Merkilegt innlegg inn í umræðuna

Það hafa margir tjáð sig um Icesave á því rúma ári sem er liðið síðan ógnir þeirrar græðgisfífldirfsku gleyptu starfsorku íslenskrar stjórnmálastéttar. Í meginatriðum má skipta þeim sem hafa tjáð sig í tvo hópa. Hópinn sem vill verja umboð gamla fjármálakerfisins yfir peningamörkuðunum annars vegar og hins vegar hópinn sem vill hrinda því skuldaoki sem gamli fjármálheimurinn hefur komist upp með að varpa yfir á almenning.

Vésteinn Valgarðsson, sem skrifar gjarnan á eggin.is, heyrir undir síðari hópinn. Hann birti athyglisverða grein á þeim vettvangi fyrr í dag sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á. Ekki síst fyrir þá sök að hann dregur fram athyglisvert sjónarhorn á þessa umræðu sem hefur lítið farið fyrir.

Hér að neðan birti ég útdrátt úr grein Vésteins en greinina má lesa í heild hér.
Logo Eggjanna

 Eggin: Veftímarit um samfélagsmál

 

 

 

Það er ranglátt að íslenskur almenningur borgi fyrir fjárglæframenn. Þess vegna er það óásættanlegt. Umræðan er á villigötum á meðan hún snýst um eitthvað annað en það. Lagaklækir eru aukaatriði. Spurningin sem máli skiptir er hvort fjármálaauðvaldið fær sínu framgengt í þessu máli eins og öðrum, eða hvort spyrnt verður við fæti og vörn snúið í sókn.

Þessi spurning snýst um það hver fer með völdin í landinu. Þegar það fær sitt á undan heimilunum í landinu, þegar kröfur erlendra „fagfjárfesta“ ganga fyrir fjármögnun heilbrigðiskerfisins, þegar ríkisstjórnin bíður milli vonar og ótta eftir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þóknist að endurskoða einhverja áætlun – þá fer ekki milli mála að það er fjármálaauðvaldið sem fer ennþá með völdin. [...]

 Í IceSave-hneykslinu var almenningur rændur af fjármálaauðvaldinu. [...] Í stað þess að sækja Landsbankamenn persónulega til saka, þá er sótt að ríkissjóði Íslands og þess krafist að „við“ tökum ábyrgð á ráninu. En það vorum ekki „við“, það var fjármálaauðvaldið. [...]

Núverandi ríkisstjórn Íslands mun ekki ganga á hólm við auðvaldið vegna þess að hún er sköpuð til að þjóna því. Það eru tóm orð og merkingarsnauð, að kenna ríkisstjórn við „vinstri“ eða tala um að byggja upp velferð. Stefnan verður ávallt mörkuð af ríkjandi stétt, og í okkar stéttskipta þjóðfélagi er það auðvaldið sem ræður og svo mun vera þangað til almenningur tekur völdin í sínar eigin hendur. Það verður ljósara og ljósara að það er raunhæfur möguleiki að svo fari. Ég segi ekki að það sé eini möguleikinn – það er jú vissulega líka mögulegt að Ísland verði þrælanýlenda fjármálaauðvaldsins svo lengi sem það er byggt – en það er eini ásættanlegi möguleikinn.

Öreigastétt og auðvald birtast skýrast í dag sem skuldarar og okurlánarar. Hagsmunirnir eru ósamrýmanlegir – já, sjálf tilveruskilyrðin eru ósamrýmanleg. Annað hvort verður að víkja. Fjármálaauðvaldið mun ekki gera það átakalaust. En hvað með almenning?

 


mbl.is Tilbúnir til frekari viðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband