Leikstjórnendurnir á Alþingi

Framhaldsleikritið: „Alþingi leiðir þjóðina til glötunar“, hefur staðið yfir í þinghúsinu í allan dag og spurning hvort allir þeir sem hrópuðu „snilld“ yfir tillegginu sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir (sjá hér) séu enn í sæluvímu eða komnir með timburmenn. Við skulum nefnilega minnast þess að á sama tíma og þetta leikrit stendur yfir „renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...  eins og Goldman Sachs...“ (eins og vikið var að hér)

Úr þinghópi Hreyfingarinnar er það ekki bara Margrét Tryggvadóttir sem hefur lagt sitt af mörkum við að hleypa upp þingstörfum nú síðustu dagana fyrir þinglok og þreyta þannig kjósendur í aðdraganda alþingiskosninganna. Ekki er nema  ein vika síðan Þór Saari lagði fram sína aðra vantrauststillögu á stuttum tíma á ríkisstjórnina en umræðan um þá seinni fór fram síðastliðinn mánudag og stóð í alls fimm klukkutíma. (sjá hér)

Verkfæri ríkisstjórnarinnar

Sumir vilja meina að sú óvenjulega hugmynd að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina, þegar einungis fimm dagar voru eftir af þinginu, sé alls ekki frá Þór sjálfum komin heldur komi hún innan úr Samfylkingunni rétt eins og það „pólitíska klofbragð“ sem Margrét Tryggvadóttir er skrifuð fyrir. (sjá hér) Sá orðrómur hefur farið nokkuð víða að einn ötulasti ráðgjafi Hreyfingarþingmannanna, Össur Skarphéðinsson, standi í raun að baki því að Þór Saari lagði fram tvær vantrauststillögur á ríkisstjórnina með stuttu millibili. Tilefni hans sé að losa ríkisstjórnina undan stjórnarskrármálinu.

Hvort sá er tilgangur Hreyfingarþingmannanna skal ekkert fullyrt enda ýmislegt sem bendir til að þau átti sig ekki á því hvað býr að baki því hvernig Samfylkingin etur þeim fram. Reyndar neita þau öllum slíkum staðhæfingum svo og meintum stuðningi þeirra við ríkisstjórnina allt síðastliðið ár og kalla allar ábendingar í þá átt rógburð eða dylgjur.

Hér verður það látið liggja milli hluta hvort um rógburð eða sannleik er að ræða enda líklegt að hið sanna komi í ljós fyrr en síðar. Aftur á móti þá er full ástæða til að vekja athygli á háttalagi utanríkisráðherrans, Össurar Skarphéðinssonar, undir ræðuhöldunum á Alþingi daginn sem seinni vantrauststillagan var til umræðu ásamt tilefninu að baki hennar; þ.e. sl. mánudag sem var 11. mars.

Á meðan þau Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir gerðu grein fyrir afstöðu sinni var utanríkisráðherrann með stöðug framíköll þar sem hann neri þeim því m.a. óspart um nasir „að hafa gert Þór Saari að leiðtoga lífs síns með því að samþykkja vantrauststillöguna“ (sjá hér) Þetta keyrði um þverbak undir ræðu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.

Ræða hennar tekur rétt rúmar sjö mínútur. Þegar þrjár mínútur eru liðnar byrja framíköllin en alls gjammar hann 16 sinnum fram í ræðu þingmannsins áður en yfir lýkur. Ólína Þorvarðardóttir leggur honum reyndar lið á lokamínútunum:

Ræða Össurar sjálfs vekur svo ekki síður athygli þar sem hann beinlínis notar nafn Þórs Saaris óspart sem einhvers konar gaddakylfu á sjálfsímynd og sjálfsvirðingu þingmanna stjórnarandstöðunnar (sjá ræðuna alla hér)

Jafnvel þó að mér þyki hv. þm. Þór Saari hafa fallið í díkin verð ég að segja að ömurlegast af öllu finnst mér eigi að síður vera virkur stuðningur formanna tveggja stjórnmálaflokka við þá vantrauststillögu sem Þór Saari hefur flutt. [...]

Það sem er sérkennilegt við þá er að þeir breiða yfir nafn og númer, þeir þora ekki að koma hreint til dyranna og þeir leggja ekki fram vantraust í eigin nafni heldur kjósa að fela sig á bak við hið breiða bak hv. þm. Þórs Saaris. Mér finnst það nokkuð broslegt að þessir flokkar sem ganga hér reigðir um sali og telja að þeir séu um það bil að erfa landið og vinna kosningar byrja þá sigurför sína undir forustu hv. þm. Þórs Saaris.

Frú forseti. Kannski hefði ég ekki átt að nota orðið broslegt heldur grátbroslegt í ljósi þess að enginn þingmaður hefur með jafnvafningalausum hætti látið klóru sína rakast um bak og herðablöð þessara tveggja hv. þingmanna og hv. þm. Þór Saari.

Af því að fyrir framan mig situr formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, hv. þm. Illugi Gunnarsson, verð ég að segja að dapurlegast er hlutskipti Sjálfstæðisflokksins. Eru menn búnir að gleyma landsdómsmálinu? Ég er ekki búinn að gleyma því. Það var mér þungbært og erfitt og er það enn.

Ég sá formann Sjálfstæðisflokksins vikna í landsfundarræðu sinni á síðasta ári þegar hann ræddi herförina, réttilega svo nefnda, sem gerð var á hendur föllnum forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Hver valdi þeim ágæta manni hæðilegustu pólitísku köpuryrðin sem íslensk tunga á að geyma? Það var hv. þm. Þór Saari og það er ekki lengra síðan en í gær sem sá ágæti hv. þingmaður fór nöturlegum orðum um fallinn foringja Sjálfstæðisflokksins.

Í dag, sólarhring síðar, gerist það að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins bregður á það prinsipplausa ráð að gerast málaliði hv. þm. Þórs Saaris í herleiðangri hans á hendur ríkisstjórninni. Það eru ill örlög. Menn með réttlæti og sómatilfinningu gráta ekki örlög fórnarlamba slíkra manna einn daginn og slást svo í för með þeim sem málaliðar í næsta stríði.

Mér finnst ótrúlegt að horfa upp á þetta af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ótrúlegt prinsippleysi af forustu þeirra að þora ekki að heyja þessa vantraustsumræðu á eigin grundvelli, á grundvelli eigin stefnu, heldur fela sig á bak við hv. þm. Þór Saari.

Þessi hentistefna er svo undirstrikuð af því að andlag vantrauststillögunnar er sú skoðun hv. þm. Þórs Saaris að stjórnarliðar gangi ekki nógu hart fram í að keyra í gegn frumvarp að nýrri stjórnarskrá sem Sjálfstæðisflokkurinn, nota bene, er harðastur allra á móti. Það er það skrýtnasta við þessa tragikómedíu. Í reynd eru þeir að lýsa vantrausti á ríkisstjórn fyrir að brjóta ekki með valdi á bak aftur þeirra eigið málþóf og taka með ofbeldi gegnum þingið mál sem þeir eru á móti. Ef þetta er ekki Íslandsmet í prinsippleysi hlýtur það að minnsta kosti að vera Reykjavíkurmet.

Frú forseti. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa í þessum umræðum ausið svartagalli úr öllum sínum keröldum yfir þjóðina og sjá ekki neitt jákvætt sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Það verður þó varla af henni tekið að hún hefur mokað mikið úr flórnum sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig þegar 18 ára stjórnartíð hans lauk með afleiðingum sem munu standa hátt í Íslandssögunni næstu þúsund árin.

Það sem er hlálegast við það allt saman er að enginn hefur lýst því jafnskilmerkilega og einmitt sá maður sem þeir lúta í dag, hinn nýi leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Þór Saari, sem aftur og aftur hefur bent á það hversu algjörlega skýrt það kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að fyrst og fremst ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins settu af stað atburðarás sem segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að ekki hafi verið hægt vinda ofan af þegar kom fram um mitt ár 2006.

Þessum manni, sem er búinn að fleiðra þá upp um herðablöð, niðurlægja, skamma og lítillækka, lúta þeir nú í dag. Þeir eru svo deigir að þeir hafa ekki einu sinni kjark til að koma fram undir eigin nafni og númeri til þess að heyja sitt stríð um vantraust á ríkisstjórnina. Það eru kjarklitlir stjórnmálamenn.

... og á meðan þessu hefur farið fram renna öll innlend verðmæti hægt og örugglega eftir færibandi peningavaldsins niður í gin hrægammasjóða með erlendum nöfnum...  eins og Goldman Sachs... (eins og bent var á hér)


mbl.is Funda um þinglok klukkan 21:30
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Get tekið undir allt nema þetta með gaddakylfuna. Við skulum ekki gleyma því að Össur reddaði Árna og Davíð reddaði Svavari. Steingrímur reddaði Bjarna o.s.frv.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 19.3.2013 kl. 09:16

2 identicon

Hvað meinar þu með að allt renni niður i gin hrægammasjoðanna? Hvað er að renna þangað? Væri þakklatur ef eg gæti fengið sma innsyn inni það. ( virðist ekki hægt að setja kommu yfir stafi en vona þetta skiljist)

Brynjólfur Tómasson (IP-tala skráð) 19.3.2013 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband