Ögurstundir

Icesave-málið er svo sannalega eitt þeirra mála sem hefur verið komið þannig fyrir að það mun varða okkur öll! Í mínum augum er þetta mál hið svívirðilegasta frá upphafi til enda! Ég lít þannig á það að með því að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave-skuldunum erum við að skrifa undir þann ójöfnuð sem er ég alfarið á móti!

Ég er nefnilega alfarið á móti því að vegna þess að ég er íslenskur ríkisborgari þurfi ég að taka á mig byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi sem meintir auðmenn þessa lands hafa komist upp með að ástunda í skjóli óskilvirks eftirlits og handónýtrar stjórnsýslu. Í þessu skjóli dafnaði illra manna ráð sem ekki sér fyrir endann á.

Því miður gengur það ákaflega erfiðlega að ráða niðurlögum þess illgresis sem hefur þrifist eftirlits- og aðhaldslaust á liðnum árum. Margt kemur til sem ekki verður tíundað frekar hér en niður í grasrótinni er líka ýmislegt að gerast. Að sjálfsögðu vildi ég sjá enn blómlegra starf þar en ég fagna því þó að undir illgresinu skuli leynast réttlætisleitandi laukar sem neita að gefast upp við spírunina.

Hér á eftir langar mig til að gefa einhvers konar yfirlit yfir atburði síðustu daga nýliðins árs og síðastliðins laugardags. Fræ hugmyndanna of uppskeru framkvæmdanna má að langmestu rekja til þeirrar grasrótar sem lifir enn og á vonandi eftir að vaxa og dafna enn frekar á árinu sem nú er nýhafið!

28. -29. desember 2009

Mánudagskvöldið 28. desember hittumst við nokkur til að undirbúa viðbrögð við því sem lá í loftinu þá. Þ.e. að breytingar á Icesave-frumvarpinu frá sl. sumri yrðu samþykktar sem lög frá Alþingi. Auðvitað vonuðu margir að breytingunum yrði hafnað en sumir voru sannfærðir um að sú von væri aðeins ofurbjartsýni. Eftir þennan fund grasrótarinnar fórum við nokkur til að sitja á þingpöllum. 

Daginn eftir mætti ég niður á Austurvöll en þar hafa nokkrar hetjur staðið þá endalausu daga sem Icesave hefur verið til umfjöllunar inni á þingi. Ekki bara núna í desember heldur allt sl. sumar og líka þegar það var tekið til annarrar Iceslave-jólatréðumræðu eins og nú undir lokin.

Þetta var því miður fámennur hópur en þeir sem skipa hann eiga það sameiginlegt að þeir eru gæddir fágætri staðfestu og réttlætiskennd. Annað sem einkennir marga í hópnum er ótrúlegt hugmyndaflug og sköpunargleði eins og jólatréð á þessari mynd Nikulásar Einarssonar ber vitni um.

Ég kynntist ekki aðeins þessum hetjum þennan dag heldur hélt ég áfram að fylgjast með endaleysunni um Icesave inni í þingsal. Ég sagði frá upplifun minni af veru minni á þingöllum hér. Mig langar að bæta örlitlu við það sem þar stendur.

Fréttir af þingstörfum og svo innlit inn á útsendinguna frá Alþingi inni á alþingis- vefnum hafa smátt og smátt dregið úr tiltrú minni á Alþingi sem stofnun. Vera mín á þingpöllum var ekki til að byggja hana upp nema síður sé. Mér leið eins og ég væri að horfa á fólk sem áttaði sig ekki á því að það væri týnt inni í sýndarveruleika.

Mér fannst langflestir sem tóku til máls vera svo uppteknir af því að „leika sjálfan sig“ í þessu verndaða umhverfi að þeim væri horfin öll tengsl við raunveruleikann. Veruleika minn og annars almennings. Þann veruleika sem allir þurfa að takast á við fyrr eða seinna...

Þetta kvöld var aftur fundað í grasrótinni og lögð drög að viðbrögðum...

30. desember2009

Þennan dag var safnast saman niður á Austurvelli undir kjörorðinu rautt neyðarkall. Ég veit ekki hvað við vorum orðin mörg þegar klukkan sló 12:00 og rauðu blysin voru tendruð. Það skiptir heldur ekki máli að mínum dómi heldur hitt að við reyndum. Við vildum ná athygli þingmanna og ég held að það hafi tekist þó þeir sem kusu með nýju Icesave-löggjöfinni hafi ekki tekið mark á skilaboðunum.Rautt neyðarkall Þessa mynd tók Jóhann Ágúst Hansen hjá Svipunni. Hún sýnir hluta þess hóps sem tók þátt í viðburðinum. Eftir að honum lauk voru sumir áfram á Austurvelli þrátt fyrir nístandi kuldann. Við fórum reyndar af og til inn á nálæg kaffihús, eins og Íslenska barinn, til að fá í okkur hita. Um miðjan daginn voru flestir sem voru eftir komnir inn á þingpalla til að fylgjast með því sem fór fram niðri í þingsalnum.

Þar sem því hefur verið gerð þokkaleg skil í fréttum hvað fór fram þar þennan dag ætla ég ekki að rekja það hér. Mig langar þó að taka það fram að það sem ég sá og heyrði þennan dag undirstrikaði enn frekar þá tilfinningu að þaðan sé engra breytinga að vænta. M.ö.o. þá er Alþingi handónýt stofnun. Þar sitja aðeins valdalausir þingmenn og þrefa um málefnin.

Tilgangurinn er sennilega sá að blekkja okkur almenning. Láta okkur standa í þeirri meiningu að þingmennirnir sem við kjósum um hafi einhver völd og fái einhverju áorkað en reyndin er allt önnur eins og þeir vita sem eru tilbúnir til að horfast í augu við það hver veruleikinn í þessu efni er.

Þetta kvöld fór atkvæðagreiðslan um Icesave-frumvarpið, sem var gert eftir uppskrift Breta og Holllendinga, fram. Vonbrigði þeirra sem voru fyrir utan Alþingishúsið var næstum áþreifanleg. Djúp vonbrigði og sorg skinu út úr andlitum margra og sumir hreinlega grétu. Aðrir reyndu að bera sig betur en ræddu um það hvert skyldi flytja næsta vor.

31. desember 2009 - Gamlársdagur

Þennan dag söfnuðumst við saman að Bessastöðum til að minna á þann almenning sem skyldi borga Icesave-skuldirnar fyrir Björgólfana ef forsetinn skrifaði undir lögin. Upphaflega var áætlað að Indefence-hópurinn myndi afhenda undirskriftarlistana, varðandi áskorun til forsetans um að setja frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu þennan dag, en þar sem verulegur skriður komst á undirskriftirnar strax að lokinni atkvæðagreiðslunni á þinginu, kvöldinu áður, var þeirri afhendingu frestað fram til laugardagsins 2. janúar.

Hingað til hafa ríkisráðsfundirnir sem haldnir eru á gamlársdag að Bessastöðum hafist á hádegi en þar sem fréttir höfðu borist af fyrirhuguðum mótmælum fyrir framan forsetabústaðinn á sama tíma og hann átti að fara fram var hann færður fram til kl. 11:00 en einhverjir ráðherranna voru mættir enn þá fyrr. Við söfnuðumst saman við hringtorgið við afleggjarann heim að Bessastöðum. Þaðan gengum við svo heim á hlað.

Við vorum ekki mörg sem mættum en þó var þar góður og samstilltur hópur. Einhverjir reyndu að koma skilaboðum til forsetans með söng ættjaraðarlaga eins og „Land míns föður, landið mitt“ en aðrir með því að ávarpa hann beint í gegnum gjallarhorn. Annars stóðum við slegin í þögn vegna áhyggnanna af því sem við okkur blasir í stjórnsýlsu þessa lands og því hvernig fulltrúar hennar víla það ekki fyrir sér að koma einkaskuldum kostunaraðila sinna yfir á okkur og afkomendur okkar um ókomin ár.

Þegar ráðherrarnir yfirgáfu bústað forsetans tóku nokkir sér sæti eða stóðu fyrir framan bílana sem fluttu þá á brott eins og sést á þessari mynd sem Jóhann Ágúst Hansen á Svipunni tók.
Á Bessastöðum á gamlársdag 2009 Með aðstoð lögreglunnar áttu þeir þó allir auðvelt með að komast í burtu. Ég reikna með að þrátt fyrir að þeir hafi verið skömmustulegir þegar þeir komu sér út í bílana þá hafi þeir verið fljótir að hrista skömmina af sér þegar þetta „óþægilega“ fólk var úr augsýn. En þeir voru ekki alveg lausir við okkur...

Við höfðum frétt að Kryddsíldin hefði verið færð af Borginni upp í Öskjuhlíðina og komum út boðum um þessa nýju staðsetningu um leið og hún lá fyrir. Af einhverjum ástæðum mættu þó ekki nema fáir. Við vorum aldrei nema fjögur sem stóðum á klettunum fyrir framan salinn þar sem útsendingin fór fram og hluta af tímanum vorum við ekki nema þrjú.

Okkur tókst samt að láta til okkar heyra. Nóg til þess að þeir sem voru í útsendingunni voru minntir á svik stjórnmálamannanna við kjósendur. Ég hef ekki séð útsendinguna sjálfa en mér hefur borist það til eyrna að þegar hávaðinn varð hvað mestur þá hafi farið um stjórmálamennina sem voru minntir á það fyrir hverja þeir eiga að vera að vinna.

Nokkur augnablik voru þeir minntir á að vinnan þeirra snýst ekki um að viðhalda eigin völdum með öllum brögðum heldur voru þeir kosnir inn á þing vegna þess að kjósendur treystu þeim. Þeim var treyst til að vinna að hagsmunum lands og þjóðar en neyta allra bragða til að þóknast öllum öðrum. Þ.e. græðgispostulunum sem settu okkur á hausinn, erlendum auðmangssvikahringjum o.s.frv.

Í ljósi þess að við vorum bara þrjú sem tókst með hávaðanum einum saman að minna Steingrím og Jóhönnu á fyrir hverja þau eiga að vinna og hvernig þau eru að bregðast velti ég því óneitanlega fyrir mér hvað við gætum gert ef við skipulegðum okkur betur. Það er nefnilega ljóst að stjórnmálamenn óttast enga frekar en kjósendur sína en á meðan við þegjum þá er svo afskaplega auðvelt fyrir þá að gleyma okkur fyrir þá örfáu sem í krafti peninga og valda hafa aðgang að þeim á hverjum einasta degi.

2. janúar 2010

Þá var það síðasta hálmstrá okkar almennings í hinu svokallaða Icesave-máli. Indefence-hópurinn boðaði til athafnar á Bessastöðum þennan morgun áður en þeir gengu á fund forseta til að afhenda honum undirskriftirnar sem höfðu safnast á vefsvæði sem þeir höfðu komið upp með svohljóðandi áskorun til forsetans:

Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave-lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Viðburðurinn við Bessastaði var skipulagður af Indefence-hópnum. Ég reikna með að mætingin hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum en eins og við mótmælendur erum farnir að venjast eru tölurnar yfir viðstadda mjög á reiki. Ég myndi sjálf giska á í kringum 1000 manns. Kæmi það heldur ekki á óvart að talning hefði leitt í ljós u.þ.b. 1500.

Samkvæmt skipulagningu Indefence-hópsins var kveikt á rauðum neyðarblysum eftir að hópurinn hafði hlýtt á kór flytja ættjarðarlag. Ég verð að segja að hugur minn var alltof upptekinn af þeirri neyð sem vofir yfir framtíð lands og þjóðar ef forsetinn kýs að skrifa undir lögin til að ég tæki eftir því hvað var sungið.

Eftir að rauðu neyðarblysin höfðu brunnið uppgötvaði ég að það voru alls ekki allir sem héldu á blysum. Sumir voru töluvert frumlegri og héldu á hálmstráum! sem var svo sannarlega vel við hæfi!Síðasta hálmstráiðMyndin er fengin að láni frá Maríu Sigmundsdóttur.

Og nú bíðum við og vonum að það reynist eitthvert hald í síðasta hálmstráinu!


mbl.is Blaðamannafundur í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég var því miður slöpp og gat ekki mætt um jól og áramót á mótmælin.  Svo þurfti ég að vinna næstum alla dagana, og var líka með börnin og barnabörnin í mat alla hátíðardagana.  Ég er orðin of gömul og þreytt til þess að mótmæla líka, því miður. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.1.2010 kl. 02:36

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Kannski ekki of gömul, en allavega með slæmsku í baki og get illa keyrt eða staðið lengi. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.1.2010 kl. 02:38

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú hefur staðið þig vel

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.1.2010 kl. 02:42

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Skrapp norður er komin aftur suður og verð á Bessastöðum kl:11. það minnsta sem ég get gert fyrir land mitt og þjóð er að fylgja þessum hroða vonandi til grafar.

Sigurður Haraldsson, 5.1.2010 kl. 07:59

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Góð samantekt Rakel.  Ég hlakka til að hitta þig aftur.

Axel Þór Kolbeinsson, 5.1.2010 kl. 08:49

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sigurður: Það er gott að vita af þér þar!

Axel: Takk sömuleiðis.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.1.2010 kl. 10:46

7 Smámynd: Arinbjörn Kúld

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 5.1.2010 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband