Spurningar og svör varðandi utanþingsstjórn

Hugmyndin um utanþingsstjórn er alls ekki ný af nálinni en samt sem áður virðast þeir vera margir sem vita lítið um fyrirbærið og óttast það jafnvel meira en núverandi stjórnmálakreppu. Hér á eftir ætla ég að reyna að svara nokkrum spurningum varðandi utanþingsstjórn og þá aðallega hvað hún er og hvers vegna hugmyndin er fram komin nú.

Hvað er utanþingsstjórn?

Á Wikipedia segir m.a. að: „utanþingsstjórn er í þingræðisríki ríkisstjórn sem tekur við völdum tímabundið. [...] Á Íslandi hefur einu sinni setið utanþingsstjórn [...] sem Sveinn Björnsson ríkisstjóri skipaði í kjölfar þess að formenn stjórnmálaflokkanna gátu ekki komið sér saman um myndun ríkisstjórnar. Utanþingsstjórnin sat í tvö ár 1942 til 1944.“

Með þessu skapaði þáverandi, þjóðhöfðingi, Sveinn Björnsson, það sem er kallað stjórnskipunarhefð og þó henni hafi ekki verið beitt síðan þá hefur skipun slíkrar stjórnar nokkrum sinnum komið til tals á umliðnum árum. Þ.e. árið 1950 (sjá hér) í kringum 1980 (sjá hér) og margítrekað í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. (sjá t.d. hér, hér og hér).

Undir hvaða kringumstæðum er utanþingsstjórn skipuð?

Samkvæmt almennustu skilgreiningunni þá er gripið til skipunar slíkrar stjórnar „þegar ekki tekst að mynda ríkisstjórn eftir hefðbundnum lýðræðislegum leiðum af einhverjum ástæðum“ (sjá Wikipedia) Það má vel umorða þessa skilgreiningu því umræðan um skipun slíkrar stjórnar hefur komið upp oftar og þá alltaf þegar stjórnmálakreppa blasir við.

Í ljósi sögunnar sýnist mér því nær að tala um að skipun slíkrar stjórnar eigi aðeins við þegar almennt neyðarástand ríkir í samfélaginu vegna þess að kosnir fulltrúar geta ekki komið sér saman um skynsamlegar leiðir varðandi almenna hagsmuni þjóðarinnar.
 

Saga utanþingsstjórnar

Ríkisstjórn Björns ÞórðarsonarUtanþingsstjórnin 1942-1944: Utanþings- stjórn hefur aðeins einu sinni verið skipuð hér á landi en það var í tíð Sveins Björnssonar, þáverandi ríkisstjóra. Þetta var árið 1942. Lýðveldisstofnunin stóð fyrir dyrum með ritun sérstakrar stjórnar- skrár fyrir hið nýja lýðveldi en það var fleira sem kynti undir stjórnmálakreppu þessa tíma. 

Í upphafi ársins 1942 sat hér þjóðstjórn sem klofnaði í deilum um kjördæma- skipan. Þá tók við minnihlutastjórn sem sat á meðan kjördæmamálið var leitt til lykta. Um haustið var boðað til kosninga en hin nýju kjördæmalög röskuðu mjög fylgi flokka og ljóst að erfitt gæti orðið að mynda þingræðisstjórn. „Eftir rúmlega eins mánaðar þóf tók Sveinn Björnsson ríkisstjóri til sinna ráða og myndaði utanþingsstjórn ( Íslenskur söguatlas 3.bd. 1993:85)

Árin 1949-1950: Ég finn engar heimildir um þá staðhæfingu Vilmundar Gylfasonar að Sveinn Björnsson, þáverandi forseti, hafi myndað utanþingsstjórn árið 1950 eins og hann heldur fram hér. Þó er ljóst að á þessum tíma voru miklar sviptingar í pólitíkinni sem má rekja til stjórnmálakreppu sem grundvallaðist á heimatilbúnum vanda í stjórn efnahagsmála.

Ráðuneyti Stingríms SteinþórssonarForsetinn hefur því óhjákvæmilega haft einhver afskipti af stjórnmálunum. Fyrst með boðun kosninga árið 1949 eftir að slitnaði upp úr samstarfi þeirrar ríkis- stjórnar sem almennt hefur verið kölluð Stefanía og svo aftur snemma í mars- mánuði 1950 en þá var minnihlutastjórn Ólafs Thors borin vantrausti í kjölfar áætlunar sem stjórn hans lagði fram um aðgerðir í efnahagsmálum. (Sjá Íslenskan söguatlas 3.bd, 1993 bls. 102-105 og Wikipediu)

Kristján Eldjárn og utanþingsstjórn 1979-1980: Þann 4. nóvember sl. birti Pressan grein þar sem gerð er grein fyrir því að áramótin 1979/1980 var Kristján Eldjárn að missa þolinmæðina eftir að myndun starfhæfrar ríkisstjórnar hafði dregist í hálft ár. Þegar hann lét stjórnmálaforingjana vita að hann væri tilbúinn til að mynda slíka stjórn „hrökk allt í gírinn“ þannig að af myndun slíkrar stjórnar varð ekki. (Sjá hér)

Mig langar til að vekja athygli á því að Pressan birtir þessa athyglisverðu upprifjun daginn sem Tunnurnar efndu til mótmæla við Alþingishúsið undir yfirskriftinni Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn!

Hver skipar utanþingsstjórn?

„Utanþingsstjórnir eru skipaðar beint af þjóðhöfðingja“ (sjá Wikipedia) Í því eina tilfelli sem utanþingsstjórn hefur setið hér á landi þá var það Sveinn Björnsson, þáverandi ríkisstjóri, sem skipaði hana. Í því tilviki sem heimildir herma að skipun slíkrar stjórnar hafi staðið til síðar var það þáverandi forseti, Kristján Eldjárn, sem hefði staðið að skipun hennar. Ef marka má þessa heimild hér hefði hann þó farið eftir hugmynd sem hafði verið sett fram ári áður um það hverjir ættu að sitja þar.

Ég reikna með að ef af skipun utanþingsstjórnar verður í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar þá muni hann kjósa lýðræðislegri leið en þá að hann standi einn að skipun slíkrar stjórnar. Annað eins hefur hann hamrað á mikilvægi lýðræðisins og því að vilji þjóðarinnar sé í heiðri hafður. (Sjá t.d. síðasta áramótaávarp forsetans hér

Hverjir sitja í utanþingsstjórn?

„Utanþingsstjórn er ríkisstjórn skipuð mönnum sem sitja ekki á alþingi.“ (sjá Vísindavefinn). Þeir „stjórna með hlutleysi eða stuðningi löggjafarvaldsins“ (sjá Wikipedia) Sveinn Björnsson skipaði fimm karlmenn til að sitja slíka stjórn á árunum 1942-1944 en samkvæmt þessari heimild hér voru þeir tólf sem Kristján Eldjárn hugðist skipa í slíka stjórn árið 1980.

Ef af skipun utanþingsstjórnar verður til að leysa úr núverandi stjórnmálakreppu verður að finna leið til að skipun hennar skapi almenna sátt og frið í samfélaginu. Það er mín skoðun að besta leiðin sé að byrja á því að skapa ákveðið vinnuferli til að byggja á. Það gæti t.d. byggt á eftirfarandi:

  • Hvaða kröfur á að gera til þeirra sem koma til greina að skipa í utanþingsstjórn?
  • Hversu margir eiga að sitja í þessari stjórn?
  • Hverjir eiga að standa að forvalinu?
  • Hvernig getur þjóðin komið að endanlegu vali? 

Umræðan um utanþingsstjórn frá bankahruni

Krafan um utanþingsstjórn er langt frá því að vera runnin undan rifjun þess hóps sem kennir sig við Tunnurnar. Strax í nóvember 2008 setti Katrín Oddsdóttir, núverandi stjórnlagaþingmaður, fram kröfuna, um utanþingsstjórn (sjá hér). 27. janúar 2009 setti hópur sem kenndi sig við Neyðarstjórn kvenna fram kröfu um utanþingsstjórn (sjá hér). Samtökin Nýtt Ísland settu líka fram kröfu um utanþingsstjórn 12. janúar 2010 (Sjá hér).

Þeir eru reyndar miklu fleiri sem hafa talað um skipun slíkrar stjórnar en þá oftast undir öðrum heitum. Þar má nefna: neyðarstjórn, bráðabirgðastjórn, embættismannastjórn og jafnvel forsetastjórn. Tvö þau fyrstu geta reyndar allt eins átt við þar sem umræðan um utanþingsstjórn er fyrst og fremst til komin fyrir það neyðarástand sem hér ríkir og er eingöngu hugsuð til bráðabirgða.

Undir lok október færðist aftur líf í umræðuna um skipun utanþingsstjórn en ég tók aðalatriði hennar saman hér. Þeir sem kalla eftir slíkri stjórn nú ætla henni það verkefni að bregðast við því neyðarástandi í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Margir vilja líka meina að stjórnmálakreppan hafi viðhaldið og dýpkað kreppuástandið á þessum sviðum í samfélaginu.

Þeir sem hafa kallað eftir utanþingsstjórn ætla henni að sitja til bráðabirgða til að vinna að þeim verkefnum sem henni verða sett. Til að sá verkefnalisti verði vel og fagmannlega unninn þá þarf hún annaðhvort að vera skipuð fagmönnum eða hafa slíka sér til ráðgjafar.

Einhverjir vilja e.t.v. trúa því að allir embættismenn séu fagmenn en ég tel að síðustu ár hafi fært okkur heim sanninn um það að slík er alls ekki alltaf raunin! Þar af leiðandi er það varla réttnefni að kalla utanþingsstjórn embættismannastjórn og forsetastjórn er varla viðeigandi heldur þar sem það er æskilegra að fleiri komi að skipun hennar en hann eingöngu. Sjálf tel ég æskilegast að það verði fundin leið til að þjóðin hafi úrslitavaldið varðandi það hverjir sitja þar.

Er einhver ástæða til að óttast utanþingsstjórn?

Ég held að það sé í eðli mannskepnunnar að óttast nýjungar en það er ljóst að skipun utanþingsstjórnar er neyðarúrræði til að bregðast við núverandi ófremdarástandi. Skipun utanþingsstjórnarinnar árið 1942-1944 var beitt þannig en hefur verið gagnrýnd m.a. fyrir það hvernig að skipun hennar var staðið.

Umræðan um hana í forsetatíð Kristjáns Eldjárns virkaði eins og svipa á þáverandi stjórnmálastétt og það er ljóst að núverandi stjórnmálastétt stendur töluverð ógn af hugmyndinni. Það kom ekki síst fram í þeim hræðsluáróðri sem var vakinn upp helgina sem undirskriftarlisti með áskorun á forsetann um skipun slíkrar stjórnar kom fram. Ég rakti meginatriðin í þeim hræðsluáróðri hér

Það verður að viðurkennast að margir hrærðust til ótta undir staðhæfingum eins og þeim að þeir sem stæðu að baki henni væru „fasískir tunnuterroristar“. Það var hins vegar ekkert haft fyrir því að vekja athygli á bréfaviðskiptum sem talsmenn Tunnanna áttu við núverandi alþingismenn þar sem þetta kom m.a. fram:

Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til:

*skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar,

*hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig,

*hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla

*og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina.  (Sjá hér)

En það eru ekki aðeins talsmenn Tunnanna sem hafa bent á að skipun utanþingsstjórnar gæti orðið til þess að leysa núverandi stjórnmálavanda. Einn þingmaður hefur opinberað þá skoðun fyrir þingheimi að honum finnist krafan réttlætanleg. Þetta er bréfið hans: 

það að krefjast utanþingsstjórnar er fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati. Ég bendi líka á að fyrir ekki svo löngu síðan sátu í ríkisstjórninni tveir utanþingsráðherrar. Án vafa þeir tveir sem nutu hvað mest trausts hjá þjóðinni.

Þó að forseti myndi skipa utanþingsstjórn þá sæti Alþingi áfram. Hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sætu áfram í sínum stólum. Þetta myndi líklega gera það að verkum að Alþingi myndi styrkjast gagnvart framkvæmdavaldinu en eins og staðan er í dag má halda því fram að Alþingi sé valdalaust gagnvart hinu svokallaða ráðherraræði eða flokksræði.

Ég er algerlega ósammála því sem haldið er fram hér að neðan [hér vísar viðkomandi þingmaður í svar frá Ólínu Þorvarðardóttur sem hún sendi líka á allar þingmenn] í það að verið sé að framselja umboð almennings í hendur eins manns. Bendi líka á að hann er lýðræðislega kjörinn af þjóðinni og hefur það stjórnarskrárbundna hlutverk að koma á starfshæfri ríkisstjórn. (leturbreytingar eru mínar)

Í aðalatriðum þá er svarið við spurningunni hér að ofan að eðlilega hræðist stjórnmálastéttin skipun utanþingsstjórnar því það myndi draga úr völdum hennar. Eignastéttin hræðist hana líka því utanþingsstjórninni yrði falið það verkefni að draga úr því þeirri misskiptingu og ójafnrétti sem hún nærist á.

Allur þorri þjóðarinnar hefur hins vegar miklu fremur ástæðu til að óttast núverandi stjórnmálaástand sem viðheldur ójafnréttinu og vinnur að enn frekari niðurskurði á kjörum og lífsgæðum almennings.

Myndi þingið vinna með utanþingsstjórn?

Eins og kemur fram í svari þingmannsins hér að ofan situr þingið áfram þó utanþingsstjórn verði skipuð. Auðvitað er það æskilegast að þingið myndi styðja slíka stjórn og að öllum líkindum myndi það „neyðast“ til þess ef forsetinn myndi stíga það skref að binda endi á þá stjórnmálakreppu sem nú er uppi með skipun utanþingsstjórnar. 

Það hlýtur að blasa við að núverandi þingflokkar hafa engar áætlanir um að leggja sjálfa sig niður. Ef þjóðin sameinast um áskorunina til forsetans um að skipa utanþingsstjórn sem leið til að leysa úr því ófremdarástandi sem hér ríkir og skapa frið þá væru þeir tilneyddir til að sætta sig við hana. Þingheimur veit það rétt eins og þjóðin að ef við komumst að samkomulagi þá yrði það dauðadómur þeirra sem þar sitja ef þeir rifu samkomulagið.

Þess vegna yrðu þeir að vinna með utanþingsstjórninni í sátt og samlyndi enda væri það besta veganestið til að komast aftur til valda þegar boðað verður til kosninga að nýju. 

Eru ekki fleiri kostir í stöðunni?

Ég hef bent á það áður að það eru fimm möguleikar í núverandi stöðu:

1. Þjóðstjórn
2. Kosningar
3. Utanþingsstjórn
4. Blóðug bylting
5. Landflótti

Eins og ég rakti hér þá er utanþingsstjórn illskástur þessara möguleika. Með þeirri leið yrðu settir til þess hæfir einstaklingar til að vinna að alvöru lausnum á skuldavanda heimilanna og í atvinnumálum þjóðarinnar. Þessi leið myndi líka búa stjórnlagaþinginu viðunandi starfsskilyrði til að vinna að alvöru lýðræðisumbótum fyrir íslenskt samfélag. Ég bind líka töluverðar vonir við að þessi leið sé sú tryggasta til að binda endi á sölu ríkis og sveitarfélaga á náttúruauðlindunum okkar.

Ég vil skora á þig að kynna þér vel áskorun undirskriftarlistans (sjá hér). Ef þú vilt leggja þessari undirskriftarsöfnun enn frekara lið hvet ég þig til að prenta listann út (sjá hér) og safna enn fleiri undirskriftum þar sem það er nokkuð ljóst að það eru ekki allir sem fylgjast með því sem fram fer í netheimum. Þú getur líka dreift slóðinni og hvatt fólk til að kíkja. Slóðin er: http://utanthingsstjorn.is/


mbl.is Biskup fjallar um reiðina í þjóðlífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð samantekt eins og ævinlega Rakel mín.  Ég óttast ekki utanþingsstjórn, ef eitthvað er þá getur það ekki verstnað héðan í frá. Og ég er viss um að utanþingsstjórn skipuð færu fólki gæti verið okkur til blessunar.  Ég treysti líka Ólafi Ragnari til að gera góða hluti við slíka myndun. Þeir sem eru mest á móti þessi eru auðvitað fjórflokkurinn og pótintátar sem sitja í skjóli þeirra við alsnægtarborðin.  Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2011 kl. 16:44

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þetta innlegg Ásthildur sem ég held að sé alveg hárrétt hjá þér! Ég óska þér líka gleðilegs árs og þakka þér fyrir það sem er liðið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.1.2011 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband