Ekki bara vanræksla heldur líka valdarán!

Í tilefni tengdrar fréttar þykir mér full ástæða til að endurbirta þessa færslu sem er frá 9. júní sl.

Upprifjun

Fyrir rétt tæpum mánuði skrifaði ég fyrsta hlutann af þremur þar sem ég velti því fyrir mér hvaða heiti hæfðu glæpum ráðherranna sem fóru með völd við haustið 2008. Tilefni þessara skrifa er það að skv.  Rannsóknarskýrslunni þorir rannsóknarnefnd Alþingis ekki að fullyrða meira, hvað glæp þeirra varðar, en þrír í hópi ráðherranna hafi gerst sekir um vanrækslu í starfi. Þetta eru þeir: Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Geir H. Haarde (Sjá t.d. hér). Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem leiddu hjá sér allar viðvaranir og merki um yfirvofandi hrun voru hins vegar tólf!

Ráðherrar hrunstjórnarinnar

Mín niðurstaða er sú að allir tólf hafi gerst sekir um „stórfellda eða ítrekaða vanrækslu (sjá 141. gr. Almennra hegningarlaga) þar sem það mátti heita ljóst frá upphafi stjórnarsamstarfs Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hvert stefndi. Vandinn var reyndar ljós þegar árið 2006 (sjá t.d. hér) og þess vegna spurning um það hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem var við völd þar á undan, eru ekki líka sekir um vanrækslu og misferlis hvað varðar ráðherraábyrgð.

Í öðrum hluta þessara vangaveltna um heiti við hæfi á glæpum fyrrverandi ríkisstjórnar beindi ég kastljósinu einkum að því hvernig ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar vanræktu ábyrgðina sem þeir gengust undir með embættum sínum. Ég hef stuðst við það sem kemur fram í 6. og 7. bindi Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Auk þess sem ég hef vísað í viðeigandi Lög um ráðherraábyrgð.

Kjarni annars hlutans var sá að undirstrika eiginleg umboðssvik ráðherranna í síðustu ríkisstjórn þar sem þeir „stofnuðu hagsmunum/heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu“ með aðgerðum sínum og/eða aðgerðaleysi (sjá 2. og 10. gr. Laga um ráðherraábyrgð). Undir lokin benti ég svo á 13. grein laganna þar sem segir að: „Hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu skal jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur [...]“ og lauk svo máli mínu á því að reifa það að ráðherrar síðustu ríkisstjórnar hefðu misbeitt valdi sínu.

Björgvin settur út

Í því sambandi ýjaði ég að því hvert yrði meginviðfangsefni þessa síðasta hluta en það er reyna að finna heiti á þeim glæp samstarfsráðherra Björgvins G. Sigurðssonar að útiloka hann ekki aðeins af fundum um alvarlegt ástand og þróun stærstu viðskiptabanka landsins heldur að upplýsa hann ekki einu sinni um gang mála hvað þá að gefa honum tækifæri til að taka ákvarðanir sem heyrðu undir hans ráðuneyti; viðskiptaráðuneytið.

Björgvin G. Sigurðsson Hinn 7. nóvember 2007 átti Björgvin G. Sigurðsson fund með stjórn Seðlabankans. Með honum í för var Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður hans og Jónína S. Lárusdóttir, ráðuneytisstjóri Viðskiptaráðuneytisins. Björgvin segir frá því á bls. 92 í 6. bd. Skýrslunnar að þar hafi hann og Davíð Oddsson tekist á og að eftir fundinn hafi þeir ekki hist í tæpt ár.

Sennilega hafa þeir ekki heldur talast við á þessum tímabili. Ég ætla ekki að velta því fyrir mér hvor bar meiri ábyrgð en bendi á að hvernig sem á það er litið er það alvarlegt mál ef viðskiptaráðherra landsins og æðsti maður í stjórn Seðlabankans talast ekki við sama hvað veldur. Í því gerast báðir sekir um van- rækslu og um það að bregðast þeirri ábyrgð sem þeim var falinn.

Davíð Oddsson Björgvin G. Sigurðsson segir að samskipti manna í umræddri ríkisstjórn hafi verið erfið frá fyrsta degi og segir ástæðuna hafa verið „tortryggni og andúð á milli seðlabankastjóra og Samfylkingarinnar.“ (bls. 92. í 6. bd. Skýrslunnar). Davíð Oddson, þáver- andi seðlabankastjóri, segir ástæðuna fyrir því að Seðlabankinn fundaði ekki oftar með viðskipta- ráðherra vera þá að „menn treystu sér ekki til að segja neitt sem ætti að fara leynt við viðskipta- ráðherrann“ (sama bls. 93).

Hann segir að hann haldi að þetta hafi ráðið því að Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ekki kallað hann á fundina sem þau sátu með bankastjórn Seðlabankans. Síðan heldur hann áfram:

[...] það sem vakti nú athygli mína var að þegar utanríkisráðherra, formaður hins stjórnarflokksins, lýsti því yfir að hann hefði verið á sex, sjö fundum með Seðlabankanum – hann hafði ekki sagt viðskiptaráðherranum frá neinu sem þar gerðist sem ég hefði nú búist við að mundi gerast. En ég held að það sé sama ástæðan, það var vitað að viðskiptaráðherra átti það til að hringja í fréttamann, jafnvel bláókunnuga fréttamenn, og segja þeim fréttir „off the record“, eins og það hét. Það getur bara ekki gengið í stjórnsýslunni.  (bls. 93. í 6. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))

Geir H. Haarde Þegar Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru spurð hvers vegna Björgvin G. Sigurðsson var ekki boðaður á alla þá fundi sem þau sátu með forsvarsmönnum Seðlabankans vefst þeim greinilega tunga um tönn og grípa til þess tungutaks sem alþjóð er farin að kannast við undir þeim kringum- stæðum þegar embættismenn hjá hinu opinbera og innan úr fjármálageiranum hafa eitthvað að fela. Geir telur að ekki sé hægt að segja að Björgvini „hafi verið haldið skipulega frá upplýsingum sem hann átti rétt á.“ (bls. 93 í 6. bd. Skýrslunnar).

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist ekki vita til þess að tortryggni hafi gætt innan ríkisstjórnarinnar. Hins vegar viðurkennir hún að það hafi kannski verið erfitt sambandið milli seðlabankastjóra og Samfylk- ingarinnar og bætir svo við: „Það var bara svona þegjandi samkomulag um að láta það ekkert þvælast fyrir sér“ (bls. 93 í 6. bd. Skýrslunnar).

Eðlilega spyr maður sig þá hvort það hafi orðið svona þegjandi samkomulag um að vera ekkert að ýfa seðlabankastjórann með nærveru Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, eftir uppákomuna þeirra á milli 7. nóvember 2007?

Athugasemd Össurar Skarphéðinssonar er líka athyglisverð í þessu samhengi. Hann varpar fram spurningu þar sem hann spyr „í hvaða ríki myndi það gerast að forystumaður ríkisstjórnarinnar hafi fund með seðlabankastjóra [um alls konar viðvaranir] en viðskiptaráðherra sé ekki látinn vita?“ (bls. 93 í 6. bd Skýrslunnar) Það sem er ekki síst athyglisvert við þessar vangaveltur Össurar er það að hann sat sjálfur á nokkrum þessara funda en virðist ekki átta sig á hans þætti í þessu leynimakki.

Ég bið ykkur að taka eftir því að hér er ekki annað að sjá en „samkomulagið“ um að halda Björgvini G. Sigurðssyni utan umræðunnar um það hvert stefni í íslenskum bankamálum og hvernig bæri að bregðast við því hafi verið meðvitaðar. Það er líka útilokað að hér hafi verið um þegjandi samkomulag að ræða sem kemur skýrt fram í því hvernig viðskiptaráðherra er sniðgenginn í öllu fundarfárinu árið 2008. Ég dreg þann þátt skýrar fram hérna síðar.

Síðdegis þann 7. febrúar 2008 fundaði stjórn Seðlabankans með Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna Mathiesen. Auk þeirra sátu þeir Bolli Þór Bollason og Tryggvi Pálsson þennan fund (Sjá bls. 117-124 í 6. bd. Skýrslunnar). Viðbrögð forsætis- og utanríkisráðherra við þeim alvarlegu upplýsingum sem komu fram þar um stöðu íslensku bankanna voru rakin í fyrsta hluta þessara vangaveltna. Í stuttu máli má draga þau saman í þessum orðum: Þau vissu hvert stefndi en kusu samt að halda úti þeirri ímynd að staða íslenska fjármálamarkaðarins væri sterk.

Um viðbrögð ráðherranna segir Davíð Oddsson m.a: að þeir „hefðu ekki einu sinni talið tilefni til þess að ræða þau alvarlegu tíðindi [sem hann vill meina að hann hafi komið á framfæri við þá á fundinum 7. febrúar 2008] við viðskiptaráðherra.“ (bls. 120 í 6. bd. Skýrslunnar).

Jón Þór Sturluson tekinn inn í „klíkuna“

11. júlí 2008 boðaði Landsbankinn til fundar þar sem Anne Sibert og Willem Buiter kynntu skýrslu sem þau höfðu unnið fyrir bankann. Í stuttu máli opinberaði hún mjög alvarlega stöðu í efnahagsmálum landsins sem stafaði af ofvexti bankanna. Björgvin G. Sigurðsson var ekki á fundinum og er hæpið að kenna neinum um það nema honum sjálfum.

Jón Þór Sturluson Hins vegar var Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra þar. Í stað þess að hafa milligöngu um það að þau Buiter og Sibert hittu ráðherrann sem hann starfaði fyrir þá kom hann á fundi þeirra við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Ingibjörgu Sólrúnu virðist hafa fundist skýrsla þeirra áhugaverð fyrir það fyrst og fremst að hún sá rök í niðurstöðum hennar sem hvatti til Evrópu- sambandsaðildar. Það kemur líka fram að hún fékk glærur hagfræðinganna sem hún kom til Geirs H. Haardes ásamt skýrslunni. Síðan segir hún að hún hafi fengið „leyfi til þess að dreifa henni meðal svona einhverra aðila.“ (Sjá bls. 200-201 í 6. bd. Skýrslunnar).

Þegar Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, var spurður um það hvor hann hefði ekki kynnt ráðherranum sem hann átti að vinna fyrir niðurstöður Buiter-skýrslunnar vefst honum mjög tunga um tönn: „hann man ekki eftir því að ég hafi kynnt honum þessa skýrslu, ég get ekki, man ekki hvenær það átti að vera en ef ég hef gert það þá er ég ekki viss um að það hafi verið endilega svo neikvætt“ (Sjá bls. 201 í 6. bd. Skýrslunnar).

Þá kemur að lokuðum fundi ráðherra með hagfræðingum þann 7. ágúst 2008. Á þessum fundi var Jón Þór meðal hagfræðinganna á fundinum en auk hans voru þar hagfræðingarnir: Már Guðmundsson, Gauti B. Eggertsson og Friðrik Már Baldursson. Ráðherrarnir sem sóttu fundinn voru: Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Jóhanna Sigurðardóttir. Þegar Jón Þór er spurður hvers vegna viðskiptaráðherra hafi ekki verið boðaður á fundinn svarar hann að „þetta hafi verið „súperráðherrahópurinn““ (bls. 214 í 6. bd. Skýrslunnar).

Súperráðherrahópurinn

Það vekur athygli að Jón Þór er eini hagfræðingurinn á fundinum sem var ekki boðaður á fundinn til að flytja „framsögu um lausafjárvandann“ (bls. 214 í 6. bd. Skýrslunnar) en skv. Friðriki Má Baldurssyni, einum hagfræðinganna sem það gerðu, var það Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem boðaði hann á fundinn og bað hann um stutt innlegg ásamt þeim Gauta og Má. Það kemur ekkert fram um það hvort og hvaða veður Björgvin G. Sigurðsson hafði af þessum fundi.

Áður en ég dreg fram mína skoðun á því hvaða nafn hæfi þeim glæp að halda viðskiptaráðherranum skipulega utan við og leyna hann upplýsingum um það sem heyrði undir hans embættissvið ætla ég að stikla á stóru hvað varðar atburðarrás septembermánaðar 2008. Fyrst vil ég vekja athygli á því að Jón Þór Sturluson á þátt í því að koma á fundi Björgvins G. Sigurðssonar með Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands í byrjun mánaðarins. Það er athyglisvert fyrir margra hluta sakir en ekki síst fyrir það að á þessum tíma virðist sem Jón Þór vinni miklu frekar fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og um leið gegn Björgvini.

Á fundinn með Alistair Darling mættu frá Íslandi: einn embættismaður frá Fjármálaeftirlitinu, einn úr Fjármálaráðuneytinu og þrír úr Viðskiptaráðuneytinu. Þar á meðal Jón Þór Sturluson sjálfur. Það vekur sérstaka athygli að þrátt fyrir það nána samband sem hann hann á við „súperráðherrahópinn“ á þessum tíma þá segist Ingibjörg Sólrún ekkert hafa frétt af þessum fundi fyrr en eftir á! (Sjá bls. 226 í 6. bindi Skýrslunnar).

Þá er komið að síðustu dögunum fyrir yfirtöku ríkisins á Glitnis-banka. Ég reikna með að flestir sem gefa sér tíma til að lesa þessar vangaveltur séu þokkalega inni í öllu því sem gekk á þessa daga. Þ.e. því sem hefur verið gefið upp. Sjálf hef ég aldrei náð fullkomlega upp í það sem átti sér stað þessa afdrifaríku helgi, hvorki atburðarrásina né ákvarðanirnar. Mig hefur líka allan tímann grunað að ýmsu hafi verið haldið leyndu hvað þessi atriði varðar. Sú tilfinning hefur síst minnkað við lestur Rannsóknarskýrslunnar.

Eitt finnst mér reyndar standa upp úr af lestri þeirra blaðsíðna sem segja frá því sem átti sér stað þessa síðustu daga í september og fyrstu dagana í október árið 2008. Það er hin áberandi vanhæfni allra aðila sem komu að ákvörðunum um það hvernig skyldi bregðast við. Sofandahátturinn og feluleikurinn fram að þeim tíma, varðandi raunverulega stöðu bankanna, verður líka enn alvarlegri yfirlýsing um þá vanrækslu og ábyrgðarleysi sem allir sem voru í vinnu við að verja hagsmuni ríkisins gagnvart bönkunum gerðu sig seka um!

Valdaránið fullkomnað

Forsvarsmenn Glitnis töluðu við Davíð Oddsson, þáverandi bankastjóra Seðlabankans, hver í sínu lagi eða nokkrir samanfrá 25. september 2008. Davíð brá sér út af einum slíkum fundi næsta dag (26. sept.) til að hringja í Geir H. Haarde , sem var staddur í New York á þessum tíma ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Geir segist hafa upplýst Ingibjörgu Sólrúnu um það sem fram kom í samtalinu um stöðu Glitnis þann sama dag. Að morgni þriðja dagsins, eða 27. september, flaug Geir H. Haarde síðan heim. 

Síðdegis þann sama dag mættu bankastjórar Seðlabankans ásamt fjármálaráðherra í forsætisráðuneytið og funduðu. Geir H. Haarde heldur því fram að það hafi verið fyrst á þessum fundi sem honum hafi verið greint nákvæmlega frá vanda Glitnis. Árni Mathiesen var hins vegar settur inn í málin deginum áður. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að haft er eftir Árna að á fundi hans með Davíð Oddssyni þennan sama dag hafi sá síðarnefndi „verið kominn með vísi að þeirri leið sem síðar var farin.“ Það er líka haft eftir Davíð að það mat Árna eigi við rök að styðjast (Sjá bls. 13 í 7. bd. Skýrslunnar)

Ingibjörg 
Sólrún Gísladóttir Ingibjörg Sólrún kannast þó ekki við að hafa vitað af alvarlegri stöðu Glitnis fyrr en sunnudaginn 28. september. Þann dag hringdi hún í Geir H. Haarde eftir að henni barst símtal út þar sem hún var spurð um það hvort hún vissi hvað væri að gerast í forsætisráðuneytinu. Í símtali hennar við Geir segir hún að hann hafi bent henni á að hún þyrfti að nefna staðgengil til að sækja fundi um málið. (Sjá bls. 12 í 7. bd. Skýrslunnar)

Og hvern tilnefnir hún? Ekki Björgvin G. Sigurðsson, sem málefnið sem um ræðir heyrði undir, heldur Össur Skarphéðinsson sem þá var iðnaðarráðherra!?! Þegar Ingibjörg Sólrún náði loks í Össur „stóð [hann] allsber í búningsklefanum í World Class“ á leið í gufubað í tilefni af því að hann var í fyrsta skipti að fara til klæðskera! (sjá bls. 25 í 7. bd. Skýrslunnar). Ingibjörg Sólrún skipaði honum að mæta niður í Glitni að loknu svohljóðandi samtali skv. því sem Össur segir sjálfur frá:

Bíddu, á ég að fara þarna? Ég meina, [ég hef] hvorki áhuga né vit á þessu, og hún sagði: Það þarf einhvern sem þarf að stýra þessu af okkar hálfu sem hefur reynslu. Og ég sagði við hana: En á ég þá ekki að taka viðskiptaráðherra með mér? Hún sagði: Nei. Jón Þór verður þarna með þér. Ég sagði: En á ég ekki að hringja í viðskiptaráðherrann? Og hún sagði: Ekki strax, þannig að ekki tala við neinn, „keep it under wraps“.  (bls. 25 í 7. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar)

Össur Skarphéðinsson Sigríður Logadóttir, sem var einn þeirra fáu starfs- manna Seðlabankans sem var kallaður út þetta sunnudagskvöld, segir að henni hafi orðið það: „sérstaklega minnisstætt að þegar fundurinn er að hefjast þá snýtir Össur sér og segir yfir fundar- borðið að hann hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum.“ (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar). Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, var á þessum sama fundi skv. ósk eða skipun Ingibjargar Sólrúnar. Hún hafði hringt í hann fyrr þennan sama dag. En hvar var viðskiptaráðherrann?

Það er haft eftir Jóni Þór Sturlusyni að starfsmenn Viðskiptaráðuneytisins hafi verið í skemmtiferð utan höfuðborgarsvæðisins laugardaginn 27. september. Þar á meðal voru hann sjálfur svo og viðskiptaráðherrann. Jón Þór segir að hann hafi frétt af miklum fundarhöldum á þessum sama tíma í forsætisráðuneytinu og hringt í Tryggva Þór Herbertsson síðdegis en sá hafi varist allra frétta. Sjálfur segir Björgvin um þetta atriði:

„Fyrr um helgina höfðu borist fréttir af einhverjum fundum Davíðs og Árna og Geirs og við fylgdumst með því og ég man að ég bað Jón Þór að forvitnast um það, ég bað hann að hringja í Tryggva Þór, en þeir voru ágætis kunningjar. Jón hringdi í Tryggva, að mér heyrandi, og gekk mjög á hann á laugardeginum, og hinn bara fullyrti alveg „nei, nei, ekkert að gerast, bara fara yfir bankana, forsætisráðherra var að koma heim“, og bara alveg blákalt. Og Jón trúði honum og við bara líka, maður reiknar ekki með því að það sé alltaf verið að ljúga að manni.“ (bls. 16 í 7. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar)

Takið eftir því að Ingibjörg Sólrún hringir svo í Jón Þór daginn eftir og segir honum að mæta á fund þar sem Björgvin G. Sigurðsson hefði með réttu átt að sitja. „Aðspurður hvort honum [þ.e. Jóni Þór] hefði ekki þótt sérstakt að Björgvin G. Sigurðsson væri ekki kallaður til svaraði Jón: „Jú, jú, ég bara er ekki að spyrja slíkra spurninga.“ (bls. 25 í 7. bd. Skýrslunnar). Ingibjörg Sólrún gekk m.a.s. svo langt í því að halda Björgvini G. Sigurðssyni fyrir utan það að koma að þessum málum, sem heyrðu undir hans embætti, að hún sendir iðnaðarráðherra sem segist ekki hafa hundsvit á bankamálum og biður hann sérstaklega um að láta ekkert uppi um málið við hann!

Það þarf enginn að ímynda sér annað en að Ingibjörg Sólrún hafi komið slíku að við Jón Þór Sturlusona líka en sennilega var það miklu fyrr. E.t.v. átti hún ekki hugmyndina að því að Björgvin G. Sigurðsson var þannig rændur völdum sem viðskiptaráðherra en hennar var verknaðurinn!

Enda sagði hún sjálf í óvæntri ræðu sem hún hélt á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem var haldinn í tilefni af útkomu Rannsóknarskýrslunnar: „Ég kem hér upp bara til að segja ykkur að þegar ég horfi yfir þessi tvö ár þá finnst mér ég hafa brugðist.  (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)) Og sennilega blandast engum hugur um það að það gerði hún og það mjög alvarlega! Þess vegna sætir það furðu að: „Rannsóknarnefndin [hafi] komist að þeirri niðurstöðu að [Ingibjörg Sólrún Gísladóttir] hafi ekki gerst sek um mistök eða vanrækslu í starfi.“ (Sjá sömu heimild). 

Rannsóknarskýrsla Alþingis Það var heldur ekki Ingibjörg Sólrún sem að lokum hringdi í Björgvin G. Sigurðsson heldur Jóhanna Sigurðardóttir. Hún hafði fylgst með afar óljósum fréttum bæði á laugardags- og sunnudagskvöldinu. Eftir afar loðin tilsvör Geirs H. Haardes við spurningum fréttamanna varðandi það um hvað væri verið að funda svo stíft þessa helgi hringdi hún í Geir H. Haarde sunnudags- kvöldið 28. september en fékk lítið upp úr honum.

Næst hringdi hún í Björgvin G. Sigurðsson sem hún segir að hafi algjörlega komið af fjöllum (sjá bls. 35 í 7. bd. Skýrslunnar). Að sjálfsögðu veltir maður því fyrir sér að fyrst félagsmálaráðherrann fannst það svo dularfullt hvað forsætisráðherr- ann væri að bardúsa niður í Stjórnarráði með hagfræðingum að hann lét verða að því að spyrja hann beint út í það hvers vegna slíkt hvarflaði ekki að viðskiptaráðherranum?

Það er annað sem ég vil benda sérstaklega á varðandi það sem kemur fram hjá Jóhönnu en það er það hvernig hún frétti af niðurstöðum fundarhaldanna þessa síðustu daga septembermánaðar árið 2008. Hún segir að Jón Þór Sturluson hafi hringt í sig og greint sér frá þeirri niðurstöðu ráðherranna: Geirs H. Haardes, Árna M. Mathiesens og Össurar Skarphéðinssonar að ríkið yfirtæki Glitni. Aðspurð um það hvort Jón Þór hefði verið að leita samþykkis eða afstöðu hennar eða hvort Össur Skarphéðinsson hefði hringt í hana segir hún:

„Nei. Bara segja mér niðurstöðuna sem þá var komin.“ Jóhanna sagðist ekki hafa litið þannig á samtalið að verið væri að leita eftir samþykki hennar. Jóhanna sagðist heldur ekki minnast þess að Össur Skarphéðinsson hefði rætt við sig eða reynt að hafa samband við sig þetta kvöldþ (bls. 35 í 7. bd. Skýrslunnar)

Þetta stangast á við það sem Árni M. Mathiesen og Össur Skarphéðinsson halda fram. Árni segir að hann hafi „talið að Geir H. Haarde og Össur hefðu hringt í aðra ráðherra til að afla samþykkis þeirra.“ (bls. 26 í 7. bd. Skýrslunnar) Í tölvubréfi sem Össur sendi Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, aðfararnótt 29. september kemur fram að hann og Jón Þór hafi hring í aðra ráðherra Samfylkingarinnar og hann hafi samþykkt tillöguna um yfirtöku ríkisins á Glitni í samráði við Ingibjörgu Sólrúnu. Ástæðan fyrir þessu bréfi segir hann vera þá að ekki náðist í Þórunni í síma.

Ég gat ekki fundið það að Geir H. Haarde hefði verið spurður út í það hvort eða hvernig leitað hefði verið samþykkis annarra ráðherra í ríkisstjórninni hvað varðaði þá ákvörðun að ríki tæki yfir Glitni.

Annað sem ég vil draga sérstaklega fram hér er að: Skýrslutökur rannsóknarnefndar Alþingis og gagnaöflun hafa ekki gefið til kynna að yfirvöld hafi notið nokkurrar ráðgjafar innlendra eða erlendra utanaðkomandi sérfræðinga þegar ákvörðunin [um yfirtökuna] var tekin.“ (bls. 28. í 7. bd. Skýrslunnar) En eins og flestum er sennilega í fersku minni birti forsætisráðuneytið fréttatilkynningu um yfirtöku ríkisins á Glitnis-banka á vefsíðu sinni að morgni mánudagsins 29. september 2008. Þar sagði m.a:

„Gert hefur verið samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og helstu eigenda Glitnis banka hf. að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um að ríkissjóður leggi bankanum til nýtt hlutafé. Þetta er gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir.“ [...] „Ríkissjóður stefnir ekki að því að eiga eignarhlutinn í bankanum til langframa. Tilgangurinn með þessari aðgerð er að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu.“ (bls. 36 í 7 bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))

Landráð eða valdarán?

Eins og ég hef margítrekað sýnist mér það engum vafa undirorpið að ráðherrar hrunstjórnarinnar hafi allir gert sig seka um „stórfellda eða ítrekaða vanrækslu og stórkostlegt ábyrgðarleysi gangvart hagsmunum ríkisins með aðgerðum sínum og/eða aðgerðarleysi enda hefur það nú þegar „skert [...] frelsi og sjálfforræði landsins.“ (sjá d-lið 8. gr. Laga um ráðherraábyrgð).

Ég á erfitt með að skilgreina ofantalið sem annað en landráð enda er útskýring Íslenskrar orðabókar á orðinu þessi: 1. lögfr. brot gegn öryggi eða sjálfstæði ríkis út á við eða inn á við, föðurlandssvik“ (bls. 860) en það er líka önnur alvarleg sök sem a.m.k. ráðherrahópurinn, sem kom að ákvörðuninni um yfirtöku Glitnis, gerði sig seka um en það er valdarán. M.ö.o. þessi hópur rændi a.m.k. Björgvin G. Sigurðsson þeim völdum sem voru hans sem viðskiptaráðherra (Sjá hér og hér 13. gr.) 

Miðað við það hversu stórkostlegar ákvarðanir voru teknar síðustu daganna í september finnst mér heldur engum blöðum um það að fletta að það átti að boða til ráðherrafundar enda segir í Stjórnarskránni: „17. gr. Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni.Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál. [...]“ Ég get heldur ekki skilið 16. gr. öðru vísi en svo að það hefði átt að bera ákvörðunina um yfirtöku ríkisins á Glitni undir forsetann líka. 16. gr. [...]Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði. (Sjá hér)
 
Það getur ekki talist eðlilegt að ráðherrarnir sem tóku ákvörðunina um yfirtöku ríkisins á Glitni boðuðu ekki til ráðherrafundar í tilefni þeirrar stjórnarráðstöfun að leggja Glitni til hlutafjármagn upp á 84 milljarða króna! Ingibjörg Sólrún bannaði að Björgvin G. Sigurðsson kæmi að mikilvægum ákvörðunum sem varðaði viðskipta- og efnahagsmál landsins. Í þessu sambandi þykir mér líka ástæða til að draga 6. gr. Laga um ráðherraábyrgð fram en þar segir:

 

Hver ráðherra ber ábyrgð á stjórnarerindum þeim, sem út eru gefin í hans nafni, nema ákvörðun sé án hans atbeina tekin af undirmanni, sem til þess hefur heimild samkvæmt venju, eða eðli máls, eða starfsmaður hafi vanrækt að leggja erindi fyrir ráðherra. Ráðherra verður þó einnig sóttur til ábyrgðar fyrir þvílíkar ákvarðanir, ef honumhefur verið um þær kunnugt og hann hefur látið þær viðgangast án þess að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær. (Sjá hér)

Ég reikna með að það séu fleiri en mér sem finnst það í hæsta máta undarlegt hvernig rannsóknarnefndin gat komist að þeirri niðurstöðu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi ekki gerst sek um mistök eða vanrækslu í starfi. Ekki síst þegar það er haft í huga hvernig hún stóð að því að ræna Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, völdum sínum í gegnum aðstoðarmann hans, Jón Þór Sturluson.

Þeir voru ábyggilega fleiri sem stóðu á bak við það valdarán en af samtali hennar við Össur Skarphéðinsson, sem var rakið hér framar, þá er ljóst að hún studdi framkvæmdina og fullkomnaði valdaránið sunnudaginn 28. september 2008 með því að banna að Björgvin G. Sigurðsson væri látinn vita af mikilvægum fundarhöldum um málefni sem voru á hans sviði en sendi í hans stað ráðherra sem „hafi bara akkúrat ekkert vit á bankamálum.“ fyrir hönd Samfylkingarinnar.


mbl.is Fundað með Ingibjörgu Sólrúnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Rakel.

Atburðarrásin er ótrúleg.  Ef rétt er að Björgvin hafi ekki kunnað að þegja, þá átti að ræða þau mál við hann, fyrst óformlega, síðan formlega á ríkisstjórnarfundi og áminna hann í kjölfarið.  Óþægileg mál á hins vegar ekki að sópa undir teppið, hvað þá að eyða orku sinni í að halda lykilráðherra efnahagsmála fyrir utan atburðarrásina.  

En Geir Harde virðist ekki hafa verið fyrir óþægileg mál, lokað oft augunum og vonaði að þau væru farin þegar birti.

En ég er sammála þér  að ef það á á annað borð að ákæra fólk fyrir afglöp, þá er öll ríkisstjórnin sek, og mér persónulega finnst ábyrgð Alþingis engu minni.  Sem og allra þeirra sem vörðu bankaútþensluna og hindruðu alla umræðu og aðgerðir þeim til höfuðs.

Og þar kemur maður af háskólaprófessorum og öðrum álitsgjöfum, og öllum fjölmiðlum landsins.  Misslæmir þó, Styrmir reyndi þó að láta Agnesi grufla í skítnum.  En af hvaða hvötum veit ég ekki.

Ábyrgðin er vissulega mismikil en það er þannig að þeir sem koma að hópnauðgun, eða láta hana viðgangast, þeir eru allir sekir.  Þjóðinni var nauðgað af valdaelítunni og núna ætlar hún að reyna að komast upp með að fórna 3 einstaklingum til að friða múginn, og fá þar með frið fyrir aðra nauðgun.

Og fólk sér ekki í gegnum þetta sjónarspil.

Sorglegt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.9.2010 kl. 08:56

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Í reynd verður maður orðlaus frammi fyrir hálfvitaganginum sem hefur verið í gangi sem mér sýnist að megi e.t.v. rekja til þess að það varð að þegjandi samkomulagi að læðast í kringum sefasjúku dramadrottninguna sem hafði alltaf komist upp með að ráða...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.9.2010 kl. 23:19

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst líka alvarlegt að ráðherrar voru oft ekki upplýstir um gang mála, og mér virðist að ríkisstjórnin hafi ekki unnið saman.  Hver ráðherra var að krunka í sínu ráðuneyti án samráðs við hina.  Nema náttúrulega þegar allt far farið til fjandans, þá ákváðu Geir, Ingibjörg og Össur, ásamt Davíð hvað gera skyldi og þau kunnu greinilega ekki til verka...  Ekkert af þeim..

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.9.2010 kl. 23:44

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér sýnist að slík vinnubrögð séu orðin að hefð:-(

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.9.2010 kl. 00:11

5 Smámynd: Birgir Rúnar Sæmundsson

Þakka þár fyrir Rakel alla vinnuna í þessari grein. Meistaraverk !

Birgir Rúnar Sæmundsson, 25.9.2010 kl. 14:23

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er nú ekki viss um að þetta sé meistaraverk en það fór vissulega mikil vinna í þessi skrif og því þykir mér sérstaklega vænt um þetta hrós frá þér.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.9.2010 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband