnarsamstarfið náði rétt rúmu ári áður en Alþýðuflokkur sprengdi ríkisstjórnina (sjá hér).

Árið 1983 til 1984 var Jóhanna svo 1. varaforseti en það ár varð Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra í fyrsta skipti í stjórnarsamstarfi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þetta er ekki síður athyglisvert fyrir það að Steingrímur gegndi sínu fyrsta ráðherraembætti í þeirri ríkisstjórn sem Alþýðuflokkurinn hafði sprengt fjórum árum áður. Það skal tekið fram að það má vel vera að á þeim tíma, sem Alþingi var þrjár málstofur, hafi stjórnarandstaðan skipað forseta Neðri deildar.

Árið 2003 til 2007 störfuðu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur saman undir þremur forsætisráðherrum: Davíð Oddsyni, Halldóri Ásgrímssyni og Geir H. Haarde (sjá hér). Jóhanna Sigurðardóttir var hins vegar 4. varaforseti Alþingis allt það kjörtímabil.

Hlutverk Forsætisnefndar er að hún „skipuleggur þinghaldið, hefur umsjón með alþjóðasamstarfi, fjallar um fjárhagsáætlanir þingsins og setur almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu“ (sjá hér). Þess má svo geta að nánar verður fjallað um þessa nefnd og þýðingu hennar eins og Þingvallanefndarinnar í sérstakri færslu.

Hér er svo loks yfirlit þar sem þær sérnefndir/aðrar nefndir eru dregnar fram sem ráðherrarnir, sem voru leystir undan embættisskyldum sínum vorið 2013, áttu sæti í áður en þeir voru skipaðir. Hér eru líka talin önnur trúnaðarstörf en þar er átt við forseta- og varaforsetahlutverk.

  
 Jóhanna Sigurðardóttir,
 forsætisráðherra
í stjórnarnefnd um málefni þroskaheftra og öryrkja 1979-1983; formaður,
í nefnd til að undirbúa frumvarp um tilhögun og framkvæmd fullorðinsfræðslu og endurskoðun laga um almannatryggingar 1978
í tryggingaráði 1978-1987; formaður 1979-1980
sérnefnd um stjórnarskrármál 1995-1997, 1999-2000 og 2004-2007,
kjörbréfanefnd 1999-2003.

Önnur trúnaðarstörf á vegum Alþingis:
2. varaforseti Neðri deildar 1979,
1. varaforseti Neðri deildar 1983-1984,
4. varaforseti Alþingis 2003-2007.
 Guðbjartur Hannesson,
 velferðarráðherra
Önnur trúnaðarstörf á vegum Alþingis:
forseti Alþingis 2009.
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra
í stjórnarnefnd Ríkisspítalanna 1983-1987,
sérnefnd um stjórnarskrármál 2004-2005,
Í stjórnarskrárnefnd 2005-2007.
 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
kjörbréfanefnd 1999-2003,
í stjórnarskrárnefnd 2005-2007.

Önnur trúnaðarstörf á vegum Alþingis:
2. varaforseti Neðri deildar 1991.
 Ögmundur Jónasson,
 innanríkisráðherra
kjörbréfanefnd 1999-2007,
sérnefnd um stjórnarskrármál 1999-2003, 2004 og 2005-2007.


Eins og var rakið hér á undan er margt athyglisvert í sambandi við það sem kemur fram í þessari töflu um sérnefndareynslu þeirra sem þar koma fyrir. Til viðbótar því sem þegar hefur verið gerð sérstök grein fyrir þykir ástæða til að undirstrika það að fjórir af þeim átta, sem voru ráðherrar undir lok síðasta kjörtímabils, höfðu starfað með hinum ýmsu nefndum sem höfðu fjallað um Stjórnarskrána á undangegnum árum eða frá því að EES-samningurinn var lögleiddur hér á landi (sjá hér).

Stjórnarskrárnefndir

Það sem þessi mynd dregur fram vekur ekki síst athygli í ljósi þess hvar áherslur síðustu ríkisstjórnar lágu undir lok valdatímabils hennar. Miðað við þann tíma sem  Jóhanna og Ögmundur hafa setið í nefndum, þar sem Stjórnarskráin hefur verið sérstakt umfjöllunarefni, er ekki óvarlegt að ætla að bæði þekki hana eins og eigin handarbök.

Eins og rækilega hefur verið gerð grein fyrir þá eru stjórnarskrármál nú komin undir eina af þeim fastanefndum sem voru settar með breytingunum á þingskaparlögum árið 2011 (sjá hér) og heitir nú stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er þar af leiðandi sérstakt að enn einu sinni hafi stjórnarskrárnefnd verið sett á laggirnar en það var gert í nóvember á síðasta ári.

Samkvæmt því sem kemur fram á vef Forsætisráðuneytisins þá er stefnt „að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir“ (sjá hér).

Áður en kemur að yfirliti yfir veru núverandi ráðherra í „öðrum nefndum“ og eða sérnefndum Alþingis er rétt að koma því á framfæri að af þeim fimm, sem sátu tímabundið á ráðherrastóli undir ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur, þá áttu aðeins Álfheiður Ingadóttir og Oddný G. Harðardóttir mislangan feril að baki í slíkum nefndum.

Reynsla Álfheiðar hefur þegar verið talin en hún hafði verið hálft ár í kjörbréfanefnd þegar hún var skipuð heilbrigðisráðherra haustið 2009. Oddný var svo meðal þeirra sem sátu í þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis árið 2009 til 2010 en tveir af núverandi ráðherrum áttu sæti í henni líka eins og fram kemur í eftirfarandi töflu.

  þingnefndir
 Bjarni Benediktsson,
 fjármála- og efnahagsráðherra
sérnefnd um stjórnarskrármál 2004-2007 og 2009 (fyrri),
í stjórnarskrárnefnd 2005-2007,
kjörbréfanefnd 2005-2009.
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra
í nefnd um eflingu græna hagkerfisins 2010-2013.
 Ragnheiður Elín Árnadóttir,
 iðnaðar- og viðskiptaráðherra
þingskapanefnd 2011-2013,
í Þingvallanefnd 2009-2013.
 Eygló Harðardóttir,
 félags- og húsnæðisráðherra
þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2009-2010,
formaður verðtryggingarnefndar  2010-2011,
í samráðshóp um húsnæðisstefnu 2011.
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra
þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2009-2010,
í Þingvallanefnd 2009-2013.

Önnur trúnaðarstörf á vegum Alþingis:
4. varaforseti Alþingis 2011-2013.
 Gunnar Bragi Sveinsson,
 utanríkisráðherra
þingskapanefnd 2011-2013.
 Ólöf Nordal,
 innanríkisráðherra
kjörbréfanefnd 2009-2011,
sérnefnd um stjórnarskrármál 2010-2011.


Hér má sjá að Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Ólöf Nordal eru þeir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar sem hafa setið í þeim “sérnefndum“ sem er algengast að ráðherrar þeirrar síðustu hafi haft sína sérnefndareynslu. Þessar nefndir eru kjörbréfa-, forsætis- og stjórnarskrárnefnd og svo sérstök nefnd um stjórnarskrármál.

Algengasta sérnefndarreynsla núverandi ráðherrar er úr: þingskapanefnd, þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og svo Þingvallanefnd. 

Sérnefndir síðasta kjörtímabils

Það er rétt að geta þess að Ólöf Nordal sat bæði í kjörbréfnefnd og sérnefnd um stjórnarskrá undir ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar sem rækileg grein hefur verið gerð fyrir veru hennar í þessum nefndum þykir óþarft að telja hana aftur enda þær nefndir, sem eru taldar á myndinni hér að ofan, annaðhvort þær sem ekki hafa verið taldar áður eða sérnefndir sem var skipað í á síðasta kjörtímabili.

Illugi Gunnarsson átti sæti í nefnd um eflingu græna hagkerfisins. Nefndinni var ætlað það „verkefni að kortleggja sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar“ (sjá hér) og skilaði af sér skýrslu um efnið haustið 2011 (sjá hér). Eygló Harðardóttir átti sæti í tveimur þeirra sérnefnda sem síðasta ríkisstjórn setti á laggirnar. Hún var formaður verðtryggingarnefndar sem starfaði árið 2010 til 2011 (sjá skýrslu) og í samráðshópi um húsnæðisstefnu árið 2011 (sjá skýrslu).

Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson sátu líka í þingmannanefndinni sem var ætlað að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í ljósi þess hver útkoma þeirrar vinnu varð er forvitnilegt að lesa það sem þessari nefnd var ætlað (sjá hér). Það er ekki síður forvitnilegt að rifja upp umræðuna inni á þingi um þetta efni (sjá hér) og síðast en ekki síst þingsályktunina sem var samþykkt af 63 þingmönnum í framhaldinu en þar segir m.a:

  • Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.
  • Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.
  • Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.
  • Alþingi ályktar að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu.
  • Alþingi ályktar að eftirlitsstofnanir hafi brugðist.
  • Alþingi ályktar að mikilvægt sé að allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið. (sjá hér)

Sigurður Ingi Jóhannsson átti líka sæti í Þingvallanefnd ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Þau sátu allt síðasta kjörtímabil í nefndinni. Nefndin fer „með yfirstjórn Þingvallaþjóðgarðs“ (sjá hér). Hér þykir tilefni til að vekja sérstaka athygli á því að enginn ráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar hafði átt sæti í þessari nefnd.

Ragnheiður Elín átti svo sæti í þingskapanefnd ásamt Gunnari Braga Sveinssyni. Þessi nefnd var skipuð til að „fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum [...] um þingsköp Alþingis (nefndaskipan, eftirlitshlutverk Alþingis o.fl.)“ (sjá hér). Útkoman urðu lögin sem núverandi nefndarskipan Alþingis byggir á og tóku gildi á miðju ári 2011 (sjá lögin hér). Það má svo minna á að samkvæmt því sem kemur fram hér er einnig starfandi nefnd á þessu þingi til endurskoðunar á þessum sömu lögum.

                                      ***

Í næstu færslu verður lokakafli færslunnar Ráðherrasamanburður: Þingreynsla birtur en væntanlega verður svo gert hlé á þessu verkefni fram yfir jól.

Heimildir

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta
Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla
Ráðherrasamanburður: Þingreynsla

Innskotsfærslur þar sem þingreynslu Ólafar Nordal er bætt við:
Hefðarreglur ráða för I
Hefðarreglur ráða för II

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands
(sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fullyrðing Steingríms J. sem þú vitnar í um "... fullan einhug...innan þingflokksins um að Álfheiður tæki við ráðherrastólnum..." eru ósannindi. Ég lét bóka á fundi þingflokksins VG að ég styddi ekki Álfheiði í embætti heilbrigðisráðherra, þar sem gengið væri fram hjá Þuríði Backmann hjúkrunarfræðingi sem auk þess var ekki "uppbótarþingmaður" eins og Álfheiður. Við val á öðrum ráðherrum VG var farið eftir stöðu viðkomandi á listum flokksins.

Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 13.12.2014 kl. 17:12

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Lilja, ég þakka þér kærlega fyrir þetta innlegg þar sem það byggir vissulega undir það sem er setti í inngang þessarar færslu. Eins og þig grunar sjálfsagt liggur mikil rannsóknarvinna á bak við þá djörfung að halda einhverju fram um verklag inni á Alþingi.

Það er hins vegar óhjákvæmilegt annað en sjá það að það er eitthvað bogið við vinnulagið þegar rýnt er ofan í umræður inni á þingi, umsagnir um mál lagafrumvörp og/eða þingsályktunartillögur, greinar um þessi sömu mál og svo viðtöl við þingmenn og ráðherra.

Ég gleymi heldur aldrei svörum þínum við spurningarlistanum sem DV sendi á ykkur þingkonurnar sem ákváðuð og/eða áttuð ekki annars kost en hverfa af þingi vorið 2013. Að mínum dómi hafa svörin þín notið ALLTOF lítillar athygli. Hér er tilvitnun í það með viðeigandi spurningum:

„Hefur þú orðið vör við einhvern mun á því hvernig kynin nálgast völd og valdastöður?

Karlar eru gjarnan óhræddari en konur að nota valdastöður til að tryggja og jafnvel auka völd sín enn frekar.  Völd kvenna eru oftar dregin í efa af öðrum í nefndum og jafnvel komið í veg fyrir að konurnar geti beitt þeim með sama hætti og karlar t.d. með því að hafna tillögum kvenna um breytingar á fyrirkomulagi funda og fundarefni. Dæmin sýna þó að kyn viðkomandi er ekki endilega trygging fyrir bættum og lýðræðislegri vinnubrögðum.

Er Alþingi karllægur vinnustaður og hefur þú merkt einhverjar breytingar þar á þeim tíma sem þú hefur setið á þingi?

Já, Alþingi er karllægur vinnustaður þar sem formenn flokka ráða mestu um störf þingsins, þ.e. hvaða mál komast í gegn fyrir jóla- og sumarfrí. Þegar slíkar samningaviðræður áttu sér stað fóru margir karlar á flug í allskonar plotti. Fæstar konur fundu sig í plottinu og áttu oft erfitt með að skilja hvað væri í gangi dögum saman á þingi. Þeir þingmenn (konur og karlar) sem stóðu fyrir utan samningaviðræðurnar gramdist hvernig farið var með fullkláruð frumvörp sem fórnað var í valdaspili formanna stærstu þingflokkanna. Engin breyting varð á þessu á meðan ég sat á þingi.

Eiga konur erfiðara uppdráttar á þingi en karlmenn?

Já, á meðan völd snúast um plott í bakherbergjum og samtryggingarkerfi karla en ekki þekkingu og hæfni. Fæstar konur kunna öll klækjabrögðin sem tíðkast í pólitík og valdaleysi þeirra í pólitík þýðir að þær geta ekki treyst á jafn víðtækt stuðningsnet og karlar þegar á þarf að halda. Konum hefur verið innrætt í meira mæli en körlum að þær þurfi að mennta sig til að ná árangri. Þær missa því margar fótanna þegar inn á þing er komið og í ljós kemur að hollusta við flokksforystuna ræður mestu um hvaða trúnaðarstörf þingmenn fá. [..]

Finnst þér þú hafa verið metin að verðleikum innan þíns flokks?

Nei. Forysta flokksins hafði frá upphafi engan áhuga á að nota þekkingu og hæfni mína. Fólk er enn metið út frá fjölskyldutengslum og hollustu við málflutning leiðtoganna. Ég kom ekki úr réttri fjölskyldu og hafði skoðanir á Icesave, samstarfinu við AGS, niðurskurðinum í heildbrigðisgeiranum og skuldavanda heimilanna sem samrýmdust ekki málflutningi flokksforystunnar.

Margoft var vitnað til þess að enginn annar (hagfræðingur) væri sammála mér og reynt að gera mig tortryggilega með dylgjum um að ég væri í eigin hagsmunabaráttu í málum sem ég beiti mér mest í (skuldamálin og Icesave) og jafnvel í máli sem ég beitti mér ekki neitt í (breytingar á kvótakerfinu). [...]

Hvað kom þér mest á óvart þegar þú settist á þing?

Hvað hæfni þingmanna skiptir litlu máli og hvað valdakerfið er fast í sessi innan veggja þingsins. Framkvæmdavaldið ræður öllu í krafti meirihlutans en þingmenn meirihlutans eru að mestu leyti valdalaust tæki þess. Stjórnarmeirihlutinn hafði aðeins samráð við stærstu þingflokkana, Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Aðrir vissu varla hvað var í gangi. [...]



En það neikvæðasta?

Klækjastjórnmál og að vera skilgreind út frá fjölskyldutengslum og hollustu við flokksforystuna í VG. Mér sárnaði mest þegar ég fékk áskorun frá hópi fólks úr menningar- og menntaelítunni sem skoraði á mig að segja mig frá þingmennsku vegna afstöðu minnar til Icesave I. Þetta fólk átti að vita betur. Afstaða mín til Icesave I og II var líka oft útskýrð af forystu VG með tilvísun til þess að foreldrar mínir og nokkrir ættingjar hefðu kosið Sjálfstæðisflokkinni í áratugi. [...]

Telur þú að það þurfi að eiga sér einhverjar breytingar á starfsháttum þingsins og þá hvaða?

Já, hæfni og vinna þingmanna verður að hafa meira vægi inni á þingi. Til þess að það geti orðið þarf að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Stjórnarandstaðan á að hafa með höndum formennsku í nefndum og samningar um hvaða mál fara í gegn fyrir þinglok á að vera alfarið í höndum einstakra nefnda.

Ef hæfni ræður trúnaðarstörfum verður ekki lengur hægt að refsa „óþægum“ þingmönnum með því að taka af þeim trúnaðarstörf og verkefni eins og nú er óspart gert.„ (sjá hér: http://www.xc.is/c/8566)

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.12.2014 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband