Hvað heitir glæpurinn? 2. hluti

Það er orðinn hálfur mánuður síðan ég skrifaði fyrsta hlutann þar sem ég velti því fyrir mér hvaða heiti hæfði þeim glæpum sem stjórnvöld gerðu sig sek um í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Niðurstaða hans var sú að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem sátu þá, gerðu sig a.m.k. seka um „stórfellda eða ítrekaða vanrækslu“ (leturbreytingar mínar) skv. 141. gr. Almennra hegningarlaga. Í lögum um ráðherraábyrgð er það tekið fram að ákvæði almennra hegningarlaga um brot í starfi taki einnig til ráherra. 

Það er nefnilega engum blöðum um það að fletta að með útkomu Rannsóknarskýrslunnar urðu ráðherrar hrunstjórnarinnar svokölluðu berir af mjög alvarlegri vanrækslu. Hún var í reynd svo stórkostleg að það er erfitt að átta sig á því hvað þeim gekk til með því að leiða hjá sér öll merki og allar viðvaranir um það hvert stefndi. Þess vegna hafa sumir viljað kalla glæp þeirra landráð eða umboðssvik.

Í fyrsta hlutanum vísaði ég til þess mats löglærðra manna að landráðakafli íslenskra laga nái ekki utan um vanræksluglæpi stjórnsýslunnar. En hvað um umboðssvik? Í 2. gr. laga um ráðherraábyrgð segir: Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.“ (Sjá hér. (leturbreytingar eru mínar))

Ingibjörg Sólrún, Björgvin og Jón ÞórSíðast beindi ég kastljósinu einkum að ráðherraparinu Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hér verða fleiri nefndir til sögunnar en það eru Björgvin G. Sigurðsson og aðstoðarmaður hans Jón Þór Sturluson. Markmiðið er enn sem fyrr að gefa glæpum hrunstjórnarinnar nafn.

Tímabilið sem er til skoðunar nær frá janúar 2007 til september 2008. (Sjá bls. 78-226 í 6. bindi Rannsóknarskýrslunnar). Það skal tekið fram að hér er stiklað á stóru í þeim tilgangi að draga fram staðreyndir Skýrslunnar sem undirstrika vanrækslu framantaldra svo og brot nefndra ráðherra gegn lögum um ráðherraábyrgð. 

Það fyrsta sem vakti athygli mína við lestur þessara blaðsíðna er umfjöllun Skýrslunnar um hækkun Moody's á langtímahæfiseinkunn stóru íslensku bankanna í febrúar 2007. Þar segir orðrétt: „Hinni nýju framkvæmd var tekið misjafnlega. Var hún gagnrýnd af mörgum aðilum, sbr. t.d. ummæli greiningaraðila Royal Bank of Scotland sem sagði að Moody's hefði með þessari greiningu sinni gert sig óþarft.“ (sjá bls. 79 í 6. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))

Annað er aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birtir niðurstöður sendinefndar sinnar til Íslands 11. júní 2007. (Sjá bls. 83 í 6. bd. Skýrslunnar). Ég reikna með að fleiri en ég spyrji sig spurninga eins og: Hvað var sendinefnd á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðins að vilja hingað á þessum tíma? Hver bauð þeim? og til hvers?

Þriðja er að upphaf lausafjárkreppunnar er rakið til júlí 2007 og svör þáverandi bankastjóra Landbankans, Glitnis og Kaupþings við spurningum rannsóknarnefndar Alþingis þar að lútandi. Það er kannski ofmælt að tala um svör því í reynd segja þeir ekkert sem má búast við af ábyrgum bankastjórum. (Sjá bls. 84-85 í 6. bd Skýrslunnar)

Þvert á móti þá undirstrika svör þeirra enn frekar hve rík ástæða var á ströngu eftirliti með bönkunum og aðhaldi á þessum tíma. En eins og allir vita voru þeir eins konar ríki í ríkinu sem enginn þykist bera ábyrgð á.

Það er ekki útilokað að Björgvin G. Robert WadeSigurðsson hafi sýnt einhverja tilburði til að spyrna við fæti en það er ekkert sem bendir til að það hafi verið út frá forsendum almennra kjósenda. Það er þó ljóst að hinn 1. ágúst 2007 stóð viðskiptaráðuneytið fyrir málþingi þar sem hagfræðingurinn Robert Wade hélt fyrirlestur um hina alþjóðlegu fjármálakreppu. Aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, Jón Þór Sturluson, tjáði rannsóknarnefndinni það að:

„innan ráðuneytisins hefðu menn verið mjög meðvitaðir um það misræmi sem væri á milli stærðar bankakerfisins og stærðar myntkerfisins. Áhersla viðskiptaráðherra hefði hins vegar verið „miklu fremur á að leysa þetta með þeim hætti að stækka myntkerfið en að minnka bankakerfið.““ (bls. 85 í 6. bd. Skýrslunnar (leturbreytingar eru mínar))


Jón Þór bætir því svo við að starfsmönnum Viðskiptaráðuneytisins hafi komið það „mjög á óvart hversu neikvæður Wade hefði verið á þessum fundi varðandi framhaldið.“ Þeir hafi því ekki lagt trúnað á orð hans enda ekki verið „á þessari línu á þessum tíma.“ (bls. 85 í 6. bd. Skýrslunnar)

Næstu sjö blaðsíður eru afar athyglisverðar enda segir þar af mjög alvarlegum leikfléttum sem sumar hverjar eru grímulaust fals. Hér er t.d. átt við það þegar Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, og Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri Fjármálaráðuneytisins, ákveða að opinbera ekki spilin og sýna hvort íslensk stjórnvöld myndu bjarga bankanum sem var viðfangið á samnorrænni viðlagaæfingu sem haldin var 20. - 25. september (sjá bls. 87-89 í 6. bd. Skýrslunnar).

Á viðlagaæfingunni átti að æfa viðbrögð stjórnvalda við sviðsettu fjármálaáfalli. Ingimundur og Baldur sáu til þess að ákvörðunin um það hvort það ætti að bjarga bankanum, sem um ræddi, eða ekki var aldrei tekin. Í lok kaflans segir að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, „rámaði í að hafa heyrt um viðlagaæfinguna en virtist lítið vita annað um hana!“ (Sjá bls. 89 í 6. bd. Skýrslunnar (feitletrun og upphrópunarmerkið er viðbót mín)).

6. bindi RannsóknarskýrslunnarÍ mínum huga ætti enginn að þurfa að velkjast í vafa um stórfellda og ítrekaða vanrækslu ráðherra hrunstjórnarinnar. Merkin og viðvarirnar sem komu fram þegar á árinu 2007 hefðu átt að duga til þess að ábyrgur ráðherra hefði brugðist við. Þegar það sem kom fram í þessu sambandi á árinu 2008 er skoðað þá verða vanræksluglæpir ráðherranna enn voveiflegri en um leið berari.

Þeim sem les 6. bindi Rannsóknarskýrslunnar með hliðsjón af lögum um ráðherrábyrgð blandast vart hugur um það að ráðherrarnir brutu ekki aðeins gegn 141. gr. Almennra hegningarlaga. Þeir brutu líka gegn 2. gr. Laga um ráðherraábyrgð þar sem þeir stofnuðu hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu með því sem þeir gerðu en ekki síður með því sem þeir létu ógert.

10. gr. þessara sömu laga ætti að taka af allan vafa um að ráðherrarnir eru sekir um brot gegn lögum er varða ábyrgðina sem fylgir því að gegna embætti ráðherra:

Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum:
[...]
b) ef hann framkvæmir nokkuð eða veldur því, að framkvæmt sé nokkuð, er stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu, þótt ekki sé framkvæmd þess sérstaklega bönnuð í lögum, svo og ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, er afstýrt gat slíkri hættu, eða veldur því, að slík framkvæmd ferst fyrir.
(Sjá hér)

Ég get heldur ekki betur séð en að 13. gr. laga um ráðherraábyrgð eigi líka við um þá vanræksluglæpi sem ráðherrar hrunstjórnarinnar eru berir af:

Hafi ráðherra bakað almenningi eða einstaklingi fjártjón með framkvæmd eða vanrækslu, sem refsiverð er eftir lögum þessum, skal og þegar þess er krafist, jafnframt hegningunni dæma hann til að greiða skaðabætur, en um skaðabótaskyldu hans fer eftir almennum reglum. (Sjá hér)

Ég geri ráð fyrir að fæstum blandist hugur um stórfellda og ítrekaða vanræksluglæpi ráðherranna sem sátu í ríkisstjórn á árunum 2007 og 2008. Þeir vanræktu bæði skyldur sínar og ábyrgð gagnvart kjósendum og hagsmunum íslenska ríkisins. M.ö.o. þá sinntu þeir ekki ábyrgð sinni sem ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar. Þeir misfóru með vald sitt. Nýttu það jafnvel til annarra verka en þeirra sem stuðluðu að hagsmunum þjóðarinnar.

Svörin sem ráðherrarnir gefa rannsóknarnefndinni vitna um það að það var a.m.k. ekki hagsmunir þjóðarinnar allrar sem brunnu þeim fyrir brjósti. Í sambandi við svörin sem eru höfð eftir þeim í 6. bindi Rannsóknarskýrslunnar er vert að taka sérstaklega eftir því hvað Björgvin G. Sigurðsson virðist vera utangátta. Þar er líka sagt frá því að þar kom að hann var ekki hafður með á fundum um stöðu íslensks viðskiptalífs.

Þetta atriði verður sérstakt viðfangsefni síðasta hlutans um það hvað glæpurinn heitir. Glæpir ráðherranna eru nefnilega ekki allir taldir upp enn. Verða kannski seint fullkomlega upptaldir...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Frábær samantekt hjá þér Rakel, með von um að "nefndin" hans Atla sem móttók skýrsluna, hafi sömu hreinu sýn á aðstæður í kjölfar, aðdraganda og á upphaf hrunsins!
 
Bestu kveðjur til Akureyrar eða Reykjavíkur veit ekki alveg á hvorum staðnum þú hallar höfði nú um stundir. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 24.5.2010 kl. 06:30

2 Smámynd: Birgir Rúnar Sæmundsson

Takk fyrir, frábær grein.

Samt hafa þessi lítilmenni "smá" málsbætur, þeir voru að starfa í umhverfi  stór kapítalistanna í City of London, Inter Alpha Group Rotschilds. (Sjá Video Webcast)

Hvað hefur komið fyrir Grikki ofl ?

Það sem ég á við, er að Íslendingar almennt sem þjóð, lentum í djöfullegri gildru glæpamanna bæði á Íslandi og erlendis.

Alvarlegasti glæpurinn hér á Íslandi finnst mér vera, að Dómsmálaráðherra Lýðveldisins hafi ekki spyrnt við fótum. Hann vissi allt um það sem var að gerast, sat á fundum með glæpastjórninni, en gerði ekkert !

Þessi ráðherra átti að vera vörslumaður Réttarkerfisins í Lýðveldinu Íslandi. Og vernda þegnana gegn glæpum.

Skoðið Video: http://www.larouchepac.com/webcasts/20100508.html

Mikill þekking á ferðinna þar.

Birgir Rúnar Sæmundsson, 24.5.2010 kl. 10:26

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Og við bíðum spennt eftir því hvað glæpurinn heitir.

Takk fyrir frábæra grein Rakel.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.5.2010 kl. 10:52

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Glæpurinn heitir Landráð í mínum huga auk alls þess sem þú nefnir. Verst er að einungis dómsmálaráðherra getur ákært fyrir landráð og engin annar. Því verðum við að láta okkur nægja þina skilgreiningu.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 24.5.2010 kl. 11:58

5 Smámynd: Birgir Rúnar Sæmundsson

Það er ein ónefnd deild í Háskólavændinu sem er vert að skoða vel.
Kíkið á Lagadeild og nafnalista, „Hollvinafélag Lagadeildar“
Skoðið svo Siðareglur Lögmannafélags Íslands.
Leggið svo saman 2 + 2 eftir að þið eruð búin að gera lista yfir,
Stjórnmálamenn, Alþingismenn, og aðra embættis menn og áhrifa menn
í þjóðfélaginu undanfarna 2 áratugi.
Það er ágætt að minnast þess að dómarar eru „Lögmenn“

Ef á að uppræta spillinguna í samfélaginu, verður að hreinsa til og endurskoða
menntun Lögmanna ofl t.d. viðskiptafræði, í Háskólum Landsins. Hreinsa út úr Hæstarétti alla Davíðsdómara.

Birgir Rúnar Sæmundsson, 28.5.2010 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband