Hefðarreglur ráða för I

Í tilefni þess að Bjarni Benediktsson hefur opinberað hver tekur við stöðu innanríkisráðherra eftir brotthvarf Hönnu Birnu Kristjánsdóttur úr Innanríkisráðuneytinu þykir tilhlýðilegt að vekja athygli á því verkefni sem hefur verið unnið að og birt á þessu bloggi. Verkefnið snýr að því að vekja til umhugsunar um þær aðferðir sem eru við lýði þegar kemur að skipun til ráðherraembætta á Íslandi. “Reglurnar“ eru óskráðar en útlit er fyrir að þær byggi í megindráttum á hollustubundnum hefðum náins klúbbasamfélags þar sem faglegar forsendur megi sín lítils.

Það er reyndar að verða eitt og hálft ár frá því að síðuhaldari hratt þessu verkefni af stað en fyrsta færslan ásamt tilefninu var kynnt í byrjun ágústmánaðar á síðasta ári. Frá síðastliðnum apríl hefur áherslan legið á því að draga fram þá þætti í ferilskrám þeirra, sem hafa setið á ráðherrastólum frá vorinu 2009, sem geta gefið vísbendingar um færni og/eða hæfi þeirra til að fara með það embætti sem þeim var úthlutað. Hérna neðst eru krækjur í færslurnar sem hafa verið birtar.

Alva Myrdal

Síðasta færsla fjallaði um þingreynslu þeirra sem hafa gegnt ráðherraembættum frá vorinu 2009. Færslan var sett í loftið nóttina áður en tilkynnt var um eftirmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þingreynsla Ólafar Nordal kemur þar af leiðandi ekki fyrir þar. Hugmyndin er að bæta henni við og taka feril hennar svo áfram inn í færslurnar sem eru eftir. Þar sem síðasta færsla er mjög löng og efnismikil þá er meiningin að flétta þann hluta sem snýr að þeirri þingreynslu Ólafar, sem þegar hefur verið talin fram hjá hinum, inn með því að endurbirta síðustu færslu í fjórum hlutum.

Nýr innanríkisráðherra

Í þessum fyrsta hluta er fyrst sams konar uppsetning á ferilskrá Ólafar eins og var sett upp á ferilskrám þeirra sem voru skipaðir ráðherrar við upphaf þessa kjörtímabils og hinna sem voru leystir frá þeim embættum við lok þess síðasta. Færslan nefnist Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta og var sett fram sem undanfari þess verkefnis sem enn er ekki að fullu lokið.

Ólöf Nordal 

Ólöf Nordal
fædd í Reykjavík 3. desember 1966

þingmaður Reykjavík suður til 2013 (Norðausturkjördæmi 2007-2009)
Sjálfstæðisflokkur
varaformaður flokksins 2010-2013.
sat inni á þingi frá 2007-2013

innanríkisráðherra
2014-
aldur

 48 ára

menntunStúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1986.
Lögfræðipróf frá HÍ 1994.
MBA-próf frá Háskólanum í Reykjavík 2002.

stjórnmálatengd störf og nefndarsetur utan Alþingis

Formaður sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi 2006-2009.

Formaður Spes, hjálparsamtaka vegna byggingar barnaþorpa í Afríku (ekkert ártal).

starfsaldur á þingi
Sat í 6 ár á þingi

þingnefndir
allsherjarnefnd 2007-2010,
samgöngunefnd 2007-2009,
umhverfisnefnd 2007-2009,
fjárlaganefnd 2009-2010,
kjörbréfanefnd 2009-2011,
sérnefnd um stjórnarskrármál 2010-2011,
utanríkismálanefnd 2010-2011,
stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011-2013.

önnur starfsreynsla
Lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands 1999-2001.
Stundakennari í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst 1999-2002.
Deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar Viðskiptaháskólans á Bifröst 2001-2002.
Yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002-2004.
Framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK 2004-2005 er rafmagnssala var tekin inn í sérstakt fyrirtæki, Orkusöluna,
framkvæmdastjóri Orkusölunnar 2005-2006.

><>  ><>  ><>  ><>  ><>  ><>   ><>

Þar sem Ólöf Nordal hefur verið skipuð í það embætti sem Hanna Birna Kristjánsdóttir baðst lausnar frá þá er vissulega forvitnilegt að bera þær tvær saman út frá þeim þáttum sem hafa verið raktir í fyrri færslum. Þessi atriði eru dregin fram á eftirfarandi mynd:

Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ólöf Nordal

Það sem þær eiga sameiginlegt er að þær eru jafngamlar og hafa báðar komist til forystu í Sjálfstæðisflokknum. Hanna Birna tók við af Ólöfu Nordal sem varaformaður flokksins ári eftir að Ólöf gaf út þá yfirlýsingu að hún ætlaði ekki fram sem varaformaður né þingmaður áfram (sjá hér).

Menntun þeirra er ólík. Önnur hefur víðtæka menntun í stjórnmálafræði. Hin próf í lögfræði. Starfsreynslan er frekar ólík líka en þó má geta þess að Ólöf var deildarstjóri í Samgönguráðuneytinu 1996 til 1999 og Hanna Birna deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu 1994 til 1995. Ólafur G. Einarsson var menntamálaráðherra þann tíma sem Hanna Birna gegndi stöðu deildarsérfræðings í Menntamálaráðuneytinu (sjá hér). Þegar Ólöf var deildarstjóri í Samgönguráðuneytinu var Halldór Blöndal samgönguráðherra.

Starfsreynsla Hönnu Birnu er að langmestu leyti af stjórnsýslu og -stjórnmálasviðinu en Ólöf starfaði í tvö ár sem lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands. Á sama tíma var hún stundakennari í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Hún starfaði við skólann í alls þrjú ár og var deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar hans síðasta árið.

Í framhaldinu var hún yfirmaður og síðar framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, RARIK og síðast Orkusölunni. Hún kom fyrst inn á þing vorið 2007 sem þingmaður Norðausturkjördæmi. Það má geta þess að það sama ár lauk þingferli Halldórs Blöndal.

Bertrand Russell

Ekki verður dvalið frekar við samanburð Ólafar og Hönnu Birnu sérstaklega enda markmiðið að bera þingreynslu Ólafar saman við alla kollega hennar með því að flétta þeim atriðum sem viðkoma honum inn í þann hluta sem þegar hefur verið settur fram. Þeir sem hafa þegar lesið síðustu færslu kannast við að hún er afar löng. Henni verður því skipt niður eftir undirköflum sem eru fjórir. Þetta er fyrsti hlutinn þar sem starfsaldur þeirra sem sitja á ráðherrastóli nú og hinna sem sátu þar á síðasta kjörtímabili er dreginn fram og borinn saman.

Kaflinn er að mestu óbreyttur frá síðustu færslu nema varðandi þau atriði sem eiga við um starfsaldur Ólafar og tilefni þess að hún hefur bæst við núverandi ráðherrahóp. Hér er líka komin ný mynd af ráðherrahópnum þar sem Ólöf Nordal er komin í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Þingreynsla

Væntanlega eru þeir allnokkrir sem telja það til kosta að þeir sem eru skipaðir ráðherrar hafi hlotið nokkra reynslu af þingstörfum og þá líka að þeir hafi kynnst málaflokkunum sem þeir eru skipaðir yfir í gegnum störf sín á Alþingi. Þegar horft er til þeirrar umræðu sem varð áberandi í kjölfar bankahrunsins þá er þó ljóst að ekki ber öllum saman um það hvort starfsaldur á þingi telst til kosta eða lasta.

Margir þeirra sem létu til sín taka í þeirri byltingu, sem síðar hefur verið kennd við Búsáhaldabyltingu, héldu þeirri skoðun mjög á lofti að langur starfsaldur á þingi leiddi til ógæfu og gæfulegasta lausn þess vanda sem hrunið opinberaði væri að óreyndari einstaklingar tækju við stjórnartaumunum. Í þessu ljósi er afar merkilegt að bera saman þingreynslu þeirra ráðherra sem tóku við vorið 2009 og svo þeirra sem voru skipaðir í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2013.

Ráðherraskipan í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009

Meðal ráðherra síðustu ríkisstjórnar voru tveir þeirra þingmanna sem höfðu hæsta starfsaldurinn á Alþingi en þar voru líka þrír sem höfðu innan við fjögurra ára reynslu af þingstörfum. Þetta kemur fram í töflunni hér að neðan en árafjöldinn miðast við þá þingreynslu sem eftirtaldir höfðu að baki þegar þeir voru skipaðir ráðherrar vorið 2009. Rétt er að geta þess að hér eru þeir einir taldir sem voru ráherrar við lok síðasta kjörtímabils.

 Ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna
 þingreynsla í árum
 Jóhanna Sigurðardóttir31
 Katrín Júlíusdóttir6
 Guðbjartur Hannesson3
 Katrín Jakobsdóttir2
 Steingrímur J. Sigfússon26
 Svandís Svavarsdóttir0
 Össur Skarphéðinsson18
 Ögmundur Jónasson14
Meðaltalsreynsla við skipun 12 ár


Eins og kemur fram var meðalstarfsaldur ráðherranna, sem voru leystir frá störfum vorið 2013, 12 ár eða á bilinu 0 til 31 ár. Það má benda á að þegar meðalstarfsaldur þeirra, sem tóku við ráðherraembættum strax eftir alþingiskosningarnar vorið 2009, er reiknaður lækkar hann um tvö ár. Þar munar mestu um utanþingsráðherrana tvo en þeir gegndu embættum sínum aðeins í eitt ár áður en þeim var skipt út fyrir aðra.

Þetta var haustið 2010 en á sama tíma var Kristján L. Möller leystur frá sínu embætti og Samgönguráðuneytið fært undir Innanríkisráðuneytið (sjá hér). Kristján var með 10 ára þingreynslu að baki þegar hann var skipaður ráðherra vorið 2009. Hann var eini ráðherra ríkisstjórnarinnar, sem var við völd kjörtímabilið næst á undan, sem hélt embætti sínu við það að Samfylkingin tók við forystu ríkisstjórnarsamstarfsins eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum (sjá hér).

Haustið 2010 var Guðbjartur Hannesson hins vegar tekinn nýr inn í ríkisstjórnina. Hann var með þriggja ára þingreynslu þegar hann tók við ráðherraskipuninni. Á sama tíma kom Ögmundur Jónasson aftur inn eftir árshlé. Ögmundur var skipaður heilbrigðisráðherra vorið 2009 en sagði af sér haustið 2009 fyrir það að hann var ekki samstíga öðrum innan ráðherrahópsins varðandi afstöðuna í Icesave.

Á þeim tíma tók Álfheiður Ingadóttir við af honum. Hún vék svo fyrir Guðbjarti Hannessyni haustið 2010 en Ögmundur settist í Innanríkisráðuneytið og tók líka við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið af Kristjáni L. Möller.

Ráðherrar í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009

Það má minna á það hér að þegar síðasta kjörtímabil var á enda voru það aðeins tveir ráðherrar sem sátu enn yfir sama ráðuneytinu og þeir voru skipaðir yfir í upphafi þess. Þetta voru þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson. Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir sátu reyndar báðar á sama stað og þær voru settar vorið 2009 en málefnaþáttur ráðuneyta beggja hafði verið aukinn frá því sem hann var þegar þær tóku við þeim. Þær tvær voru með minnstu þingreynsluna þegar þær tóku við embættum. Svandís hafði enga en Katrín tvö ár. Hér má og geta þess að Svandís leysti Katrínu af í Menntamálaráðuneytinu á meðan sú síðarnefnda var í barnseignarleyfi árið 2011 (sjá hér).

Hér er yfirlit yfir þingreynslu þeirra sem gegndu ráðherraembættum tímabundið á síðasta kjörtímabili. Meðaltalsþingreynsla þessa hóps við skipun í ráðherraembætti eru 5 ár. Meðaltalstala allra þeirra sem gegndu ráðherraembættum frá 2009 til 2013 (að Rögnu og Gylfa undanskildum) eru 10 ár.

 Ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna
 þingreynsla í árum
 Jón Bjarnason (ráðherra 2009-2011)10
 Árni Páll Árnason (ráðherra 2009-2011)2
 Kristján L. Möller (ráðherra 2009-2010)10
 Álfheiður Ingadóttir (ráðherra 2009-2010)2
 Oddný G. Harðardóttir (ráðherra 2011-2012)2
 Meðaltalsþingreynsla við skipun  5


Meðalstarfsaldur þeirra sem voru skipaðir til ráðherraembætta í kjölfar síðustu alþingiskosninga er helmingi lægri en meðalþingreynslualdur ráðherrahópsins sem þau tóku við af. Einn þeirra hafði enga þingreynslu þegar hann var skipaður en sá sem er með lengstu þingreynsluna hafði setið á þingi í tíu ár þegar hann tók við embætti. Miðað við áður tilvitnaðar kröfur Búsáhaldabyltingarinnar ætti þetta reynsluleysi af þingstörfum að teljast núverandi ráðherrum til tekna.

Ráðherrar í ráðuneyti Sigmundar Davíðssonar sem tók við vorið 2009

Það er reyndar afar hæpið að telja reynsluleysi af þingstörfum til tekna þegar mið er tekið af því hversu almennur hann er skorturinn á annarri reynslu og/eða menntun sem lýtur að málaflokkum þeirra ráðuneyta sem framantaldir hafa setið yfir. Rök af þessu tagi sem hér hefur verið vísað til hafa líka horfið út úr umræðunni en gagnrýnin á núverandi ráðherra frekar einkennst af tortryggni og/eða gagnrýni fyrir reynslu- og þekkingarleysi á þeim málaflokkum sem viðkomandi hafa á sinni könnu.

Eitthvað fór fyrir slíkri umræðu á síðasta kjörtímabili en hún varð þó ekki eins áberandi og á því sem stendur yfir núna. Miðað við það sem hefur komið fram hér að framan varðandi menntunstarfsreynslu (starfstengd stjórnmálareynsla er rakin hér og hér) og flokksreynslu (sjá hér og hér) er ljóst að það munar einhverju hvað alla þessa þætti varðar. Munurinn skýrir þó hvorki eða réttlætir áðurnefnt ójafnvægi. Það má því segja að þó gagnrýnin kunni að eiga rétt á sér þá vantar í hana samræmi og grundvallarrök.

Ekki verður farið ýtarlega í þennan þátt að sinni né heldur fullyrt nokkuð um það hvað veldur enda utan meginþráðar þessarar færslu. Það er þó vissulega tilefni til að lauma að þeirri spurningu: hvort gagnrýni gagnrýninnar vegna kunni að vera afleiðing þess trúnaðarbrests sem kom í ljós að hafði/hefur orðið á milli þings og þjóðar? Það verður heldur ekki hjá því komist að reifa lítillega þennan þátt í samhengi við þá staðreynd að Ólafur Nordal er nýskipaður innanríkisráðherra.

Malcolm X

Það er næsta víst að þegar fræðingar framtíðarinnar munu fjalla um okkar tíma þá eiga þeir eftir að rekast á samræmið á milli hlutverks kirkjunnar hér í eina tíð og fjölmiðlanna í samtíma okkar. Kirkjunnar menn héldu uppi galdrabrennum og öðrum “mildari“ aðferðum útskúfunar sem sundruðu samfélagsheildum eftir tengslum þeirra við “fórnarlömbin“ og/eða málefnin.

Hugtakið fjölmiðlun og fyrirbærið fjölmiðlar eru ekki ýkja gömul en fjölmiðlar nútímans hafa vaxið gífurlega og taka sennilega síst minni tíma af hversdeginum en trúarbragðaiðkun gegninna kynslóða svo og fjölmiðill þess tíma; þ.e. kirkjan. Fölmiðlar samtímans hafa líka vaxið alveg gríðarlega enda hafa þeir langflestir hafnað því sem átti að vera grunnhlutverk þeirra og selt sig markaðinum. Áður voru þeir kallaðir „gula pressan“ sem byggði sölu sína á slúðri og gróusögum og stóð fyrir lélega blaðamennsku byggða á lélegu siðferði.

Sú aðferðafræði sem áður var kennd við  „gulu pressuna“ er hins vegar orðin allsráðandi og oftar en ekki einkennandi í umfjöllun fjölmiðlanna um bæði menn og málefni. Vinnulag „gulu pressunnar“ hefur og verið viðhaft í því máli sem hefur nú leitt til þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra og Ólöf Nordal hefur verið skipuð í hennar stað.

Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar

Í ljósi þess að “fjölmiðlavaldið“ hefur beitt sér með þessum “árangri“ gegn eina ráðherra þessarar ríkisstjórnar sem enga þingreynslu hafði er spurning hvort krafan um “nýtt“ fólk inn á þing sé þar með dáin drottni sínum? Það er a.m.k. ekki líklegt að þeir séu margir sem séu tilbúnir til að berjast fyrir því að rata kannski í spor Hönnu Birnu verði þeim á mistök sem fjölmiðlar ákveða að gera að máli málanna.

Það er ekki tilgangur þessarar færslu að kryfja stöðu “stjórnmálaumræðunnar“ í landinu til mergjar en þar sem afsögn Hönnu Birnu er bein afleiðing af því á hvern hátt hefur verið fjallað um mögulega ábyrgð hennar í ráðherraembætti þá er vissulega tilefni til að drepa á þessu atriði hér. Það skal tekið fram að hér er alls ekki verið að mæla á móti því að ráðherrar axli ábyrgð og segi af sér verði þeim á í starfi.

Það væri hins vegar eðlilegt að sömu reglur giltu um afglöp allra ráðherra og að löggjafarvaldið nýti þetta tækifæri til að setja saman einhverja viðmiðun, sem væri í takti við almenna skynsemi og tæki mið af almannahagsmunum, þannig að það sé ekki á valdi eigenda fjölmiðlanna að finna tilefni til að losna við ráðherra ef skoðanir þeirra og/eða afstaða í einstökum málaflokkum stríða gegn þeirra hagsmunum.

Þá er að taka upp þráðinn í umfjölluninni um starfsreynslu núverandi ráðherra inni á þingi. Í yfirlitinu hér að neðan hefur Ólöfu Nordal verið bætt inn í. Hanna Birna er samt áfram höfð í þessari töflu þar sem hún er eini ráðherrann sem hefur setið tímabundið á ráðherrastóli á yfirstandi kjörtímabili.

Neðst eru svo tölur þar sem árunum hefur verið deilt jafnt niður á alla sem sitja á ráðherrastóli á þessu kjörtímabili. Fyrri talan er reiknuð út frá því sem á við þá sem voru skipaðir í upphafi þessa kjörtímabils en sú seinni við það sem þingreynsla Ólafar leggur til þessa þáttar. Við það að Hanna Birna er farin út úr stjórninni en Ólöf tekin við hefur meðalþingreynslan hækkað um 0,6 ár. Niðurstöðutalan er svo námunduð.

 Ráðherrar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks
 þingreynsla í árum
 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson4
 Bjarni Benediktsson10
 Kristján Þór Júlíusson6
 Illugi Gunnarsson6
 Ragnheiður Elín Árnadóttir6
 Eygló Harðardóttir5
 Sigurður Ingi Jóhannsson4
 Gunnar Bragi Sveinsson4
 Ólöf Nordal (frá 2014)6
 Ráherra tímabundið eða í tímabundnu hléi frá embætti
 Hanna Birna Kristjánsdóttir (2013-2014)0
 Meðaltalsþingreynsla við skipun 5/6 ár


Meðaltalsaldurinn sýnir að það munar u.þ.b. helmingi á þingreynslualdri þeirra sem hafa gegnt ráðherraembættum á þessu kjörtímabili og þeirra sem voru leystir frá embættum sínum vorið 2013.

Samanburður og samantekt

Það er væntanlega áhugavert að sjá það enn skýrar hvernig þingreynslan skiptist á milli stjórnmálaflokkanna, sem sitja saman í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili, og hinna, sem voru við völd á kjörtímabilinu sem lauk vorið 2013. Til að gera þennan samanburð svolítið þægilegri er það sem á við núverandi ríkisstjórn blátt en það sem á við fyrrverandi ríkisstjórn rautt.

 Þingreynsla eftir flokkum0  
2-3
4  
5-6
10 
 14-1826-31
 Meðaltal
 Framsóknarflokkur
  3
1
    4,25
 Sjálfstæðisflokkur
   4
 1  6,8
 Samfylkingin 1
 1
  1 114
 Vinstri grænir 1 1    1 1 11
 1/10/23/04/1 1/00/2 0/2 


Hér kemur það væntanlega greinilega fram að langflestir þeirra sem gegna ráðherraembættum nú höfðu verið á þingi í eitt til eitt og hálft kjörtímabil (4-6 ár) þegar þeir voru skipaðir. Einn ráðherra hafði hins vegar enga þingreynslu við skipunina en einn var með tíu ára þingreynslu þegar hann var skipaður ráðherra. Við það að Ólöf Nordal var tekin inn í ríkisstjórnina í stað Hönnu Birnu hækkar meðaltalsþingreynsla ráðherra Sjálfstæðisflokksins um tvö ár þar sem Ólöf á sex ára þingreynslu að baki.

Helmingur þeirra sem sátu á ráðherrastólum við lok síðasta kjörtímabils voru hins vegar með frá 14 ára starfsaldri á Alþingi upp í 31 ár. Tveir voru með í kringum eins og hálfs áratugar þingreynslu, þriðji með hátt í þrjá áratugi og einn yfir þrjá sem þýðir að hann hafði setið á Alþingi í nær átta kjörtímabil. Einn hafði setið í eitt og hálft kjörtímabil inni á þingi en þrír höfðu undir þriggja ára reynslu af þingstörfum. Þar af var einn sem hafði enga reynslu.

Áður ráðherrarÍ þeim hópi sem hlutu skipun til ráðherraembættis vorið 2009 voru líka fjórir sem höfðu mislanga reynslu sem ráðherrar enn eldri ríkisstjórna. Þar af þrír í þeirri ríkisstjórn sem sat á árunum 2007 til 2009 og margir hafa kennt við hrunið. Tveir þessara tóku við nýjum ráðuneytum en einn sat áfram yfir sama ráðuneyti og hann hafði setið yfir kjörtímabilið á undan.

Steingrímur J. Sigfússon var eini ráðherra Vinstri grænna sem hafði setið á ráðherrastóli áður en þá sat hann sem fulltrúi Alþýðubandalagsins. Á miðju síðasta kjörtímabili færði hann sig úr Fjármálaráðuneytinu til að taka við sama málaflokki og hann stýrði tveimur áratugum áður en jók við sig málaflokkum frá því sem hafði verið þá. Enginn núverandi ráðherra hafði gegnt ráðherraembætti áður.

Þegar litið er til samanlagðrar stjórnmálareynslu; þ.e. þingreynslu + reynslu af sveitarstjórnarstiginu, þá er munurinn ekki lengur jafnmikill. Það er rétt að taka það fram varðandi uppsetningu þessarar töflu að hér eru þeir fyrst taldir sem eru ráðherra nú og svo þeirra sem voru í embætti vorið 2013 en í svigunum eru samanlagðar tölur alls hópsins; þ.e. framantaldra og svo þeirra sem hafa setið tímabundið á ráðherrastóli á valdatíma fyrri ríkisstjórnar og þeirrar sem situr nú.

 
 fj.
sveitarstjórn.r.
þingreynsla
 Samtals
 Framsóknarflokkur
 4 25 17 42
 Sjálfstæðisflokkur
5 (6)
 22 (33)
 34 (28)
56 (61)
 Samfylkingin 4 (7)
 26 (43)
58 (72)
84 (115)
 Vinstri grænir
 4 (6)
9 (12)
 42 (54)
51 (76)
Meðaltalsreynsla 5 (6)/4 (5)
6 (5)/12 (10)11 (11)/17 (14)


Þetta er e.t.v. hæpin uppsetning en hér er þess þó freistað að sýna fram á það að meðaltalsreynsla núverandi og fyrrverandi ráðherra af stjórnmálastörfum er miklu sambærilegri en kann að virðast í fyrstu. Sjö þeirra ráðherrar sem voru skipaðir vorið 2013 höfðu reynslu af stjórnmálastarfi af sveitarstjórnarsviðinu, sex þeirra sem sitja nú, en þrír af þeim átta sem voru leystir frá störfum vorið 2013.

Þeir voru reyndar fimm til viðbótar (sjö ef Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon eru talin með) sem gegndu ráðherraembættum tímabundið á síðasta kjörtímabili. Fjórir þeirra höfðu reynslu af sveitarstjórnarsviðinu. Um þennan þátt er fjallað hér.

Miðað við það sem kemur fram í töflunni hér að ofan þá virðist vera óhætt að halda því fram að þegar allt er reiknað þá er meðaltalsreynsla beggja hópa af stjórnmálum öðru hvoru megin við þrjú kjörtímabil. Reyndar einu kjörtímabili betur ef þeir einir eru taldir sem luku síðasta kjörtímabili á ráðherrastólum.

Að lokum er vert að vekja athygli á því að nýliðin ráðherraskipti í núverandi ríkisstjórn hafa haft lítil sem engin áhrif á niðurstöður töflunnar hér að ofan. Meðaltalsreynslan af sveitarstjórnarmálum lækkar reyndar um eitt ár en á móti kemur að þingreynslutalan hækkar um sömu tölu þannig að heildarstjórnmálareynsla núverandi ráðherrahóps helst óbreytt.

Heimildir

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta
Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla
Ráðherrasamanburður: Þingreynsla

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands
(sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband